Borgarpistill : Marseille

Borgarpistlarnir halda áfram og nú er það Marseille. Á Stade Vélodrome verður háður annar leikur okkar á EM þann 18. júní klukkan 18:00 á staðartíma (klukkan 4 á Íslandi). Sem þýðir að margir Íslendingar verða einmitt í Marseille 17. júní, þjóðhátíðardag okkar, sem verður eflaust eitthvað í sögubækurnar, klárlega. Erfitt er þó að sitja hérna og skrifa sérstaklega um 17. júní þar sem mikið er af orðrómum en þegar þessi pistill fer í loftið þá er ekkert orðið staðfest svo ég mun halda áfram með hin hefðbundna borgarpistil og 17. júní mun eflaust skýrast betur þegar nær dregur.

Marseille_Vieux_Port_Night

Marseille er næststærsta borg Frakklands (með 1.831.500 íbúa) og elsta borg Frakka en Grikkir stofnuðu borgina 600 árum fyrir Krist en Marseille var lengi vel stærsta hafnarborg í miðjarðarhafinu. Höfnin tengdi Frakkland við umheiminn ef svo má segja því skip frá öllum heiminum komu til Marseille til að versla eða selja varning sinn hérna á árum áður. Það er þó eitt sem stendur upp úr þegar maður kynnir sér borgina og það er saga borgarinnar. Það má segja að Marseille hafi séð tímana tvenna , m.a. ris og fall Rómverja, ótal hernám sem stóðu í mislangan tíma og svartadauða sem tók yfir 100.000 borgarbúa með sér í gröfina. Þjóðverjar og Ítalir „bombuðu”“borgina í seinni heimstyrjöldinni og heimamenn voru í 15 ár að endurbyggja borgina. Þá fæddist einmitt franski þjóðsöngurinn í Marseille. Í stuttu máli sagt, þegar franska byltingin reið yfir París og Frakkland á milli 1789 til 1799 sem leiddi til þess að kóngur Frakka var hálshöggvinn (árið 1793 )þá fóru 500 Marseille búar til París í þeim tilgangi að vernda „byltingar“stjórn Frakka. En á löngu ferðalagi þeirra til París, sem er 774 kílómetrar, styttu þeir sér stundir með að syngja lög á leiðinni og eitt þeirra var La Marseillaise sem síðar var gert að þjóðsöng Frakka og er enn.

1024px-Notre_Dame_de_la_Garde

En margt er í boði í borg þessari eins og gamla höfn Marseille búa en hana má finna við enda Canebiére götu. Höfn þessi hefur verið miðpunktur borgarbúa í gegnum aldirnar og er vel varðveitt, í grendinni er líka safn sem er tileinkað sögu Evrópu og Miðjarðahafs en sú bygging er þó öllu nýrri en mjög fróðleg fyrir þá sem vilja kynna sér sögu hafnarinnar. Kaþólska kirkjan Notre-Dame de la Garde var byggð árið 1214 en algjörlega endurbyggð 1864. Kirkja þessi stendur á hlíð sem yfirgnæfir borgina og fyrir þá sem vilja taka nokkrar myndir af borginni og dást að byggingarlist kirkjunnar þá er þessi staður tilvalinn. La Panier er eitt elsta hverfi borgarinnar en hún hefur lítið breyst í gegnum aldirnar, þröngu göturnar og götusundin eru þess eðlis að þú virðist ferðast aftur í tímann. Hægt er að skoða hinn undurfagra Stade Vélodrome sem er sögufrægur staður knattspyrnunnar og leikvangur sem flestir knattspyrnuáhugamenn hafa heyrt um. Það kostar 13 evrur túrinn sem er 75 mínútna langur en heimilisfang Stade Vélodrome er 3 Boulevard Michelet, 13008. En einn áhugaverðasti staðurinn til að skoða nánar er án efa Château d’If en þetta virki, sem síðar var notað sem fangelsi, er byggt á lítilli eyju vestur af gömlu höfninni og byggt árið 1527. Virkinu/fangelsinu er líkt við hin fræga Alcatraz fangelsi í Bandaríkjunum nema að þessi er mun eldri náttúrulega en eitt af heimilum „Járngrímunar“ (Man In The Iron Mask) var einmitt þetta fangelsi. Þessi fangi, sem var handtekinn árið 1669, sat inni í 34 ár og var neyddur til að bera járngrímu það sem eftir var til að hylja andlit sitt. Ástæður grímunnar eru þó ókunnar en þessi frægi fangi, sem bar nafnið Eustache Dauger, varð innblástur af frægum sögum og bókum, frægust er þó túlkun Alexandre Dumas í Skyttunum þrem en í bókinni The Vicomte of Bragelonne: Ten Years Later er járngríman túlkuð sem tvíburabróðir Frakklandskonungs og nauðsynlegt væri að hylja andlit hans svo hægt væri að varðveita þetta leyndarmál sem ógnaði krónu konungsins. Dumas notaði þó fangelsið sem innblástur í öðru verki líka en fangelsið í Greifinn af Monte Kristo (The Count of Monte Cristo) kemur frá Chateau d’If en þar er lýst ævintýralegum flótta Edmund Dantes frá eyjunni.

Chateau_dIf

Það er ekki hægt að skrifa um Frakkland nema að tala um mat en Frakkar elska einmitt mat. Marseille er titluð sem höfuðborg Frakka þegar það kemur að pizzum, nokkuð ljóst að pizzaunnendur mega ekki láta þetta framhjá sér fara en eitt er þó gott að benda á, hin týpíska Marseille-pizza er nefnilega ekki með pizzasósu heldur nota þeir rjómaost í stað sósunnar. Þeir sem vilja pizzusósu verða víst að biðja sérstaklega um hana. En í Marseille má finna fjölbreyttan matseðil út um alla borg en borgarbúar eru þó stoltastir af sjávarréttum sínum. Hafið þó eitt í huga þegar farið er út að borða, ef það er lítið „P“ fyrir aftan verðið á matseðlinum er möguleiki að hægt sé að rukka meira fyrir matinn en gefið er upp á matseðlinum, þá er það vigt matarins (t.d. fiskinum) sem ræður þar för, skal viðurkenna að ég er ekki með þetta alveg á hreinu hvernig þetta „p“ virkar en passið ykkur á þessu og kynnið ykkur þetta nánar áður en þið pantið matinn.

kort

Fanzone Marseille má finna á ströndinni Pardo og mun geta tekið við allt að 80.000 manns en ljóst er að Fanzone hverrar borgar mun spila stórt hlutverk fyrir okkur Íslendinga á leikdegi því þar mun vera góð öryggisgæsla, matur, drykkjarföng ásamt skemmtiatriðum á milli leikja. Stade Vélodrome er þarna í grenndinni og alls ekki flókið að komast á milli. Það má líka minna á að í Frakklandi eru herlög í gildi frá því að hryðjuverkin voru framkvæmt þar í landi og Frakkar eru ekki mjög hrifnir af því að fólk safnist saman þar sem ekki er hægt að tryggja öryggi til fulls og þar koma þessi Fanzone sterklega inn, við í Tólfunni munum hittast þar og mér skilst að það verði sérstakt Íslandssvæði, við hvetjum alla íslendinga til að slást í hópinn með okkur. Vert er þó að taka fram að þessi Fanzone (alls staðar í Frakklandi) opna 12 að hádegi en fyllast fljótt, má búast við því að þessi svæði verði alveg full um tvö leytið en þá kemst maður ekki inn, þannig ef þið ætlið að mæta á þessi Fanzone þá verðið þið að vera snemma á ferð.

Pardo

Vonandi var þessi pistill ykkur nytsamlegur ég sendi ykkur kæra Áfram Ísland kveðju, Árni Þór

Velodrome