Holland-Ísland

Heilir og sælir Tólfufélagar, nú styttist heldur betur í leik Hollands og Íslands í Amsterdam og fæ ég heldur betur fiðring í magann við tilhugsunina.

Síðasta verkefni, gegn Tékkum, gat bara ekki farið betur og er toppsætið í riðlinum okkar og virðist fátt geta komið í veg fyrir að Ísland takist hið ótrúlega, komast á stórmót.

Undirritaður er í starfi hjá Fótbolta.net og var viðstaddur landsleikinn sem starfsmaður síðunnar. Sem betur fer fékk það það verkefni að taka púlsinn á Tólfum fyrir leik og fékk ég því stemninguna beint í æð og upplifði geðveikina. Ég stalst meira að segja í bjór eða tvo, allt í þágu Tólfunnar. Vinsamlegast ekki segja starfsmönnum Fótbolta.net frá því.

En eftir stórskemmtilegt pub quiz sem snillingurinn Hermann Hreiðarson stjórnaði eins og honum einum er lagið fór allt af stað og mér leið verr og verr yfir því að ég myndi ekki sitja hjá Tólfunni á leiknum. Ég var akkurat í hinni stúkunni, beint á móti Tólfunni.

Ég er gríðarlega tilfinningaríkur þegar kemur að fótbolta, hvort sem það komi að félagsliðum mínum eða landsliðinu, það er einfaldlega engin tilfinning sem kemst nálægt þeirri gleðitilfinningu sem á sér stað þegar fótbolti er annars vegar og þegar vel gengur og með landsliðinu fer sú tilfinning einfaldlega á næsta stig.

Ég átti mjög erfitt með mig á ákveðnum augnablikum, þegar stúkurnar öskruðu Áfram Ísland sín á milli, þurfti ég að hafa mig allan við að halda aftur af tárunum og felldi meira að segja tár eða tvö er Ísland skoraði mörkin sín og ég skammast mín ekkert fyrir það. Þetta var einfaldlega einhver besta upplifun sem ég hef nokkurn tíman lent í. Það segir ansi margt, þar sem ég var í hinni stúkunni, beint á móti.

Ég legg til að allir sem lesa þessi orð, standi einfaldlega upp fyrir Tólfunni og klappi en það er gjörsamlega magnað hversu margir ætla að leggja leið sína til Hollands og styðja strákana. Þetta var álitinn erfiðasti leikurinn í riðlinum fyrirfram en við höfum svo sannarlega sýnt að við getum unnið Hollendingana á okkar degi. Hvað þá þegar að við gjörsamlega étum stúkuna, á útivelli!

Leikurinn hérna heima var gjörsamlega stórkostlegur og ég held að allir sem lesa þetta muni nákvæmlega hvernig það var að vera á Laugardalsvelli þetta kvöld. Gylfi Þór Sigurðsson skoraði einu mörk leiksins í sannfærandi sigri, við pökkuðum einfaldlega stórþjóðinni saman.

Ég ætla að láta þetta duga að sinni en það verður skrifaður annar pistill þegar nær dregur.

Lengi lifi Tólfan!