top of page
i_edited_edited_edited.jpg

Tólfan er stuðningsmannasveit Íslensku landsliðana í knattspyrnu.

Tólfan var stofnuð árið 2007 af hóp af vinum sem voru orðnir þreyttir á lélegu andrúmslofti á landsleikjum Íslands á Laugardalsvelli.

Tólfan hittist fyrir alla heimaleiki á Ölver og eru allir velkomnir.

Tólfan hefur stækkað jafnt og þétt frá stofnun og telur hundruð félagsmanna. Frá fyrsta degi hefur Tólfan haldið uppi stuði og stemningu hvert sem þau fara og vakið athylgi út um allan heim meðal annars fyrir Víkingaklappið sem er samkvæmt hefð alltaf gert á Tólftu mínútu.

Það eru allir velkomnir í Tólfunna!

i_edited_edited_edited.jpg

Nánar um stofnun Tólfunnar.

Árið 2007 ræddu nokkrir strákar sem elska fótbolta og Ísland um það hversu sárlega það vantaði alvöru stuðning og stuðningsmenn á Laugardalsvöllinn. Einhverja grjótharða aðila sem létu í sér heyra þannig að landsliðsmenn tækju eftir og myndu tvíeflast við stuðninginn. Aðila sem myndu stappa í þá stálinu í gegnum súrt og sætt. Aðila sem myndu vekja aðra áhorfendur af værum blundi og gefa þeim byr undir báða vængi þannig að þeir geti umbreytt sér úr áhorfendum í stuðningsmenn.

 

Viti menn, afrakstur þessa litla samtals varð Tólfan, stuðningssveit sem hefur sótt í sig veðrið með hverjum deginum þannig að nú eftir er tekið heima og að heiman. Út frá þessu litla samtali fóru líka hjólin að snúast. Menn fóru markvisst að hittast fyrir leiki og semja söngva og stuðnings-„pepp“. Menn fóru að standa upp og öskra, styðja, syngja og hvetja landsliðið í 90 mínútur hvort sem leikurinn væri að spilast því í vil eður ei.

Við vorum komin saman sem Tólfti maðurinn á vellinum.

Tólfan er ekki lokaður hópur og enginn þarf að borga til að vera partur af þessari frábæru stuðningssveit. Það sem til þarf er eingöngu það að fólk mæti í bláu, sleppi af sér beislinu og styðji landsliðið okkar með söngvum og lófaklappi. Að vera Tólfa er ekkert annað en vinskapur, gleði, samheldni, virðing og stuðningur. Ef þú ert stuðningsmaður en ekki áhorfandi þá ert þú einfaldlega Tólfa.

 

Staðreyndin er sú að alvöru stuðningur skiptir gríðarlegu máli í kappleik og getur hreinlega gert gæfumuninn. Þess vegna megum við ekki slaka á jafnvel þó að á móti blási. Við verðum því ávallt að fylla völlinn og sjá til þess að andstæðingurinn viti og heyri að Tólfti maðurinn er mættur og að hann megi hræðast. Einnig verðum við að leggja okkar að mörkum til að halda gleðinni og voninni lifandi. Þessum markmiðum verðum við að vinna saman að en þó þá þannig að virðing sé borin fyrir andstæðingnum og leikmönnum. Því fordæmir Tólfan hvers kyns níð gagnvart kyni, kynþætti, kynhneigð eða trúarbrögðum andstæðingsins. Við erum enda fyrst og fremst stuðningssveit íslenska landsliðsins í fótbolta.

Áfram Ísland, áfram Íslendingar !

 

Kær kveðja.
Styrmir Gíslason – Fyrrverandi formaður og einn af stofnendum Tólfunnar
Benjamín Hallbjörnsson – Fyrrverandi formaður Tólfunnar

bottom of page