Umsátrið um Plzen

Eftir mánaðarbið er loksins komið að því, næsta leik okkar ástkæra landsliðs. Á sunnudaginn kemur tekur tékkneska landsliðið á móti því íslenska þegar flautað verður til leiks kl 20:45 að staðartíma á Struncovy Sady Stadion í Plzen. Sjaldan eða aldrei hefur eftirvænting íslenskra stuðningsmanna verið á jafn háu stigi nema hugsanlega fyrir leikina tvo gegn Króatíu á síðastliðnu ári. Ekki nóg með það heldur verða um 650 gallharðir stuðningsmenn sem fylgja landsliðinu til Plzen. Safnast þar saman góður hópur sem ferðast frá Íslandi en einnig gott samansafn Íslendinga sem búsettir eru erlendis.

Íslenska landsliðið á góðri stund
Íslenska landsliðið á góðri stund

Markmið okkar verður að sjálfsögðu að taka yfir borgina, völlinn og skilja við land og þjóð Tékka í losti, tárum og sorg eftir frækinn sigur okkar manna.

 

 

Eftir þrjá leiki er íslenska sætið í efsta sæti riðils síns með níu stig og átta mörk í plús og hefur engum tekist að koma boltanum í markmöskvana hjá okkur. Aldrei hefur íslenska landsliðið byrjað jafnvel í undankeppnni áður og hafa því strákarnir sett stórk mark í sögu íslenska landsliðsins og reyndar íslenskrar knattspyrnu. Það verkefni sem fyrir höndum er getur þó seint talist til einfaldari verkefna sem landsliðið hefur staðið frammi fyrir. Því er mikilvægt að strákarnir haldi sig á jörðinni, haldi einbeitingunni og ráðist í leikinn af þeirri fagmennsku og dugnaði sem þeir hafi hingað til tamið sér.

Leikur sunnudagsins fer fram í Plzen (Pilsen) sem er höfuðstaður Vestur-Bæheims í Tékklandi en þar búa um 169.000 manns. Borgin er staðsett um 90 km vestur af Prag og er hún fjórða stærsta borg Tékklands.  Borgin var stofnuð af tékkneska konunginum Wenzel II árið 1295 og varð fljótt bær velmegnunar og annar mikilvægasti bærinn á eftir Prag. Þar skipti miklu staðsetning borgarinnar við verslunarleið sem lá til Þýskalands sem og nálægð hennar við vatnaleiðir. Hússíta stríðin stóðu yfir frá árunum 1419 til 1434 en þar stóðu Hússítar gegn konungum sem vildu tryggja yfirráð rómversk-kaþólsku kirkjunnar. Á meðan þeim stóð var Plzen miðstöð kaþólsku andstöðunnar við Hússíta og stóðst hún þrjú umsátur sem leidd voru undir stjórn Prokop leiðtoga Hússíta.

Árið 1618 leiddi þýski herforinginn Ernst von Mansfeld herdeild bóhemískra mótmælenda til Plzen og hófst þá umsátur um borgina. Var þetta fyrsta stórorrusta hins svokallaða þrjátíu ára stríðs. Til Plzen hafði mýmargt kaþólskt hefðarfólk og prestar flúið eftir að mótmælendur höfðu steypt Ferdinand II af stóli. Þar sem herliðið var of smátt til að taka borgina reyndu þeir að svelta íbúa borgarinnar til uppgjafar. Eftir um mánaðarumsátur náðu mótmælendur að koma sér inn fyrir borgarvirkið og náðu borginni yfir á sitt vald.

Íbúar Plzen hafa einnig fengið að kynnast íbúum norðurlanda áður og verður sunnudagurinn kemur ekki í fyrsta skipti sem bandbrjálaðir norðurlandabúar valda ófriði í borginni. Tvisvar hafa Svíar setið um borgina en á árunum 1637 og 1648 gerðu þeir tilraun til þess.

Nokkuð ljóst að Tékkarnir verða hræddir
Nokkuð ljóst að Tékkarnir verða hræddir

Á sunnudaginn kemur mun Íslendingum vonandi takast það sem Svíum tókst ekki í tveim tilraunum, taka yfir borgina og halda heim með ránsfenginn, 3 stig takk.

 

 

 

Á tuttugustu öldinni iðnvæddist Plzen ört og hóf verkfræðifyrirtækið Skoda starfsemi sína þar árið 1869. Varð það eitt mikilvægasta fyrirtæki landsins og var t.d. einn mikilvægast vopna­framleiðandinn fyrir austurísk-ungverska herinn. Eftir að Tékkóslóvakía fékk sjálfstæði frá austurísk-ungverska keisaradæminu árið 1918 þráði þýskumælandi hluti borgara sameiningu við Austurríki og því studdu margir þeirra málstað nasista.

Í síðari heimstyrjöldinni var Skoda neytt til að framleiða vopn fyrir þýska herinn. Flestir af þeim 2.000 gyðingum sem bjuggu í Plzen voru færðir í útrýmingabúðir nasista. Að lokinni síðari heimstyrjöldinni var þýskumælandi hluti íbúa gerður brottrækur frá Plzen og allar eigur þeirra gerðar upptækar.

Á árinu 1948 tóku kommúnistar völdin í Tékkóslóvakíu og voru þar við völd þar til árið 1989 þegar friðsöm stjórnarskipti fóru fram í landinu. Í Plzen kom til mótmæla gegn kommúnískum stjórnvöldum árið 1953 er um 20.000 íbúar komu saman til að mótmæla og unnu þeir ýmiss skemmdarverk á eignum stjórnvalda. Mótmæli þessu voru harkalega kveðin niður af stjórnvöldum. Það var síðan árið 1993 sem Tékkóslóvakía var friðsamlega leist upp og stofnuð voru hin sjálfstæðu ríki Tékklands og Slóvakía.

Í dag er Plzen best þekkt fyrir framleiðslu á Skoda og svo þeim veigum sem Plzen brugghúsið sendir frá sér. Það ætti að gleðja margan Íslendinginn enda engin hætta á því að menn snúi þyrstir heim en verði þó án vafa misvaltir. Brugghúsið var stofnað árið 1839 en fyrsti Pilsner bjórinn leit svo dagsins ljós árið 1842 og á bruggmeistarinn Josef Groll á heiðurinn af honum.

Eins og Prag er Plzen mjög falleg borg og hefur miðbær hennar t.d. talist til friðaðra menningarminja frá árinu 1989. Arkitektúr borgarinnar er undir sterkum áhrifum frá baróskum stíl. Íslendingar munu fá smá nasaþef af fegurð borgarinnar en fyrsti viðkomustaður margra verður Torg lýðveldisins (Czech Nam?stí republiky) en það er eitt af elstu torgum þeirra sem eiga rætur sínar að rekja til miðalda í löndum tékka. Byggingarnar sem umlykja torgið eru flestar í gottneskum og endurreisnar stíl. Enn má sjá leifar af borgarveggjum frá miðöldum á torginu. Best varðveittu minjar má víst sjá í suðurenda torgsins. Til merkustu bygginga við torgið teljast Kirkja Bartholomelusar (1295), ráðhúsið (ráðhús þar frá 1496) og skúlptur tileinkaður Maríu mey frá árinu 1681 sem er einnig fyrsta hönnunin í baróksum stíl í borginni.

Umsátrið hefst hér
Umsátrið hefst hér

Á þessu torgi munu Íslendingar einmitt safnast saman, berja trommur og vera með almennan hávaða og skarkala þannig að íbúar telji að annað umsátur sé í uppsiglingu.

 

Að sjálfsögðu er margt að sjá í Plzen en þó margir muni líklega rétt ná að glitta ofan í tómt bjórglas. Vert er að nefna að í Plzen er þriða stærsta sýnagóga í heimi og í borginni má einnig finna hæðsta turn í Tékklandi en hann er hluti af kirkju Bartholomelusar. Fyrir þá sem stoppa lengur við í borginni er hægt að fara í 90 mínútna túr um bruggverksmiðjuna. Þeir Íslendingar sem fara til Plzen munu skemmta sér saman á einum frægasta veitingastað borgarinnar sem ber nafnið Na Spilce en hann er í eigu bruggverksmiðjunnar. Þá er dýragarður við borgina sem skemmtilegt getur verið að heimsækja. Þá er má að finna Patton minnismerkið í borginni sem reist var til minningar um komu bandamanna til Plzen árið 1946. Þar má einnig finna safn minja úr seinni heimstyrjöldinni ofl.

Þessi sögulega ferð kallar á Carlsberg
Þessi sögulega ferð kallar á Carlsberg

 

Struncovy Sady Stadion

Leikur Tékka og Íslendinga mun fara fram á Struncovy Sady Stadion sem einnig er þekktur sem Doosan Arena. Völlurinn nýtist aðallega sem heimavöllur SFC Viktoria Plzen og rúmar um 11.700 manns.

Orrustan verður háð hér
Orrustan verður háð hér

Fyrst fóru íþrótta-viðburðir fram á vellinum árið 1955 þegar hið svokallaða Spartakiad fór fram en þar var um að ræða stóra viðburði í frjálsum íþróttum sem voru skipulagðir til að minnast þess þegar rauði herinn „frelsaði“ Tékkóslóvakíu árið 1945. Voru þessi viðburðir skipulagðir af kommúnistum og haldnir á 5 ára fresti. Á vellinum komust þegar mest var um 35.000 manns en þar af komust 7.600 í sæti. Á árinu 2002-3 var vellinum breytt til að uppfylla kröfur fótboltayfirvalda og tók þá völlurinn 7.425 manns í sæti. Árið 2011 var honum svo aftur breitt til að nútímavæða hann í takt við kröfur UEFA. Fótboltaliðið í Plzen komst í meistardeild evrópu á leiktíðinni 2011-2012 ekki náðu liðið að spila meistardeildarleik þar en í janúar 2012 mætti Plzen hins vegari Schalke 04 í Evrópudeildinni. Þá má nefna að knattskpyrnumaðurinn Pavel Nedv?d hóf feril sinn hjá klúbbnum.

Planið í Plzen

Þá er planið fyrir Plzen klárt og verður dagskráin sem hér segir.

Þau sem fljúga með Gaman Ferðum hittast uppi á flugstöð tímanlega en brottför er kl. 07:00 og lending kl 10:30 að staðartíma. Um að gera að tala sig saman um samflot. Í fríhöfninni þurfum við aðstoð við að ferja 370 Carlsberg dósir í vélina.

Þegar við komum til Tékklands komum við okkur sem fyrst út í rútur en eðlilega tekur smá tíma að bíða eftir trommum og fánum. Þegar við komum til Plzen munu partýhaldarar taka á móti okkur á torginu með fánum og fjöri og þar munum við syngja og tralla þar til við röltum á http://www.naspilce.com/en/virutalni-prohlidka-en þar sem við tökum yfir staðinn.

Á barnum verður Pub Quiz og töflufundur ásamt því að pantaðar treyjur verða afhentar. Þá munum við dreifa söngskrám sem Carlsberg útvegar okkur. Þarna munum við líka hitta stuðningsmenn sem koma frá Víta ferðum og ÍT ferðum. Leikurinn byrjar kl 20:45 þannig að áætlað er að skrúðgangan út á völlinn hefjist ekki síðar en kl. 19:30.

Við minnum á snapchat Tólfunnar: tolfan, Twitter @12tolfan og svo mun verða sett upp instagramsíða þannig að fólk geti taggað myndir og ættu því að birtast þar margar skemmtilegar myndir úr ferðinni.

Munið að hafa góðan og hlýjan fatnað meðferðis en skv. nýjust veðurspá verður undir 5 gráðu hiti um kvöldið og jafnvel einhver væta.

Eftir leikinn eru allir ábyrgir fyrir sjálfum sér…ef þú skilar þér ekki upp á flugvöll…. Úps!

 

ÁFRAM ÍSLAND!!!!

Plzen farar

Þann 16. nóvember mætir íslenska landsliðið því tékkneska í Plzen í Tékklandi. Við í Tólfunni höfum eðlilega rætt þennan leik við marga og margir komið að máli við okkur og rætt hann. Á sama tíma er fólk spennt, enda frábært að vera með 9 stig, 8 mörk skoruð og hafa haldið hreinu í öllum leikjum.

Ég hef svolítið heyrt að fólk sé hrætt við að Ísland mæti ofjörlum sínum í þessum leik. Í mínum huga er þetta algert kjaftæði. Við heyrðum sömu tugguna fyrir Tyrkja leikinn; Ísland getur ekki unnið tvo leiki í röð. Sama sönglið mátti heyra fyrir útileik gegn Lettlandi og að sjálfsögðu var leikurinn gegn Hollandi algjörlega óvinnandi. En hvernig fór þetta allt?

Að sjálfsögðu veit enginn hvernig leikurinn við Tékkland fer en ef við horfum blákalt á stöðuna þá er Ísland með landslið sem er með hugarfarið í lagi og frábæran þjálfara sem heldur þeim á jörðinni. Árangurinn hingað til hefur verið einstakur og það er ekkert og þá meina ég ekkert sem gefur okkur ástæðu til að hræðast leikinn í Plzen.

Tólfan hefur ásamt Gaman Ferðum skipulagt ferð, sem fer nú senn að fyllast í. Rúmlega 170 grjótharðir stuðningsmenn munu fara í þá ferð. Einnig hefur fjöldinn allur af Íslendingum sem búa erlendis haft samband og stefna á að fara á leikinn. ÍT ferðir og Vita ferðir bjóða einnig upp á ferðir og hefur fólk því úr ýmsum möguleikum að velja.

Dagsferðin með Gaman Ferðum og Tólfunni kostar kr. 62.900 en aðrir bjóða upp á lengri ferðir sem gætu hentað sumum betur. Markmið ferðanna er þó hið sama: að koma stuðningsmönnum íslenska landsliðsins í fótbolta á staðinn svo við getum staðið þétt við bakið á strákunum og gefið allt okkar í stuðning við þá.

Tólfan vonast til að sjá ykkur með okkur. Tólfunni dreymir um að Gaman Ferðir, ÍT ferðir og Vita ferðir nái að fylla sínar vélar þannig að á endanum yrðum við með 500+ manns í yfirtöku Plzen. Það eru nefnilega ekki margir sem átta sig á því að völlurinn í þeim bænum er örlítið stærri en Laugardalsvöllur. Tólfan ætlar að gera allt til þess að taka hann yfir og styðja strákana til sigurs þannig að rétt lið vermi toppinn. Mætum því til Plzen og klæðumst ÖLL BLÁU!!

Flug 12fan flýgur frá Keflavík að morgni 16. nóvember. Tólfan mun dreifa söngbæklingum í vélinni og halda uppi stemningu alla leiðina. Við munum einnig gefa nokkrar Tólfutreyjur og í rútunni mun Carlsberg bjóða upp á hressingu á leið okkar til Plzen.

Í Plzen munum við hitta á aðra Íslendinga sem hafa mælt sér mót við okkur og munum við taka yfir bar á staðnum. Ef þú ert að fara til Plzen og þá hvernig sem þú ferð þá skaltu bæta þér í hóp Plzen fara á facebook
https://www.facebook.com/events/566719436788114

Fyllum vélarnar, tökum yfir Plzen, styðjum strákana og sýnum Tékkum í tvo heimana.

ÁFRAM ÍSLAND!