Planið í Plzen

Þá er planið fyrir Plzen klárt og verður dagskráin sem hér segir.

Þau sem fljúga með Gaman Ferðum hittast uppi á flugstöð tímanlega en brottför er kl. 07:00 og lending kl 10:30 að staðartíma. Um að gera að tala sig saman um samflot. Í fríhöfninni þurfum við aðstoð við að ferja 370 Carlsberg dósir í vélina.

Þegar við komum til Tékklands komum við okkur sem fyrst út í rútur en eðlilega tekur smá tíma að bíða eftir trommum og fánum. Þegar við komum til Plzen munu partýhaldarar taka á móti okkur á torginu með fánum og fjöri og þar munum við syngja og tralla þar til við röltum á http://www.naspilce.com/en/virutalni-prohlidka-en þar sem við tökum yfir staðinn.

Á barnum verður Pub Quiz og töflufundur ásamt því að pantaðar treyjur verða afhentar. Þá munum við dreifa söngskrám sem Carlsberg útvegar okkur. Þarna munum við líka hitta stuðningsmenn sem koma frá Víta ferðum og ÍT ferðum. Leikurinn byrjar kl 20:45 þannig að áætlað er að skrúðgangan út á völlinn hefjist ekki síðar en kl. 19:30.

Við minnum á snapchat Tólfunnar: tolfan, Twitter @12tolfan og svo mun verða sett upp instagramsíða þannig að fólk geti taggað myndir og ættu því að birtast þar margar skemmtilegar myndir úr ferðinni.

Munið að hafa góðan og hlýjan fatnað meðferðis en skv. nýjust veðurspá verður undir 5 gráðu hiti um kvöldið og jafnvel einhver væta.

Eftir leikinn eru allir ábyrgir fyrir sjálfum sér…ef þú skilar þér ekki upp á flugvöll…. Úps!

 

ÁFRAM ÍSLAND!!!!

Plzen farar

Þann 16. nóvember mætir íslenska landsliðið því tékkneska í Plzen í Tékklandi. Við í Tólfunni höfum eðlilega rætt þennan leik við marga og margir komið að máli við okkur og rætt hann. Á sama tíma er fólk spennt, enda frábært að vera með 9 stig, 8 mörk skoruð og hafa haldið hreinu í öllum leikjum.

Ég hef svolítið heyrt að fólk sé hrætt við að Ísland mæti ofjörlum sínum í þessum leik. Í mínum huga er þetta algert kjaftæði. Við heyrðum sömu tugguna fyrir Tyrkja leikinn; Ísland getur ekki unnið tvo leiki í röð. Sama sönglið mátti heyra fyrir útileik gegn Lettlandi og að sjálfsögðu var leikurinn gegn Hollandi algjörlega óvinnandi. En hvernig fór þetta allt?

Að sjálfsögðu veit enginn hvernig leikurinn við Tékkland fer en ef við horfum blákalt á stöðuna þá er Ísland með landslið sem er með hugarfarið í lagi og frábæran þjálfara sem heldur þeim á jörðinni. Árangurinn hingað til hefur verið einstakur og það er ekkert og þá meina ég ekkert sem gefur okkur ástæðu til að hræðast leikinn í Plzen.

Tólfan hefur ásamt Gaman Ferðum skipulagt ferð, sem fer nú senn að fyllast í. Rúmlega 170 grjótharðir stuðningsmenn munu fara í þá ferð. Einnig hefur fjöldinn allur af Íslendingum sem búa erlendis haft samband og stefna á að fara á leikinn. ÍT ferðir og Vita ferðir bjóða einnig upp á ferðir og hefur fólk því úr ýmsum möguleikum að velja.

Dagsferðin með Gaman Ferðum og Tólfunni kostar kr. 62.900 en aðrir bjóða upp á lengri ferðir sem gætu hentað sumum betur. Markmið ferðanna er þó hið sama: að koma stuðningsmönnum íslenska landsliðsins í fótbolta á staðinn svo við getum staðið þétt við bakið á strákunum og gefið allt okkar í stuðning við þá.

Tólfan vonast til að sjá ykkur með okkur. Tólfunni dreymir um að Gaman Ferðir, ÍT ferðir og Vita ferðir nái að fylla sínar vélar þannig að á endanum yrðum við með 500+ manns í yfirtöku Plzen. Það eru nefnilega ekki margir sem átta sig á því að völlurinn í þeim bænum er örlítið stærri en Laugardalsvöllur. Tólfan ætlar að gera allt til þess að taka hann yfir og styðja strákana til sigurs þannig að rétt lið vermi toppinn. Mætum því til Plzen og klæðumst ÖLL BLÁU!!

Flug 12fan flýgur frá Keflavík að morgni 16. nóvember. Tólfan mun dreifa söngbæklingum í vélinni og halda uppi stemningu alla leiðina. Við munum einnig gefa nokkrar Tólfutreyjur og í rútunni mun Carlsberg bjóða upp á hressingu á leið okkar til Plzen.

Í Plzen munum við hitta á aðra Íslendinga sem hafa mælt sér mót við okkur og munum við taka yfir bar á staðnum. Ef þú ert að fara til Plzen og þá hvernig sem þú ferð þá skaltu bæta þér í hóp Plzen fara á facebook
https://www.facebook.com/events/566719436788114

Fyllum vélarnar, tökum yfir Plzen, styðjum strákana og sýnum Tékkum í tvo heimana.

ÁFRAM ÍSLAND!