Þá er það seinasti borgarpistillinn. Ég mun fjalla bæði um París og Saint-Denis í þessum pistli enda er Ísland að keppa við Austurríki þann 22. júní, klukkan 21:00 að staðartíma (19:00 á Íslandi), á þjóðarleikvangi Frakka, Stade De France. Völlurinn er í úthverfi norðan við París en það úthverfi heitir einmitt Saint-Denis. Það er ljóst að við í Tólfunni munum hita upp á leikdag í Fanzone borganna, það er öruggast í ljósi ástandsins í Frakklandi í augnablikinu og ætlum við í Tólfunni ekki að gera neitt sem getur hugsanlega ógnað öryggi fólks. Þess vegna er allt gert með samráði við lögregluyfirvöld ytra. Ég mun fjalla sérstaklega um Fanzone borganna seinna í pistlinum en takið þó eftir að það eru tvö Fanzone á þessu svæði, eitt hjá Eiffel turninum og hitt í Saint-Denis. Saint-Denis Fanzone-ið er sá staður sem við verðum á á leikdag, þann 22. júní.
En já, hvar á maður eiginlega að byrja? París er borg sem býður upp á endalausa möguleika fyrir afþeyingu en saga borgarinnar er einfaldlega stórbrotinn í þokkabót. Ætli það sé ekki bara klassískt að byrja á Eiffelturninum. Þessi turn var byggður árið 1889 og er 324 metrar á hæð og þar með hæsta mannvirki borgarinnar. Turninn er nefndur í höfuðið á Gustave Eiffel en hann hannaði mannvirkið fyrir heimssýningu París 1889 en þá voru liðin 100 ár frá frönsku byltingunni og ákveðið var að byggja eitthvað stórkostlegt í tilefni af afmæli byltingarinnar. Það er óhætt að segja að það tókst með prýði. Þrjár hæðir eru í járnturninum sem hægt er að fara upp með annað hvort stiga eða lyftu en leiðinlegt er að segja frá því að það er allt uppselt í lyftuna í kringum þá daga sem Ísland mun keppa í Saint-Denis. En örvæntið ei, þá er bara að klífa stigann sem er yfir 600 þrep til að komast upp á aðra hæð (rúm 300 þrep upp fyrstu) en þriðja hæðin er óaðgengileg almenningi með stiganum. Best er þó að mæta tímanlega ef fólk ætlar að skoða turninn því þekkt er að langar biðraðir eru upp turninn sem getur tekið jafnvel nokkra klukkutíma að komast að.
Louvre safnið er annar frægur staður í París en þetta safn er það stærsta sinnar tegundar í heiminum og eiga fræg verk eins og Mona Lisa heima þarna. Louvre var byggt á 13. öld og var upprunalega byggt sem virki en Frans I Frakklandskonungur endurbyggði virkið í þá höll sem það er í dag og notaði það sem heimili. Bjó konungsfjölskyldan þar alveg til frönsku byltingarinnar árið 1789. Eins og Eiffelturninn myndast langar biðraðir að safninu dag hvern en hægt er að fjárfesta í inngöngumiða á netinu, þá miða nálgast maður á heimasíðu safnsins (http://www.louvre.fr/en) . En staðirnir sem hægt er að skoða nánar eru endalausir og fer allt eftr því hvað fólk vill sjá en Sigurboginn, Notre-Dame de Paris kirkjan, Montmartre hlíðin, Sacré-Cœur kirkjan, Disneyland, Catacombs göngin, Panthéon og Père-Lachaise kirkjugarðurinn eru allir vinsælir áfangastaðir ferðamanna og ég er örugglega að gleyma einhverju líka en ljóst er að manni á ekki eftir að leiðast í þessari borg.
Það eru tvö Fanzone í þessari borg, eitt í Saint-Denis (sem við Íslendingar heimsækjum á leikdag). Fanzone Saint-Denis er mjög nálægt Stade de France, hægt er að ganga á milli án vandræða. Eins og sagt var í upphafi pistils eru þessi Fanzone þau svæði sem við í Tólfunni munum nota á leikdögum, þegar kemur að öryggi eru þessi svæði besti kosturinn og ástandið í landinu nokkuð uggandi. Þarna verða veitingar, skemmtiatriði og risaskjáir sem sýna leiki EM. Talað hefur verið um að á leikdögum verði jafnvel ákveðinn partur svæðisins nokkurs konar Íslendingasvæði en við munum tilkynna það um leið og allt liggur fyrir með þau áform. Svo má bæta við að hægt er að taka túr um leikvang Stade de France fyrir 15 Evrur en þeir túrar eru þó ekki aðgengilegir á leikdögum. Inni í París er svo völlurinn Parc Des Princes sem margir knattspyrnuunnendur þekkja en Ísland er ekki að keppa þar í riðlinum. Fyrir þá sem eru hugsanlega að fara á aðra leiki læt ég fylgja kort af þeim leikvangi líka til að einfalda lífið aðeins. Fanzone París er það stærsta sem er í boði, 90.000 manns komast inn á það Fanzone en það er staðsett hjá Eiffelturninum og ætti að vera skemmtileg upplifun fyrir þá sem vilja fylgjast með EM á þeim dögum sem Ísland er ekki að keppa. En passið ykkur á einu, samhvæmt þeim sem þekkja til þá eru þessi Fanzone fljót að fyllast. Þau opna flest í hádeginu og loka á miðnætti en það má búast við því að eftir 14:00 á leikdögum séu þessi svæði orðin full þannig ef þig langar að heimsækja þessi Fanzone þá er vissara að mæta tímanlega.
Ég vona að þessi pistill hafi verið ykkur hjálplegur en þetta er minn síðasti pistill í bili og núna tekur við sólarhrings bið þar til ég flýg til Lyon og ég óska ykkur öllum góðrar ferðar og vonandi sé ég sem flest þarna úti í kátínu og gleði, Kær Áfram Ísland Kveðja,
Árni Þór Gunnarsson