Vellirnir: Stade de France

Síðasti leikur íslenska landsliðsins í riðlakeppni EM 2016 fer fram á Stade de France vellinum í Saint-Denis, úthverfi í norðurhluta París. Merkilegur völlur fyrir merkilega viðureign gegn Austurríki. Ef Ísland fer lengra í keppninni þá er alveg ljóst að liðið mun spila á fjórða vellinum. En látum það bíða betri tíma, núna er það Stade de France

stada-de-france-01
Stade de France (mynd: http://www.stadiumguide.com/stadedefrance/)

Grunnupplýsingar

Nafn: Stade de France
Áhorfendur: 81.338
Vallarflötur: 105 m x 70 m (báðir hinir vellirnir og Laugardalsvöllur eru 105 m x 68 m)
Vallaryfirborð: Desso GrassMaster

Opnaði: 1998
Fjöldi leikja á EM ’16: 7 (4 leikir í riðlakeppninni (þar af opnunarleikurinn), 1 leikur í 16-liða úrslitum, 1 leikur í 8-liða úrslitum og úrslitaleikurinn)

Heimilisfang vallarins:
ZAC du Cornillon Nord,
93.216 Saint Denis, France

Símanúmer: 0033 1 55 93 01 49

Glæsilegur völlur
Glæsilegur völlur

Völlurinn sjálfur

Ólíkt völlunum sem Ísland spilar fyrstu tvo leikina sína á, Stade Geoffroy-Guichard og Stade Vélodrome, þá er Stade de France ekki með AirFibr grasið heldur Desso GrassMaster. Það er sérstaklega hannað blendingskerfi þar sem gervigras er notað til að styrkja alvöru gras. Uppistaðan í vellinum er þannig sérræktað, alvöru gras en með því að nota rétt hlutfall af sérstöku gervigrasi í bland við alvöru grasið má fá betri nýtingu og endingu út úr vallaryfiborðinu.

Desso GrassMaster er notað á völlum um allan heim. Meðal þeirra valla sem nota Desso GrassMaster eru Wembley, Arena de Sao Paulo, San Siro,  Emirates, Anfield og fleiri.

Stade de France er með hlaupabraut umhverfis knattspyrnuvöllinn og neðsti hluti stúkunnar getur færst fram og aftur eftir því hvort verið er að nota hlaupabrautina eða ekki.

Miðað við öryggisáætlanir á vellinum er áætlað að það sé hægt að rýma völlinn algjörlega á undir 15 mínútum. Æfingar hafa sýnt að yfirleitt tekur það um það bil 7 mínútur.

Stemningin

Það er alveg hægt að mynda fínustu stemningu á þessum velli, sérstaklega þegar hann er pakkfullur. Vonum að háværustu Tólfurnar nái að sitja á nokkuð svipuðum stað svo hægt sé að keyra íslensku lögin almennilega í gang.

Sagan

Leikvangurinn var byggður sérstaklega fyrir Heimsmeistarakeppnina 1998. Var það í fyrsta skipti sem leikvangur var byggður í Frakklandi sérstaklega fyrir einn ákveðinn viðburð síðan Yves-du-Manoir Ólympíuleikvangurinn í Colombes var byggður sérstaklega fyrir Ólympíuleikana 1924.

Á þeim tíma þegar Stade de France var byggður var enginn völlur í Frakklandi sem gat tekið fleiri en 45.000 áhorfendur. Franska knattspyrnusambandið sá fram á að þurfa völl sem tæki í það minnsta yfir 70.000 manns. Framkvæmdir við völlinn hófust árið 1995 og það tók 31 mánuð að klára verkefnið. Fyrsti leikurinn á vellinum fór fram í lok janúar árið 1998, vináttuleikur milli Frakklands og Spánar. Zinedine Zidane skoraði eina mark leiksins og þar með fyrsta markið sem var skorað á Stade de France.

Stade de France völlurinn
Stade de France völlurinn

HM ’98

Völlurinn var vel nýttur á HM 1998. 9 af 64 leikjum mótsins voru spilaðir þarna. Líkt og á mótinu í ár voru bæði opnunar- og úrslitaleikir mótins á þessum velli.

Fyrsti leikurinn árið 1998 var milli ríkjandi heimsmeistara Brasilíu og Skotlands. Hann var spilaður 10. júní 1998. Leikurinn endaði 2-1 fyrir Brasilíu í nokkuð opnum leik þar sem Skotarnir náðu að jafna metin í 1-1.

Næsti leikur var 3 dögum síðar, þá mættust nágrannaþjóðirnar Holland og Belgía. Þrátt fyrir nokkur góð færi í leiknum og ágætis tilraunir þá náði hvorugt liðið að skora mark og leikurinn endaði því 0-0.

18. janúar spilaði Frakkand fyrsta leik sinn á mótinu á Stade de France. Þá unnu þeir góðan sigur á Saudi Arabíu, 4-0.

Fjórði leikurinn fór fram 23. júní ’98, Ítalía gegn Austurríki í B-riðlinum. Ítalía komst í 2-0 en Austurríki náði að laga stöðuna aðeins með marki úr víti í uppbótartíma.

Fimmti leikurinn var síðasti leikurinn í riðlakeppninni sem var spilaður á vellinum. Hann var á milli Rúmeníu og Túnis, 26. júní ’98. Rúmenía hafði unnið England í riðlinum og leikmenn liðsins héldu upp á það með því að aflita á sér hárið. Allir. Skemmtilega flippað uppátæki en færði þeim ekki meiri lukku en svo að Túnis komst yfir í leiknum. Rúmenía náði þó að jafna metin og endaði leikurin 1-1.

16-liða úrslitin hófust 27. júní og daginn eftir mættust Danmörk og Nígería á Stade de France. Danirnir voru ligeglad og unnu leikinn örugglega, 4-1.

Fyrsti leikur 8-liða úrslitanna var næsti leikurinn á Stade de France. Það var Ítalía gegn gestgjöfunum í Frakklandi. Ekkert mark var skorað í venjulegum leiktíma og framlengingu svo vítaspyrnukeppni þurfti til að fá niðurstöðu í málið. Zidane, Trezeguet, Henry og Blanc skoruðu fyrir Frakkland en Lizarazu klikkaði. Baggio, Costacurta og Vieri skoruðu fyrir Ítalíu en Albertini og Di Biagio klikkuðu svo Ítalía var úr leik.


FIFA World Cup 1998 France v Italy 0–0 (4-3) by classicfootballtv

Frakkland spilaði aftur á Stade de France í undanúrslitum. Þá gegn sterku liði Króatíu sem hafði unnið Þjóðverja 3-0 í 8-liða úrslitum. Króatía komst yfir í leiknum en Lilian Thuram skoraði bæði mörk Frakklands sem náði að vinna, 2-1.

Frakkland mætti svo í þriðja leikinn í röð á Stade de France í úrslitaleiknum sjálfum. Brasilía var mótherjinn en þeir brasilísku áttu ekki roð í heimamenn, niðurstaðan var 3-0 sigur Frakklands.

Álfukeppnin 2003

Á Álfukeppninni 2003 voru 6 leikir spilaðir á Stade de France. Opnunarleikurinn í þeirri keppni var Nýja-Sjáland gegn Japan sem fram fór 18. júní 2003. Japan vann þann leik með 3 mörkum gegn engu.

Brasilía og Kamerún voru saman í B-riðli og mættust 19. júní. Kamerún vann þann leik, 1-0.

Kamerún spilaði aftur á vellinum 21. júní, þá gegn Tyrklandi. Aftur vann Kamerún og aftur endaði leikurinn 1-0.

Frakkland spilaði 22. júní gegn Nýja-Sjálandi og lenti ekki í neinum vandræðum í þeim leik. 5-0 var lokastaðan.

Frakkland mætti svo aftur til leiks í undanúrslitaleik gegn Tyrklandi. Sá leikur var nokkuð fjörugur og endaði 3-2 fyrir Frakklandi.

Í úrslitum mættust Frakkland og Kamerún. Bæði lið höfðu kunnað vel við sig á Stade de France í mótinu en Frakkland hafði þarna betur með 1 marki gegn engu. Markið skoraði Thierry Henry í framlengingu.

Aðrir viðburðir

Stade de France er ekki bara notað undir íþróttaviðburði heldur einnig mikið fyrir stóra tónleika. Fyrstu tónleikarnir sem fóru fram á vellinum voru tónleikar með The Rolling Stones á Bridges to Babylon túrnum. Þeir tónleikar fóru fram 25. júlí 1998. Aðrir sem hafa haldið tónleika þarna eru m.a. Céline Dion, Tina Turner, AC/DC, Bruce Springsteen, U2, George Michael, The Police, David Guetta, Madonna, Depeche Mode, Muse, Prince, Metallica, Red Hot Chili Peppers, Coldplay, Lady Gaga, Rihanna, Eminem, Justin Timberlake, Paul McCartney, Beyoncé og Jay Z. Eftir EM í sumar verða tónleikar með Beyoncé (21. júlí) og Rihanna (30. júlí).

Leikirnir á Euro

Af 51 leik sem fer fram á EM í Frakklandi 2016, eru 7 spilaðir á Stade de France.

1) Föstudagurinn 10. júní, kl. 21:00 (19 að íslenskum tíma)
Frakkland – Rúmenía, A-riðill (opnunarleikur)

2) Mánudagurinn 13. júní, kl. 18:00 (16 að íslenskum tíma)
Írland – Svíþjóð, E-riðill

3) Fimmtudagurinn 16. júní, kl. 21:00 (19 að íslenskum tíma)
Þýskaland – Pólland, C-riðill

4) Miðvikudagurinn 22. júní, kl. 18:00 (16 að íslenskum tíma)
Ísland – Austurríki, F-riðill

5) Mánudagurinn 27. júní, kl. 18:00 (16 að íslenskum tíma)
Sigurvegari E-riðils – 2. sæti í D-riðli, 16-liða úrslit

6) Sunnudagurinn 3. júlí, kl. 21:00 (19 að íslenskum tíma)
8-liða úrslit

7) Sunnudagurinn 10. júlí, kl 21:00 (19 að íslenskum tíma)
Úrslitaleikurinn á EM 2016