Leikdagur: Albanía – Ísland

Eftir virkilega flottan sigur á heimavelli í síðasta leik tekur við leikur á útivelli í Albaníu í 6. umferðinni. Það er ekki gefins en við treystum okkar mönnum til að fara þangað og gera okkur öll stolt af þeim, nú sem fyrr. Það eru þrjú lið í bullandi baráttu um efstu tvö sætin og við viljum vera með í þeirri baráttu áfram.

A-landslið karla.
Undankeppnin fyrir EM 2020,
6. umferð í H-riðli.
Þriðjudagurinn 10. september 2019,
klukkan 18:45 að íslenskum tíma (20:45 að staðartíma).

Albanía – Ísland

Völlur: Elbasan Arena í borginni Elbasan sem er í miðri Albaníu. Elbasan Arena opnaði fyrst árið 1967 en var endurbættur árið 2001 og svo aftur 2014. Hann tekur núna 12.800 áhorfendur í sæti.

Dómari: Ivan Kružliak frá Slóvakíu.

Staðan í H-riðli fyrir þessa umferð:


Dagskrá og veður

Leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á RÚV (og svo endursýndur á Stöð 2 Sport klukkan 22:00) svo það er lítið mál fyrir fólk að horfa á leikinn heima hjá sér og henda jafnvel í góð þriðjudagspartý yfir leiknum.

Við bendum líka þeim sem vilja bregða sér af bæ og horfa í mjög góðum félagsskap á að Sportbarinn Ölver mun að sjálfsögðu sýna leikinn og vera með eitthvað gott á boðstólnum eins og vanalega. Algjörir snillingar þarna í Glæsibænum, sannkallað félagsheimili Tólfunnar.

View this post on Instagram

Þetta er að bresta á!

A post shared by Sportbarinn Ölver (@sportbarinn) on

Það er ekki alveg sama haustyfirbragð í veðurspánni í Elbasan og hér á Íslandi. Um miðjan leikdag er spáð 34 gráðu hita, jafnvel þótt það verði líka hálfskýjað. Þegar leikurinn hefst verður þó sem betur fer búið að draga úr þeim hita. Yfir leik er spáð 22-24 gráðu hita, sólin verður þá sest og himinn skýjaður. Þó er ekki von á úrkomu og ekki miklum vindi heldur, bara rétt tæpum 2 m/s. Það nefnist kul hjá Veðurstofu Íslands og er til að mynda minna en gola. Þetta gæti þýtt að völlurinn verði þurr en við vonum að vallarstjórinn í Elbasan verði duglegur að vökva grasið svo okkar menn geti spilað sinn besta bolta.


Albanía

Hér er upphitunin fyrir fyrri leik liðanna í undankeppninni, frá því í júní sl.

Embed from Getty Images

Staða á styrkleikalista FIFA: 64. sæti, upp um 2 sæti frá síðasta lista. Albanía hefur að meðaltali verið í 80. sæti á listanum frá 1992. Hæst náði liðið í 22. sæti árið 2015 en lægst fór það í 124. sæti árið 1997.

Gengi í síðustu 10 leikjum: T J T T S T S T S T
Markatalan í síðustu 10 leikjum: 7-15

Embed from Getty Images

Landsliðsþjálfari: Edoardo Reja.
Landsliðsfyrirliði: Mërgim Mustafë Mavraj, leikmaður SpVgg Greuther Fürth í þýsku 2. deildinni. Mavraj spilar sem miðvörður.

Leikjahæstur: Lorik Agim Cana gat á sínum ferli leyst stöðu miðvarðar, afturliggjandi miðjumanns eða spilað á miðri miðjunni. Hann spilaði m.a. fyrir PSG, Marseille, Sunderland, Galatasaray og Lazio, hann spilaði líka 92 A-landsleiki sem er albanskt met. Leikjahæstur í núverandi leikmannahópi er markvörðurinn Etrit Berisha, leikmaður SPAL í ítölsku úrvalsdeildinni. Hann er þar á láni frá öðru ítölsku félagi, Atalanta.

Embed from Getty Images

Markahæstur: Framherjinn Erjon Bogdani skoraði 18 landsliðsmörk í 75 leikjum á árunum 1996 til 2013. Markahæstur í núverandi leikmannahópi er hinn 28 ára gamli Bekim Balaj, framherji hjá Sturm Graz í Austurríki. Hann hefur spilað með A-landsliði Albaníu frá 2012 og skorað heil 6 fótboltamörk í 34 leikjum.

Albanía er í fjórða sæti H-riðils með 6 stig. Þeir byrjuðu undankeppnina á að tapa 0-2 fyrir Tyrklandi á útivelli. Strax í kjölfarið var landsliðsþjálfarinn Christian Panucci rekinn úr starfi. Albanía náði að vinna næsta leik, 2 dögum eftir að þjálfarinn var rekinn, þegar Albanirnir heimsóttu Andorra og unnu þar 0-3 sigur.

Í apríl var hinn margreyndi Adoardo Reja ráðinn í landsliðsþjálfarastöðuna. Reja hefur starfað sem knattspyrnuþjálfari frá árinu 1979. Fyrsta verkefnið Reja sem landsliðsþjálfara var þó að tapa 0-1 á Laugardalsvellinum gegn okkar mönnum í júní. Eftir þann leik héldu þeir aftur heim til Albaníu og tóku á móti Moldóvum. Albanir náðu þar í annan sigur sinn í undankeppninni með því að vinna 2-0 sigur.

Embed from Getty Images

Síðasti leikur Albaníu var svo í Frakklandi síðasta laugardag. Þar lentu þeir í þeim óskunda að heimamenn spiluðu rangan þjóðsöng og báðu svo ranga þjóð afsökunar á þeim mistökum. Heldur neyðarlegt fyrir Frakkana. Albanir nýttu þetta þó ekki til að koma tvíefldir til leiks því heimamenn unnu þægilegan 4-1 sigur.

Albanía hefur því unnið 2 leiki og tapað 3, skorað 6 mörk og fengið 7 mörk á sig. Þeirra markahæsti leikmaður í undankeppninni er Sokol Cikalleshi, framherji hjá Akhisar Belediyespor, með 2 mörk. Cikalleshi hefur skorað í síðustu 2 leikjum liðsins svo það má segja að hann sé á góðu markaskriði.


Ísland

Staða á styrkleikalista FIFA: 36. sæti, niður um 1 sæti frá fyrri lista.

Gengi í síðustu 10 leikjum: T T J J J S T S S S
Markatalan í síðustu 10 leikjum: 13-13

Embed from Getty Images

Landsliðsþjálfari: Erik Hamrén.
Landsliðsfyrirliði: Aron Einar Gunnarsson.

Leikjahæstur: Rúnar Kristinsson verður áfram efstur í einhvern tíma enn, hans 104 A-landsleikir gefa honum smá forskot. Raggi Sig náði Hermanni Hreiðars í síðasta leik og mun væntanlega ná Birki Má í þessum leik, þá verða þeir jafnir í 2. sætinu með 90 A-landsleiki. Þá er Aron Einar Gunnarsson kominn í 86 leiki og virðist eiga nóg inni ennþá miðað við hversu sprækur hann var gegn Moldóvu.

Markahæstur: Eiður Smári er enn efstur með sín 26 mörk en það var virkilega gaman að sjá Kolbein Sigþórsson komast loksins aftur á blað með íslenska landsliðinu. Hann er þá kominn upp í 24 mörk. Miðað við formið sem hann er að komast í þá er bara tímaspursmál hvenær hann siglir í efsta sætið á markalistanum.

Embed from Getty Images

Fyrri viðureignir

Þetta verður sjöunda viðureign þessara þjóða. Farið var yfir fyrstu fimm viðureignirnar í síðasta upphitunarpistli fyrir landsleik gegn Albaníu.

Síðasta viðureign var svo sterkur, íslenskur sigur í júníblíðunni á Laugardalsvellinum. Jóhann Berg Guðmundsson skoraði þá eina mark leiksins og tryggði góð, þrjú sig.

Í þessum 6 leikjum hefur Ísland fjórum sinnum haft sigur en Albanía tvisvar. Löndin eiga enn eftir að gera jafntefli, förum ekkert að byrja á því núna heldur bætum fimmta sigrinum við. Ísland hefur skorað 8 mörk í þessum leikjum en Albanía 5.


Dómarahornið

Dómarinn heitir Ivan Kružliak og kemur frá Slóvakíu. Hann fæddist árið 1984 og hefur verið dómari frá árinu 2003. Hann hefur dæmt í efstu deild í Slóvakíu frá 2008 og verið alþjóðlegur FIFA-dómari frá árinu 2011.

Kružliak hefur dæmt 71 leik í Evrópukeppnum á vegum UEFA. Hann kom til að mynda til Íslands árið 2013 og dæmdi leik FH gegn Ekranas í undankeppni Meistaradeildar Evrópu. FH vann þann leik, 2-1. Árið 2016 dæmdi hann vináttuleik Austurríkis og Albaníu sem Austurríki vann, líka 2-1.

Embed from Getty Images

Honum til aðstoðar verða Tomaš Somolani og Milan Štrbo með flöggin og Peter Kralovi? verður fjórði dómari. Allir eru þeir frá Slóvakíu.


Áfram Ísland!