Leikdagur: Ísland-Albanía

Það er alltaf hátíðarstund þegar íslensku landsliðin í fótbolta spila heimaleiki í júní. Núna erum við svo heppin að fá tvo júníheimaleiki og mikilvægir eru þeir! Það er dauðafæri á því að koma sér í alvöru baráttu um annað af tveimur efstu sætunum í riðlinum og þar með að komast á EM alls staðar á næsta ári. En að sama skapi væri hvert klúðrað stig á heimavelli rándýrt í þessari törn. Liðið þarf því á miklum og góðum stuðningi að halda í þessu verkefni. Við skorum því að sjálfsögðu á ykkur öll að mæta á báða leikina til að syngja vel og hvetja liðið.

Áfram Ísland!

A-landslið karla,
undankeppni fyrir EM 2020.
Þriðja umferð í H-riðli.
Laugardagurinn 8. júní 2019,
klukkan 13:00.

Ísland – Albanía

Völlur: Laugardalsvöllurinn okkar allra.

Dómari: Bobby Madden frá Skotlandi.


Dagskrá og veðurspá

Af einhverjum ástæðum hefur UEFA ákveðið að henda þessum fína laugardagsleik á heldur undarlegan leiktíma. Leikurinn hefst klukkan 13:00 sem gefur ekki mikið svigrúm fyrir almennilega Tólfuupphitun. En hún verður þó samt í boði! Við sleppum að vísu formlegum BK-fundi en Ölver opnar klukkan 11:00 og þar ætlum við að hittast fyrir leik. Freysi kíkir til okkar og heldur töflufund, svo örkum við tímanlega niður í dalinn og komum okkur fyrir í stúkunni. Það held ég nú!

Embed from Getty Images

Veðurstofan spáir ljómandi fínu veðri á leikdegi. Samkvæmt henni verður heiðskírt á vellinum, hitinn þetta 13 til 14 gráður og léttir 7 til 8 m/s af norðanátt.


Ísland

Staða á styrkleikalista FIFA: 40. sæti, niður um 2 sæti frá fyrri lista.

Gengi í síðustu 10 leikjum: T T J T T J J J S T
Markatala í síðustu 10 leikjum: 9-23

Embed from Getty Images

Þjálfari: Erik Anders Hamrén
Fyrirliði: Aron Einar Gunnarsson

Leikjahæstur: Rúnar Kristinsson er enn leikjahæsti landsliðsmaður í sögu karlalandsliðs Íslands, með 104 A-landsleiki. Birkir Már Sævarsson heldur hins vegar áfram að nálgast hann, hann er leikjahæstur í hópnum með 90 landsleiki.

Markahæstur: Eiður Smári Guðjohnsen er markahæsti leikmaður karlalandsliðs Íslands frá upphafi en hann skoraði 26 mörk í 88 landsleikjum á árunum 1996 til 2016. Kolbeinn Sigþórsson er í leikmannahópnum að þessu sinni, hann er einni þrennu frá því að ná Eiði Smára.

Embed from Getty Images

Íslenska karlalandsliðið í fótbolta stefnir nú á að komast á sitt þriðja lokamót í röð. Það byrjaði þessa undankeppni á góðum sigri í Andorra áður en erfiðasti leikurinn, úti gegn Frakklandi, tapaðist. Tapið í Frakklandi varð á endanum heldur stórt, síðustu 20 mínúturnar fóru illa með okkar menn og 4-0 tap gegn heimsmeisturunum staðreynd. Það þýðir ekkert að svekkja sig of lengi á því, bara gera betur í næsta leik.

Ísland er eftir þessar fyrstu tvær umferðir í 4. sæti H-riðils, með þrjú stig og markatöluna 2-4.


Albanía

Staða á styrkleikalista FIFA: 62. sæti, niður um eitt sæti frá fyrri lista.

Gengi í síðustu 10 leikjum: T T S T J T T S T S
Markatala í síðustu 10 leikjum: 6-17

Embed from Getty Images

Þjálfari: Edoardo Reja.
Fyrirliði: Mërgim Mustafë Mavraj. Mavraj fæddist í Hanau í Vestur-Þýskalandi árið 1986. Hann á leiki með U20 og U21 liðum Þýskalands en byrjaði svo að spila með A-landsliði Albaníu árið 2012. Hann á 48 landsleiki að baki fyrir Albaníu og spilar nú með þýska liðinu FC Ingolstadt 04 sem féll úr næst efstu deild Þýskalands nú í vor. Mavraj er hávaxinn miðvörður og hefur skorað 3 landsliðsmörk á ferlinum.

Leikjahæstur: Varnarjálkurinn Lorik Cana spilaði á sínum ferli með liðum á borð við PSG, Sunderland, Galatasaray og Lazio. Hann spilaði líka 92 A-landsleiki með Albaníu á árunum 2003-2016 sem er albanskt landsleikjamet.
Leikjahæstur þeirra sem eru í leikmannahópi liðsins fyrir leikinn gegn Íslandi er markvörðurinn Etrit Berisha, leikmaður spútnikliðs Atalanta í ítölsku A-seríunni. Hann á 55 landsleiki að baki fyrir Albaníu.

Embed from Getty Images

Markahæstur: Framherjinn Erjon Bogdani spilaði lengst af á Ítalíu og var landsliðsmaður Albaníu frá 1996 til 2013. Hann spilaði á þeim tíma 74 landsleiki og skoraði 18 landsliðsmörk sem gerir hann að markahæsta landsliðsmanni Albaníu frá upphafi. Markahæstur í núverandi leikmannahópi liðsins er Armando Sadiku, leikmaður Lugano í Sviss. Hann hefur skorað 12 mörk í 35 landsleikjum.

Embed from Getty Images

Albanía komst, líkt og Ísland, á lokamót EM 2016. Það gerðu þeir með því að enda í 2. sæti í I-riðli, á eftir verðandi Evrópumeisturum Portúgal. Þar með skyldu þeir Dani eftir í umspilssæti. Á EM tapaði Albanía fyrst gegn Sviss og svo gegn Frakklandi áður en þeir náðu í sín einu stig á mótinu með sigri á Rúmeníu. Það dugði þeim þó ekki til að komast áfram, Albanía var annað af tveimur liðum í þriðja sæti sem sat eftir í riðlakeppninni.

Í undankeppninni fyrir HM í Rússlandi endaði Albanía einu sæti frá umspilssæti. En að vísu munaði 10 stigum á Albaníu og Ítölum, sem enduðu í 2. sæti riðilsins. Spánverjar unnu hins vegar riðilinn og fóru beint á HM.

Albanía byrjaði þessa undankeppni á að tapa á heimavelli fyrir Tyrklandi, 0-2. Síðan fylgdi 3-0 sigur á Andorra sem þýðir að Albanía er í 3. sæti riðilsins með jafn mörg stig og Ísland en betra markahlutfall. Þeirra markatala er 3-2.

Albanska knattspyrnusambandið var þó ekki nógu sátt með stöðu mála þarna í byrjun heldur ákvað í kjölfarið á tapleiknum gegn Tyrkjum að reka þáverandi landsliðsþjálfara, hinn margreynda Christian Panucci. Edoardo Reja var svo ráðinn inn í kjölfarið á sigurleiknum gegn Andorra.


Fyrri viðureignir

Þetta verður í sjötta skipti sem þessar þjóðir mætast á knattspyrnuvellinum í A-landsleik. Ísland hefur til þessa unnið þrjá leiki en Albanía er með tvo sigra. Markatalan í leikjunum fimm er 7-5, Íslandi í vil.

Fyrstu viðureignirnar voru í undankeppninni fyrir EM í Svíþjóð 1992. Ísland tók á móti Albaníu í fyrsta leiknum í riðli 1, þann 30. maí árið 1990. Arnór Guðjohnsen skoraði þá undir lok fyrri hálfleiks en fyrirliðinn Atli Eðvaldsson tryggði svo íslenskan sigur með seinna marki Íslands undir lok leiks.

Tæplega ári síðar, sunnudaginn 26. maí 1991, fór Ísland síðan í heimsókn til Albaníu. Það var ekki ferðalag til fjár hjá íslensku piltunum því heimamenn unnu þar 1-0 sigur með marki frá framherjanum Eduard Abazi, sem þá spilaði fyrir Hajduk Split. Þetta var annað af tveimur A-landsliðsmörkum sem Abazi skoraði á ferlinum. Þetta voru einu stig Albana í undankeppninni. Ísland hlaut hins vegar 4 stig eftir sigra gegn Albaníu og Spáni (2 stig fyrir sigur á þeim tíma).

Næsti leikur þjóðanna var vináttuleikur í Tirana 31. mars 2004. Albanir komu nokkuð sterkir inn í þann leik á heimavelli, höfðu ekki tapað leik á heimavelli í þrjú ár á þeim tíma. Í liði Íslands var það helst fréttnæmt að Guðjónsson-bræðurnir, þeir Þórður, Bjarni og Jóhannes Karl, byrjuðu allir. Það hafði ekki gerst frá árinu 1963 að þrír bræður byrjuðu inná í sama landsleik, þegar þeir Hörður, Bjarni og Gunnar Felixsynir hófu leik gegn áhugamannalandsliði Englands.

Þessi bræðrasameining hafði þó ekki nógu jákvæð áhrif á leikinn. Þórður Guðjónsson skoraði að vísu gott mark og jafnaði þar með leikinn í 1-1 á 64. mínútu, eftir að Adrian Aliaj hafði komið Albaníu yfir á 42. mínútu.  Albanía átti hins vegar lokaorðið þegar Alban Bushi skoraði eftir skyndisókn á 75. mínútu.

Ísland og Albanía drógust svo saman í riðil í undankeppninni fyrir HM í Brasilíu 2014. Ísland vann þá báða leikina 2-1, fyrst í Albaníu 12. október 2012, þar sem Birkir Bjarnason og Gylfi Þór Sigurðsson skoruðu mörk Íslands. Svo í Reykjavík 10. september 2013, þar sem Birkir Bjarnason var aftur á skotskónum áður en Kolbeinn Sigþórsson tryggði íslenskan sigur. Í fyrri leiknum náði Albanía að jafna leikinn í 1-1 en í seinni leiknum komst Albanía yfir á 9. mínútu áður en Birkir jafnaði fimm mínútum síðar.


Dómarahornið

Bobby Madden er skoskur knattspyrnudómari frá East Kilbride. Hann fæddist 25. október 1978 og verður því 41 árs seinna á árinu. Hann hefur verið dómari í Skotlandi frá 2002, dæmt í efstu deild þar í landi frá árinu 2008 og varð alþjóðlegur FIFA dómari árið 2010.

Embed from Getty Images

Með Bobby verða Douglas Ross og David Roome sem aðstoðardómarar og Donald Robertsson sem fjórði dómari. Þeir eru allir frá Skotlandi.


Áfram Ísland!