Leikdagur: Frakkland-Ísland

Þar kom loks að sigrinum sem við höfðum beðið eftir í langan tíma. Öruggur sigur á Andorra í fyrsta leik riðilsins þar sem liðið þurfti ekki að nota of mikla orku. Sem er einmitt fínt fyrir leik númer tvö í undankeppninni.

Nú förum við aftur til París.

A-landslið karla,
undankeppnin fyrir EM 2020,
önnur umferð í H-riðli.
Mánudagurinn 25. mars 2019,
klukkan 19:45 að íslenskum tíma (20:45 að staðartíma).

Frakkland-Ísland

Völlur: Stade de France í höfuðborginni París.

Embed from Getty Images

Leikvangurinn opnaði í janúar 1998 og tekur rétt rúmlega 80 þúsund áhorfendur í sætum.

Dómari: István Kovács, frá Rúmeníu.


Frakkland

Staða á styrkleikalista FIFA: 2. sæti með 1.726 stig. Einu stigi frá Belgíu sem er í toppsætinu.

Gengi í síðustu 10 leikjum: S S S J S J S T S S
Markatala í  síðustu 10 leikjum: 18-9

Landsliðsþjálfari: Didier Deschamps.

Embed from Getty Images

Þessi snaggaralegi og öflugi miðjumaður á árum áður spilaði 103 A-landsleiki fyrir Frakkland á sínum tíma, sem setur hann í 7. sæti yfir flesta landsleiki í sögu franska karlalandsliðsins. Hann var lengi vel fyrirliði landsliðsins, til dæmis lyfti hann bæði heimsmeistaratitlinum 1998 og Evrópumeistaratitlinum 2000. Hann hefur stýrt franska landsliðinu frá árinu 2012 og fór með liðið í úrslitaleik EM 2016 áður en hann vann HM 2018 með franska liðinu.

Fyrirliði: Hugo Lloris.

Leikjahæstur: Lillian Thuram spilaði 142 landsleiki á árunum 1994 til 2008, og skoraði í þeim 2 fótboltamörk. Þessi tvö mörk komu raunar í sama leiknum, í 2-1 sigri Frakka á Króatíu í undanúrslitum HM 1998.

Embed from Getty Images

Leikjahæstur af núverandi leikmönnum er fyrirliðinni Hugo Lloris. Hann spilaði sinn fyrsta A-landsleik árið 2008 og hefur nú spilað 109 landsleiki. Það setur hann í 4. sæti af leikjahæstu leikmönnum franska karlalandsliðsins frá upphafi. Fyrir ofan hann eru Marcel Desailly með 116 landsleiki, Thierry Henry með 123 landsleiki og áðurnefndur Thuram.

Markahæstur: Thierry Henry skoraði 51 landsliðsmark í 123 landsleikjum.

Markahæstur núverandi leikmanna er Oliver Giroud. Þessi fjallmyndarlegi framherji hefur í gegnum tíðina ekki verið þekktastur fyrir að vera mesti markaskorarinn í heimi sóknarmanna en hann er þó engu að síður búinn að skora 34 landsliðsmörk í 88 leikjum. Það setur hann í 3. sæti yfir markahæstu leikmenn allra tíma hjá Frakklandi, ásamt David Trezeguet.


Ísland

Staða á styrkleikalista FIFA: 38. sæti, með 1.451 stig.

Gengi í síðustu 10 leikjum: T T T J T T J J J S
Markatala í síðustu 10 leikjum: 10-21

Landsliðsþjálfari: Erik Hamrén

Embed from Getty Images

Fyrirliði: Aron Einar Gunnarsson. Þessi nagli spilaði gegn Andorra þrátt fyrir að hafa verið í meiðslaveseni í aðdraganda leiksins. Munar alltaf miklu um að hafa hann á miðjunni, algjör mótor.

Leikjahæstur: Rúnar Kristinsson spilaði 104 landsleiki á árunum 1987 til 2004 og skoraði í þeim 3 mörk. Tvö þeirra komu í 4-1 sigri í vináttuleik gegn Möltu árið 1991 en hið þriðja kom á Laugardalsvellinum í júní 1999 þegar Ísland vann Armeníu 2-0 í undankeppninni fyrir EM 2000.

Birkir Már Sævarsson komst upp í 2. sæti yfir leikjahæstu landsliðsmenn íslenska karlalandsliðsins, ásamt Hermanni Hreiðarssyni, þegar hann spilaði sinn 89. landsleik, gegn Andorra. Það væri ekkert gríðarlega óvænt að sjá hann jafna Rúnar, eins og hann hefur verið að standa sig með landsliðinu.

Markahæstur: Eiður Smári skoraði 26 mörk á sínum landsliðsferli á árunum 1996 til 2016. Fyrsta landsliðsmark Eiðs Smára kom gegn Andorra í maí 1999 en það síðasta í 4-0 sigri á Liechenstein í júní 2016, í vináttuleik fyrir EM í Frakklandi það sama sumar.

Embed from Getty Images
Birkir Bjarnason skoraði sitt 11. landsliðsmark gegn Andorra og komst þar með í 11. sæti yfir markahæstu leikmenn íslenska karlalandsliðsins frá upphafi, jafn Pétri Péturssyni og Matthíasi Hallgrímssyni.


Fyrri viðureignir þjóðanna

Karlalandslið Íslands hefur þrettán sinnum mætt aðalliði Frakklands. Fyrstu leikirnir fóru fram í júní og september árið 1957 í undankeppninni fyrir HM í Svíþjóð árið 1958. Frakkland vann báða leikina með miklum mun, þann fyrri á heimavelli 8-0 og hinn síðari í Laugardalnum 1-5, þar sem Þórður Jónsson skoraði mark Íslands.

Þjóðirnar voru einnig saman í riðlum í undankeppnum fyrir EM 1976, EM 1988, EM 1992 og EM 2000. Ísland náði markalausu jafntefli á Laugardalsvellinum bæði 1975 og 1987 auk þess að ná frægu 1-1 jafntefli gegn þáverandi heimsmeisturum Frakka árið 1998.

Embed from Getty Images

Fyrir utan það og 2-2 jafntefli í vináttuleik nú í haust þá hafa Frakkar sigrað hina 9 leikina milli þessara þjóða. Samanlögð markatala gegn Frökkum er 12-37.

Ísland hefur líka spilað gegn áhugamannalandsliði Frakklands. Fyrst voru það þrír vináttuleikir á árunum 1966 til 1970 og síðan tveir leikir 1971 í undankeppninni fyrir Ólympíuleikana í Munchen árið 1972. Ísland náði þar markalausu jafntelfi á Laugardalsvellinum í maí 1971 en frönsku áhugamennirnir unnu hina 4 leikina.


Dómarahornið

Dómari þessa leiks heitir István Kovács og er 34 gamall Rúmeni. Hann kemur frá borginni Carei í Satu Mare sýslu. Borgin er norðarlega í Rúmeníu, rétt hjá landamærunum við Ungverjaland.

Embed from Getty Images

Kovács hefur verið alþjóðlegur FIFA-dómari síðan 2010. Hann kom m.a. til Íslands árið 2013 þegar hann dæmdi leik ÍBV og Rauðu stjörnunnar frá Belgrad í undankeppninni fyrir Evrópudeildina. Að auki dæmdi hann útileik Víkings frá Reykjavík gegn FC Koper í sömu undankeppni árið 2015.

Aðstoðardómarar í leiknum verða þeir Vasile Florin Marinescu og Ovidiu Artene, einnig frá Rúmeníu.


Mánudagsáhorfspartý

Aftur verður leikurinn í þráðbeinni á RÚV. Við treystum á að þeir Íslendingar sem mæti á völlinn í París láti jafn vel í sér heyra og snillingarnir sem mættu á völlinn í Andorra.

Hér heima verður að vanda vel tekið á móti öllum Tólfum á sportbarnum Ölveri í Glæsibæ. Langbesti staðurinn!

Áfram Ísland!