Ísland er í efsta sæti F-riðils í undankeppninni fyrir EM 2021. Að vísu er bara einn leikur búinn í riðlinum en við þurfum ekkert að spá of mikið í það, toppsætið er okkar! Nú fáum við annan heimaleik og tækifæri til að negla almennilega niður fyrsta sætið áður en flest hin liðin í riðlinum hefja leik í undankeppninni. Um að gera að nýta það vel.
A-landslið kvenna,
undankeppnin fyrir EM 2021.
Annar leikur í F-riðli.
Mánudagurinn 2. september 2019,
klukkan 18:45.
Ísland – Slóvakía
Völlur: Laugardalsvöllurinn okkar. Viljum sjá fleiri áhorfendur á þessum leik en þeim síðasta. Stelpurnar okkar eiga það skilið.
Dómari: Irena Veleva?koska frá Makedóníu.
Dagskrá og veður
Sem fyrr verður hægt að mæta fyrir leik á félagsheimilið okkar, sportbarinn Ölver í Glæsibæ. Við mælum alveg með heimsókn þangað, það hressir alltaf. En svo megið þið endilega fjölmenna tímanlega í stúkuna, syngja þjóðsönginn okkar og hvetja stelpurnar áfram.
Embed from Getty Images
Það spáir heiðskíru á leikdag. U.þb. 10 stiga hita yfir leiknum og 4-5 m/s af norðaustan átt. Úrvals fótboltaveður.
Ísland
Staða á styrkleikalista FIFA: 17. sæti, fór upp um 5 sæti frá síðasta lista.
Gengi í síðustu 10 leikjum: S T J S J T S S J S
Markatala í síðustu 10 leikjum: 18-13
Landsliðsþjálfari: Jón Þór Hauksson.
Landsliðsfyrirliði: Sara Björk Gunnarsdóttir, lykilleikmaður Wolfsburg.
Leikjahæst: Katrín Jónsdóttir er enn leikjahæst í sögu íslenska kvennalandsliðsins með 133 A-landsleiki en Sara Björk Gunnarsdóttir er komin einum leik nær henni og er nú í 126 leikjum. Styttist í að hún taki fram úr.
Markahæst: Margrét Lára Viðarsdóttir er enn markahæst og það verður erfitt fyrir aðra leikmenn að ná henni. Hún er með 78 mörk í 122 leikjum. Næst á eftir henni er Hólmfríður Magnúsdóttir með 37 mörk í 112 leikjum. Þar á eftir kemur Dagný Brynjarsdóttir með 24 mörk í 82 leikjum. Af þessum yngri er t.d. Elín Metta Jensen í 11. sæti með 12 mörk í 43 landsleikjum. Hún þyrfti að detta í grimmt markastuð til að fara að ógna Margréti Láru eitthvað að ráði. Það væri svo sannarlega ekkert leiðinlegt fyrir okkur stuðningsfólk landsliðsins að sjá það gerast, við þiggjum alltaf helling af íslenskum fótboltamörkum.
Slóvakía
Staða á styrkleikalista FIFA: 47. sæti, niður um 1 sæti frá síðasta lista.
Gengi í síðustu 10 leikjum: T J J T T T T T S J
Markatalan í síðustu 10 leikjum: 9-17
Landsliðsþjálfari: Peter Kopún.
Landsliðsfyrirliði: Fann ekki almennilegar, uppfærðar upplýsingar um það.
Leikjahæst: Fann ekki almennilegar upplýsingar um það heldur.
Markahæst: Ekki þetta heldur. Wikipediasíðan um landslið Slóvakíu hefur ekki verið uppfærð frá 2015 og jafnvel þá var lítið af upplýsingum um spilaða leiki leikmanna eða skoruð mörk. Heimasíða slóvakíska knattspyrnusambandsins er heldur ekki með góðar upplýsingar um þessa tölfræði. Sem er glatað.
Í undankeppninni fyrir EM 2017 lenti Slóvakía í riðli 5 ásamt Svíþjóð, Danmörku, Póllandi og Moldóvu. Slóvakía vann heimaleikina gegn Póllandi og Moldóvu og útileikinn gegn Moldóvu en tapaði rest og endaði í fjórða sæti með 9 stig og markatöluna 11-13. Pólland endaði í 3. sæti með einu stigi meira en Slóvakía, þrátt fyrir að vera með aðeins lakari markatölu.
Í undankeppninni fyrir HM nú í sumar lenti Slóvakía í riðli 3 í Evrópuhlutanum ásamt Noregi, Hollandi, Írlandi og Norður-Írlandi. Slóvakía byrjaði ekki vel og tapaði sínum fyrsta leik, gegn Noregi á útivelli, með sex mörkum gegn einu. Slóvakía endaði í neðsta sæti riðilsins eftir að hafa aðeins náð í einn sigur, sá sigur kom í síðasta leik liðsins, á útivelli gegn Norður-Írlandi. Þar tryggði Dominika Škorvánková gestunum sigur með eina marki leiksins. Slóvakía endaði því með 3 stig eins og Norður-Írland. Slóvakía var að vísu með skárri markatölu í heildina (4-23 á móti 4-27) en betri innbyrðis markatala gerði það að verkum að Norður-Írland endaði í 4. sæti en Slóvakía í því fimmta. Þrír leikmenn Slóvakíu og einn leikmaður Írlands sáu um að skora mörkin fjögur fyrir Slóvakíu í þessari undankeppni.
Fyrri viðureignir
Kvennalandslið Íslands og Slóvakíu hafa aðeins tvisvar mæst áður á fótboltavellinum. Báðir leikirnir voru vináttuleikir, í fyrra skiptið á Laugardalsvellinum og í seinna skiptið á NTC Senec vellinum í borginni Senec í Slóvakíu.
Fyrri leikurinn var spilaður 17. september 2015 fyrir framan 767 áhorfendur í Laugardalnum. Leikurinn var síðasti vináttuleikurinn áður en undankeppnin fyrir EM 2017 hófst. Sandra María Jessen skoraði eina mark fyrri hálfleiks en seinni hálfleikurinn varð fjörugri. Hólmfríður Magnúsdóttir kom inn á í hálfleik og skoraði svo strax á fyrstu mínútunni í seinni hálfleik. Jana Vojteková minnkaði muninn á 54. mínútu en aðeins 3 mínútum síðar jók Margrét Lára forskotið með marki úr vítaspyrnu eftir að brotið hafði verið á Hörpu Þorsteinsdóttur. Hólmfríður Magnúsdóttir tryggði Íslandi svo 4-1 sigur með öðru marki sínu, glæsilegum skalla frá miðjum vallarhelmingi Slóvaka sem fór í jörðina og skoppaði yfir markmann gestanna.
Seinni leikurinn sem liðin hafa spilað var spilaður í Slóvakíu, fimmtudaginn 6. apríl 2017. Þá var undankeppni EM 2017 að baki og sætið á lokamótinu í Hollandi tryggt. Þessi leikur var liður í undirbúningnum fyrir mótið. Hluti af þeim undirbúningi var að prófa mismunandi kerfi, þannig spilaði íslenska liðið 3-4-3 í fyrri hálfleik en 4-2-3-1 í seinni hálfleik. Ísland náði að skora eitt mark í hvoru kerfi, Elín Metta Jensen skoraði í fyrri hálfleik en Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði í seinni hálfleik. Heimamenn náðu aldrei að ógna að ráði, þeirra besta tækifæri var aukaspyrna sem Guðbjörg varði vel auk þess sem hún þurfti að verja eitt langskot. Lokastaðan 2-0 fyrir Ísland.