Leikdagur: Ísland – Ungverjaland

Ný undankeppni fyrir nýtt stórmót. Nú ætlum við á EM í vöggu knattspyrnunnar, Englandi. Kvennaknattspyrnan hefur verið í mikilli sókn hjá Englendingum síðustu ár og verður örugglega orðin enn stærri þegar lokamót EM 2021 hefst þar 11. júlí 2021. Væntanlega verður stemningin engu minni þegar mótinu lýkur með úrslitaleik á Wembley, þann 1. ágúst sama sumar. Hver elskar ekki að skella sér í góða fótboltaferð til Englands? Þangað viljum við í Tólfunni allavega fara. Ferðalagið þangað hefst með þessum leik.

A-landslið kvenna,
undankeppni fyrir EM 2021.
Fyrsti leikur í F-riðli.
Fimmtudagurinn 29. ágúst 2019,
klukkan 18:45.

Ísland – Ungverjaland

Völlur: Laugardalsvöllur.

Hvenær fáum við nýjan Laugardalsvöll? Ekki að við þurfum endilega stærri völl, við þurfum bara betri völl með betri aðstöðu fyrir bæði leikmenn, aðstandendur, stuðningsfólk og áhorfendur. Koma svo, KSÍ!

Dómari: Abigail Marriott frá Englandi


Dagskrá og veður

Að venju verður Ölver opinn fyrir okkur stuðningsfólk íslensku landsliðanna á leikdegi. Þeir sem vilja geta brunað þangað beint eftir vinnu (eða þess vegna mætt þangað klukkan 10:00 þegar opnar, ef fólk er í fríi) og byrjað að hita sig upp fyrir leik. Við mælum með að stuðningsfólk og áhorfendur skili sér tímanlega í stúkuna svo þjóðsöngurinn verði almennilegur!

Embed from Getty Images

Það verður skýjað í höfuðborginni á leikdegi, spáir smá rigningu fyrir hádegið en það ætti að hanga nokkuð þurrt yfir leiknum. Hitinn verður 10-11 gráður og vindurinn ætti ekki að trufla mikið, verður 4-5 m/s af norð-austanátt.


Ísland

Staða á styrkleikalista FIFA: 17. sæti

Gengi í síðustu 10 leikjum: S S T J S J T S S J
Markatala í síðustu 10 leikjum: 19-12

Landsliðsþjálfari: Jón Þór Hauksson
Landsliðsfyrirliði: Sara Björk Gunnarsdóttir

Embed from Getty Images
Leikjahæst: Katrín Jónsdóttir spilaði 133 A-landsleiki á sínum ferli. Fyrirliðinn Sara Björk á ekki langt í það, hún hefur spilað 125 A-landsleiki. Og á nóg eftir!

Markahæst: Margrét Lára Viðarsdóttir er markahæst í sögu íslenska kvennalandsliðsins, hún hefur til þessa skorað 78 fótboltamörk í 121 fótboltalandsleik. Við reiknum fastlega með því að hún bæti við þá tölu.


Ungverjaland

Staða á styrkleikalista FIFA: 45. sæti

Gengi í síðustu 10 leikjum: S S S T T J S T T S
Markatala í síðustu 10 leikjum: 22-19

Landsliðsþjálfari: Markó Edina. Hún var miðjumaður á sínum leikmannaferli og spilaði 55 landsleiki sjálf. Hefur verið þjálfari A-landsliðs Ungverjalands frá árinu 2014.
Landsliðsfyrirliði: Angéla Smuczer, miðjumaður hjá MTK Hungária. Hefur spilað 90 A-landsleiki frá árinu 2001 og skorað í þeim 2 mörk.

Embed from Getty Images

Leikjahæst: Hin sókndjarfa Anita Pádár er leikjahæst í sögu landsliðsins, hún spilaði 125 A-landsleiki.

Markahæst: Pádár er einnig markahæst, skoraði á sínum ferli 41 landsliðsmark.

Í undankeppninni fyrir síðasta Evrópumót lenti Ungverjaland í riðli með Króatíu, Rússlandi, Tyrklandi og Þýskalandi. Ungverjaland endaði þá í þriðja sæti eftir að hafa náð 2 sigrum, 2 jafnteflum en tapað 4 leikjum. Ungverjaland var þar með einu stigi fyrir ofan Króatíu og 4 stigum fyrir ofan Tyrkland. Þjóðverjar tóku efsta sætið, með fullt hús stiga. Rússland endaði í 2. sæti, með 6 stigum meira en Ungverjaland. Ungverjar enduðu með markatöluna 8-20.

Markahæst í ungverska liðinu í þeirri undankeppni var Zsanett Jakabfi sem skoraði 5 mörk. Það gerði hana að markahæsta leikmanni í riðli 5, ásamt þýska leikmanninum Alexandra Popp. Jakabfi spilar einmitt í Þýskalandi en hún er samherji Söru Bjarkar hjá Wolfsburg.

Embed from Getty Images


Fyrri viðureignir

A-landslið Íslands og Ungverjalands hafa fimm sinnum mæst á fótboltavellinum áður. Ísland hefur til þessa unnið alla leikina, með markatölunni 17-2.

Þjóðirnar lentu saman í riðli í undankeppni fyrir EM 2005. Fyrri leikurinn var á Laugardalsvellinum, 14. júní 2003, og endaði með 4-1 sigri Íslands. Erla Hendriksdóttir, Olga Færseth, Ásthildur Helgadóttir og Margrét Lára Viðarsdóttir skoruðu mörk Íslands í þeim leik. Þetta var fyrsta landsliðsmark Margrétar Láru í hennar fyrsta A-landsleik, þegar hún var rúmum mánuði frá því að halda upp á 17 ára afmælisdaginn sinn.

Seinni leikurinn var svo 29. maí 2004, í Ungverjalandi. Hann endaði með 5-0 sigri íslenska liðsins. Margrét Lára var aftur á skotskónum, skoraði fyrsta og síðasta mark leiksins en inn á milli smellti gamla kempan Olga Færseth í þrennu.

Þjóðirnar voru líka saman í riðli í undankeppninni fyrir EM 2013. Þá var fyrri leikurinn spilaður í Ungverjalandi, 22. október 2011. Ísland vann þann leik með einu marki frá Dóru Maríu Lárusdóttur. Seinni leikurinn var á Laugardalsvellinum 16. júní 2012. 1.395 áhorfendur sáu Margréti Láru skora fyrsta markið á 7. mínútu. Hólmfríður Magnúsdóttir bætti við öðru marki fyrir Ísland stuttu fyrir leikhlé. Undir lok leiksins bætti Sandra María Jessen svo við þriðja marki Íslands.

Síðasti leikur þessara þjóða var 13. mars 2013 í Algarve-mótinu í Portúgal. Sara Björk Gunnarsdóttir skoraði eina mark fyrri hálfleiks á 10. mínútu. Rakel Hönnudóttir og Katrín Ómarsdóttir bættu við mörkum áður en Ungverjar náðu að minnka muninn úr víti á 87. mínútu.  Sandra María Jessen hafði þó enn tíma til að skora fjórða mark Íslands og enduðu leikar 4-1 fyrir Ísland.


Dómarahornið

Dómari leiksins er hin 26 ára gamla Abigail Marriott. Hún kemur frá Mildenhall í Suffolk-sýslu. Þrátt fyrir ungan aldur hefur Abi, eins og hún er kölluð, dæmt fótboltaleiki í 8 ár. Hún hefur dæmt í WSL (Women’s Super League) í Englandi síðan 2016 og varð fyrr á þessu ári alþjóðlegur FIFA-dómari. Þá dæmdi hún bikarúrslitaleikinn í Englandi á þessu ári, þar sem Manchester City vann West Ham United með 3 mörkum gegn engu.

Embed from Getty Images

Með Abi verða Sian Massey og Helen Byrne með flöggin og Stacey Pearson verður fjórði dómari. Allar eru þær frá Englandi.


Áfram Ísland!