Hvílíkur leikur sem er framundan!
A-landslið kvenna,
undankeppni fyrir HM í Frakklandi 2019.
7. leikur Íslands í 5. riðli,
laugardagurinn 1. september 2018,
klukkan 14:55.
Ísland – Þýskaland
Völlur: Laugardalsvöllurinn
Í fyrsta skiptið verður uppselt á kvennalandsleik. Það var kominn tími til! Þvílíkt stuð sem þetta verður, að hafa troðfullan völl og rífandi stemningu. Þær þurfa líka okkur öll með sér, nú skiptir máli að vera ekki bara áhorfandi heldur verða stuðningsmaður. Sýna bláa litinn og láta heyra í sér.
Dómari: bara búið að gefa út að Cheryl Foster frá Wales er fjórði dómari.
Veðurspáin:
Það verður skýjað og mögulega einhverjir dropar í lofti en heilt yfir ætti ekki að vera mikil rigning, miðað við veðurspá, á meðan leik stendur. Það verður um 10 gráðu hiti og 8 m/s suð-suð-vestan. Semsagt, fínasta fótboltaveður! Við höfum alveg séð það verra.
Dagskráin
Þið getið byrjað á að hita ykkur vel upp með því að hlusta á podcast Tólfunnar. Síðustu tveir þættir hafa einmitt verið sérstakir upphitunarþættir fyrir þessa leiki kvennalandsliðsins.
Freyr Alexandersson mætti í síðasta þátt og var með hálfgerðan töflufund fyrir leikina, fór yfir málin og lagði línurnar fyrir okkur Tólfurnar. Hlustið endilega á það.
Í þættinum þar á undan mætti Orri Rafn Sigurðarson, Tólfa, fótboltablaðamaður og sérlegur spekingur um kvennafótbolta, og við vorum með vangaveltur um liðið og leikmenn.
KSÍ mun bjóða upp á veglegt stuðningsmannasvæði (Fan Zone) fyrir leik sem verður að vanda staðsett á bílastæðunum fyrir framan Laugardalsvöll. Fjörið þar byrjar klukkan 13:00, Jóhanna Guðrún mun mæta á svæðið klukkan 13:30 og JóiPé og Króli mæta svo klukkan 14:00.
Þarna verða líka hoppukastalar, fótboltaþrautir, andlitsmálning, blöðrulistamenn og tónlistaratriði. Auk þess verður veitingasala, verslun með landsleiksvörur og salernisaðstaða.
Tólfan ætlar að byrja á Ölveri upp úr klukkan 12 á hádegi. Þar munum við hittast og hita upp. Ef þið hafið alltaf haft áhuga á að taka þátt í meira starfi með Tólfunni (tromma, skipuleggja viðburði, leiða stuðninginn) þá er þetta mjög góður vettvangur til að koma sér inn í þann hóp. Öll velkomin og það væri sérstaklega gaman að sjá fleiri konur með okkur.
Ísland
Staða á styrkleikalista FIFA: 19. sæti
Gengi í síðustu 10 leikjum: S J T J T J J S S S
Markatalan í síðustu 10 leikjum: 16-8
Landsliðsþjálfari: Freyr Alexandersson
Fyrirliði: Sara Björk Gunnarsdóttir
Þrjár af þeim sem eru í hópnum nálgast nú þau tímamót að ná 100 A-landsleikjum. Hallbera Gísladóttir er komin með 96 leiki, Fanndís Friðriks er með 95 og Rakel Hönnudóttir hefur spilað 93 leiki. Þær eiga þó enn töluvert í land með að ná fyrirliðanum okkar, Sara Björk hefur verið lykilleikmaður liðsins um árabil og er með 118 landsleiki. Hún er líka á besta aldri fyrir knattspyrnukonu og á eflaust eftir að bæta ansi mörgum leikjum við enn.
Fyrir utan þær er Sif Atladóttir með 74 landsleiki, Glódís Perla með 68, Guðbjörg með 61 leik, Gunnhildur Yrsa hefur spilað 56 A-landsleiki og Anna Björk Kristjánsdóttir er komin í 40 landsleiki. Svo það er ljóst að það er búin að byggjast upp töluverð reynsla hjá þessu liði.
Það vantar þó auðvitað töluverða reynslu í liðið frá því í fyrri leiknum gegn Þýskalandi þar sem Dagný Brynjarsdóttir nær þessum leikjum ekki en á að baki 76 A-landsleiki. Að auki datt Harpa Þorsteinsdóttir út stuttu fyrir leikina en hún á 67 A-landsleiki að baki.
Við erum þó með lið og þjálfarateymi sem er orðið vant að bregðast við skyndilegum breytingum í leikmannahópi og því að leikmenn í lykilhlutverkum detti út með stuttum fyrirvara. Það kemur sér mjög vel núna. Eins og Freysi fór yfir í síðasta podcasti Tólfunnar þá hleypur ekkert stress í hópinn þótt eitthvað svona gerist, það er dýrmætt.
Ísland hefur oftast verið að spila með 3 miðverði í þessari undankeppni og mun vafalaust halda því áfram núna.
Íslenska liðið er með 11 leikmenn sem hafa tekið þátt í 5-6 leikjum af þeim 6 sem Ísland hefur spilað. Svo það hefur ekki verið sama rótering í gangi hjá Íslandi og hjá t.d. Þýskalandi. Þessir 11 leikmenn eru:
- Glódís Perla Viggósdóttir (540 mín, 6 leikir)
- Ingibjörg Sigurðardóttir (540 mín, 6 leikir)
- Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir (516 mín, 6 leikir)
- Hallbera Gísladóttir (506 mín, 6 leikir)
- Sara Björk Gunnarsdóttir (450 mín, 5 leikir)
- Guðbjörg Gunnarsdóttir (450 mín, 5 leikir)
- Sif Atladóttir (450 mín, 5 leikir)
- Fanndís Friðriksdóttir (448 mín, 5 leikir)
- Rakel Hönnudóttir (405 mín, 5 leikir)
- Elín Metta Jensen (326 mín, 6 leikir)
- Agla María Albertsdóttir (307 mín, 5 leikir)
Þetta væri alls ekki slæmt byrjunarlið, ég segi bara svona.
Íslenska liðið hefur skorað 21 mark í þessum 6 leikjum í undankeppninni. Markahæst hjá Íslandi er Gunnhildur Yrsa með 4 mörk. Þar á eftir koma 3 leikmenn með 3 mörk hver, það eru Dagný Brynarsdóttir, Fanndís Friðriksdóttir og Elín Metta Jensen.
Elín Metta er líka stoðsendingahæst, ásamt Hallberu Gísladóttur, en þær hafa báðar gefið 4 stoðsendingar í undankeppninni til þessa. Það er því gríðarlega mikilvægt fyrir þessa rimmu að þær mæti í sama stuðinu og þær hafa verið í fyrri leikjunum í þessari undankeppni.
Þýskaland
Staða á styrkleikalista FIFA: 2. sæti
Gengi í síðustu 10 leikjum: S T S S T J T S S S
Markatalan í síðustu 10 leikjum: 31-11
Landsliðsþjálfari: Horst Hrubesch
Fyrirliði: Dzsenifer Marozsán
Þýskaland hefur skipt um landsliðsþjálfara frá því við mættum þeim síðast. Það var ekki mikil ánægja með störf Steffi Jones og hún þótti ósannfærandi. Þýskaland hafði unnið 6 Evrópumót í röð en komst svo aðeins í 8-liða úrslit á síðasta EM. Tapið gegn Íslandi var mikill skellur og slakur árangur á SheBelieves æfingamótinu í byrjun árs var dropinn sem fyllti mælinn. Jones var rekin og reynsluboltinn Horst Hrubesch ráðinn inn til að klára þessa undankeppni.
Það er þegar búið að ráða Martina Voss-Tecklenburg til að taka við liðinu eftir þessa tvo leiki en hún er nú upptekin að stýra svissneska landsliðinu sem á í hörku baráttu við Skotland um að komast upp úr 2. riðli.
Þýska liðið hefur verið að rótera vel á leikmönnum í þessari undankeppni. Enginn leikmaður í þýska hópnum hefur t.a.m. náð að spila alla 6 leiki liðsins í undankeppninni. Bara tveir leikmenn hafa tekið þátt í 5 leikjum. Svo koma 11 leikmenn með 4 leiki og 8 leikmenn með 3.
Fyrirliði liðsins er vanalega hin magnaða Dszenifer Marozsán, leikmaður Evrópumeistara Lyon, en hún er ekki með í þetta skipti vegna meiðsla. Hún missti líka af fyrri leik liðanna og var þá sárt saknað. Annars hefur hún verið fastapunktur í þessu liði. Hún spilar vanalega mikilvæga rullu á miðjunni svo það er spurning hvernig Þýskaland leysir það.
Í þeim 2 leikjum til þessa í undankeppninni sem Marozsán hefur misst af þá hefur miðvörðurinn Babett Peter, samherji Söru Bjarkar hjá Wolfsburg, borið fyrirliðabandið.
Peter er reynsluboltinn í hópnum núna, hefur spilað 117 A-landsleiki, og skorað í þeim 8 mörk. Með henni í þýska hópnum er varnarmaðurinn Lena Goeßling sem hefur spilað 101 A-landsleik. Næst á eftir þeim kemur svo framherjinn baneitraði Alexandra Popp, líka úr Wolfsburg, með 88 leiki.
Popp er líka langmarkahæst þeirra leikmanna sem eru í hópnum, hún hefur skorað 41 landsliðsmark fyrir Þýskaland. Næsti leikmaður þar á eftir eru varnarmennirnir Peter og Maier og miðjumaðurinn Melanie Leupolz, allar með 8 mörk.
Þýskaland hefur skorað töluvert mikið af mörkum í þessari undankeppni. Þær hafa skorað 28 mörk í það heila. Markahæst í undankeppninni er Lea Schüller, leikmaður Essen í Þýskalandi, með 5 mörk. Það eru reyndar einu 5 mörkin sem hún hefur skorað á sínum landsliðsferli. Enda kannski ekki skrýtið þar sem þessi tvítugi leikmaður hefur aðeins spilað 8 landsleiki með A-landsliði Þýskalands.
Þrír leikmenn hafa svo skorað 4 mörk í undankeppninni en af þeim er aðeins Alexandra Popp í hópnum að þessu sinni. Það er ljóst að það verður að hafa miklar gætur á Popp en þó má alls ekki gleyma sér í því og missa þá af öðrum gæðaleikmönnum, eins og til dæmis Schüller.
Popp er ekki bara markadrottning þessa liðs heldur er hún líka öflug í að búa til mörk fyrir samherja sína. Hún er ein af þremur leikmönnum sem hefur gefið þrjár stoðsendingar í þessari undankeppni og eru stoðsendingahæstar í liðinu. Marozsán er önnur þeirra og svo er varnarmaðurinn Carolin Simon úr Lyon líka með 3 stoðsendingar.
Þýskaland hefur langoftast verið að spila 4-4-2 í undankeppninni. Helsta undantekningin frá því er þegar Ísland mætti til Þýskalands, þá var Þýskaland meira í 4-2-3-1. Það gæti hafa verið af því Marozsán vantaði í miðjurulluna eða af því Þýskaland var að spila gegn Íslandi. Hvort tveggja á aftur við í þetta skipti en í ljósi þess að það gekk ekkert alltof vel í þessari uppstillingu gegn Íslandi síðast þá er alveg spurning hversu líklegt þýska liðið er til að endurtaka þann leik.
Áfram Ísland!
Er ekki málið að rifja upp síðasta leik þessara liða?
Áfram Ísland!
Við viljum fara aftur til Frakklands. Allez, allez, allez!