Leikdagur: Lettland – Ísland

Íslenska kvennalandsliðið var í pásu frá undankeppninni fyrir helgina og spilaði þess í stað vináttuleik við Frakka. Á meðan nýtti sænska landsliðið tækifærið og komst upp fyrir það íslenska, reyndar bara á markatölu því liðin eru bæði með fullt hús stiga eftir fyrstu tvo leikina. Við viljum sjá okkar konur halda áfram á sömu braut og það er komið að næsta verkefni í leiðinni á EM í Englandi 2021.

A-landslið kvenna.
Undankeppnin fyrir EM 2021.
Þriðji leikur í F-riðli.
Þriðjudagurinn 8. október 2019,
klukkan 17:00 að íslenskum tíma (20:00 að staðartíma)

Lettland – Ísland

Völlur: Draugava Stadium í borginni Liep?ja á vesturströnd Lettlands. Völlurinn var fyrst tekinn í notkun árið 1925. Félagslið borgarinnar, FK Liep?ja, spilar sína heimavelli þarna. Árið 1992 var Eystrasaltsbikarinn spilaður í heild sinni á Draugava-vellinum. Árið 2014 voru 2 af 4 leikjum spilaðir á Draugava og bæði 1998 og 2016 var einn af 3 leikjum mótsins spilaður þar. Það komast 5.083 áhorfendur fyrir á vellinum. Frá vellinum eru aðeins 100 metrar að ströndinni.

Dómari: Vivian Peeters, frá Hollandi.


Dagskrá og veður

Leikurinn verður í þráðbeinni útsendingu á RÚV. Útsending fyrir leik hefst klukkan 16:30 og leikurinn sjálfur svo hálftíma síðar. Það ætti því að vera hægt að henda leiknum í gang á heimilum og vinnustöðum um allt land.

Fyrir þau ykkar sem viljið eitthvað gott að snæða og drekka með leiknum, en nennið ekki að útbúa það sjálf, þá bendum við enn sem fyrr á heimavöllinn okkar í Glæsibænum, sjálfan Ölver sportbar. Þar er alltaf tekið vel á móti ykkur.

Embed from Getty Images

Samkvæmt veðurspá fer hitinn í Liepaja upp í allt að 10 gráður yfir daginn en verður kominn niður í 8 gráður þegar leikurinn hefst. Það verður skýjað og raki í loftinu, gæti rignt en það verður þó ekki mikið rok, bara um 5-6 m/s.


Lettland

Staða á styrkleikalista FIFA: 92. sæti, upp um eitt sæti frá síðasta lista. Meðalstaða Lettlands á listanum er 86. sæti. Hæst fór Lettland í 61. sæti á árunum 2004 til 2006 en lægst í 107. sæti árið 2015.

Gengi í síðustu 10 leikjum: T S S S T T S S T T
Markatalan í síðustu 10 leikjum: 19-17

Landsliðsþjálfari: Didzis Mat?ss.
Landsliðsfyrirliði: Markvörðurinn Marija Ibragimova er fyrirliði þrátt fyrir að vera aðeins 23 ára gömul. Hún spilar með RFS í heimalandinu.

Lettland hóf leik í þessari undankeppni mjög vel og skoraði fyrsta markið gegn Svíþjóð í opnunarleiknum í riðlinum, strax á 14. mínútunni. Svíþjóð skoraði þó hins vegar næstu fjögur og endaði á að vinna öruggan sigur. Olga Ševcova skoraði mark Lettlands í þeim leik, sem var spilaður í Lettlandi. Olga þessi spilar með RFS (R?gas Futbola skola) í heimalandinu, rétt eins og fyrirliði liðsins.

Næsti leikur Lettlands í undankeppninni var líka heimaleikur, nú gegn Slóvakíu. Aftur skoruðu heimastúlkur fyrsta markið, nú enn fyrr í leiknum eða strax á 3. mínútu. Þar var á ferðinni Karl?na Miksone. Miksone er ungur leikmaður, fædd 2000, sem spilar ekki með RFS heldur FK Dinamo R?ga, sem er ríkjandi Lettlandsmeistari í fótbolta. Félagið stöðvaði þar með 6 ára sigurgöngu RFS, ekki viss um að Olga og Marija séu sáttar við landsliðsfélagann sinn þar.

Slóvakía náði hins vegar að jafna leikinn á 34. mínútu og hafði mikla yfirburði í fyrri hálfleik, allavega hvað marktilraunir snertir. Gestirnir höfðu átt 15 marktilraunir, þar af 8 á rammann, gegn 3 marktilraunum heimakvenna (sem allar hittu á rammann). Lettneska liðið náði ekki að bæta við marktilraun í seinni hálfleik, og þar af leiðandi ekki marki heldur, á meðan gestirnir frá Slóvakíu náðu að bæta við 17 marktilraunum í seinni hálfleik. Þar af hittu 7 á rammann og eitt þeirra reyndist verða sigurmark leiksins á 74. mínútu.

Það er því ljóst að Lettland er ekki öflugasta liðið sem Ísland mætir í þessum riðli en þær hafa þó sýnt að þær geta skorað gegn hverjum sem er. Þá verður að segjast að það er góð ástæða fyrir því að Marija Ibragimova er fyrirliðið liðsins því þrátt fyrir að hún hafi fengið á sig 6 mörk í 2 leikjum þá hefur hún staðið sig frábærlega. Hún er búin að verja hvorki meira né minna en 24 skot í þessum 2 leikjum. Það er rosalegt!


Ísland

Staða á styrkleikalista FIFA: 17. sæti, stendur í stað frá síðasta lista.

Gengi í síðustu 10 leikjum: J S J T S S J S S T
Markatala í síðustu 10 leikjum: 17-15

Landsliðsþjálfari: Jón Þór Hauksson.
Landsliðsfyrirliði: Sara Björk Gunnarsdóttir, frá Wolfsburg.

Leikjahæst: Katrín Jónsdóttir er leikjahæst í sögunni, með 133 A-landsleiki. Sara Björk Gunnarsdóttir kemur svo næst með 128 og Margrét Lára Viðarsdóttir í þriðja sætinu með 123.

Markahæst: Markavélin Margrét Lára er markahæst í sögunni, með 78 mörk fyrir A-landslið Íslands.

Ísland er búið að spila 2 heimaleiki í undankeppninni til þessa og ná í þeim í 6 góð stig. Fyrst var það 4-1 sigur á Ungverjalandi í lok ágúst og svo 1-0 sigur gegn Slóvakíu rétt hinum megin við mánaðamótin ágúst/september.

Embed from Getty Images

Elín Metta Jensen er markahæst íslensku leikmannanna, hún hefur skorað í báðum leikjunum til þessa, samtals 3 mörk. Hlín Eiríksdóttir og Dagný Brynjarsdóttir skoruðu hin mörkin fyrir Ísland.

Elín Metta er ekki aðeins markahæst í íslenska liðinu, hún er markahæsti leikmaður F-riðilsins. Ef öll undankeppnin er hins vegar tekin með eru 4 leikmenn búnir að skora 5 mörk og 2 komnir með 4 mörk. Elín Metta pakkaði vonandi skotskónum með fyrir ferðalagið til Lettlands því það væri gaman að sjá hana blanda sér í baráttuna um markahrók undankeppninnar.


Fyrri viðureignir

Þetta verður í fyrsta skiptið sem þessar þjóðir mætast hjá A-landsliðum kvenna.

Þjóðirnar hafa hins vegar þrisvar sinnum mæst í yngri landsliðum kvenna. Ísland hefur unnið allar viðureignirnar þrjár, samanlagt með markatölunni 16-1.

Fyrsti leikur þjóðanna var í undankeppni fyrir EM U19 árið 2004. Þarna voru stelpur fæddar 1985-87 að spila og þetta var fyrsti leikur Íslands í undanriðli í undankeppni um að komast á EM U19 í Finnlandi. Leikurinn var spilaður 23. september 2003 og Ísland vann öruggan sigur. Harpa Þorteinsdóttir skoraði 2 mörk í leiknum, Greta Mjöll Samúelsdóttir og Dóra María Lárusdóttir skoruðu eitt mark hvor í 4-0 sigri. Meðal annarra leikmanna Íslands í þessum leik voru Guðbjörg Gunnarsdóttir, Hallbera Gísladóttir og Sif Atladóttir.

Ísland vann alla leikina í þessum riðli og fór áfram í milliriðil undankeppninnar. Þar vann íslenska liðið sigra á Ungverjalandi og Póllandi en tapaði gegn Þýskalandi og sat eftir því aðeins efsta liðið í riðlinum komst á lokamótið. Þýskaland fór þangað og alla leið í úrslitaleikinn, þar sem þær þýsku töpuðu mjög óvænta gegn Spánverjum. Þjóðverjar höfðu farið í gegnum þrjá leiki í sínum riðli auk leiks í undanúrslitum með því að vinna þá alla án þess að fá á sig mark en skorað sjálfar 23 mörk. Þar af komu 7 gegn Spánverjum í riðlakeppninni, að vísu þegar bæði lið voru komin áfram úr riðlinum. Spánverjar unnu hins vegar úrslitaleikinn 2-1 og fögnuðu því sigri á mótinu.

En aftur að Íslandi og Lettlandi. Næsti leikur yngri kvennalandsliða þjóðanna fór fram 17. september 2007, í undankeppni fyrir EM U17 2008. Ísland komst í þessum leik í 7-0 áður en Lettland náði að skora eitt sárabótamark úr víti í lok leiks. Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði 5 mörk í leiknum, Dagný Brynjarsdóttir skoraði eitt og Sigrún Inga Ólafsdóttir eitt. Þarna voru á ferð stelpur fæddar 1991-92, á meðal leikmanna voru Dagný Brynjarsdóttir og Berglind Björg.

Ísland vann líka alla leikina í þessum riðli, með markatöluna 15-1. Á meðan tapaði Lettland öllum sínum leikjum og endaði með markatöluna 2-12. Í næstu riðlakeppni undankeppninnar lenti Ísland í sterkum riðli ásamt Finnlandi, Rússlandi og Danmörku. Danirnir unnu þann riðil á meðan Ísland tapaði öllum leikjunum í þetta skiptið. Danirnir fóru upp úr þessum riðli í undankeppninni og beint í undanúrslit lokamótsins. Þar töpuðu þær dönsku fyrir verðandi Evrópumeisturum Þýskalands. Þær náðu þó í sárabótasigur í leiknum um bronsið við England.

Síðast þegar Ísland og Lettland mættust í kvennaflokki var 30. júlí 2013 þegar liðin spiluðu fyrsta leiknum í undankeppni fyrir EM U17 2014. Enn vann Ísland öruggan sigur, í þetta skiptið 5-0. Ester Rós Arnarsdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir skoruðu báðar 2 mörk og Lillý Rut Hlynsdóttir skoraði eitt.

Í þetta skiptið vann Ísland ekki alla leikina sína í riðlinum í undankeppninni. Þær unnu 2 og gerðu 1 jafntefli. Það var hins vegar nóg þar sem bæði Ísland og Ungverjaland fóru áfram úr riðlinum með 7 stig. Í næsta riðli endaði Ísland í 3. sæti en Spánn vann þann riðil og fór á lokamótið í Englandi. Ekki bara það heldur fór Spánn alla leið í úrslitaleikinn en tapaði þar í vítaspyrnukeppni gegn Þýskalandi.


Dómarahornið

Vivian Peeters dæmir þennan leik. Hún dæmir í hollensku úrvalsdeildinni og hefur einnig verið að dæma í Meistaradeild Evrópu auk þess að dæma landsleiki á hinum ýmsu stigum.

Embed from Getty Images

Peeters á ekki langt að sækja knattspyrnudómaraáhugann því pabbi hennar var líka knattspyrnudómari. Peeters hefur dæmt leiki hjá bæði kvenna- og karlaliðum í Hollandi og er reynslumikill dómari.

Með Peeters verða aðstoðardómararnir Fijke Hoogendijk og Bianca H.P. Scheffers, líka frá Hollandi.


Áfram Ísland!