Leikdagur: Ísland – Frakkland

Eftir svekkjandi skell í síðasta leik gegn Albaníu er komið að næsta leik í undankeppninni fyrir EM alls staðar. Nú fáum við tvo heimaleiki í röð og sá fyrri er ekki gegn neinum aukvissum heldur sjálfum heimsmeisturunum. Nú þurfa strákarnir okkar svo sannarlega stuðning.

A-landslið karla,
undankeppnin fyrir EM 2020.
7. umferð í H-riðli.
Föstudagurinn 11. október 2019,
klukkan 18:45.

Ísland – Frakkland

Völlur: Laugardalsvöllurinn okkar. Verður væntanlega pakkfullur völlur og fólk tilbúið að hvetja okkar menn gegn heimsmeisturunum.

Dómari: Gianluca Rocchi frá Ítalíu.


Dagskrá og veður

Það er gott að halda í góðar og skemmtilegar hefðir og fáar hefðir eru jafn góðar og skemmtilegar og sú hefð að mæta á Ölver fyrir fótboltalandsleiki Íslands, sér í lagi heimaleikina. Þar njótum við þess að eiga góða stund saman, hittum vini og kunningja sem deila fótboltaáhuganum, njótum þess að smakka á góðum veitingum og hitum okkur vel upp fyrir komandi hvatningarátök í stúkunni. Það verður engin breyting á í þetta skiptið! Enda algjör óþarfi að breyta því sem vel gengur.

View this post on Instagram

@sportbarinn

A post shared by Sportbarinn Ölver (@sportbarinn) on

Við mætum á Ölver eins fljótt og fólk losnar úr vinnum (mælum alveg með því að taka frí eftir hádegið, just sayin’) og byrjum að fylla okkur af keppnisskapi og hátíðaranda. Þar munum við rifja upp helstu lögin, sjá hvort við getum búið til ný og skemmtileg lög (ég vil enn meina að Kolli mark! við heilalímið Baby shark sé skothelt stuðningslag) og förum svo í halarófu niður á heimavöllinn okkar. Freysi mætir með sinn töflufund að vanda. Mælum með að þið finnið viðburðinn á Facebook og skoðið tímasetningar þar.

Síðan er auðvitað aðalmálið að mæta vel og tímanlega í stúkuna og láta heyra í okkur. Áfram Ísland!

Það spáir skýjuðu en líklega verður rignir þó ekki mikið (þótt við vitum jú aldrei með þetta haustveðurfar á Íslandi). Hitastigið verður 3-5 gráður og það verður 3 m/s af austanátt.


Ísland

Staða á styrkleikalista FIFA: 41. sæti, niður um 5 sæti frá fyrri lista. Ísland hefur ekki verið svona neðarlega á styrkleikalistanum frá 2014.

Gengi í síðustu 10 leikjum: T J J J S T S S S T
Markatala í síðustu 10 leikjum: 14-15

Landsliðsþjálfari: Erik Hamrén.
Landsliðsfyrirliði: Kafteinn Aron Einar Gunnarsson er fastur landsliðsfyrirliðið Íslands. Hann lenti hins vegar í meiðslum um daginn þegar hann varð fyrir ljótri tæklingu og sleit liðband í ökkla. Það verður því að treysta á varafyrirliðann okkar. Kolbeinn Sigþórsson var varafyrirliði hjá Lars og Heimi en Gylfi Þór er okkar helsti varafyrirliði þessa dagana, hann mun bera bandið.

Embed from Getty Images

Leikjahæstur: Íslandsmeistarinn Rúnar Kristinsson er ennþá leikjahæstur í sögunni. Það mun einhvern tímann koma að því að hann missir þetta met sitt en það verður allavega ekki alveg strax. Fyrst þurfa menn að ná 100 leikjum og það eru tveir leikmenn sem vantar 10 leiki upp á að ná því. Raggi Sig og Birkir Már eru báðir í 90 leikjum eins og er.

Markahæstur: Eiður Smári mun sennilega missa sitt markamet áður en Rúnar Kristins missir leikjametið sitt. Eiður er í 26 mörkum á meðan Kolbeinn Sigþórsson, sá mikli markahrókur, skoraði 2 mörk í síðasta glugga og vantar nú aðeins eitt mark til að jafna Eið Smára.

Embed from Getty Images

Gengi Íslands í þessari undankeppni hefur verið gloppótt. Í fyrsta leik kom óþarflega torsóttur, en samt heilt yfir öruggur, sigur gegn Andorra á útivelli með 2 mörkum gegn engu. Síðan kom stórt tap gegn Frökkum í Frakklandi, 4-0 urðu lokatölur þar sem Frakkarnir gengu á lagið undir lokin og bættu við mörkum. Dýrt.

Júníglugginn var mjög góður, þá kom fyrst 1-0 sigur á Albaníu og svo mjög góður 2-1 sigur gegn Tyrkjum. Eina tap Tyrkja í riðlinum til þessa. Síðasti gluggi var ekki eins góður. Að vísu kom öruggur 3-0 sigur gegn Moldóvu en svo fylgdi svekkjandi tap í Albaníu eftir að Ísland hafði náð að jafna metin tvisvar.

Ísland er því í þriðja sæti riðilsins sem stendur, með 12 stig eftir 6 leiki og markatöluna 10-9. Það eru 3 stig upp í 1. og 2. sætið en líka 3 stig niður í 4. sætið.

Markahæstu leikmenn okkar í undankeppninni til þessa eru Birkir Bjarna, Kolbeinn Sigþórs og Raggi Sig, allir með 2 mörk.


Frakkland

Hér er upphitunarpistill síðan úr fyrri viðureign liðanna í H-riðli.

Staða á styrkleikalista FIFA: 2. sæti. Heimsmeistararnir eru á eftir Belgum á styrkleikalistanum.

Gengi í síðustu 10 leikjum: S T S S S S T S S S
Markatalan í síðustu 10 leikjum: 24-7

Landsliðsþjálfari: Didier Deschamps. Deschamps er aðeins þriðji maðurinn í sögunni sem nær að vinna heimsmeistaratitilinn bæði sem leikmaður og þjálfari landsliðs. Brasilíumaðurinn Mário Zagallo vann heimsmeistaratitilinn sem leikmaður bæði 1958 og 1962. Hann var í byrjunarliði Brasilíu í öllum leikjum í báðum keppnum, skoraði í úrslitaleiknum 1958 og fyrsta leik Brasilíu á mótinu 1962. Árið 1970 vann hann svo heimsmeistaratitilinn sem þjálfari, aðeins 38 ára gamall. Hann var svo aðstoðarþjálfari brasilíska landsliðsins sem vann heimsmeistaramótið í Bandaríkjunum 1994.

Hinn þýski Franz Beckenbauer vann heimsmeistaramótið 1974 sem leikmaður með Vestur-Þýskalandi. Hann var svo þjálfari þýska liðsins sem fór í úrslitaleikinn 1986 og tapaði honum en náði síðan að koma fram hefndum gegn Argentínu á Ítalíu 1990.

Deschamps er því í góðum félagsskap, hann vann heimsmeistarakeppnina 1998 sem leikmaður og 20 árum síðar sem þjálfari. Deschamps spilaði 103 A-landsleiki fyrir Frakkland og skoraði í þeim 4 mörk. Fyrstu 3 mörkin komu á fyrstu 2 árum hans í landsliðinu en á síðustu 10 landsliðsárum hans skoraði hann bara eitt mark. Enda var hlutverk hans meira að verja vörnina, brjóta sóknir andstæðinganna niður og gefa sóknarsinnaðri mönnum fyrir framan sig frelsi til að sækja. Það gerði hann afskaplega vel.

Landsliðsfyrirliði: Hugo Lloris, leikmaður Tottenham Hotspur. Lloris spilaði með Lyon árið 2008 þegar hann var fyrst valinn í A-landslið Frakka. Hann hefur síðan spilað 114 landsleiki og er í fjórða sæti yfir leikjahæstur leikmenn frá upphafi. Hann er óðum að nálgast Marcel Dessailly, sem spilaði 116 A-landsleiki á sínum ferli. Það gerir hann þó ekki í þessari viðureign því eins og Aron Einar missir hann af þessum leik vegna meiðsla. Hann fór úr olnbogalið í síðasta leik með Tottenham.

Sá sem hefur verið varafyrirliði franska landsliðsins er varnarjaxlinn Raphaël Varane, leikmaður Real Madrid. Varane hefur spilað 60 A-landsleiki fyrir Frakkland.

Embed from Getty Images

Leikjahæstur: Lillian Thuram spilaði 142 landsleiki á sínum ferli. Það er hellingur af leikjum. Til að setja það í smá samhengi þá hafa Kári Árna og Hannes Þór spilað 142 A-landsleiki saman. Sömuleiðis Ari Freyr og Jóhann Berg. Af núverandi leikmönnum franska liðsins hefur Lloris spilað flesta leiki, eins og áður var minnst á. Hans 114 A-landsleikir eru það sama og Gylfi Þór og Jón Daði eiga til samans. Af núverandi leikmönnum sem eru heilir og tilbúnir í verkefnið hefur Olivier Giroud spilað flesta leiki, eða 93 samtals (jafn marga og Hannes Þór og Arnór Ingvi til samans).

Markahæstur: Thierry Henry er markahæsti leikmaður í sögu franska liðsins, hann skoraði 51 landsliðsmark í 123 landsleikjum. Michel Platini er í öðru sæti, með 41 mark í 72 leikjum. Í þriðja sæti er svo Oliver Giroud með 36 mörk í 93 landsleikjum. Giroud er sá eini af þessum 3 sem hefur náð að skora mark gegn Íslandi. 3 af hans 36 mörkum hafa komið í leikjum gegn Íslandi. Hann þarf alls, alls ekkert að gera neitt meira af því.

Embed from Getty Images

Frakkland byrjaði þessa undankeppni mjög vel, eftir fyrstu tvo leikina var liðið komið með sex stig og markatöluna 8-1. Svo tóku Frakkarnir upp á þeim óskunda að tapa mjög sanngjarnt fyrir Tyrkjum í Tyrklandi, 2-0. Í næstu tveimur leikjum eftir það var uppskeran aftur sex stig og markatala upp á 8-1. Í síðasta leik var svo ekkert kæruleysi á ferðinni hjá frönskum þegar þeir sigruðu Andorra örugglega með 3 mörkum gegn engu.

Frakkar eru því í öðru sæti riðilsins, með 15 stig eftir 6 leiki rétt eins og Tyrkir sem eru í efsta sæti. Frakkar eru að vísu með töluvert betri markatölu en Tyrkirnir, 19-4 gegn 14-2, en Tyrkirnir eru ofar á innbyrðisviðureign.

Markahæstir hjá Frökkum í þessari undankeppni eru Kingsley Coman, Olivier Giroud og Kylian Mbappé með 3 mörk hver.


Fyrri viðureignir

Þar sem þetta er alls ekki fyrsti gameday-pistillinn sem tengist þessu franska karlalandsliði þá hefur áður verið farið nokkuð vel í gegnum fyrri viðureignir þessara liða, allavega þegar kemur að A-landsliðum.

Ég ákvað því að víkka aðeins leitina og skoða alla landsleiki karlamegin, upp öll yngri landsliðin líka. Samtals hafa þessi lið mæst 35 sinnum. Frakkland hefur yfirburði í úrslitum, hafa unnið 25 af þessum leikjum. 9 sinnum hafa okkar menn og strákar náð í öflug jafntefli og einu sinni hefur það gerst að íslenskt kk-landslið hefur unnið franskt.

Það gerðist 5. september 2015 þegar U21-landslið þjóðanna mættust í undankeppninni fyrir EM 2017. Oliver Sigurjónsson skoraði þá tvö mörk og Hjörtur Hermannsson eitt í glæsilegum 3-2 sigri. Ísland byrjaði þessa undankeppni af miklum krafti.

Morgunblaðið, 7. september 2015

Daginn eftir þennan frábæra sigur U21-landsliðsins tryggði A-landslið Íslands sér flugmiða til Frakklands á EM 2016 með markalausu jafntefli á Laugardalsvellinum gegn Kasakstan. Hvílíkar minningar!


Dómarahorn

Dómarinn Gianluca Rocchi er mikill reynslubolti í faginu. Hann fæddist í Flórens á Ítalíu 25. ágúst 1973 svo hann fagnaði 46 ára afmæli sínu í sumar. Fyrir 2015 máttu alþjóðlegir dómarar ekki dæma eftir að þeir urðu 45 ára en núna eru engin efri mörk á knattspyrnudómurum. Þeir dómarar sem eru orðnir 45 ára geta þó þurft að fara í gegnum sérstök hæfnis- og þrekpróf til að fá að dæma leiki áfram. Rocchi virðist ekki eiga í neinum vandræðum með þau.

Embed from Getty Images

Rocchi hóf að dæma í ítölsku C-deildinni árið 2000, dæmdi í B-deildinni á árunum 2003 til 2010 og hefur dæmt í A-deildinni frá 2004. Hann varð alþjóðlegur FIFA-dómari árið 2008 og hefur verið hluti af elítudómurum UEFA frá árinu 2010. Rocchi hefur dæmt á öllum mögulegum vettvöngum knattspyrnudómarans og ætti að ráða við þetta verðuga verkefni.


Áfram Ísland!