Vellirnir: Stade de Nice (Allianz Riviera)

Íslenska karlalandsliðið lét sér ekki nægja að taka þátt í riðlakeppninni á sínu fyrsta stórmóti heldur bætir í það minnsta einum leik við til viðbótar. Og einum nýjum velli. En aðeins einum nýjum velli. Ef Ísland fer lengra í mótinu þá heimsækir liðið aftur velli sem það var búið að spila á. Fyrst Saint-Denis, þá Marseille og loks aftur Saint-Denis. En fyrst er það Allianz Riviera völlurinn í Nice.

Völlurinn í Nice
Völlurinn í Nice

Grunnupplýsingarnar

Nafn: Allianz Riviera
Gælunafn: Stade De Nice (þetta nafn er notað á EM vegna auglýsingasamninga)
Áhorfendur: 35.624
Vallarflötur: 105 m x 68 m (sama og Laugardalsvöllur og vellirnir í Saint-Étienne og Marseille)
Vallaryfirborð: Náttúrulegt gras

Opnaði: 2013
Fjöldi leikja á EM ’16: 4 (3 leikir í riðlakeppninni og 1 leikur í 16-liða úrslitum)

Heimilisfang vallarins:
Boulevard des Jardiniers, 06200
Nice, Frakkland

Boulevard des Jardiniers þýðir breiðstræti garðyrkjumannanna.

AllianzRiviera02

Völlurinn sjálfur

Völlurinn er heimavöllur knattspyrnufélagsins OGC Nice sem endaði í 4. sæti frönsku úrvalsdeildarinnar á síðastliðnu tímabili.

Völlurinn er mjög umhverfisvænn. Það eru yfir 4.000 sólarrafhlöður sem sjá vellinum fyrir rafmagni, nýtir jarðvarma til upphitunar og regnvatn til að vökva völlinn.

Haldin var kosning um nöfnin á stúkunum fjórum á leikvanginum. Að lokum var niðurstaðan sú að stúkurnar heita:

  • Garibaldi. Austurstúkan, heitir eftir Giuseppe Garibaldi sem var ítalskur hershöfðingi, pólitíkus og byltingarleiðtogi sem átti stóran þátt í að sameina Ítalíu. Hann fæddist í Nice og þótti alltaf leiðinlegt að sjá á eftir fæðingarborg sinni í hendur Frakka.
  • Ségurane. Vesturstúkan, heitir eftir Catherine Ségurane en hún er mikil hetja í sögu Nice borgar. Sumarið 1543 var Nice umsetin tyrkneskum her og stóð tæpt hvort borgin myndi falla. Ségurane er þá sögð hafa leitt vörn heimamanna með því að mæta Tyrkjunum og sýna þeim beran afturendann á sér. Samkvæmt þjóðsögunni ofbauð þessi verknaður Tyrkjunum svo mikið að þeir flúðu. Sagan, sem og tilvist Catherine Ségurane, er óstaðfest en það er algjör óþarfi að láta góða sögu gjalda sannleikans.
  • Ray. Norðurstúkan, heitir eftir Stade du Ray sem var heimavöllur OGC Nice á árunum 1927-2013, áður en liðið flutti sig á þennan völl.
  • Populaire sud. Suðurstúkan, heitið einfaldlega lýsir því hvernig stúkan liggur og hversu vinsæl hún er.

allianzriviera03

Allianz Riviera er sjötti stærsti knattspyrnuvöllur Frakklands.  Á leikvanginum er einnig Íþróttasafn Frakklands, Musee National du Sportsem var flutt þangað frá París þegar völlurinn opnaði árið 2013. Í safninu eru yfir 45.000 gripir og rúmlega 400.000 skjöl.

Stemningin

Stemningin getur alveg verið hin fínasta á þessum leikvangi.

Vissulega verða íslenskir stuðningsmenn í miklum minnihluta í stúkunni, þvi miður. En hvað með það? Ísland er langminnsta þjóðin sem hefur farið á stórmót. Við erum vön því að komast langt á fáum, þeir sem fara í stúkuna geta alveg látið finna fyrir sér með söng og stuðning á lofti. Legg til að allt okkar góða stuðningsfólk sem er á leið í stúkuna horfi á þessa senu úr kvikmyndinni 300 og noti hana til að fyllast innblæstri og eldmóði:

Sagan

Allianz Riviera, Stade De Nice, var byggður sérstaklega fyrir þetta mót. Reyndar hafði bygging nýs vallar í borginni verið á dagskránni í nokkurn tíma áður en framkvæmdir hófust. Árið 2002 var hætt við að endurbyggja Stade du Ray, þáverandi heimavöll OGC Nice. Árið 2005 voru síðan kynnt drög að byggingu nýs vallar. Upphaflega átti hann að vera tilbúinn árið 2007 en það tafðist vegna óvissu um framtíðarkostnað af vellinum. Þegar Frakkland sóttist svo eftir því að fá að halda þessa keppni voru teikningarnar af þessum nýja velli sóttar inn í geymslu og settar með í áætlun Frakkanna ef þeir fengju keppnina til sín. Árið 2011 hófust svo framkvæmdir við völlinn og hann var opnaður í september árið 2013.

allianzriviera04

Ólíkt mörgum öðrum völlum er náttúrulegt gras á vellinum. Það var sérstaklega ræktað á söndugum jarðvegi í Bordeaux og svo flutt í sérstaklega kældum flutningabílum yfir til Nice. Fjarlægðin á milli þessara staða er u.þ.b. 810 kílómetrar, það er ágætis rúntur. Allt undirlag vallarins er líka sérstaklega hannað til að reyna að ná fram hámarksgæðum í grasið sjálft. Þannig er reynt að hugsa fyrir því að afrennsli sé gott og þá var hannað sérstakt kerfi undir vellinum svo það loftar um jarðveginn neðan frá, það er talið að það það bæti endingu vallarins til muna.

allianzriviera05

Völlurinn er margnota, þar geta einnig farið fram rúgbíleikir, tónleikar og ýmis konar viðburðir. Fyrstu stóru tónleikarnir munu fara fram 15. júlí næstkomandi þegar Rihanna heldur þar tónleika í Anti World Tour tónleikaferðalagi sínu.

EM ’16

Ólíkt hinum völlunum sem Ísland hefur spilað fótbolta á í þessu móti þá hafði þessi völlur enga reynslu af stórmótum fyrir þetta EM. Leikur Íslands gegn Englandi verður fjórði leikurinn á EM sem verður spilaður á vellinum og jafnframt sá síðasti.

Fyrsti leikurinn sem var spilaður á Stade De Nice var viðureign Póllands og Norður-Írlands í C-riðli þann 12. júní. Fyrir leikinn hittust stuðningsmenn liðanna og voru gríðarlega hressir þar sem þeir skiptust á að syngja stuðningslögin sín.

Pólland hafði betur í þessum leik en þurfti að hafa fyrir því. Eina mark leiksins skoraði Arkadiusz Milik, sóknarmaður Ajax.

Á 17. júní var næsti leikur spilaður á vellinum, það var leikur Spánverja og Tyrkja í 2. umferð D-riðils. Fyrir leikinn hittust stuðningsmannahópar beggja landa en það var ekkert vesen, bara söngur og kátína. Eins og ætti alltaf að vera!

Spánverjarnir áttu ekki í miklum vandræðum með að vinna leikinn, hann endaði 3-0 fyrir Evrópumeistarana.

Þriðja mark Spánar var sérstaklega glæsilegt. Þá spiluðu leikmenn liðsins boltanum 21 sinni á milli sín og opnuðu svo vörn Tyrklands upp á gátt.

Í seinni hálfleik voru stuðningsmenn Tyrklands ekki sáttir við fyrirliða sinn, Arda Turan, og fóru að baula á hann ásamt því að syngja „Arda d??ar?“ (e. Arda out!). Spænskir stuðningsmenn brugðust við því með því að syngja nafn Turan og klappa fyrir honum.

Þriðji leikurinn á vellinum var milli Svía og Belga í lokaumferð E-riðils. Sá leikur var spilaður 22. júní, sama dag og Ísland vann Austurríki. Stuðningsmenn beggja liða höfðu það næs í Nice fyrir leik.

Þetta var síðasti leikur Zlatan en hann náði ekki að koma í veg fyrir belgískan sigur, 1-0 fyrir Belgíu.

Til þessa hafa verið skoruð 5 mörk á þessum velli, sum hver bara þó nokkuð lagleg. Í öllum 3 leikjunum hefur bara annað liðið séð um að skora mark/mörk. Ef það heldur áfram þá viljum við auðvitað að það verði okkar menn sem sjái um markaskorunina.