Leikdagur: Ísland – England

16-liða úrslit í lokakeppni EM. 16 bestu karlalandslið Evrópu. Síðasti leikurinn í 16-liða úrslitum, þarna kemur í ljós hvaða lið verður síðast til að tryggja sig inn í 8-liða úrslitin. Í bláa horninu, víkingarnir frá Íslandi. Í hvíta horninu, ljónin frá Englandi. Nú verður allt gefið í þetta. Okkar menn eru ekki saddir, þeir vilja meira. Þeir eru enn hungraðir. Þá langar í ljónasteik. Verði ykkur að góðu!

engisl01

Evrópukeppni karla í knattspyrnu 2016, í Frakklandi
16-liða úrslit
Mánudagurinn 27. júní
klukkan 19:00 að íslenskum tíma, 21:00 að staðartíma

England – Ísland

Völlur: Stade De Nice (Allianz Riviera) í Nice. Tekur 35.624 áhorfendur.
Sjá upphitunarpistil um völlinn hérna.


Dómari: Damir Skomina, slóvenskur
Aðstoðardómarar: Jure Praprotnik og Robert Vukan, slóvenskir
Sprotadómarar: Matej Jug og Slavko  Vin?i?, líka slóvenskir
4. dómari: Carlos Velasco Carballo, frá Spáni

Damir Skomina fæddist 5. ágúst 1976 í borginni Koper í suðvesturhluta Slóveníu (sem þá var hluti af Júgóslavíu). Hann hóf að dæma í Slóveníu rétt eftir að landið sagði sig úr Júgóslavíu, árið 1992. Árið 2000 var hann farinn að dæma leiki í efstu deild og árið 2003 var hann orðinn alþjóðlegur FIFA-dómari.

Skomina hefur dæmt í hinum ýmsu stórmótum. Hann dæmdi til að mynda 3 leiki í lokakeppni EM 2012, dæmdi ofurbikarinn í Evrópu árið 2012, var fjórði dómari í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu árið 2013 auk þess að hafa dæmt í undankeppnum stórmóta landsliða, dæmt í Evrópukeppnum félagsliða og mörgum stórmótum yngri landsliða.

Þetta verður 3. leikurinn sem hann dæmir hjá íslensku landsliði. Fyrsti leikurinn sem hann dæmdi var sunnudaginn 28. september 2003 þegar U17 lið Íslands mætti Rússlandi í lokaleiknum í undankeppni EM 2004. Meðal leikmanna í íslenska liðinu í þeim leik voru Ari Freyr Skúlason og fyrirliðinn Theodór Elmar Bjarnason. Theodór var einn þriggja leikmanna Íslands sem fékk gult spjald í leiknum en einn Rússi fékk hins vegar rautt spjald, á 49. mínútu. Leikurinn endaði þó 0-0.

Næsti leikur sem hann dæmdi hjá Íslandi var miðvikudaginn 8. júní 2005. Þá mætti A-landslið karla Möltu í undankeppni HM 2006. Sá leikur var spilaður fyrir framan 4.887 áhorfendur á Laugardalsvellinum. Eiður Smári Guðjohnsen var fyrirliði Íslands í leiknum en auk hans var Kári Árnason á miðjunni. Ísland vann leikinn, 4-1. Eiður Smári skoraði annað mark Íslands sem var hans 15. landsliðsmark fyrir Ísland, þar með fór hann uppfyrir föður sinn, Arnór, og Ríkharð Daðason sem báðir skoruðu 14 mörk fyrir Ísland. Þetta var eini sigur Íslands í þessari undankeppni, eina stigið sem liðið náði sér í til viðbótar var úr markalausu jafntefli gegn Möltu á útivelli.

Þetta er einnig þriðji leikurinn sem Skomina dæmir á þessu móti. Fyrsti leikurinn sem hann dæmdi var leikur Rússa og Slóvaka í 2. umferð B-riðils. Sá leikur endaði 2-1 fyrir Slóvaka. Slóvakinn Ján ?urica fékk eina gula spjald leiksins og Skomina fékk heilt yfir góða dóma fyrir hans frammistöðu í leiknum. Annar leikur Skomina á mótinu var leikur Frakklands og Sviss í 3. umferð A-riðils, Púmatreyjuleikurinn mikli. Ekkert mark var skorað í þeim leik. Adil Rami og Laurent Koscielny hjá Frakklandi fengu gulu spjöld leiksins. Skomina fékk ekki jafngóða dóma fyrir þennan leik. Helst var hann gagnrýndur fyrir að hafa ekki nógu góð tök á leiknum, fyrir að veita leikmönnum ekki tiltal og leyfa þeim of mikið að komast upp með peysutog og barning, til dæmis í föstum leikatriðum.

Þá hafa aðstoðardómarar Skomina, þeir Jure Praprotnik og Robert Vukan, verið gagnrýndir í báðum leikjunum fyrir að vera ekki alltaf með staðsetningar á hreinu og missa af augljósum atvikum sem hefði átt að dæma á.

engislrefs

Upphitanir, Frakkland og Reykjavík

Við bendum öllum Íslendingum í Nice, bæði þeim sem eru á leið á völlinn og hinum sem eru staddir þarna í nágrenninu,  á Fanzone Nice borgar. Það er staðsett nokkurn spöl frá vellinum svo það borgar sig að mæta snemma þangað og fara tímanlega þaðan yfir á völlinn.

engislFanzone

EM torgið á Ingólfstorgi hefur verið samkomustaður þeirra sem vilja almennilega hópstemningu yfir leikjunum og eru á höfuðborgarsvæðinu. Ingólfstorg er samt sprungið yfir leikjum Íslands á mótinu svo EM torgið verður flutt á Arnarhól fyrir þennan leik. Hressar Tólfur ætla að hittast á The Dubliner klukkan 15:00, hita vel upp þar og halda svo yfir á Arnarhól um 17:30. Við hvetjum alla sem eru á svæðinu til að mæta og hafa gaman í góðum félagsskap.

Við reiknum með svona fjölda og enn meiri stemningu yfir þessum leik
Við reiknum með svona fjölda og enn meiri stemningu yfir þessum leik

England

And did those feet in ancient time
walk upon England’s mountains green?

– úr ljóðinu Jerusalem eftir William Blake

Enska landsliðið

England
Enska landsliðið fyrir fyrsta leik á EM, gegn Rússum

Stjóri: Roy Hodgson
Fyrirliði: Wayne Rooney
Leikjahæstur: Peter Shilton, 125 leikir (leikjahæstur núverandi leikmanna er Wayne Rooney. Hann spilar í þessum leik sinn 115. landsleik og jafnar þar með David Beckham í 2. sæti yfir leikjahæstu leikmenn enska landsliðsins)
Markahæstur: Wayne Rooney, 52 mörk

Staða á styrkleikalista FIFA: 11. sæti
Staða á styrkleikalista UEFA: 3. sæti
Gengi í síðustu 10 leikjum: T S S T S S S J S J
Markatala í síðustu 10 leikjum: 14-10

England 2
Enska liðið fyrir 2. leikinn á EM, gegn Wales

Hvað getur maður sagt um enska karlalandsliðið í fótbolta? Langflestir sem hafa einhvern áhuga á knattspyrnu þekkja hvern einasta leikmann í þessu liði. Þetta eru leikmenn sem við fylgjumst með reglulega og höfum ýmsar skoðanir á þeim.

England er eina Evrópuþjóðin sem hefur unnið Heimsmeistarakeppnina en ekki Evrópukeppnina. Besti árangur Englands á EM eru undanúrslitin, þangað komst liðið árið 1968 og aftur árið 1996.

England er núna að taka þátt í sinni 9. Evrópukeppni. Í 4 af hinum 8 komst liðið ekki upp úr riðlinum sínum. Í hinum keppnunum hefur England alls spilað 5 leiki í útsláttarkeppninni og tapað 4 þeirra.

Eini leikurinn sem England hefur unnið í útsláttarkeppni í lokamóti EM var gegn Spáni í 8-liða úrslitum 1996, þegar England spilaði á heimavelli. Merkilegt nokk þá kom sá sigur í vítaspyrnukeppni eftir 0-0 leik í venjulegum leiktíma plús framlengingu. Englendingarnir Shearer, Platt, Pearce og Gascoigne nýttu allir sínar spyrnur en Hierro og Nadal klúðruðu spyrnum fyrir Spánverja.

Leikirnir sem England hefur tapað í útsláttarkeppni EM eru:

EM 1968 – gegn Júgóslavíu
England var eitt 4 liða sem komst í úrslitakeppni EM en tapaði í undanúrslitum fyrir Júgóslavíu. Dragan Džaji? skoraði eina mark leiksins, á 87. mínútu. England vann hins vegar Sovétríkin í leiknum um 3. sætið með mörkum frá Bobby Charlton og Geoff Hurst.

EM 1996 – gegn Þýskalandi
England var með frábært lið á þessu móti, líklega eitt skemmtilegasta landslið sem England hefur átt. Alan Shearer kom Englandi yfir strax á 3. mínútu en Stefan Kuntz jafnaði fyrir Þjóðverja á 16. mínútu. Svo fóru liðin í gegnum venjulegan leiktíma og framlengingu en ekkert meira var skorað. Vítaspyrnukeppni, í annað skipti sem Englendingar fóru í vító í keppninni. Þjóðverjar eru þó ekki þekktir fyrir að klúðra mörgum vítaspyrnukeppnum, þeir skoruðu úr fyrstu 6 spyrnum sínum. Shearer, Platt, Pearce, Gascoigne og Sheringham skoruðu úr fyrstu 5 spyrnum Englendinga en Gareth Southgate  varð skúrkur Englendinga í leiknum þegar hann klúðraði sinni spyrnu.

EM 2004 – gegn Portúgal
England mætti Portúgal í 8-liða úrslitum á EM 2004. Aftur komst England yfir á 3. mínútu leiksins, í þetta skiptið eftir mark frá Michael Owen. Það stefndi allt í enskan sigur þegar varamaðurinn Hélder Postiga jafnaði leikinn á 83. mínútu. Í framlengingu kom Rui Costa Portúgal yfir en Frank Lampard jafnaði. Aftur vító. David Beckham byrjaði á að dúndra sinni spyrnu yfir markið en hann andaði tímabundið léttar stuttu síðar þegar Rui Costa setti sína spyrnu líka yfir. Bæði lið settu 5 af fyrstu 6 spyrnum í markið, Englendingar settu flestir sínar spyrnur á mitt markið. Owen, Lampard, Terry, Hargreaves og Ashley Cole skoruðu fyrir England. Í 2. umferð bráðabanans varði Ricardo í marki Portúgals spyrnu frá Darius Vassell. Ricardo tók svo sjálfur 6. spyrnu Portúgals og skoraði. England úr leik.

EM 2012 – gegn Ítalíu
England mætti Ítalíu í 8-liða úrslitum á EM 2012. Ekkert mark var skorað í venjulegum leiktíma eða í framlengingu svo enn einu sinni fór England í vítaspyrnukeppni. Gerrard og Rooney skoruðu úr fyrstu 2 spyrnum Englands á meðan Montolivo klúðraði annarri spyrnu Ítalana. En Englendingarnir höndluðu ekki pressuna og Young og Cole klúðruðu næstu 2 vítum Englands á meðan Pirlo, Nocerino og Diamanti tryggðu Ítölum sigur.

Það er alveg ljóst að enska liðið hefur ekki góða reynslu af útsláttarkeppni á EM og heldur ekki góða reynslu af vítaspyrnukeppnum.

England 3
England fyrir 3. leikinn á EM, gegn Slóvakíu

England hefur ekki verið mjög sannfærandi í þessari keppni. Misstu fyrsta leikinn á mótinu, gegn frekar slöppu rússnesku liði, niður í jafntefli í lokin. Þurftu að koma til baka gegn Wales eftir að hafa lent undir og náðu svo ekki að finna lausn á stífum varnarleik frá Slóvakíu. En þetta er jú alltaf England.

Ísland

Áfram Ísland!

Íslenska landsliðið

Ísland 1
Fyrir leikinn gegn Portúgal

Þvílíkir leikmenn! Þvílíkt lið!

Ísland 02
Fyrir leikinn gegn Ungverjalandi

Þeir setja ný viðmið í hverjum leik. Þeir standa saman og berjast. Þetta er barátta, gleði, samheldni, hæfileikar og blússandi ástríða.

Ísland 3
Fyrir leikinn gegn Austurríki

Ísland er ekki of lítið land. Verkefnið er ekki of stórt. Draumurinn er ekki of óraunsær. Þeir geta þetta alveg!

Viðureignin

Tölfræðin
Tölfræðin

Ísland spilaði sinn 15. landsleik gegn landsliði Englands. En það var að vísu ekki þeirra aðallandslið heldur landslið áhugamanna. Var leikurinn spilaður fyrir framan 10.000 áhorfendur á Melavellinum og var það í fyrsta skiptið sem enska áhugamannalandsliðið spilaði leik á malarvelli. England komst yfir í leiknum en  Þórður Þórðaarson og Ríkharður Jónsson komu Íslandi yfir. En enskir voru betri í leiknum og höfðu loks betur, 3-2.

Fram til 1971 spilaði íslenska karlalandsliðið 5 landsleiki við áhugamannalandslið Englands. Bestum úrslitum náði íslenska liðið á Laugardalsvellinum 10. maí 1970 þegar Matthías Hallgrímsson tryggði íslenska liðinu 1-1 jafntefli með marki undir lok leiks. England vann hina 4 leikina.

Árið 1989 og 1991 spilaði Íslenska A-landslið karla 2 leiki við B-landslið Englands. 19. maí 1989 var spilað fyrir framan 775 áhorfendur í roki, úrhelli og kulda í Laugardalnum. Þrátt fyrir að um B-landslið Englands væri að ræða var það vel skipað en meðal leikmanna þess voru til dæmis Gary Pallister, Paul Parker, Paul Gascoigne og David Platt. Enska liðið var betra og vann 2-0 sigur með mörkum frá Terry Hurlock og Andy Mutch. Bæði mörkin komu á síðustu 20 mínútum leiksins.

27. apríl 1991 spilaði Ísland aftur gegn B-landsliði Englands. Í þetta skiptið var spilað á Vicarage Road í Watford, fyrir framan 3.760 áhorfendur. Líkt og í fyrri leiknum var Atli Eðvaldsson fyrirliði Íslands í leiknum. B-lið Englands vann aftur, í þetta skiptið 1-0. Nigel Clough skoraði eina mark leiksins.

Íslenska karlalandsliðið hefur aðeins spilað 2 leiki gegn A-landsliði Englands. Báðir þeirra voru vináttuleikir. 2. júní 1982 spiluðu liðin á Laugardalsvellinum. Arnór Guðjohnsen kom Íslandi yfir í leiknum og íslenska liðið var sterkara liðið framan af en Paul Goddard jafnaði metin í síðari hálfleik.

22 árum síðar, 5. júní 2004, spiluðu þjóðirnar annan A-landsleik. Í þetta skiptið á City of Manchester Stadium. Eiður Smári Guðjohnsen var fyrirliði í leiknum, sem var hluti af þriggja þjóða æfingamóti þar sem Japan var þriðja þjóðin. England spilaði 4-4-2 í leiknum á meðan Ísland var með 3-5-2 uppstillingu. Wayne Rooney spilaði fyrri hálfleikinn í leiknum, eini leikmaður Englands úr þeim leik sem enn spilar. Hann skoraði 2 mörk í leiknum eftir að Frank Lampard hafði skorað fyrsta markið. Heiðar Helguson minnkaði muninn rétt fyrir leikhlé. Í síðari hálfleik bætti Darius Vassell við 2 mörkum og Wayne Bridge einu til viðbótar.

Einhverjir úr íslenska hópnum þekkja þó alveg tilfinninguna sem fylgir því að sigra enskt landslið. Þann 28. mars 2011 spilaði U21-landslið Íslands vináttuleik gegn U21-liði Englands í Preston í Englandi. Þetta var síðasti leikur liðanna fyrir Evrópumót U21-liða sem fram fór í Danmörku það sumar. Nathan Delfouneso kom Englandi yfir í leiknum en Arnór Smárason og Hólmar Örn Eyjólfsson tryggðu íslenskan sigur. Meðal íslenskra leikmanna sem spiluðu þennan leik má nefna Birki Bjarnason og Alfreð Finnbogason.

Getur þetta íslenska lið unnið England? Ó já, svo sannarlega! Íslenska liðið er einfaldlega frábært í fótbolta og hefur liðsanda sem fá önnur lið geta jafnað, hvað þá toppað.

Þetta verður stórleikur. Þetta er okkar staður, þetta er okkar stund! Áfram Ísland!