Annar leikur Íslands á EM í Frakklandi verður gegn Ungverjum á Stade Vélodrome í Marseille. Sá leikur verður laugardaginn 18. júní, klukkan 18:00 að staðartíma eða 16:00 fyrir áhorfendur á Íslandi.
Grunnupplýsingar
Nafn: Stade Vélodrome
Gælunafn: Le Vel’
Áhorfendur: 67.394
Vallarflötur: 105 m x 68 m
Vallaryfirborð: AirFibr
Opnaði: 1937
Fjöldi leikja á EM ’16: 6 (4 í riðlakeppni, 1 í 8-liða úrslitum og 1 í undanúrslitum)
Heimilisfang vallarins:
3 Boulevard Michelet
13.008, Marseille, France
Símanúmer: 04 13 64 64 64
Frá Íslandi: 0033 4 13 64 64 64
Völlurinn sjálfur
Stade Vélodrome er byggður með skálarlagi en ekki í enska stílnum eins og Stade Geoffroy-Guichard. Stúkurnar við hverja hlið vallarins hafa þó allar mismunandi nöfn:
- Ganay stúkan, nefnd eftir hjólreiðarmanninum Gustave Ganay sem kom frá Marseille. Ganay var einn af betri hjólreiðarmönnum 3. áratugs 20. aldar, hann lést í hjólreiðaslysi í París árið 1926.
- Jean Bouin stúkan, nefnd eftir hlaupara frá Marseille. Hann vann silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Stokkhólmi árið 1912.
- Norðurstúkan er nefnd eftir Patrice de Peretti, stundum kölluð Depé turn eftir gælunafni Peretti. Peretti þessi var mikill stuðningsmaður Olympic Marseille og stofnaði stuðningsmannafélagið Marseille Trop Puissant (e. Marseille Too Powerful). Hann lést árið 2000, aðeins 28 ára gamall.
- Suðurstúkan er nefnd eftir Chevalier Roze, aðalsmanni sem reisti spítala í Marseille þegar mannskæð kýlapest herjaði á íbúa þar árið 1720.
Undirlagið á vellinum er AirFibr alveg eins og á Stade Geoffroy-Guichard. Þakið sem var byggt yfir völlinn í síðustu endurnýjun vallarins er sérstaklega hannað til þess að safna saman regnvatni til að hægt sé að endurnýta það, til dæmis til að vökva völlinn, til að hreinsa útisvæði eða í salernin á vellinum.
Stemningin
En hvað með stemninguna? Tjah, það verður að segjast að stuðningsfólk í Marseille hefur ekki alltaf verið par hrifið af þessum leikvangi í gegnum tíðina. Völlurinn hefur alltaf verið stór og hann var lengi vel alveg þaklaus. Það var ekki beint að hjálpa til upp á stemninguna. En það er búið að taka völlinn í gegn og setja myndarlegt þak yfir sem ætti að geta myndað betra tækifæri fyrir almennileg stuðningslæti, svona fyrir utan það að geta safnað regnvatni.
Sagan
Knattspyrnuvöllurinn Stade Vélodrome opnaði í júní árið 1937. Hann var byggður sérstaklega fyrir HM 1938. En þó var hann ekki eingöngu byggður með knattspyrnu í huga því í kringum um sjálfan knattspyrnuvöllinn var bæði hlaupabraut og hjólreiðabraut.
Orðið velodrome þýðir líka hjólreiðavöllur, oftar en ekki með svo kröppum beygjum í endana að brautin er látin halla. Þannig var það einmitt um hjólreiðabrautina á Stade Vélodrome, við norður- og suðurstúkurnar hallaði hjólabrautin og áhorfendur sátu svo þar fyrir ofan.
Leikvangurinn var nýttur undir fjölbreyttar íþróttagreinar til að byrja með, þarna var keppt í frjálsum íþróttum, rúgbí, hnefaleikum, tennis, hokkkí og jafnvel mótorsporti. Knattspyrnan fór þó í algjöran forgang í kringum það leyti þegar hjólreiðabrautin var endanlega tekin í burtu, árið 1985.
Byggður fyrir stórmót, þegar kom að HM 1998 þá var völlurinn nánast alveg endurbyggður. En var þó ekki mikið um þak. En þegar kom að EM 2016 þá var bætt úr því og veglegu þaki komið fyrir yfir stúkurnar.
HM 1938
Heimsmeistaramótið árið 1938 var haldið í Frakklandi. Þá spiluðu 15 þjóðir 18 knattspyrnuleiki. Mótið var eingöngu með útsláttarfyrirkomulagi, upphaflega áttu þjóðirnar að vera 16 en Austurríki dró sig úr keppni eftir að landi sameinaðist Þýskalandi.
Af 15 leikjum mótsins voru 2 spilaðir á hinum glænýja Stade Vélodrome. Fyrst var það leikur Ítalíu og Noregs í 16-liða úrslitum. Hann endaði 2-1 fyrir Ítalíu eftir framlengdan leik.
Hinn leikur mótsins sem var spilaður á þessum velli var í undanúrslitum. Aftur var Ítalía þar á ferðinni, þeir höfðu unnið heimamenn í Frakklandi í 8-liða úrslitum og mættu þarna Brasilíu. Aftur enduðu leikar 2-1 fyrir Ítalíu nema nú þurfti ekki framlengingu til. Ítalir enduðu svo á að vinna mótið.
EM 1960
Evrópukeppnin var haldin í Frakklandi árið 1960. Hún var ekki stór á þeim tíma, aðeins 4 lið kepptu í úrslitakeppninni. 2 leikir af 4 fóru fram á Stade Vélodrome. Fyrst var það seinni undanúrslitaleikurinn, milli Tékkóslóvakíu og Sovétríkjanna.
Leikurinn um 3. sætið var einnig spilaður á Stade Vélodrome. Þar mættustu Tékkóslóvakía og Frakkland. Tékkóslóvakía vann þann leik, 2-0. Frakkar lentu þar með í 4. og neðsta sæti mótsins. Sovétríkin unnu Júgóslavíu í úrslitaleik svo Frakkland varð allavega efst af þeim liðum sem eru ennþá til í dag, það er þó allavega eitthvað.
EM 1984
Á EM 1984 voru 2 leikir af 15 spilaðir á þessum velli.
17. júní 1984 spiluðu þar nágrannaþjóðirnar Portúgal og Spánn í riðli 2. António Sousa kom þeim portúgölsku yfir með fallegri vippu en Santillana jafnaði fyrir Spánverjana. Þannig endaði leikurinn og bæði lið fóru áfram úr riðlinum á kostnað Vestur-Þjóðverja og Rúmena.
Spain vs Portugal 1-1 (17-6-1984, EURO) by Naisbit
Seinni leikurinn á vellinum í þetta skiptið var fyrri undanúrslitaleikurinn, á milli Frakklands og Portúgals, sem spilaður var 23. júní 1984. Frakkland komst yfir í venjulegum leiktíma en Portúgal jafnaði. Portúgal komst yfir í framlengingu en Frakkland jafnaði. Það var svo Platini sjálfur, hver annar, sem tryggði Frökkunum sigur með marki á 119. mínútu. Mjög líflegur leikur og mörkin hefðu hæglega getað orðið fleiri.
HM 1998
7 leikir af 64 á HM ’98 voru spilaðir á þessum velli. Frakkland spilaði opnunarleik sinn á mótinu á vellinum, þegar liðið vann Suður-Afríku með 3 mörkum gegn engu í C-riðli, þann 12. júní.
England og Túnis spiluðu opnunarleik G-riðils 15. júní 1998. Alan Shearer og Paul Scholes skoruðu mörk Englands sem vann þægilegan sigur.
Þann 20. júní spilaði Holland við Suður-Kóreu í 2. umferð E-riðils. Hollendingar lentu ekki í neinum vandræðum og unnu leikinn, 5-0.
Fjórði leikur mótsins sem fór fram á Stade Vélodrome var ansi merkilegur. Það var í lokaumferð A-riðils, sem fram fór 23. júní 1998. Þá gerði Noregur sér lítið fyrir og vann Brasilíu. Það virtist ekki líklegt þegar Bebeto kom Brasilíu yfir á 78. mínútu en tvö norsk mörk á síðustu mínútunum tryggðu sigurinn og Noregur komst þar með upp úr riðlinum en skildi Marokkó eftir.
Fyrsti leikurinn í 16- liða úrslitum var spilaður á Vélodrome vellinum. Þar vann Ítalía lið Noregs með einu marki gegn engu.
Í 8-liða úrslitum mættust þarna Holland og Argentína. Þá skoraði Dennis Bergkamp eitt af eftirminnilegustu mörkum HM eftir að bæði lið höfðu skorað 1 mark fyrr í leiknum og misst mann af velli með rautt spjald. Klassísk rimma.
Önnur svakaleg viðureign var svo á þessum sama velli í fyrri undanúrslitaleiknum þar sem Holland var aftur mætt, í þriðja skipti á þessum velli í keppninni, gegn Brasilíu. Bæði lið skoruðu 1 mark í venjulegum leiktíma. Leikurinn fór svo alla leið í vítaspyrnukeppni þar sem brasilísku leikmennirnir skoruðu úr öllum sínum en Hollendingarnir klikkuðu á 2 spyrnum.
Aðrir viðburðir á vellinum
Allt síðan á 9. áratug síðustu aldar hefur Stade Vélodrome verið notaður fyrir alls kyns tónleikahald. Meðal þeirra sem hafa komið þar fram má nefna Pink Floyd, Joan Baez, The Rolling Stones, Luciano Pavarotti, AC/DC, The Police og Paul McCartney.
Leikirnir á EM 2016
Af 51 leik sem fer fram á EM í Frakklandi 2016, eru 6 þeirra spilaðir á þessum velli.
1) Laugardagurinn 11. júní, kl. 21:00 (19 að íslenskum tíma)
England – Rússland, B-riðill
2) Miðvikudagurinn 15. júní, kl. 21:00 (19 að íslenskum tíma)
Frakkland – Albanía, A-riðill
3) Laugardagurinn 18. júní, kl. 18:00 (16 að íslenskum tíma)
Ísland – Ungverjaland, F-riðill
4) Þriðjudagurinn 21. júní, kl. 21:00 (19 að íslenskum tíma)
Úkraína – Pólland, C-riðill
5) Fimmtudagurinn 30. júní, kl. 21:00 (19 að íslenskum tíma)
Fyrsti leikur í 8-liða úrslitum
6) Fimmtudagurinn 7. júlí, kl. 21:00 (19 að íslenskum tíma)
Seinni leikur í undanúrslitum