Vellirnir: Stade Geoffroy-Guichard

Fyrsti leikur strákanna okkar á EM í Frakklandi fer fram á Stade Geoffroy-Guichard vellinum í Saint-Étienne þann 14. júní. Klukkan 21:00 að staðartíma, 19:00 að íslenskum tíma. Hér er upphitunarpistill um völlinn sjálfan. Fullt af myndböndum, fullt af mörkum, fullt af skemmtun.

Stade Geoffroy-Guichard
Stade Geoffroy-Guichard völlurinn í Saint-Étienne (mynd: http://topimages.org/stade-geoffroy-guichard-stadium-in-uefa-euro-2016/12584.html)

Grunnupplýsingar

Nafn: Stade Geoffroy-Guichard
Gælunafn: Le Chaudron (vert), L’enfer vert
Áhorfendur: 42.000
Vallarflötur: 105 m x 68 m (sama stærð og á Laugardalsvelli)
Vallaryfirborðið: AirFibr

Opnaði: 1931
Fjöldi leikja á EM ’16: 4 (3 í riðlakeppninni, 1 í 16-liða úrslitum)

Heimilisfang vallarins:
14, rue Paul et Pierre Guichard
42.000 Saint-Etienne, France

Símanúmer: 04 77 92 31 70
Frá Íslandi: 0033 4 77 92 31 70

Le Chaudron vert
Græni liturinn áberandi (mynd: http://topimages.org/stade-geoffroy-guichard-stadium-in-uefa-euro-2016/12584.html)

Völlurinn sjálfur

Stúkurnar 4 við völlinn eru:

  • Charles Paret stúkan (norðurstúkan): 8.541 sæti (þar af 4.841 á neðri hæðinni)
  • Jean Snella stúkan (suðurstúkan): 8.767 sæti (þar af 4.690 á neðri hæð)
  • Pierre Faurand stúkan (vesturstúkan): 7.993 sæti (þar af 18 box og 1.200 VIP sæti)
  • Henri Point stúkan (austurstúkan): 10.315 sæti

SGG-skýringarmynd

Yfirborð vallarins er AirFibr sem er blanda af náttúrulegu grasi og örtrefjum. Undirlagið er sérhönnuð blanda af sandi, örtrefjum og muldum korki. Real Madrid og Arsenal hafa nýtt sér þessa tækni á æfingarsvæðum sínum auk þess sem fleiri vellir í Frakklandi eru einnig með AirFibr.

Hér má sjá uppsetningu á AirFibr:

Stemningin

Það sem stuðningsmenn Íslands, bæði þeir sem eru á leið á völlinn og hinir sem ætla að horfa í sjónvarpinu, vilja væntanlega vita er hvort það sé hægt að mynda einhverja stemningu á vellinum.

Svarið er: já!

Gælunafn vallarins er meðal annars Le Chaudron en það þýðir suðupottur. Stundum er vert bætt aftan við svo úr verður græni suðupotturinn. Annað gælunafn á vellinum er l’enfer vert, það þýðir grænt helvíti. Þessi gælunöfn gefa ágætis hugmynd um hvernig stemning getur myndast þarna á leikjum.

Sagan

Stade Geoffroy-Guichard
Völlurinn árið 1931

Vinna við völlinn hófst árið 1930, sama ár og aðildarfélög franska knattspyrnusambandsins samþykktu að innleiða atvinnumannaknattspyrnu í Frakklandi. Völlurinn var tilbúinn í september 1931, hann var þá með 400 metra hlaupabraut í kringum knattspyrnuvöllinn og áhorfendastúku sem tók 1.000 áhorfendur.

Völlurinn var nefndur í höfuðið á Geoffroy Guichard, stofnanda Casino verslunarkeðjunnar. Knattspyrnuliðið sem spilar á vellinum, AS Saint-Étienne, var einmitt upphaflega stofnað af starfsmönnum Casino verslananna. Guichard gaf félaginu landið þar sem völlurinn var svo byggður. Áður voru þarna námur og lengi vel var stálverksmiðja við hlið vallarins sem orsakaði það að oft var andrúmsloftið á vellinum bókstaflega mengað.

Árið 1956 var hlaupabrautin umhverfis völlinn fjarlægð svo áhorfendur gætu setið nær vellinum (frábær hugmynd!), með tímanum fjölgaði stúkunum líka í 4. Það kallaðist hér í denn enski stíllinn þegar leikvangur hafði fjórar aðskildar stúkur umhverfis völlinn og áhorfendastúkur náðu alveg að vellinum í stað þess að hlaupabraut væri að trufla.

Stade Geoffroy-Guichard, 1973
Völlurinn árið 1973

Völlurinn hefur þrisvar farið í gegnum mikla endurnýjun. Fyrst á árunum 1983-84, síðan á árunum 1996-98 og nú síðast frá 2011. Þessi ártöl eru engar tilviljanir því í öll þrjú skiptin voru framkvæmdirnar vegna þess að Frakkland hélt stórmót í knattspyrnu.

EM 1984

Evrópukeppnin 1984 var haldin í Frakklandi 12.-27. júní. Þá kepptu aðeins 8 þjóðir í tveimur riðlum. Af leikjunum 15 voru 2 spilaðir á Stade Geoffroy-Guichard.

Fyrri leikurinn fór fram 14. júní 1984, klukkan 20:30 að staðartíma. Það var leikur Rúmeníu og Spánar. Francisco José Carrasco kom Spánverjum yfir en László Bölöni jafnaði fyrir Rúmeníu. Spánverjar gerðu einnig jafntefli við Portúgal og unnu svo Vestur-Þýskaland. Þeir enduðu því í efsta sæti B-riðils. Rúmenía tapaði hinum 2 leikjunum sínum og sat eftir í neðsta sætinu.


1984 (June 14) Romania 1-Spain 1 (European… by sp1873

Seinni leikurinn á þessum velli var svo leikur heimamanna Frakka gegn Júgóslavíu í A-riðli sem fram fór 19. júní 1984. Fyrir leikinn var ljóst að Frakkland væri öruggt áfram, eftir 2 sigra, og jafnframt að Júgóslavía færi ekki áfram, eftir 2 töp. Það stoppaði þó ekki leikmenn Júgóslavíu í að spila sinn bolta og þeir komust yfir í leiknum með laglegu marki frá Miloš Šesti?. En Frakkar höfðu Michel Platini. Hann skoraði þrennu í leiknum, raunar var hann þarna að skora þrennu annan leikinn í röð. Júgóslavía minnkaði muninn í 3-2 og þannig endaði leikurinn. Frakkar unnu alla sína leiki en þetta voru einu 2 mörkin sem Júgóslavía skoraði á mótinu. Frakkland fór svo alla leið í úrslitaleikinn og vann þar Spánverja, 2-0. Platini skoraði í öllum 5 leikjum sínum á mótinu, samtals 9 mörk.

HM 1998

Heimsmeistaramótið í knattspyrnu var haldið í Frakklandi 10. júní – 12. júlí 1998. Þar kepptu 32 þjóðir í 8 riðlum. Af 64 keppnisleikjum voru 6 spilaðir á Stade Geoffroy-Guichard.

Líkt og á EM, bæði 1984 og 2016, var fyrsti leikurinn spilaður 14. júní. Þetta var leikur Júgóslavíu og Íran í F-riðli. Eina mark leiksins skoraði Siniša Mihajlovi?, beint úr aukaspyrnu.

Næsti leikur á vellinum var 17. júní 1998, þá áttust við Chile og Austurríki í B-riðlinum. Marcelo Salas kom Chile yfir á 70. mínútu þegar boltinn lak einhvern veginn inn. Ivica Vasti? jafnaði hins vegar í uppbótartíma með afskaplega huggulegu marki. Chile náði annars að komast upp úr B-riðlinum með því að gera jafntefli í öllum sínum leikjum.

Þriðji leikurinn sem fór fram á þessum velli í keppninni var leikur Spánverja og Paraguay í D-riðli sem fór fram 19. júní. Hann endaði 0-0. Spánverjar höfðu áður tapað fyrir Nígeríu og enduðu á að sitja eftir í 3. sæti riðilsins á meðan Nígería og Paraguay fóru áfram.

Fjórði leikurinn var í A-riðli, milli Skotlands og Marokkó, 23. júní 1998. Marokkó vann leikinn, 3-0, þar sem Skotinn Craig Burley fékk rautt spjald eftir tæplega klukkutíma leik. Vanalega hefði það dugað Marokkó en á meðan vann Noregur Brasilíu og náði 2. sætinu í riðlinum en Marokkó voru úr leik líkt og Skotland.

Fimmti leikurinn var 25. júní. Holland gegn Mexíkó, síðasti leikurinn í E-riðli. Holland komst í 2-0 snemma leiks. Á 70. mínútu var Belgía að vinna Suður-Kóreu í hinum leiknum og Mexíkó úr leik miðað við þá stöðu. En Suður-Kórea jafnaði sinn leik á 71. mínútu og Mexíkó minnkaði muninn á 75. mínútu. Í uppbótartíma voru leikmenn Mexíkó orðnir 10 en náðu samt að jafna í 2-2 og koma sér í 2. sæti E-riðils.

Sjötti, og síðasti, leikurinn á HM 1998 sem fram fór á þessum velli var dramatískur í meira lagi. Það var síðasti leikur 16-liða úrslita, spilaður 30. júní. Þar áttust við Englendingar og Argentínumenn. Þegar fyrri hálfleikur kláraðist var staðan 2-2, bæði lið höfðu tekið forystu í leiknum, Argentína á undan. Hinn 18 ára gamli Michael Owen kom Englandi yfir með líklega hans besta landsliðsmarki á ferlinum. Í byrjun síðari hálfleiks var David Beckham rekinn af velli eftir samskipti sín við fyrirliða Argentínu, Diego Simeone.

Álfukeppnin 2003

Frakkland hélt líka álfukeppnina 2003 þar sem 8 þjóðir kepptu í 2 riðlum. Af 16 leikjum í þeirri keppni fóru 5 fram á þessum velli.

Fyrsti leikurinn var Tyrkland gegn Bandaríkjunum 19. júní 2003, í B-riðli. Tyrkland hafði komist inn í álfukeppnina sem bronsliðið af HM 2002 vegna þess að bæði Þýskaland (silfurliðið á HM) og Ítalía (silfurliðið á EM) afþökkuðu boð um að keppa á mótinu. Bandaríkin komst yfir í leiknum en Tyrkland vann, 2-1.

Næsti leikur var strax daginn eftir, Frakkland gegn Japan í A-riðli. Heimamenn unnu þann leik, 2-1, eftir að Japan náði að jafna leikinn í 1-1 með geggjaðri aukaspyrnu.

Japan átti líka þriðja leik mótsins á vellinum. Í síðasta leik þeirra í A-riðlinum töpuðu þeir gegn Kólumbíu. Giovanni Hernández skoraði eina mark leiksins.

Í lokaumferð B-riðils spilaði Brasilía gegn Tyrklandi á vellinum, 23. júní 2003. Leikurinn endaði 2-2 sem þýddi að liðin voru jöfn að stigum og með sömu markatölu. Tyrkland komst hins vegar í 2. sætið á skoruðum mörkum en Brasilía var úr leik.

Kólumbía og Tyrkland mættust síðan á vellinum í leik um bronsið. Tyrkland vann þann leik, 2-1.

Aðrir viðburðir á vellinum

Frakkland hefur spilað 4 vináttuleiki á þessum velli, unnið 3 þeirra og tapað 1.

Kvennalandslið Frakklands hefur spilað einn leik á þessum velli, þegar þær unnu England, 1-0, í nóvember 2002.

Portúgalska knattspyrnulandsliðið hefur ekki spilað leik á þessum velli. En landslið Portúgals í rúgbí spilaði leik þar á heimsmeistaramótinu í rúgbí árið 2007. Steinlá gegn Skotlandi, 56-10.

Stjórinn sjálfur, Bruce Springsteen, hélt tónleika á vellinum á Born in the USA túrnum sínum.  Þeir fóru fram 25. júní 1985, eftir tónleikana styrkti Springsteen atvinnulausa í borginni um 10.000 dollara.

Hljómsveitin The Police hélt tónleika á vellinum þann 10. júní 2008.

Leikirnir á Euro

Af 51 leik sem fer fram á EM í Frakklandi, eru 4 þeirra spilaðir á Stade Geoffroy-Guichard. Ísland spilar fyrsta leikinn á vellinum.

1) 14. júní 2016, kl. 21:00 að staðartíma (19:00 á Íslandi)
Ísland – Portúgal, F-riðill

2) 17. júní 2016, kl. 18:00 að staðartíma (16:00 á Íslandi)
Tékkland – Króatía, D-riðill

3) 20. júní 2016, kl. 21:00 að staðartíma (19:00 á Íslandi)
Slóvakía – England, B-riðill

4) 25. júní 2016, kl. 15:00 að staðartíma (13:00 á Íslandi)
16-liða úrslit, 2. sæti í A-riðli gegn 2. sæti í C-riðli