Við erum búin að fá pistla um HM-hópinn okkar, um þjóðirnar sem eru með okkur í riðli og um Moskvu. Nú er komið að næsta borgarpistli í þessari röð. Styttist líka í heimaleikina okkar í júní, við hvetjum ykkur öll til að skella ykkur á miða á þá leiki. Sérstaklega er leikur kvennalandsliðsins gegn Slóveníu þann 11. júní mikilvægur, efsta sætið í riðlinum í undankeppni HM er í húfi.
En nú er það pistill um Volgograd.
Höfundur: Árni Þór Súperman
Volgograd (rússneska: ??????????)
Staðsetning: við ána Volgu, í suðvesturhluta Rússlands
Stærð: 859,4 km²
Íbúafjöldi: Rétt rúmlega ein milljón
Volgograd er borgin þar sem Ísland keppir sinn annan leik á HM. Sá leikur verður gegn Nígeríu þann 22. júní. Þetta gæti mögulega verið skemtilegasta borgin sem Íslendingar heimsækja í sumar þar sem bæði við Íslendingar og Nígeríubúar eru þekktir fyrir ákveðinn hressleika og gleði og munu deila þessari frægu borg með sér. En kynnumst aðeins borginni Volgograd.
Áður en ég fer eitthvað lengra með þennan pistil er best að ég byrji á því að útskýra að þetta er engin venjuleg borg. Þetta er engin venjulegur borgarpistill og ef þú ert að fara ferðast til Volgograd er mikilvægt að þú vitir að við hvert skref sem þú tekur í þessari borg má finna sögur af mannlegum harmleik af verstu gerð. Þessi borg hét áður Stalingrad og var vettvangur einnar blóðugustu baráttu seinni heimsstyrjaldarinnar, þegar Þjóðverjar mættu þangað í september 1942 með hálfa milljón hermanna. Þeir voru þó ekki allir þýskir en þarna voru líka hersveitir frá Rúmeníu, Ítalíu og Ungverjalandi sem börðust með Þjóðverjum í seinni heimsstyrjöldinni. Það var þarna sem seinni heimsstyrjöldin snérist gegn nasistum en það afrekaðist með óhugnanlega mikilli fórn. Talið er að allt að tvær milljónir manna hafi fallið í Volgograd/Stalingrad (það er sexfalt Ísland!). Borgin var svo gott sem jöfnuð við jörðu eftir stríðið en Sóvíetríkin ákváðu að endurbyggja borgina frá grunni sem minnisvarða og má segja að öll borgin sé minnisvarði um það hvað átti sér stað þarna í seinni heimsstyrjöldinni.
Volgograd má finna vestan megin við ána Volgu en þýðing nafnsins yfir á íslensku er Volguborg. Eins og áður kom fram er þetta þó ekki eina nafn borgarinnar en upprunarlegt nafn hennar var Tsaritsyn, borgin hét því nafni frá stofnun þess árið 1589 til 1925, þegar nafninu var breytt í Stalingrad í höfuðið á Joseph Stalin, leiðtogi Sóvíetríkjanna frá 1922 til 1952. Nafninu var svo breytt í Volgograd árið 1961 og hefur haldist óbreytt síðan. Borgin er þó oft á tíðum kölluð Hetjuborgin og er því við hæfi að þetta verði vettvangur íslensku hetjanna okkar í landsliðinu, eða Strákanna okkar eins og við viljum oft kalla karlalandslið okkar.
Það er nú meira við þessa borg en stríðssögur og minnisvarðar. Volgograd er með það orðspor að vera höfuðborg sinnep. Já, þú last rétt, sinnep. En sinnepið sem er framleitt í Volgograd er heimsfrægt fyrir einstakt bragð sem enginn annar hefur getið leikið eftir. Er þá talað sérstaklega um sinnepsolíu, sem ég verð að viðurkenna að ég vissi ekki einu sinni að væri til. Hægt er að nálgast þessar vörur í flest öllum verslunum í Volgograd.
En hvað skal skoða þegar þangað er komið? Eins og nefnt var hérna á undan þá voru örlög borgarinnar í seinni heimsstyrjöldinni þess eðlis að borgin var endurbyggð sem minnisvarði og því eru nánast allir ferðamannastaðir borgarinnar tengdir því. En ég nefni hérna nokkur dæmi um staði sem hægt er að skoða nánar en tek þó fram að það eru ótal söfn, garðar, listaverk og byggingar sem ég næ ekki að koma að hérna.
Mamayev Kurgan er algjör skylda að skoða nánar. Þetta er hlíð sem yfirgnæfir borgina og vettvangur einnar hörðustu baráttu sem háð var um borgina. Nú er búið að byggja þvílík mannvirki þarna í dag til að minnast hetjanna í Stalingrad. Styttan Móðurlandið kallar er það sem maður tekur strax eftir en það er stærsta stytta Evrópu og ein stærsta stytta í heimi. Hún er 91 metri á hæð, til gamans má geta að Frelsistyttan í New York er 93 metrar á hæð ef stallurinn er talinn með. Ef tekið er bara mið af kvenmannslíkamanum þá er Móðurlandið kallar stærsta stytta af kvenmanni í heiminum. Til að komast upp að styttunni þarf að klífa 200 tröppur, eina tröppu fyrir hvern dag sem orrustan var háð. 35.000 hermenn eru jarðaðir í þessari hlíð. Í kringum þessa risastyttu eru ýmiss önnur minnismerki og styttur ásamt kirkju og sérstöku hofi sem gestir geta komið og vottað hinum föllnu virðingu sína.
Stríðsminjasafnið Panorama, um orrustuna í Stalingrad, er annar staður sem fólk getur skoðað nánar. Inni í þessu safni er að finna alvöru minjar sem notaðar voru í stríðinu ásamt því að á efri hæð safnsins er panorama listaverk sem sýnir hvernig borgin leit út í orrustunni. Heimilisfang safnsins er:
Chuikova St., 47, Volgograd 400005, Russia
Hérna er líka heimasíða sem sýnir þetta safn nánar.
Hús Pavlovs. Á þessum stað stóð hús sem reyndar skemmdist það mikið að það þurfti að endurbyggja það en einn veggur stendur enn sem minnisvarði um Yakov Pavlov. Hann var hermaður í sóvíetska hernum sem fékk nær ómögulega skipun, sem var að halda húsinu. „Ekki eitt skref aftur á bak, sama hvað!“ 30 manna hersveit Pavlovs barðist í 2 mánuði til að halda byggingunni, aðeins fjórir lifðu af. Þeir fengu á endanum 25 manna liðsauka, þar af voru 10 venjulegir borgarar. Það var nóg til að ná ætlunarverkinu, þeir héldu húsinu. Fleiri þjóðverjar féllu við að reyna yfirtaka þessa byggingu en þegar nasistar réðust inn í París og er óhætt að segja að hugrekkið og fórnirnar sem fóru í þessa einu byggingu sé Rússum ómælanleg. Enn þann dag í dag er þessi bygging skráð sem virki á rússneskum landakortum. Heimilisfang að Húsi Pavlovs er Ulitsa Sovetskaya, 39, Volgograd.
Ertu svangur? Í miðbæ Volgograd er allt iðandi af kaffihúsum, veitingastöðum og börum. Á sumrin er mikið um að kaffihús og veitingastaðir setja út garðhúsgögn og þjónusti viðskiptavini sína úti. Í rannsóknarvinnu minni er einn veitingastaður sem fær glimrandi dóma og er víst staðurinn til að fara á ef þig langar að prufa rússneska matagerð í blandi við nútíma matargerð eins og við þekkjum í dag. Það er Café Marusya en hann má finna á Alleya Geroev St., 1, Volgograd. Heimasíða þeirra er á ensku og má finna hér.
Fanzone Volgograd, eða Fanfest eins og Rússinn vill kalla það, má finna á torgi við bakkann á ánni Volgu sem kallast The 62nd Army Embankment á ensku, Fanfestið er hæfilega nálægt leikvanginum og er greinilega í göngufæri en ég reyndar finn ekki kílómetrafjöldann þarna á milli. Ég læt þetta kort fylgja með til að hjálpa fólki til að finna staðina en ef maður gengur meðfram ánni í norður þá kemur þú að Volgograd Arena vellinum.
Þetta er svo sannarlega borg sem mannkynssöguunnendur mega ekki missa af. Ég viðurkenni alveg að þetta er sú borg sem ég persónulega er spenntastur fyrir, enda veðrið í Volgograd í júni mjög heillandi, verður að segjast. Meðalhitinn er í kringum 21 gráða og að meðaltali eru rigningardagarnir 12 á þessum tíma árs. Sagt er að Volgograd sé almennt 31% ódýrari en Moskva en bjórinn í Volgograd kostar í kringum 110 kr. 1,5 lítra vatn kostar í kringum 46 kr. Má alveg búast við einhverjum hækkunum fyrir HM en þetta eru þau verð sem komu upp þegar þessi pistill var skrifaður. Með þessum orðum kveð ég ykkur í bili og vonandi sé ég sem flesta Íslendinga í Volgograd í sumar.
Með kærri Áfram Ísland kveðju,
Árni Þór Gunnarsson AKA Superman