Það er komið að síðasta leik Íslands í þessari frumraun Þjóðadeildar UEFA. Og það er útileikur gegn sterkasta liðinu í riðlinum. Það er spennandi á sinn hátt, sérstaklega þar sem það er enn að einhverju að keppa. Ísland getur enn komið sér í hóp þeirra liða sem verða í efsta styrkleikaflokki þegar dregið verður í riðla í undankeppni EM 2020. Það verður erfitt, mikil áskorun, en þessir strákar okkar elska góðar áskoranir.
A-landslið karla,
Þjóðadeild UEFA,
fjórði og síðasti leikur Íslands í 2. riðli í A-deild.
Fimmtudagurinn 15. nóvember 2018,
klukkan 19:45 að íslenskum tíma (20:45 að staðartíma).
Belgía – Ísland
Völlur: Koning Boudewijnstadion í Brussel.
Knattspyrnuvöllurinn heitir nú eftir Baldvin Belgíukonungi, sem ríkti á árunum 1952-1993. Baldvin konungur fæddist árið 1930 en það sama ár var faðir hans, Leópold þriðji, viðstaddur opnun þessa leikvangs. Þá var Leópold reyndar ekki orðinn konungur ennþá, heldur mætti þangað sem krónprins Belgíu. Völlurinn var ekki kominn með nafn ófædds sonar Leópolds (Baldvin fæddist rúmum 2 vikum eftir opnunarhátíðina) heldur hét þarna Stade du Centenaire á frönsku eða Jubelstadion á hollensku. Nafnið fékk hann vegna þess að hann var tekinn í notkun á 100 ára afmæli Belgíu.
Árið 1946 fékk hann þó sitt þekktasta nafn. Þá var völlurinn tekinn í notkun aftur eftir Seinni heimsstyrjöldina, í nokkuð breyttu standi. Áður hafði þetta verið alhliða íþróttavöllur, meðal annars með hjólabraut í kringum fótboltavöllinn sjálfan en fyrir framan áhorfendastúkur. Hjólabrautin hafði hins vegar verið smíðuð úr tré og því bútuð niður til að nota sem eldivið í stríðinu. Það þótti hins vegar til bóta að losna við brautina svo hún var ekki endursmíðuð eftir stríðið. Völlurinn fékk hins vegar nafnið Stade du Heysel eða Heizelstadion.
Heyselvöllurinn er helst þekktur, eða alræmdur, fyrir alvarlegt slys sem átti sér stað í úrslitaleik Evrópukeppni meistaraliða árið 1985. Þá létust 39 áhorfendur í troðningi sem varð til vegna láta í nokkrum stuðningsmönnum í bland við óviðunandi gæslu auk þess sem völlurinn sjálfur var orðinn lélegur og ótraustur.
Hann hefur þó verið endursmíðaður síðan, stærsta endurbyggingin átti sér stað árið 1995 þegar miklum pening var varið í uppbygginguna. Þá var tækifærið einnig notað til að skipta aftur um nafn. Þá þótti við hæfi að kenna völlinn við Baldvin konung sem hafði látist 2 árum áður.
Frá enduropnun hefur belgíska landsliðið notað völlinn fyrir sína heimaleiki, til dæmis alla heimaleikina á EM 2000. Fyrir utan reyndar 2006, þegar liðið spilaði fyrstu tvo heimaleiki sína í undankeppninni fyrir EM 2008 á Constant Vanden Stock vellinum í Anderlecht. Belgíska knattspyrnusambandið hafði þá ákveðið að færa landsleikina vegna þess að þeim fannst eitt hlið inn á Baldvinsvöll of þröngt og óöruggt. Brusselborg mótmælti því og sannaði fyrir rétti að hliðið þætti nógu öruggt. Knattspyrnusambandið ákvað því að færa landsleiki Belgíu aftur á Koning Boudewijnstadion.
Dómari: Orel Grinfeld frá Ísrael
Veðurspá:
Hitinn fer í 15 gráðurnar um miðjan dag en verður rétt dottinn niður úr tveggja stafa tölunni þegar leikurinn hefst. Er svo líklega að kólna úr þetta 9 gráðum niður í 6 gráður yfir leiknum. Það ætti þó að vera heiðskírt eða nálægt því og engin úrkoma. Það verður heldur ekkert rok, bara mallandi í tæpum 2 m/s af suðsuðaustan átt. Ljómandi fínt boltaveður í kortunum.
Dagskráin
Það er góður hópur af Íslendingum sem ætlar að skella sér á völlinn í Brussel. Þeir sem verða í borginni ætla að hittast á O’Reilly’s Irish Pub á Beursplein 1, 1000 Brussel. Hópurinn ætlar að miða við tímann 15:00 en það er að sjálfsögðu hægt að mæta fyrr.
Fyrir áhugasamt fólk á höfuðborgarsvæðinu þá verður félagsmiðstöðin okkar, Ölver í Glæsibæ, að sjálfsögðu með leikinn í gangi og stemningu að vanda. Við ætlum að miða við að hittast þar klukkan 18:30 en staðurinn opnar klukkan 10 svo það er sjálfsagt mál að kíkja við fyrr ef stuðið er þannig.
Belgía
Staða á styrkleikalista FIFA: 1. sæti
Á nýjasta styrkleikalista FIFA komst Belgía einu stigi upp fyrir Frakkland, eftir að löndin höfðu verið með jafn mörg stig á listanum á undan. Þá var Frakkland í efsta sætinu á aukstöfunum, var með 0,12 hærri stig en Belgía. Núna er Belgía hins vegar í efsta sæti styrkleikalistans, eftir virkilega öflugt gengi á síðustu árum.
Gengi í síðustu 10 landsleikjum: S S S S T S S S S J
Markatalan í síðustu 10 leikjum: 23-8
Landsliðsþjálfari: Roberto Martínez
Fyrirliði landsliðsins: Eden Hazard
Leikjahæstur í núverandi hóp: Axel Witsel er leikjahæstur í hópnum. Ef hann tekur þátt í leiknum gegn Íslandi verður það söguleg stund fyrir hann því hann hefur spilað 99 landsleiki til þessa.
Markahæstur í núverandi hóp: Romelu Lukaku er markahæstur í sögu belgíska landsliðsins, hefur skorað 45 mörk í 79 landsleikjum. Hann hefur ekki verið að finna sig með Manchester United upp á síðkastið en stendur sig alltaf vel með landsliðinu.
Belgar eru án sterkra fastamanna því Kevin de Bruyne, Jan Vertonghen, Marouane Fellaini og Mousa Dembele voru ekki valdir í hópinn vegna meiðsla. Engu að síður er hópurinn sem þeir bjóða upp á gríðarlega sterkur.
Þeir munu væntanlega halda áfram að spila hið geysilega öfluga 3-4-3 kerfi sitt. Courtois er öflugasti markvörðurinn. Í varnarlínunni þykir líklegast að hinn 23 ára gamli Jason Denayer úr Lyon taki sér stöðu við hlið Toby Alderweireld og Vincent Kompany.
Á miðri miðjunni sagðist Youri Tielemans vonast eftir að halda sæti sínu í byrjunarliðinu. Hann spilaði í fyrri leiknum gegn Íslandi og stóð sig mjög vel þar. Hann hefur þó ekki átt góða daga með félagsliðinu sínu, ekki frekar en margir aðrir hjá Mónakó. Það verður þó að teljast ansi líklegt að reynsluboltinn Axel Witsel frá Dortmund verði á sínum stað og brjóti 100 leikja múrinn.
Vængbakvarðastöðurnar eru áhugaverðar, þar verða líklegast Meunier og Carrasco á sínum stað. En áhugaverðustu stöðurnar eru þó frammi. Þar munum við sjá Eden Hazard með Lukaku og að öllum líkindum Dries Mertens með þeim. Það er ein eitruð framlína. Sérstaklega verður erfitt að eiga við Eden Hazard. Hann hefur vissulega verið að glíma við meiðsli síðustu vikur en hefur þó átt afbragðs tímabil það sem af er með sínu félagsliði. Reyndar er líka spurning um hvort Lukaku geti verið með. Hann hefur líka verið að glíma við meiðsli síðustu vikur og ekki spilað mikið í síðustu leikjum með félagsliði sínu. Það verður fróðlegt að sjá hvað Martínez gerir ef hann þarf að finna aðrar lausnir á því.
Belgarnir eru ekki aðeins efstir á styrkleikalista FIFA, þeir eru líka efstir í 2. riðli A-deildar í Þjóðadeildinni. Að vísu er Belgía með jafnmörg stig og Sviss en hafa þó aðeins þurft 2 leiki til að ná í 6 stig, á meðan Sviss hefur fengið sama stigafjölda í 3 leikjum. Belgía vann einmitt Sviss í síðasta leik og er því í efsta sætinu á betri árangri í innbyrðisviðureignum.
Þeir hafa eflaust áhuga á að vinna þennan riðil og keppnina sjálfa. En við skulum alveg endilega ekkert vera að gera það eitthvað auðveldara fyrir þá.
Ísland
Staða á styrkleikalista FIFA: 36. sæti
Gengi í síðustu 10 landsleikjum: T T J J T T T T J T
Markatalan í síðustu 10 leikjum: 10-26
Landsliðsþjálfari: Erik Hamrén
Fyrirliði landsliðsins: Aron Einar Gunnarsson
Leikjahæstur í núverandi hóp: Birkir Már Sævarsson, hann er fjórði leikjahæsti landsliðsmaður Íslands frá upphafi. Hann vantar núna 3 leiki til að ná Eiði Smára Guðjohnsen og 4 leiki til að ná Hermanni Hreiðarssyni. Hann nær ekki leiknum gegn Belgíu en gæti spilað gegn Katar, hans næsti leikur verður númer 86 í röðinni.
Markahæstur í núverandi hóp: Kolbeinn Sigþórsson, hann er næst markahæsti leikmaður Íslands í sögunni. Hann hefur skorað 22 landsliðsmörk í 46 leikjum, vantar 4 mörk til að ná Eiði Smára.
Hann er orðinn vel langur, meiðslalistin íslenska landsliðsins. Gylfi Þór, Jóhann Berg, Birkir Bjarna, Birkir Már, Emil Hallfreðs, Jón Daði, Björn Bergmann, Hólmar Örn og Rúnar Már eru allir meiddir auk þess sem Raggi Sig tekur út leikbann í þessum leik. Það munar ansi mikið um þessa leikmenn.
En það munar líka ansi mikið um það að fá fyrirliðann okkar aftur. Cardiff City hefur spilað 12 leiki í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu. Aron Einar hefur aðeins náð að spila 4 af þeim en í þeim hefur liðið náð í 6 stig. Í hinum 8 leikjunum sem liðið lék án hans náði það aðeins í 2 stig. Sýnir mikilvægi hans fyrir sitt lið.
Ísland mun enda í neðsta sæti riðilsins og falla í B-deildina fyrir næsta tímabil af Þjóðadeildinni. Það er óumflýjanlegt. Og ekki óvænt í ljósi þess að við vorum með tveimur gríðarsterkum þjóðum í riðli, höfum verið að glíma við erfið meiðsli lykilmanna og að taka inn nýtt þjálfarateymi sem þarf tíma til aðlögunar rétt eins og nýir leikmenn.
En það þýðir þó alls ekki að þessi leikur sé merkingalaus. Eins og staðan er núna er Ísland eina þjóðin sem er stigalaus í A-deildinni. Þrjár þjóðir hafa fengið 1 stig (Þýskaland og Pólland eftir 3 leiki, Króatía eftir 1 leik) auk þess sem Holland er með 3 stig eftir 2 leiki.
Það er langsótt að ná Hollendingum, til þess þyrfti Ísland að vinna Belgíu í þessum leik, Holland að tapa báðum sínum leikjum sem eftir er og Ísland að vinna upp 12 marka mun í markatölunni.
Til að komast í efsta styrkleikaflokkinn fyrir undankeppni EM 2020 þarf Ísland að komast uppfyrir 2 af þessum 3 þjóðum sem eru núna með 1 stig (eða mögulega Holland á langsótta mátann og eitt af þessum þremur með 1 stig). Jafntefli er ólíklegt til að duga. Ísland er með -10 í markamun, Króatía með -6, Þýskaland með -4 og Pólland með -2. Ísland þyrfti því að treysta á að Króatía tapaði tveimur leikjum með samtals 5 mörkum og að annað hvort tapaði Þýskaland gegn Hollandi með 7 marka mun eða Pólland skíttapaði fyrir Portúgal með 9 marka mun.
Ísland þarf því að öllum líkindum sigur til að eiga raunhæfan séns á að komast í efsta styrkleikaflokk. Með 10 lykilmenn meidda eða í banni. Ekki málið, græjum það bara!
Fyrri viðureignir
Farið var vel yfir fyrri viðureignir þessara þjóða í gameday-pistli fyrir fyrri leik liðanna í Þjóðadeildinni. Hann má skoða hér.
Dómarahornið
Dómarinn í þessum leik heitir Orel Grinfeld og kemur frá Ísrael. Hann fæddist 21. ágúst 1981 og hann hefur verið alþjóðlegur FIFA-dómari frá árinu 2012.
Aðstoðardómarar í leiknum verða Dvir Shimon og Roy Hassan, sprotadómarar verða þeir Eitan Shmuelevitz og Ziv Adler og fjórði dómarinn verður Idan Yarkoni. Þeir eru líka allir frá Ísrael.