Þá er komið að nýrri undankeppni. Þessi verður tekin á öllu snarpari tíma en við erum vön þar sem hún hefst í mars en klárast í nóvember sama ár. Þjóðadeildin veldur þessari breytingu og það verður fróðlegt að sjá hvernig það kemur út, sérstaklega fyrir þjóð eins og okkar, sem þarf að spila fyrstu tvo og síðustu tvo leikina á útivöllum.
Við byrjum í Andorra.
A-landslið karla,
undankeppnin fyrir EM 2020,
fyrsta umferð í H-riðli.
Föstudagurinn 22. mars 2019,
klukkan 19:45 að íslenskum tíma (20:45 að staðartíma)
Andorra – Ísland
Völlur: Estadi Nacional í höfuðborginni Andorra la Vella.
Embed from Getty Images
Leikvangurinn tekur 3.306 áhorfendur og það er gervigras á vellinum.
Dómari: Sandro Schärer, Sviss.
EM alls staðar
Evrópumót landsliða karla í knattspyrnu fer fram víðsvegar um Evrópu árið 2020. UEFA ákvað að hafa það þannig af því tilefni að mótið fagnar 60 ára afmæli sínu árið 2020.
12 knattspyrnuvellir í jafnmörgum borgum, í jafnmörgum löndum, munu því hýsa þá leiki sem fara fram á mótinu. Í riðlakeppninni verða borgirnar paraðar saman með tilliti til legu og mun því hver riðill aðeins verða spilaður í þeim 2 borgum. Þeir sem þangað fara þurfa því ekki að óttast að lenda í gríðarlegu flakki á milli þriggja leikja, þótt vissulega sé þokkalegasta ferðafjarlægð á milli Róm og Bakú sem er eitt riðlaparið.
Við vonumst auðvitað til að fá þann hausverk að þurfa að skipuleggja ferðir milli ólíkra borga Evrópu sumarið 2020 vegna þess að við ætlum að elta landsliðið okkar þangað.
Andorra
Staða á styrkleikalista FIFA: 132. sæti, með 1.111 stig.
Neðst hefur Andorra farið í 206. sæti listans, árin 2011 og 2012. Efst hefur Andorra hins vegar náð 125. sætinu, árið 2005.
Gengi í síðustu 10 leikjum: T S J J J J T T J J
Markatala í síðustu 10 leikjum: 3-14
Þessi þrjú töp hjá Andorra hafa öll verið með 3 til 4 mörkum. Jafnteflin jafa flest verið markalaus og hin 1-1 jafntefli.
Landsliðsþjálfari: Koldo
Fullt nafn er Jesús Luis Álvarez de Eulate Güergue. Koldo er andorrskur ríkisborgari þrátt fyrir að vera Spánverji að upplagi. Eða nánar tiltekið Baski þar sem hann fæddist í Vitoria-Gasteiz.
Koldo spilaði sem markvörður á knattspyrnuferlinum og var m.a. um tíma hjá Atlético Madrid, án þess þó að ná að spila fyrir aðallið félagsins. Árið 1994 byrjaði hann að spila með FC Andorra, sem þá lék í neðri deildum Spánar. Hann fékk andorrskan ríkisborgararétt og lék sinn fyrsta landsleik fyrir Andorra árið 1998. Hann spilaði með landsliðinu allt til ársins 2009 og hóf svo að þjálfa það árið 2010. Þeirri stöðu hefur hann gegnt síðan.
Það tók Koldo rúmlega 7 ár og 49 leiki til að ná í sinn fyrsta sigur sem landsliðsþjálfari Andorra. Sá sigur kom í vináttuleik gegn San Marínó.
Fyrirliði: Ildefons Lima. Þessi reynslubolti verður fertugur í desember og hefur spilað fyrir Andorra frá 1997.
Leikjahæstur: Ildefons Lima, 119 landsleikir.
Markahæstur: Ildefons Lima, 11 mörk.
Karlalandslið Andorra í knattspyrnu hefur spilað 153 fótboltaleiki í sögu þess. Af þessum leikjum hefur liðið aðeins náð að vinna 6 þeirra. Markatalan í þessum 153 leikjum er 42 mörk skoruð gegn 397 mörkum fengin á sig.
Ísland
Staða á styrkleikalista FIFA: 38. sæti, með 1.451 stig.
Gengi í síðustu 10 leikjum: T T T T J T T J J J
Markatala í síðustu 10 leikjum: 8-23
Ekki alveg það gengi sem við höfum átt að venjast. Það eru núna komnir 15 landsleikir í röð án sigurs, eitthvað sem við viljum sjá breytast í þessum leik.
Landsliðsþjálfari: Erik Hamrén.
Fyrirliði: Aron Einar Gunnarsson, sem senn skiptir Cardiff út fyrir Qatar.
Leikjahæstur: Rúnar Kristinsson, 104 leikir.
Það styttist þó í að Birkir Már Sævarsson komist upp í 2. sæti yfir leikjahæsti landsliðsmenn Íslands frá upphafi. Ef hann spilar báða leikina í þessari landsleikjatörn þá fer hann í 90 leiki.
Markahæstur: Eiður Smári Guðjohnsen, 26 mörk.
Ef Gylfi Þór Sigurðsson heldur áfram að skora eins og hann hefur verið að gera fyrir land og félagslið þá nær hann þessu meti innan skamms. Gylfi er kominn í 20 mörk núna.
Fyrri viðureignir
A-landslið Íslands og Andorra í karlaknattspyrnu hafa mæst 5 sinnum áður. Ísland hefur unnið alla leikina og Andorra hefur enn ekki skorað mark gegn Íslandi á meðan Ísland hefur 14 sinnum skorað gegn Andorra.
Þjóðirnar lentu saman í riðli í undankeppninni fyrir EM 2000. Fyrri leikurinn var í Andorra 27. mars 1999. Andorramenn náðu þá að hanga á 0-0 í tæplega klukkutíma áður en Eyjólfur Sverrisson skoraði á 57. mínútu. Steinar Adolfsson skoraði svo sitt eina A-landsliðsmark á ferlinum á 66. mínútu og leikar enduðu 2-0 fyrir Ísland.
Seinni leikurinn var spilaður á Laugardalsvelli 4. september 1999, fyrir framan 4.795 áhorfendur. Þórður Guðjónsson og Hermann Hreiðarsson komu Íslandi í 2-0 í fyrri hálfleik. Á 78. mínútu kom Eiður Smári Guðjohnsen inn á í sínum öðrum A-landsleik og hann kláraði dæmið á 90. mínútu með því að skora þriðja mark Íslands.
Eiður Smári var aftur á skotskónum í ágúst 2002 þegar þjóðirnar mættust í vináttuleik í Laugardalnum. Eiður skoraði fyrsta mark leiksins á 19. mínútu og Ríkharður Daðason bætti 2 við fyrir leikhlé. Seinni hálfleikur var rólegur og leikurinn endaði 3-0 fyrir Ísland.
Eiður var hins vegar ekki í leikmannahópnum í lok maí árið 2010 þegar þjóðirnar mættust aftur í vináttuleik á Laugardalsvelli. Þar var hins vegar Heiðar Helguson sem skoraði sitt hvoru megin við leikhlé. Veigar Páll Gunnarsson og Kolbeinn Sigþórsson bættu svo við mörkum undir lok leiks og Ísland vann 4-0.
Síðasti leikur þjóðanna fór svo fram í Andorra, þegar þjóðirnar mættust á Estadi Comunal d’Andorra la Vella þann 14. nóvember 2012 fyrir framan heila 500 áhorfendur. Jóhann Berg Guðmundsson kom Íslandi þá yfir á 10. mínútu og Rúnar Már Sigurjónsson bætti við seinna marki Íslands á 58. mínútu.
Dómarinn
Dómarinn í þessum leik heitir Sandro Schärer og kemur frá Sviss. Hann fæddist árið 1988 í Büttikon, sem er tæplega 1000 manna bær í norðurhluta Sviss. Schärer byrjaði að dæma í efstu deildinni í Sviss árið 2013 og hefur verið alþjóðlegur FIFA-dómari frá árinu 2015.
Embed from Getty Images
Schärer til halds og trausts í þessum leik verða aðstoðardómararnir Stephane De Almeida og Bekim Zogaj, einnig frá Sviss.
Hvar á ég að horfa?
Leikurinn verður í beinni útsendingu á RÚV en að sjálfsögðu er félagsheimili Tólfunnar á höfuðborgarsvæðinu alltaf sportbarinn Ölver. Þar er Tólfan alltaf velkomin.
Áfram Ísland!