Leikdagur: Ísland – Belgía

Eftir erfiða byrjun í Þjóðadeildinni er strax komið að næsta leik. Í þetta skipti er þetta heimaleikur en mótherjinn er jafnvel enn sterkari á blaði en þetta svissneska lið sem vann Ísland með miklum yfirburðum í síðasta leik. Bronsliðið frá HM mætir í Laugardalinn, nú þurfa menn að sýna úr hverju þeir eru gerðir.

A-landslið karla,
Þjóðadeild UEFA,
Annar leikur í 2. riðli í A-deildinni.
Þriðjudagurinn 11. september 2018,
klukkan 18:45.

Ísland – Belgía

Völlur: Laugardalsvöllurinn

Það heyrðist þokkalega vel í þeim Íslendingum sem mættu til Sviss, þótt fámennir væru. Nú þurfum við hins vegar að láta heyra almennilega í okkur á heimavelli og leyfa bæði liðinu og nýja þjálfarateyminu að finna að við styðjum það í botn. Reiknum með fullum velli að vanda. Mætum bláklædd og tilbúin að syngja og hvetja.

Dómari: Sergei Karasev, frá Rússlandi.

Veðurspá:

Það verður skýjað allan leikdaginn og gæti verið smávegis úrkoma hér og þar. Það ætti þó ekki að vera hellirigning en við vitum svosem aldrei almennilega með það. Hitinn á meðan leik stendur ætti að verða 8 gráður með 4-5 m/s vest-norð-vestanátt. Temmilegasta veður bara.


Dagskrá

Það verður hefðbundin heimaleikjadagskrá hjá okkur í þetta skiptið. Við byrjum að sjálfsögðu á BK kjúklingi, þar verður hægt að fá ljúffenga vængi og með því klukkan 15:00. Ókeypis fyrir öll sem mæta í landsliðs- og/eða Tólfutreyju.

Þaðan höldum við venju samkvæmt yfir á Ölver þar sem við kíkjum á drykkjarúrval staðarins og hitum upp raddböndin.

Uppúr klukkan 17:00 mætir Freysi á staðinn með töflufundinn. Það ætti varla að þurfa að taka fram reglurnar en að sjálfsögðu lekur ekki eitt orð út af þessum fundi, engir símar á lofti, ekkert kjaftæði, bara virðing og vinsemd.

Klukkan 17:30 ætlar Skapti Hallgrímsson að kíkja á okkur og kynna glænýja bók sína sem fjallar um HM ævintýrið okkar í Rússlandi. Bókin kemur einmitt út á þessum góða leikdegi. Bókin er skrifuð í dagbókarformi um upplifunina af Rússlandi, svo er ítarleg umfjöllun um leikina sjálfa, smekkfullt af tölfræði og um það bil 200 ljósmyndir. Vegleg bók og eiguleg.

Eftir bókarkynninguna höldum við niður að velli, kíkjum á stemninguna á Fan Zone og höldum svo snemma í stúkuna. Þar verðum við að sjálfsögðu bláklædd og tilbúin að syngja hástöfum og hvetja liðið.


Ísland

Staða á styrkleikalista FIFA: 32. sæti

Gengi í síðustu 10 leikjum: S S T T T J J T T T
Markatalan í síðustu 10 leikjum: 17-23

Landsliðsþjálfari: Erik Hamrén.
Fyrirliði: Aron Einar Gunnarsson er vanalega fyrirliðinn en við reiknum með að Gylfi haldi bandinu frá því í leiknum gegn Sviss.

Embed from Getty Images

Við vissum alveg að það gæti komið dýfa á einhverjum tímapunkti. Þessi velgengni sem við höfum upplifað á síðustu árum hefur verið hreint út sagt með ólíkindum. Auðvitað kemur einhvern tímann dýfa, það kemur fyrir hjá bestu liðum. En það var samt sárt að horfa á svona frammistöðu, þar sem liðið virtist ráðþrota og hreinlega gefast upp. Það er ekki eitthvað sem við erum vön að sjá frá liðunum okkar.

En við höfum alveg séð misjafnar frammistöður, eins og hjá öðrum knattspyrnuliðum. Sem betur fer kemur alltaf leikur eftir þennan leik. Alltaf nýr leikur og nýtt tækifæri til að sanna sig upp á nýtt.

Embed from Getty Images

Núna viljum við sjá frammistöðu. Við vitum alveg hversu sterkur andstæðingurinn er sem mætir núna á völlinn, það er mögulegt að eiga góðan leik en ná samt ekki að sigra. Það er meira að segja mögulegt að eiga frábæran leik en tapa samt. Að sjálfsögðu er leikurinn langt í frá tapaður fyrirfram. Við viljum hins vegar sjá frammistöðu. Við viljum sjá baráttu. Við viljum sjá liðið okkar spila af þeim krafti sem við vitum að það á til. Við viljum sjá þá skilja allt eftir á vellinum. Og það er bara sjálfsögð krafa á móti að við stuðningsmenn skiljum allt eftir í stúkunni sömuleiðis.

Karlalandslið Íslands hefur ekki tapað alvöru keppnisleik á Laugardalsvellinum síðan í júní 2013. Hjálpum þeim að halda því þannig.


Belgía

Staða á styrkleikalista FIFA: 2. sætið
Belgía fór upp um eitt sæti eftir HM, fór þar með uppfyrir Brasilíu. Aðeins heimsmeistarar Frakkar eru fyrir ofan Belgana.

Gengi í síðustu 10 leikjum: S S S S S S S T S S
Markatalan í síðustu 10 leikjum: 27-7

Landsliðsþjálfari: Roberto Martínez
Fyrirliði: Eden Hazard

Belgía er á verulega góðu skriði þessi misserin. Liðið tapaði í undanúrslitum á HM og er það eini leikurinn sem liðið hefur tapað frá því það lék æfingaleik við Spánverja í september eftir EM 2016. Síðan þá hefur liðið spilað 26 leiki, unnið 20 þeirra og gert 5 jafntefli. 10 sinnum hefur liðið skorað 4 mörk eða fleiri. Svo það er alveg ljóst að það þýðir ekkert að mæta illa mótiveraðir til leiks. Þetta lið er eitt það besta sem við höfum fengið að sjá á Laugardalsvellinum. Jafnvel þótt það vanti einhverja lykilmenn úr hópnum.

Embed from Getty Images

Belgar eru með mjög vel mannaðan hóp. Það eru leikmenn sem hafa þurft að verma varamannabekkinn eða jafnvel ekki komist í hópinn sem myndu ganga beint inn í flest önnur landslið í heiminum.

Fyrir þetta verkefni munar mest um að Kevin De Bruyne, einn besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar, er ekki með. Hann er meiddur. Sömuleiðis þurftu Marouane Fellaini og Christian Benteke að draga sig úr hópnum vegna meiðsla. Þeir hafa ekki alltaf spilað lykilrullu hjá landsliðinu en þó getað verið mikilvægir þegar á þurfti að halda.

Embed from Getty Images

Jan Vertonghen er eini leikmaðurinn í hópnum sem er kominn yfir 100 landsleiki, hann er í 109 landsleikjum núna. Hann er ekki aðeins sá eini í þessum hópi til að afreka það heldur sá eini í belgískri landsliðssögu. Það eru þó nokkrir að nálgast þau tímamót, Axel Witsel er með 96 landsleiki, fyrirliðinn Eden Hazard er með 93, Alderweireld og Kompany eru með 83 og Mousa Dembélé er með 81 landsleik.

Embed from Getty Images

Sá hættulegasti fyrir framan markið er Romelu Lukaku, hann hefur skorað 41 landsliðsmark í 76 A-landsleikjum. Hann er sá langmarkahæsti í sögu Belgíu, 11 mörkum á undan næsta manni. Ekki amalegt afrek fyrir 25 ára gamlan leikmann. Á eftir honum í hópnum kemur Eden Hazard með 26 mörk í 93 landsleikjum. Hann er í 5.-6. sæti yfir markahæstu leikmenn í sögu Belgíu.

Belgía hefur verið að spila mjög áhugaverða útgáfu af 3-4-3 í nokkurn tíma og engin ástæða til að ætla að þeir spili eitthvað annað í þessum leik. Í síðasta leik, vináttuleik gegn Skotlandi, kom Dries Mertens inn fyrir Kevin De Bruyne í fremstu röðinni við hlið þeirra Eden Hazard og Romelu Lukaku.

Embed from Getty Images


Fyrri viðureignir

Þegar kemur að A-landsliðum karla hafa Ísland og Belgía mæst 9 sinnum á fótboltavellinum. Fyrsti leikurinn fór fram árið 1957 en sá síðasti árið 2014. Það er óhætt að segja að það halli vel á Ísland þegar kemur að úrslitum leikjanna.

Löndin lentu saman í riðli í undankeppninni fyrir HM í Svíþjóð árið 1958. Belgía hafði verði með á HM áður en þetta var í fyrsta skipti sem Ísland reyndi að vinna sér inn þátttökurétt á lokamóti. Ísland hafði reyndar reynt að vera með í undankeppninni fyrir HM 1954 en FIFA samþykkti ekki þá umsókn. En þarna fyrir þetta mót lentu þjóðirnar saman í riðli 2 ásamt Frökkum.

Fyrri leikurinn fór fram 5. júní 1957 og var aðeins 17. landsleikur karlalandsliðs Íslands í sögunni. Þetta var hins vegar 262. landsleikur Belgíu. Skagamaðurinn Þórður Þórðarson skoraði fyrsta mark Íslands í leiknum á 33. mínútu. Þá höfðu hins vegar Belgarnir þegar skorað 5 mörk. Belgarnir bættu við 2 mörkum til viðbótar í fyrri hálfleiknum og einu í seinni hálfleiknum áður en Þórður og markahrókurinn Ríkharður Jónsson löguðu stöðuna aðeins fyrir Ísland. Lokastaðan 8-3 fyrir Belgíu.

Seinni leikurinn fór fram 4. september 1957 á Laugardalsvellinum. 7.000 áhorfendur mættu á völlinn og sáu Ríkharð Jónsson skora fyrir Ísland strax á 1. mínútu. En Belgarnir reyndust aftur sterkari og skoruðu 3 mörk áður en Ísland skoraði sitt seinna mark. Þórður Þórðarson skoraði á 73. mínútu en Belgar bættu við 2 mörkum enn í lokin og unnu 2-5 sigur. Það dugði þeim þó ekki til að komast á HM því Frakkar sigruðu í riðlinum og komust til Svíþjóðar.

Morgunblaðið, 6. september 1957

Þjóðirnar lentu aftur saman í riðli í undankeppninni fyrir HM í Vestur-Þýskalandi árið 1974. Þá voru löndin í riðli 3, ásamt Hollandi og Noregi, og spiluðu fyrstu tvo leikina í þessum riðli. Ísland gaf eftir heimaleikina bæði gegn Belgíu og Hollandi og því fóru þessir fyrstu tveir leikirnir í riðli 3 fram í Belgíu. Fyrri leikurinn taldist vera heimaleikur Belgíu, hann var spilaður í Liege 18. maí 1972. Seinni leikurinn fór svo fram í Bruges 22. maí 1972 og taldist vera heimaleikur Íslands. Belgía vann báða leikina 4-0.

Morgunblaðið, 24. maí 1972

Ísland tapaði öllum leikjunum í þeirri undankeppni og náði aðeins að skora 2 mörk í 6 leikjum. Örn Óskarsson skoraði í útileik gegn Noregi og Ernst Elmar Geirsson skoraði í heimaleik gegn Hollandi, sem að vísu var spilaður í Deventer í Hollandi. Belgíu gekk hins vegar mun betur og endaði keppnina með jafnmörg stig og Holland. Holland náði hins vegar efsta sætinu á markamun. Það þótti heldur súrt í Belgíu því Belgía og Holland mættust í lokaleiknum. Sá leikur endaði með markalausu jafntefli en Kazakov dómari frá Sovétríkjunum dæmdi mark af Belgum undir lok leiks vegna rangstöðu. Voru ekki allir á eitt sáttir um þann dóm.

Ísland og Belgía lentu strax aftur saman í riðli í undankeppninni fyrir EM í Júgóslavíu 1976. Aftur lenti Frakkland í sama riðli en í þetta skipti bættist Austur-Þýskaland við. Ísland og Belgía spiluðu aftur fyrsta leikinn í riðlinum, í þetta skipti fór hann hins vegar fram á Laugardalsvellinum. Hann var spilaður 8. september 1974 fyrir framan 7.540 áhorfendur. Miðjumaðurinn Wilfried Van Moer kom Belgum yfir á 38. mínútu en Jacques Teugels bætti við öðru marki úr víti stuttu fyrir leikslok. Ísland náði ekki að svara því.

Vísir, 9. september 1974

Seinni leikurinn fór fram í Liege 6. september 1975. 9.731 áhorfandi mætti á Stade Schlessin til að fylgjast með liðunum spila. Framherjinn Raoul Lambert, sem spilaði allan sinn feril frá 1962-1980 með Club Brugge, skoraði eina mark leiksins á 43. mínútu.

Belgía vann riðilinn og komst þar með í umspil um að komast á lokamót EM, þar sem aðeins 4 þjóðir kepptu. Belgía náði hins vegar ekki að komast svo langt því þeir steinlágu fyrir Hollendingum í umspilinu. Samanlögð úrslit þar voru 7-1 fyrir Hollandi. Ísland endaði í neðsta sæti riðilsins en náði þó í frækinn sigur á Austur-Þýskalandi, sem var eina tap Austur-Þýskalands í undankeppninni.

Vísir, 8. september 1975

Þriðju undankeppnina í röð lentu þjóðirnar saman í riðli fyrir HM í Argentínu 1978. Núna lentu þær í riðli 4 ásamt Hollandi og Norður-Írlandi. Íslenska liðið og stuðningsfólk þess hefur líklega verið orðið svipað leitt á Belgíu þarna og við erum á Króötum núna.

Í þriðja skiptið í röð spiluðu Ísland og Belgía fyrsta leikinn í riðlinum. Þessi leikur fór fram 5. september 1976 á Laugardalsvellinum. Dómarinn í leiknum var John Carpenter. Ekki þó kvikmyndaleikstjórinn, það hefði verið skrýtið. Þessi John Carpenter var írskur knattspyrnudómari frá Dublin. Íslenska liðið var þétt fyrir og Belgar áttu í vandræðum með að skora lengi framan af. Á 72. mínútu náði Anderlechtmaðurinn François Van der Elst loksins að skora og reyndist það eina mark leiksins.

Dagblaðið, 6. september 1976

Seinni leikurinn fór fram í Brussel 3. september 1977. Belgía skoraði þá 2 mörk í hvorum hálfleik. Varnarmennirnir Gilbert Van Binst og Maurice Mertens skoruðu í þeim fyrri en framherjarnir Paul Courant og Raoul Lambert skoruðu í seinni hálfleik. Ísland náði enn ekki að svara.

Ísland náði þó að vinna einn leik í þessari undankeppni, sigraði Norður-Írland á heimavelli í júní 1977. Það var eini sigur liðsins, hinir 5 leikirnir töpuðust allir. Ísland náði þó að skora eitt mark á útivelli gegn Hollandi. Holland vann riðilinn og fór á HM en Belgía sat eftir í 2. sætinu.

Dagblaðið, 5. september 1977

Eftir þetta leið ansi langur tími fram að næsta leik þjóðanna. Sá leikur var vináttuleikur á Koning Boudewijn Stadion í norðvesturhluta Brussel. Sá völlur er heimavöllur belgíska landsliðsins enn í dag. Í þessum leik, sem fram fór 12. nóvember 2014, nýttu Lars og Heimir tækifærið fyrst um vináttuleik var að ræða og spiluðu á mörgum mönnum sem ekki töldust vanalega til byrjunarliðsleikmanna. Belgar spiluðu á mjög sterku liði, þrátt fyrir að þeir hvíldu líka einhverja. Alfreð Finnbogason náði að skora íslenskt mark gegn Belgíu, það fyrsta frá árinu 1957. Belgía skoraði 3 mörk í leiknum en það segir heilmikið að maður leiksins var Thibaut Courtois í marki Belganna.

Fréttablaðið, 13. nóvember 2014

Sögulega er því á brattann að sækja gagnvart Belgíu. 9 töp í 9 leikjum og markatalan 6-32. En það eru þó alveg leikmenn í íslenska liðinu sem þekkja það að sigra Belgíu. Í september 2011 vann U21 landslið Íslands Belgíu á Vodafonevellinum þar sem Björn Bergmann Sigurðarson skoraði bæði mörk Íslands. Guðlaugur Victor Pálsson spilaði líka allan leikinn.

Í nóvember 2011 vann U21 landslið Íslands Belgíu með 2 mörkum gegn 1. Birkir Bjarnason skoraði þá fyrra mark Íslands. Ari Freyr Skúlason var í byrjunarliðinu, ásamt Aroni Einari Gunnarssyni, Hólmari Erni Eyjólfssyni og fyrirliðanum Rúrik Gíslasyni. Kolbeinn Sigþórsson og Gylfi Þór Sigurðsson komu þá inn af bekknum.

Gylfi Þór hafði þá ca. mánuði fyrr skorað eitt af þremur mörkum U19 landsliðs Íslands í 3-1 sigurleik á Belgíu. Aron Einar var fyrirliði þess liðs, Hólmar Örn og Björn Bergmann voru báðir í byrjunarliðinu.

Svo margir af þeim sem eru í liðinu núna þekkja það alveg að vinna belgísk landslið. Að sama skapi ættu margir sem leika núna fyrir A-landslið Belgíu að vita hversu hættulegir íslenskir leikmenn geta verið.


Dómarahornið

Dómarinn í leiknum er Sergei Gennadyevich Karasev (eða ?????? ??????????? ???????). Karasev er 39 ára gamall og kemur frá Moskvu í Rússlandi. Hann hóf að dæma árið 1995 og var orðinn aðaldómari í rússnesku úrvalsdeildinni árið 2008. Hann varð svo alþjóðlegur FIFA-dómari árið 2010.

Fyrir utan dómarastörfin þá er Karasev menntaður lögfræðingur og vann í banka til ársins 2005 en hefur eftir það hefur hann haft dómarastörf að aðalstarfi. Hann er mikill rokkunnandi, uppáhaldshljómsveitin hans er Slayer og uppáhaldsdrykkur whiskey. Hann fékk gælunafnið hinn rússneski Collina vegna þess að hann deilir hárgreiðslu með ítölsku goðsögninni.

Embed from Getty Images

Þetta verður í fyrsta skipti sem hann kemur til Íslands til að dæma knattspyrnuleik en hann hefur hins vegar dæmt stóra leiki hjá Íslandi áður. Hann dæmdi til að mynda frægt 4-4 jafntefli í Sviss í undankeppninni fyrir HM í Brasilíu 2014. Að auki dæmdi hann leik Íslands og Ungverjalands á EM í Frakklandi 2016, sem endaði 1-1. Það er spurning hvort hann sé með eitthvað jafnteflisblæti þegar kemur að Íslandi.

Aðstoðardómarar Karasev í leiknum verða Igor Demeshko og Aleksei Lunev frá Rússlandi. Sprotadómarar verða Sergei Ivanov og Vladimir Moskalev, einnig frá Rússlandi. Fjórði dómarinn verður síðan Aleksei Vorontsov, líka Rússi.


Áfram Ísland!

Þemalagið í Þjóðadeildinni er rækilega peppandi lag.

Gleymum heldur ekki hver við erum. Við erum Tólfan!

Og ef þið þurfið meira pepp þá er þessi snilld aldrei rifjuð of oft upp.