Leikdagur: Ísland – Andorra

Íslenska liðið sýndi frábæran baráttuanda gegn heimsmeisturum Frakka í síðasta leik. Nú ríður á að halda því áfram og landa þremur stigum gegn Andorra. Við hvetjum fólk til að mæta jafn vel á þennan leik og þann síðasta og vera jafn duglegt að hvetja liðið og fólkið sem lagði leið sína á Laugardalsvöllinn á föstudagskvöldið. Við viljum sigur, við þurfum sigur. Áfram Ísland!

A-landslið karla,
undankeppni fyrir EM 2020.
8. umferð í H-riðli.
Mánudagurinn 14. október 2019,
klukkan 18:45.

Ísland – Andorra

Völlur: Laugardalsvöllurinn, knattspyrnuheimili okkar Tólfunnar.

Embed from Getty Images

Dómari: Tamás Bognar frá Ungverjalandi.


Dagskrá og veður

Dagskrá mánudagsins verður nokkuð hefðbundin fyrir heimaleiki. Við hittumst á BK, förum þaðan yfir á Ölver, hlustum á töflufund frá Freysa, örkum niður á Laugardalsvöll, fyllum stúkuna, syngjum, hvetjum, fögnum. Bara eins og þetta á að vera.

Finnið endilega síðuna okkar á Facebook, þar er viðburður með helstu tímasetningum.

Hér er viðburðurinn.

Veðurspáin fyrir helgi sagði að það yrði rigning á leiktíma, 6-8 gráðu hiti og 6-7 m/s af austanátt. Mælum með að klæða sig eftir því.


Ísland

Staða á styrkleikalista FIFA: 41. sæti.

Gengi í síðustu 10 leikjum: J J J S T S S S T T
Markatalan í síðustu 10 leikjum: 14-14

Landsliðsþjálfari: Erik Hamrén.
Landsliðsfyrirliði: Aron Einar er ennþá Fyrirliðinn en í meiðslunum hans tekur varafyrirliðinn Gylfi Þór Sigurðsson við bandinu.

Embed from Getty Images

Nú er komið að lokasprettinum í þessari undankeppni. Aðeins þrír leikir eftir fram að úrslitastundu. Þá komast tvö efstu liðin í hverjum riðli áfram á lokamótið og restin þarf að fara að rýna í úrslitin í Þjóðadeildinni til finna út úr því hvort þau séu meðal þeirra 16 þjóða sem komast í 4 mismunandi umspil um síðustu 4 sætin. Það væri alveg betra að sleppa því að fara í umspilið í lok mars og komast þess í stað beint á EM. Já, takk!

Ísland er sex stigum frá Frakklandi og Tyrklandi. Þau lið mætast einmitt í þessari umferð svo það er mikilvægt að Ísland taki þrjú stig í þessum leik og haldi sér nálægt þessum þjóðum, eða allavega annarri þeirra.


Andorra

Upphitunarpistill fyrir fyrri viðureignina í riðlinum. Í þeim pistli var m.a. farið yfir fyrirkomulagið sem verður á EM alls staðar 2020.

Staða á styrkleikalista FIFA: 139. sæti, niður um 3 sæti frá síðasta lista.

Gengi í síðustu 10 leikjum: T J J T T T T T T S
Markatala í síðustu 10 leikjum: 2-19

Landsliðsþjálfari: Koldo Álvarez, landsliðsþjálfari Andorra frá árinu 2010.
Landsliðsfyrirliði: Hinn katalónski snillingur Ildefons Lima Solà er fyrirliði Andorra.

Leikjahæstur: Ildefons Lima , þetta verður væntanlega 125. A-landsleikur hans.

Markahæstur: Ildefons Lima hefur skorað 11 mörk. Næstur á eftir Lima kemur svo miðjumaðurinn Óscar Sonejee sem skoraði 4 landsliðsmörk í 104 A-landsleikjum.

Embed from Getty Images

Ildefons Lima fæddist í Barcelona á Spáni (eða Katalóníu) 10. desember 1979. Hann heldur því upp á 40 ára afmæli sitt í lok þessa árs. Þegar hann var krakki æfði hann m.a. fótbolta með CF Damm í Barcelona, félag sem leggur helst áherslu á að þjálfa ungt knattspyrnufólk og gera það betra.

Lima fluttist þó ungur yfir til Andorra og kom upp í meistaraflokkinn hjá FC Andorra. Hann fékk líka tækifæri til að spila með landsliði Andorra aðeins 17 ára gamall. Það var í júní 1997 sem Ildefons Lima spilaði sinn fyrsta A-landsleik, en þó alls ekki sinn síðasta.

Embed from Getty Images

Andorra er ekki gamalt fótboltalandslið. Raunar var svo að þessi landsleikur 22. júní 1997, vináttuleikur á útivelli gegn Eistlandi, var aðeins annar A-landsleikur Andorra í fótbolta í sögu landsins. Ildefons Lima byrjaði ekki amalega, hann skoraði mark í sínum fyrsta landsleik. Að vísu var það aðeins sárabótarmark í 1-4 tapi en mark engu að síður.

Upp frá þessum tíma hefur Ildefons Lima, miðvörðurinn hávaxni og háværi, verið lykilhluti af A-landsliði Andorra. Hann hefur spilað rúmlega 75% af öllum landsleikjum sem Andorra hefur spilað (til samanburðar er Rúnar Kristinsson með rúmlega 21% af leikjafjölda íslenska karlalandsliðsins frá upphafi) og skorað 24,4% af öllum mörkunum þeirra (11 af 45).

Embed from Getty Images

Lima er bæði hættulegur skallamaður í teig andstæðinganna en hann er líka afskaplega öflugur spyrnumaður, tekur þannig bæði hættulegar aukaspyrnur og vítaspyrnur fyrir sína þjóð. Hann er líka duglegur að láta dómarann og andstæðinginn heyra það, vill svo sannarlega ekki láta sitt lið fá eitthvað minna frá dómaranum bara af því þeir eru litla liðið á pappírnum og langoftast skv. FIFA-listanum. Utan vallar er hins vegar ekki hægt að finna mikið meiri öðling og snilling.

Ildefons Lima á líka eitt allra flottasta treyjusafn sem finnst. Hann hefur verið duglegur að safna treyjum, enda spilað gegn mörgum af flottustu leikmönnum heims á löngum ferli. Meðal treyja sem hann á í sínu safni eru treyjurnar sem Rúnar Kristinsson og Aron Einar Gunnarsson klæddust þegar þeir mættu Lima, fyrst 27. mars 1999 og síðan 22. mars 2019.

Þegar Ildefons Lima mætti Rúnari Kristins á vellinum átti sá síðarnefndi enn eftir að spila 32 landsleiki. Lima var hins vegar að spila landsleik númer 11 og átti nóg eftir. Virðist eiga nóg eftir ennþá.

Þjálfari Andorra er Koldo. Sá kom inn sem markmaður, spilaði í rúman áratug og endaði með 78 landsleiki. Tók síðan við landsliðinu og er búinn að stýra því í tæpan áratug núna. Koldo er því einn af helstu reynsluboltunum í kringum andorrska landsliðið í ansi langan tíma. Þegar Koldo hins vegar spilaði sinn fyrsta landsleik, vináttuleikur gegn Brasilíu í Frakklandi í júní 1998, þá var okkar maður Ilde Lima þegar kominn í landsliðið og var þar að spila sinn 3. landsleik.

Þessi landsleikur, Ísland-Andorra, kemur 8.149 dögum eftir að Ildefons Lima spilaði sinn fyrsta A-landsleik.

Embed from Getty Images

Við mælum líka með að fólk fylgi þessum meistara á samfélagsmiðlum, þar er hann algjör stjarna. Hann er duglegur að setja inn myndir og skemmtilegheit á Instagram og er síðan með virkari mönnum á Twitter, þar sem hann fylgist greinilega vel með því sem er sagt um sig. Hann svarar flestu sem fólk segir um sig, sama hvort hann sé sérstaklega merktur inn í það eða ekki. Mikill húmoristi. Það er sannur heiður að fá að taka á móti þessum merkilega fótboltamanni á Laugardalsvellinum.

Gengi liðsins í þessari undankeppni hefur verið á pari við gengið í flestum öðrum undankeppnum, liðið hefur átt erfitt með að skora mörk, hvað þá ná í einhver stig. Þeir voru þó nokkrum mínútum frá því að ná í öflugt stig gegn Tyrkjum í 5. umferðinni og hafa í sínum leikjum sýnt mikið hjarta þrátt fyrir að vera ekki með öflugustu leikmennina gæðalega séð.

Í síðustu umferð náði liðið hins vegar í gríðarlega góðan og merkilegan sigur gegn Moldóvu á heimavelli. Eina mark þess leiks skoraði miðvörðurinn Marc Vales, leikmaður Sandefjord í Noregi. Vales er því markahæsti leikmaður Andorra í þessari undankeppni. Það er sömuleiðis ljóst að leikmenn Andorra koma kátir til Íslands í þetta verkefni.

Til að enda þetta á öðrum mola tengdum Ilde Lima þá voru tveir leikmenn andorrska liðsins, sem spiluðu gegn Moldóvu á föstudaginn, ekki fæddir þegar Lima spilaði sinn fyrsta A-landsleik.


Fyrri viðureignir

Ef bara eru teknar viðureignir A-landsliða Íslands og Andorra í karlaflokki hafa liðin spilað 6 leiki, Ísland hefur unnið þá alla, skorað 16 mörk og fengið á sig 0 andorrsk mörk.

Embed from Getty Images

En ef við tökum með öll yngri landslið þjóðanna í karlaflokki þá eru leikirnir 10, Ísland hefur unnið 9 þeirra, skorað í þeim 31 mark og Andorra hefur samt ekki náð að skora gegn Íslandi en þó náð að landa einu 0-0 jafntefli. Það jafntefli kom í Andorra í maí 2006 þegar U21-landslið þjóðanna spilaði í undankeppninni fyrir EM U21 2007.

Kvennalandslið þessara þjóða hafa aldrei mæst.


Áfram Ísland!