Leikdagur: Ísland – Slóvenía

Fyrsti leikurinn sem íslenska A-landslið kvenna spilaði í undankeppninni fyrir EM í Hollandi á næsta ári fór fram þriðjudaginn 22. september í fyrra. 3.013 áhorfendur mættu á Laugardalsvöllinn og sáu Ísland vinna 2-0 sigur á Hvíta-Rússlandi. Undankeppnin byrjaði vel og núna, tæplega ári síðar, er liðið við það að tryggja sig inn á úrslitakeppni EM í þriðja skiptið í röð. Aðeins tveir leikir eru eftir til að klára verkefnið. Það hefst hér, gegn Slóvenum.

Byrjunarliðið í fyrsta leik undankeppninnar, gegn Hvíta-Rússlandi (Mynd: Myndasafn KSÍ)
Byrjunarliðið í fyrsta leik undankeppninnar, gegn Hvíta-Rússlandi (Mynd: Myndasafn KSÍ)

Undankeppni EM 2017 í knattspyrnu kvenna,
7. leikur.
Föstudagurinn 16. september 2016,
klukkan 18:45.

Ísland – Slóvenía

Nóg af stæðum við völlinn
Nóg af stæðum við völlinn

Völlur: Laugardalsvöllurinn, þjóðarleikvangur Íslendinga. Árið 2012 var áhorfendametið á kvennalandsleik slegið þegar 6.647 áhorfendur studdu landsliðið til sigurs gegn Úkraínu í umspilsleik fyrir EM í Svíþjóð árið 2013. Síðan þá hefur liðið spilað 9 landsleiki á heimavelli og meðalfjöldi áhorfenda á þeim leikjum hefur verið 1.954. Í síðasta leik mættu 4.270 áhorfendur. Við viljum fleiri áhorfendur. Þær eiga skilið fleiri áhorfendur. Völlurinn tekur 9.800 manns í sæti. Það er markmiðið.

Dómari: Olga Zadinová, Tékklandi


Ísland

Mynd: Myndasafn KSÍ
Mynd: Myndasafn KSÍ

Þjálfari: Freyr Alexandersson

Fyrirliði: Margrét Lára Viðarsdóttir

Leikjahæst: Katrín Jónsdóttir, 132 landsleikir á árunum 1994-2013. Af núverandi leikmönnum eru fyrirliðinn Margrét Lára Viðarsdóttir og Dóra María Lárusdóttir báðar búnar að spila 108 landsleiki. Margrét Lára spilaði sinn fyrsta landsleik 14. júní 2003 en Dóra María spilaði sinn fyrsta leik 19. september 2003.

Markahæst: Margrét Lára Viðarsdóttir er með flest mörk í sögu liðsins, hún hefur skorað 77 mörk í 108 landsleikjum.

Staða á styrkleikalista FIFA: 16. sæti
Staða á styrkleikalista UEFA: 9. sæti
Gengi í síðustu 10 landsleikjum: S S J S S T J S S S
Markatalan í síðustu 10 leikjum: 35-5

Mynd: Myndasafn KSÍ
Mynd: Myndasafn KSÍ

Það er óhætt að segja það að íslenska liðinu hafi gengið mjög vel í undankeppninni til þessa. Þær hafa sýnt firnasterkan leik í alla staði, komið einbeittar og ákveðnar inn í alla leiki og hreinlega valtað yfir alla mótherjana í riðlinum til þessa.

Ísland. Frakkland. Þýskaland. Þessi þrjú landslið skipa elítuhóp þeirra landsliða sem hafa ekki enn fengið á sig mark í undankeppni EM. Ísland er með markatöluna 29-0 eftir 6 leiki, Frakkland er með markatöluna 21-0 eftir 7 leiki og Þýskaland er með markatöluna 30-0 eftir 6 leiki. Þetta er aldeilis ekki amalegur félagsskapur.

Ísland á markahæsta leikmann undankeppninnar. Harpa Þorsteinsdóttir hefur skorað í öllum leikjunum til þessa og er komin með 10 mörk. Frábærlega gert hjá henni og hennar framlag hefur svo sannarlega verið dýrmætt. Það er ljóst að hún mun ekki spila fleiri leiki í undankeppninni en hún á sannarlega skilið gott klapp. Sem betur fer eru fleiri góðir markaskorarar í liðinu, þær Margrét Lára og Dagný Brynjars eru báðar komnar með 5 mörk í keppninni.

Það sem við munum sakna frá Hörpu er samt fleira en mörkin sem hún hefur verið að skora í hverjum einasta leik. Hún hefur líka verið dugleg við að gefa stoðsendingar, komin með 4 slíkar í þeim 6 leikjum sem Ísland hefur spilað. En aftur hefur liðið leikmenn sem geta tekið við keflinu. Fanndís Friðriksdóttir er komin með 4 stoðsendingar og 2 mörk í undankeppninni. Þar á eftir eru bæði Gunnhildur Yrsa og Elín Metta með 3 stoðsendingar, báðar eru þær með 1 mark að auki.

Það er skemmtilegt að skoða markatölfræðina hjá íslenska liðinu því bæði eigum við markahæsta leikmanninn í undankeppninni og einnig hefur markaskorunin verið að dreifast ansi vel á milli leikmanna. Þannig eru 11 leikmenn liðsins búnir að skora mörk.

En það er fleira en markaskorun sem hefur verið aðalsmerki íslenska liðsins í keppninni til þessa. Gríðarlega öflugur varnarleikur hefur líka skilað miklu öryggi í allan leik liðsins. Þar eiga margir skilið hrós. Núverandi þjálfarateymi liðsins hefur getað byggt ofan á það góða starf sem Siggi Raggi og hans fólk vann með liðið á sínum tíma, leikmenn eins og Hallbera Gísladóttir og Anna Björk Kristjáns hafa komið með stöðugleika og leikreynslu inn í varnarlínuna og leikmenn á borð við Elísu Viðars, Málfríði Ernu og Sif Atla hafa getað komið inn í liðið og spilað misjafnlega mikið en skilað sínu hlutverki með sóma. En það er hins vegar leikmaður þarna í vörninni sem má alveg fá smá extra athygli.

Glódís Perla. Mynd: mbl.is/Eggert Jó­hann­es­son
Glódís Perla. Mynd: mbl.is/Eggert Jó­hann­es­son

Glódís Perla Viggósdóttir. Hvílíkur leikmaður! Hún hefur spilað hverja einustu mínútu í hjarta varnarinnar hjá íslenska liðinu í þessari undankeppni og það er alveg óhætt að segja að hún eigi drjúgan þátt í því hvað varnarleikur liðsins hefur verið traustur. Þrátt fyrir að vera aðeins 21 árs gömul hefur hún mikla reynslu, hún spilar af þvílíkri yfirvegun og útsjónarsemi að það mætti halda að hún væri um það bil áratug eldri og bæði uppalin og útskrifuð úr ítalska skólanum í varnarleik.

Glódís var rétt orðin 17 ára gömul þegar hún spilaði sinn fyrsta landsleik, 1-1 jafnteflisleik við Skotland í byrjun ágúst 2012. Núna er hún komin með 41 landsleik. Í þessari undankeppni og síðustu undankeppni fyrir HM hefur Glódís spilað 16 leiki, landsliðið hefur haldið hreinu í 10 þeirra. Hún vann Íslandsmótið með Stjörnunni 2014, þá var Stjarnan með langbestu vörnina í mótinu. Árið 2015 fór hún til Eskilstuna United DFF í Svíþjóð. Það tímabil endaði Eskilstuna í 2. sæti deildarinnar en var með bestu vörnina. Tímabilið á undan hafði Eskilstuna endað í 7. sæti, eftir að Glódís gekk til liðs við sænska félagið fækkaði mörkunum sem það fékk á sig um 16 á milli tímabila. Yfir 22 leikja tímabil.

Tölfræðin segir samt ekki allt. Staðreyndin er að Glódís er bara einfaldlega með swagger á vellinum. Og þar er komin enn ein ástæða til að hvetja sem flesta til að skella sér á völlinn. Komið ykkur fyrir í stúkunni, fylgist með Glódísi að störfum. Sjáið allt þetta sem hún er svo góð í en skilar sér ekki endilega á sjónvarpsskjáinn. Ég mæli með því. Svo þurfum við að finna eitthvað gott lag fyrir hana, hún á það skilið.

Viggósdóttir
Kletturinn (Mynd af Twitter: @glodisperla)

 


Slóvenía

Þjálfari: Damir Rob

Fyrirliði: Mateja Zver. Zver þekkir íslenska knattspyrnu nokkuð vel, enda spilaði hún tæplega 100 leiki fyrir Þór/KA á árunum 2008 til  2013.

Leikjahæst: Mateja Zver

Markahæst: Mateja Zver

Staða á styrkleikalista FIFA: 59. sæti
Staða á styrkleikalista UEFA: 32. sæti
Gengi í síðustu 10 landsleikjum: T T T S T S T S S T
Markatalan í síðustu 10: 24-18

Slóvenía er sem stendur í 3. sætinu í riðli 1 í undankeppni EM 2017. Slóvenía hefur spilað 6 leiki, líkt og Ísland, unnið 3 þeirra og tapað 3. Liðið er með markatöluna 21-13. Í síðustu 3 leikjum liðsins hefur Slóvenía skorað 18 mörk.

Það þarf að hafa sérstakar gætur á Metja Zver. Hún er reynslumikill og öflugur leikmaður fyrir Slóveníu. En þær íslensku ættu að kannast við hana þar sem hún spilaði um tíma á Íslandi, var t.d. valin í lið tímabilsins á Íslandsmótinu sumarið 2010. Það sumar fékk hún silfurskóinn fyrir að vera næst markahæst í deildinni, hún skoraði þá 16 mörk í 18 leikjum. Hallbera Gísladóttir var með henni í liði tímabilsins og hlaut bronsskóinn þetta tímabil. Þá voru Sara Björk og Dóra María einnig með henni í liði ársins og þjálfari var valinn Freyr Alexandersson sem þá þjálfaði Val.

En þrátt fyrir að Metja Zver sé óumdeilanlega hættulegur sóknarmaður þá er hún ekki markahæsti leikmaður Slóvena í undankeppninni. Það er Tjaša Tibaut sem er markahæst, hún hefur skorað 5 mörk í 6 leikjum. Auk þess á hún eina stoðsendingu.

Fyrrverandi Akureyrarbúinn Zver hefur aðeins skorað 2 mörk en á móti kemur að hún hefur bara spilað 4 leiki. Það sem gerir hana svo enn hættulegri er að hún hefur gefið 6 stoðsendingar í þessum 4 leikjum, eða eina á klukkutíma fresti. Hún er í 4.-6. sæti yfir flestar stoðsendingar í undankeppninni og sú eina af efstu 11 sem hefur spilað færri en 6 leiki. Það er því ljóst að það þarf að passa vel upp á hana.

Mateja Zver með bikar sem hún fékk árið 2011 fyrir að eiga langflestar stoðsendingar í efstu deild kvenna á Íslandi, 19 stykki (Mynd: mbl.is/Skapti Hall­gríms­son)
Mateja Zver með bikar sem hún fékk árið 2011 fyrir að eiga langflestar stoðsendingar í efstu deild kvenna á Íslandi, 19 stykki (Mynd: mbl.is/Skapti Hall­gríms­son)

Viðureignin

Þetta verður 4. viðureign A-landsliða kvenna milli þessara þjóða. Í undankeppninni fyrir EM 2009 (í Finnlandi) lentu Ísland og Slóvenía saman í riðli ásamt Frakklandi, Serbíu og Grikklandi.

Fyrsti leikur liðanna fór fram í Slóveníu 26. ágúst 2007. Margrét Lára skoraði strax á 4. mínútu en Slóvenía leiddi samt í leikhlé, 2-1. Ekkert mark var skorað í seinni hálfleik og Slóvenía vann því þennan fyrsta leik.

En síðan ekki söguna meir hjá Slóveníu. Ísland vann seinni leikinn í þessari undankeppni, á Laugardalsvelli 21. júní 2008, með 5 mörkum gegn engu. Margrét Lára skoraði þrennu í leiknum, Katrín Jónsdóttir eitt og Katrín Ómarsdóttir eitt.

Í millitíðinni höfðu þjóðirnar mæst í U17 flokki kvenna, 19. september 2007. Ísland vann þann leik 5-0 þar sem Dagný Brynjarsdóttir skoraði þrennu.

Næst var komið að U19 ára liði kvenna, það mætti Slóvenum þann 17. september árið 2011. Glódís Perla var þar í vörninni þegar Ísland vann leikinn, 2-1.

U17 liðin mættust aftur í byrjun september árið 2012. Oddný Karólína Hafsteinsdóttir skoraði þá þrennu í 3-0 sigri Íslands.

Síðasti leikur milli þessara liða var 26. október í fyrra, þegar liðin mættust í þessari undankeppni fyrir EM. Íslenska liðið var miklu betra og  vann sanngjarnan 6-0 yfirburðarsigur. Harpa Þorsteins skoraði 2 mörk, líkt og Dagný Brynjarsdóttir en  Margrét Lára og Sandra María skoruðu 1 hvor.

Slóvenía á því aðeins einn sigurleik að baki í kvennaflokki gegn Íslandi. Það var fyrsti leikurinn. Ef við tökum bara A-liðin þá er staðan þannig að Ísland hefur unnið 2 leiki og Slóvenía 1. Markatalan er 12-2 fyrir Ísland.

Ef hins vegar hinir flokkarnir eru teknir með líka þá hafa liðin mæst 6 sinnum á fótboltavellinum, Ísland hefur sigrað 5 sinnum og Slóvenía einu sinni. Markatalan í þeim leikjum er 22-3 fyrir Ísland.


Við ætlum að hafa gaman á þessum leik og njóta þess að styðja þetta frábæra lið okkar. Tólfan mun hittast fyrir leik á Ölveri. Þar verður alls konar fjör í gangi, þeir stuðningsmenn Íslands í fótbolta sem hafa gaman af fjöri ættu ekki að missa af því.

Sjáumst á vellinum og áfram Ísland!