Leikdagur: Ísland – Skotland

Kæru Íslendingar,

til hamingju með daginn! Til hamingju með landsliðið. Til hamingju með EM.  Til hamingju með afmælið. Til hamingju!

islandskotlandparty
Smellið á myndina til að kaupa miða

Undankeppni Evrópumóts kvennalandsliða í knattspyrnu 2017,
8. leikur. Lokaleikur. Afmælisleikur.
Þriðjudagurinn 20. september 2016,
klukkan 17:00.

Ísland – Skotland

Völlur: völlurinn okkar allra, Laugardalsvöllurinn. Í síðasta leik mættu 6.037 og skemmtu sér gríðarlega vel. Það var 610 áhorfendum frá áhorfendametinu. Klárum það í þessum leik, kveðjum þessa undankeppni með stæl.

Dómari: Katalin Kulcsár, ungversk


Afmælishátíð

blodrur
Afmælisblöðrur

Þennan leik ber akkúrat upp á afmælisdag íslenska kvennalandsliðsins. Nú eru 35 ár frá fyrsta leik liðsins, sá leikur var einmitt líka gegn Skotlandi. Þeir sem vilja kynna sér betur aðdragandann að þessum fyrsta leik geta skoðað þennan afmælispistil sem kom út 8. september sl.

Það er því ærið tilefni til að halda upp á þennan leik og mæta á völlinn. Öllum er boðið í þessa afmælisveislu! Kostar ekki nema 2.500 krónur en það er frítt fyrir 16 ára og yngri. Komaso, skella sér á völlinn! Best væri ef allir áhorfendur gætu mætt bláklæddir en það sleppur þó alveg að mæta í öðrum litum, allir þurfa þó að vera í stuði og láta vel í sér heyra. Þetta er líka miklu skemmtilegra þannig.


Ísland

Sjáumst á EM í Hollandi (mynd: Facebooksíða KSÍ)
Sjáumst á EM í Hollandi (mynd: Facebooksíða KSÍ)

Landsliðsþjálfari: Freyr Alexandersson

Fyrirliði: Margrét Lára Viðarsdóttir

Leikjahæst: Margrét Lára og Dóra María Lárusdóttir bættu báðar við sig landsleik gegn Slóveníu og eru komnar upp í 109 landsleiki. Þá spilaði Hólmfríður Magnúsdóttir 106. landsleik sinn á ferlinum. En leikjahæst í sögunni er sem fyrr Katrín Jónsdóttir með 132 landsleiki.

Markahæst: Margrét Lára Viðarsdóttir var 16 ára þegar hún spilaði sinn fyrsta A-landsleik, 14. júní 2003. Hún kom inn á völlinn á 66. mínútu og á 70. mínútu skoraði hún sitt fyrsta landsliðsmark. Síðan þá hefur hún skorað 77 mörk fyrir A-landsliðið. Þrisvar sinnum hefur hún skorað 4 mörk í einum og sama leiknum. 4 af þessum mörkum hafa komið gegn Skotlandi.

Staða á styrkleikalista FIFA: 16. sæti
Staða á styrkleikalista UEFA: 9. sæti
Gengi í síðustu 10 leikjum: S J S S T J S S S S
Markatala í síðustu 10 leikjum: 35-5

Mynd: Facebooksíða KSÍ
Mynd: Facebooksíða KSÍ
Að halda hreinu

Íslenska liðið getur náð því magnaða afreki að halda hreinu í gegnum heila undankeppni ef það klárar þennan leik án þess að fá á sig mark. Það er ekki afrek sem gerist á hverjum degi. Frá því UEFA fór að halda Evrópukeppni kvennalandsliða árið 1984 hafa 284 landslið tekið þátt í undankeppni mótsins. Af þeim hafa 14 lið náð að fara í gegnum undankeppnina án þess að fá á sig mark.

En það þarf þó að taka ýmislegt með í reikninginn þegar það er skoðað. Liðin hafa í gegnum tíðina spila misjafnlega marga leiki í undankeppnunum. Lengi vel var algengast að liðin þyrftu að spila 4-6 leiki í undankeppnum. 5 af liðunum 14 sem náðu að halda hreinu þurftu þannig aðeins að spila 4 leiki til að ná því. Og í undankeppninni fyrir EM 1993 þurfti Þýskaland aðeins að spila einn leik í undankeppninni. Þjóðverjar voru þá aðeins með einu landi í riðli, Júgóslavíu. Það var ekki alveg jafn galið og það hljómar því í hinum 7 riðlum undankeppninnar voru 3 lið í hverjum riðli. Þjóðverjar unnu fyrri leikinn í riðlinum, 3-0. Hinn leikurinn var svo aldrei spilaður, enda var þetta 1992 og UEFA var ekkert alltof hrifið af Júgóslavíu á þeim tímum.

Í 5 af skiptunum 14 þurftu landsliðin að halda hreinu í 6 leikjum til að klára undankeppnina án þess að fá á sig mark. Aðeins tvisvar hafa lið sem spiluðu 8 leiki, líkt og Ísland gerir núna, náð að halda hreinu allan tímann. Landslið Ítalíu er svo einstakt að því leyti að það náði að halda hreinu í öllum 10 leikjunum sem liðið spilaði í undankeppninni fyrir EM 2013.

En það að halda hreinu hefur ekki alltaf skilað liðunum í úrslitakeppnina. Í undankeppninni fyrir EM 1995 voru England og Spánn saman í riðli. Bæði lið héldu hreinu í öllum 6 leikjum sínum í undankeppninni. Þau gerðu markalaus jafntefli í viðureignum sínum innbyrðis en Spánverjar gerðu auk þess markalaust jafntefli við Belgíu og sátu því eftir þar sem aðeins efsta lið hvers riðils fór áfram.

Noregur er sú þjóð sem oftast hefur náð þessu, alls fjórum sinnum. Eftir slíkan árangur féll Noregur tvisvar úr leik í undanúrslitum, endaði einu sinni í 2. sæti og vann EM í eitt skiptið. Þýskaland hefur næst oftast náð þessum árangri, þrisvar sinnum. En auðvitað var í einu þeirra skipta nóg að halda hreinu í einum leik. Eftir slíkan árangur vann Þýskaland mótið í 2 skipti og endaði í 4. sæti þegar það spilaði aðeins 1 leik í undankeppninni.

Svíþjóð og Holland hafa bæði náð þessu tvisvar sinnum. England, Spánn og Ítalía hafa síðan náð þessu einu sinni hver þjóð. Þetta er því félagsskapurinn sem íslenska liðið getur komist í. Þýskaland gæti komist upp að hlið Noregs ef það nær að halda hreinu í sínum lokaleik og Frakkland getur bæst við í hópinn með því að ná þessu í fyrsta skipti ef þær frönsku fá ekki á sig mark í sínum lokaleik.

Guðbjörg Gunnarsdóttir og félagar hafa lokað á allt í undankeppninni til þessa (mynd: Fótbolti.net - Ragnheiður Ágústa)
Guðbjörg Gunnarsdóttir og félagar hafa lokað á allt í undankeppninni til þessa (mynd: Fótbolti.net – Ragnheiður Ágústa)
Að skora mörk

Íslensku stelpurnar okkar hafa ekki bara verið flottar í vörninni í undankeppninni til þessa heldur hafa þær sýnt gríðarlega flotta takta í sókninni. Fyrir lokaleikinn er Ísland í 3. sæti yfir markahæstu liðin í undankeppninni, með 33 mörk í 7 leikjum (4,71 mark að meðaltali í leik). Aðeins Evrópu- og Ólympíumeistarar Þjóðverjar og Spánverjar eru með fleiri mörk, þau hafa bæði skorað 34 mörk í 7 leikjum (4,86 mörk pr. leik).

Í síðasta leik Noregs skoraði framherjinn Ada Hegerberg þrennu sem gerði það að verkum að hún fór upp að hlið Hörpu Þorsteinsdóttur með 10 mörk í undankeppninni. Þær tvær eru markahæstar en hafa báðar lokið keppni. 2 leikmenn hafa skorað 8 mörk og þar á eftir koma 5 leikmenn með 7 mörk. Á meðal þeirra leikmanna sem hafa skorað 7 mörk er Dagný Brynjarsdóttir.

Dagný Brynjarsdóttir (mynd: Vísir.is - Anton Brink)
Dagný Brynjarsdóttir (mynd: Vísir.is – Anton Brink)

Það er mjög erfitt að ætla að taka einn leikmenn úr þessu íslenska liði til að tala um sóknarleik. Einn helsti styrkleiki íslenska liðsins er einmitt hvað liðsheildin er svakalega flott í alla staði. Liðið er mjög vel samhæft, þekkja hver aðra út og inn og eru snjallar knattspyrnukonur allar með tölu.

Dagný Brynjarsdóttir hefur með sér á miðjunni þær Söru Björk og Margréti Láru, tvo leikmenn í algjörum heimsklassa. Dagný er það auðvitað líka og virðist fara vaxandi með hverjum leiknum sem líður. Hún hefur skorað 19 mörk í 65 landsleikjum, þar af hafa 10 markanna komið í síðustu 18 leikjum. Hún er afskaplega útsjónarsamur leikmaður og dugleg að koma með hættuleg hlaup inn í teig. Það í bland við þá staðreynd að íslenska liðið á flotta kantmenn og bakverði sem geta komið með hættulegar fyrirgjafir hefur skilað ófáum mörkum, Dagný er dugleg að nýta sér sína 180 sentímetra í að skalla boltann í markið.

Hún var nálægt því að ná þrennu í síðasta leik. Það kæmi því alls ekki á óvart þótt hún myndi líka setja mark eða mörk gegn Skotlandi.


Skotland

Skotland fagnar marki gegn Hvíta-Rússlandi (mynd: skoska knattspyrnusambandið)
Skotland fagnar marki gegn Hvíta-Rússlandi (mynd: skoska knattspyrnusambandið)

Landsliðsþjálfari: Anna Signeu

Fyrirliði: Gemma Fay

Leikjahæst: Markvörðurinn og fyrirliðinn Gemma Fay spilaði sinn fyrsta landsleik 16 ára gömul. Hún hafði spilað 23 landsleiki áður en hún varð 19 ára. Hún er nú komin með 191 landsleik fyrir Skotland. Það er alveg ágætt!

Markahæst: Framherjinn Julie Fleeting hefur skorað 116 mörk í 121 landsleik fyrir Skotland. Hún hefur þó ekki spilað landsleik síðan í febrúar 2015 og gæti hafa spilað sinn síðasta. Af þeim leikmönnum sem eru í hópnum sem mætir Íslandi er Jane Ross markahæst, með 44 mörk í 94 leikjum.

Staða á styrkleikalista FIFA: 21. sæti
Staða á styrkleikalista UEFA: 14. sæti
Gengi í síðustu 10 leikjum: T S S S S T J S T S
Markatala í síðustu 10 leikjum: 29-17

Miðjumaðurinn Kim Little er í 2.-4. sæti á listanum yfir stoðsendingahæstu leikmennina í undankeppninni. Hún hefur gefið sjö slíkar í sjö leikjum. Auk þess hefur hún skorað 5 mörk sjálf og er í 3. sæti yfir markahæstu leikmenn Skotlands. Hún verður þó ekki með í leiknum gegn Íslandi og munar þar ansi miklu fyrir Skotana. Hún hafði spilað hverja einustu mínútu í undankeppninni til þessa, aðeins hún og Gemma Fay í markinu höfðu gert það. Að auki er varnarmaðurinn Ifeoma Dieke ekki með en hún á 111 landsleiki að baki fyrir skoska liðið, þar af 5 í þessari undankeppni.

En þær eiga nú alveg hættulega leikmenn fyrir utan þessar tvær. Framherjinn Jane Ross er þannig í 3.-4. sæti yfir markahæstu leikmenn undankeppninnar, með 8 mörk. Ross er auk þess í 7.-9. sæti yfir flestar stoðsendingar, með 5 stykki. Það er alveg ljóst að það þarf að passa vel upp á Jane Ross.

Ross er þó ekki stoðsendingahæst þeirra leikmanna sem eru í skoska hópnum. Hayley Lauder er með 6 stoðsendingar og 1 mark en hún getur bæði spilað á vinstri kantinum og frammi í sókninni.


Viðureignin

Þetta verður í 10. skipti sem þessar þjóðir mætast í A-landsleik kvenna. Fyrsti leikurinn var, eins og áður hefur verið sagt, fyrsti leikurinn. Hjá Íslandi. Það var nú 28. leikurinn hjá Skotlandi. Hann fór fram 20. september 1981 og endaði 3-2 fyrir Skotland. Merkilegt nokk þá tapaði Skotland einnig sínum fyrsta landsleik með sömu markatölu, gegn Englandi í nóvember 1972.

Í undankeppninni fyrir EM 1993 lentu þjóðirnar saman í riðli ásamt Englandi. Fyrri leikurinn fór fram í Skotlandi í maí 1992 og endaði 0-0. Mánuði síðar mættust liðin aftur, í þetta skiptið á Akranesi. Ísland vann þann leik, 2-1. Seinna mark Íslands skoraði Ásta B. Gunnlaugsdóttir en hún hafði einmitt líka skorað seinna mark Íslands í fyrsta leiknum, 11 árum fyrr. England vann alla sína leiki og fór áfram, Ísland endaði í 2. sæti og Skotland rak lestina.

Þeir 5 leikir sem liðin spiluðu svo frá undankeppni EM ’93 fram að undankeppni EM ’17 voru allt vináttuleikir. Í maí 1994 vann Ísland 4-1 og í mars 2004 vann Ísland 5-1 í Egilshöllinni þar sem Margrét Lára skoraði þrennu, Ásthildur Helgadóttir eitt mark og Dóra María Lárusdóttir eitt. Dóra María skoraði svo bæði mörkin í 2-0 sigri Íslands í maí 2005. Liðin gerðu 1-1 jafntefli í Skotlandi í ágúst 2012. Ári síðar, í júní 2013, spiluðu þessi lið svo fyrsta leik sinn á Laugardalsvellinum. Skotland vann þann leik, 3-2. Sara Björk Gunnarsdóttir og Hólmfríður Magnúsdóttir skoruðu mörk Íslands í þessum leik. Flestar af þeim sem spiluðu þann leik eru enn í hóp íslenska liðsins.

Síðasti leikur milli þessara liða var svo fyrri leikurinn í þessari undankeppni, þegar Ísland vann Skotland á útivelli með 4 mörkum gegn engu. Sá leikur var gjörsamlega frábær hjá íslenska liðinu. Hallbera Gísladóttir, Harpa Þorsteins, Gunnhildur Yrsa og Margrét Lára skoruðu mörk Íslands. Kim Little var síðan svo hugulsöm að klúðra víti alveg í lokin svo Ísland gæti haldið áfram að halda hreinu.

Af þessum 9 leikjum hefur Ísland því unnið 5. Skotland hefur unnið 2 leiki (báða 3-2) og 2 hafa endað með jafntefli. Markatalan í þessum leikjum er 22-10 fyrir Ísland.


Dómarahornið

Katalin Kulcsár dæmir leikinn (mynd: Martin Rose/Getty Images Europe)
Katalin Kulcsár dæmir leikinn (mynd: Martin Rose/Getty Images Europe)

Katalin Anna Kulcsár er 31 árs gömul, fædd 7. desember 1984 í borginni Gy?r í norðvesturhluta Ungverjalands.  Hún hefur verið alþjóðlegur FIFA-dómari frá árinu 2004 og frá árinu 2011 hefur hún dæmt í efstu deild bæði karla og kvenna í Ungverjalandi.

Hún dæmdi sinn fyrsta landsleik í september 2004, hún dæmdi úrslitaleikinn í EM U17 árið 2009 og hefur dæmt á lokamótum stórmóta hjá A-landsliðum. Núna í vor dæmdi hún úrslitaleik meistaradeildar Evrópu í kvennadeildinni, milli Wolfsburg og Lyon.

Kulcsár er menntaður hagfræðingur og starfar sem slíkur milli þess sem hún dæmir stórleiki.

Aðstoðardómarar í leiknum verða þær Andrea Hima og Katalin Török, þær eru einnig frá Ungverjalandi. Fjórði dómarinn verður Rúna Stefánsdóttir.


Mætið á völlinn. Syngið, klappið, húh-ið, öskrið, hlæið og skemmtið ykkur. Svo sjáumst við í Hollandi eftir tæplega ár!