Leikdagur: Kósóvó – Ísland

Það er komið að fyrsta alvöru keppnisleik ársins 2017 hjá íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu. Það er fyrsti leikur Íslands gegn landsliði Kósóvó.

A-landslið karla,
undankeppni HM í Rússlandi 2018.
5. umferð í I-riðli.
Föstudagurinn 24. mars 2017,
klukkan 19:45 að íslenskum tíma (20:45 að staðartíma)

Kósóvó – Ísland

Völlur: Loro Boriçi Stadium í Shköder, Albaníu. Völlurinn er líka heimavöllur albanska landsliðsins. Það eru tveir vellir í Kósóvó sem hafa verið notaðir undir landsleiki, annars vegar Pristina City Stadium í höfuðborginni Pristina og hins vegar Adem Jashari Ólympíuleikvangurinn í Mitrovica. Báðir þessir vellir eru hins vegar að ganga í gegnum endurbætur og því var ákveðið að heimaleikir Kósóvó í þessari undankeppni yrðu spilaðir í Albaníu. Það er u.þ.b. 3 klukkutíma bílferð frá Pristina til Shköder.

Loro Boriçi leikvangurinn var byggður á árunum 1950 til 1952 og opnaður 1. maí 1952. Völlurinn hét Vojo Kushi Stadium frá 1952 til 1990, nefndur eftir kommúnískri stríðshetju Albana frá seinni heimstyrjöldinni. Hann fór síðast í gegnum endurbyggingu og stækkun árið 2015 og tekur nú um 16.000 áhorfendur í sæti. Hann er stærsti völlur landsins eftir að Qemal Stafa Stadium í Tirana (einnig nefndur í höfuðið á kommúnískri stríðshetju) var rifinn. Nú standa yfir framkvæmdir fyrir nýjan þjóðarleikvang Albana í Tirana. Þangað til spila bæði landslið Albaníu og Kósóvó á Loro Boriçi vellinum í Shköder.

Dómari: Arthur Dias, portúgalskur

Veðurspá: Fín veðurspá. Sólin verður farin niður þegar leikur hefst, það verður skýjað en úrkomulaust, 15-16 gráðu hiti og norðaustan andvari. Gæti varla verið betra.


Kósóvó

Þjálfari: Albert Bunjaki

Albert Bunjaki hét upphaflega Albert Bunjaku. Árið 1991 var hann tvítugur framherji knattspyrnuliðsins FC Prishtina þegar hann var kallaður í júgóslavneska herinn til að berjast í stríðunum sem urðu vegna yfirvofandi upplausnar Júgóslavíu. Hann hafði engan áhuga á að taka þátt í þeim stríðsátökum svo hann flúði til Svíþjóðar. Þar með átti hann yfir höfði sér 20 ára fangelsisdóm fyrir liðhlaup. Hann breytti því nafni sínu úr Bunjaku í Bunjaki. Í Svíþjóð spilaði hann með Skövde, IFK/MBK Mariestad, Töreboda IK og Torsö Hassle. Frá 1998 hefur hann verið þjálfari, fyrst um sinn í Svíþjóð en frá 2009 hefur hann stýrt landsliði Kósóvó.

Fyrirliði: Samir Ujkani

Ujkani er 28 ára gamall markvörður. Hann spilar á Ítalíu, er samningsbundinn Genoa en er núna á láni hjá Pisa í Serie B. Hann á 20 leiki að baki fyrir landslið Albaníu á árunum 2009-13 (þar af 2 tapleiki gegn Íslandi) en hefur spilað fyrir Kósóvó síðan 2014.

Leikjahæstir: Samir Ujkani og Fanol Përdedaj

Ujkani og Përdedaj hafa báðir spilað alla 11 knattspyrnuleikina sem Kósóvó hefur spilað opinberlega og eru samþykktir af FIFA. Það eru 7 vináttuleikir og svo 4 leikir í þessari undankeppni fyrir HM 2018.

Fanol Përdedaj er 25 ára gamall bakvörður eða varnarsinnaður miðjumaður sem spilar fyrir 1860 München í þýsku 2. deildinni. Hann er uppalinn í Þýskalandi, hefur spilað þar nánast allan sinn feril og á leiki fyrir bæði U19 og U21 landslið Þýskalands.

Markahæstur: Albert Bunjaku

Bunjaku spilar með FC Erzgebirge Aue í þýsku 2. deildinni. Hann hefur skorað 3 mörk fyrir Kósóvó í 6 landsleikjum. Allir leikirnir sem hann skoraði í fyrir liðið voru vináttuleikir. Hann var síðast valinn í hópinn fyrir leikinn gegn Tyrkjum í nóvember en spilaði ekkert þá. Hann hefur verið að glíma við meiðsli og er ekki í hópnum að þessu sinni.

Markahæstur þeirra leikmanna sem eru í núverandi hóp er Elba Rashani, 23 ára gamall framherji Rosenborg. Rashani fæddist í Svíþjóð, ólst upp í Noregi en á foreldra frá Kósóvó. Hann spilaði knattspyrnu í yngri flokkum norska liðsins Skarphedin áður en hann færði sig yfir til Odd Grenland, Bröndby og svo Rosenborg á síðasta ári. Hann spilaði fyrir U17, U18, U19, U20 og U21 landslið Noregs en valdi svo að leika fyrir A-landslið Kósóvó. Hann hefur spilað 2 landsleiki fyrir Kósóvó og skorað í þeim báðum. Báðir voru þeir þó vináttuleikir, gegn Albaníu og Færeyjum.

Sá sem er markahæstur í undankeppninni fyrir Kósóvó er miðjumaðurinn Valon Berisha. Hann skoraði eina mark Kósóvó í keppninni til þessa, jöfnunarmark úr vítaspyrnu gegn Finnlandi í fyrstu umferðinni Berisha er líka fæddur í Svíþjóð en uppalinn í Noregi, lék í gegnum öll yngri landslið Noregs og 20 A-landsleiki á árunum 2012-16 áður en hann skipti yfir í Kósóvó.

Staða á styrkleikalista FIFA: 164. sæti

Gengi í síðustu 10 leikjum: T T S S J S J T T T
Markatala í síðustu 10 leikjum: 10-23

Gengi liðsins í undankeppninni til þessa

Mynd: Knattspyrnusamband Kósóvó

Fyrsti alvöru keppnisleikur Kósóvó fór fram á Veritas vellinum í Turku 5. september 2016 þegar heimamenn í Finnlandi tóku á móti nýliðunum í Kósóvó. Finnland komst yfir í leiknum á 18. mínútu en Kósóvó jafnaði úr vítaspyrnu eftir klukkutíma leik. Niðurstaðan 1-1 jafntefli eins og í báðum hinum leikjum fyrstu umferðar í I-riðli, Kósóvó ánægðir með gott útistig.

Næsti leikur fór ekki alveg eins vel. Eini heimaleikur Kósóvó til þessa, gegn Króatíu 6. október. Mario Mandžuki? skoraði þrennu í fyrri hálfleik og þeir Mitrovi?, Periši? og Kalini? bættu við mörkum í seinni hálfleik og lokastaðan 0-6.

Næst var komið að útileik gegn Úkraínu. En sá leikur fór ekki fram í Úkraínu heldur í Póllandi. Ástæðan fyrir því var sú að Úkraína neitaði að samþykkja kósóvósk vegabréf vegna andstöðu landsins við sjálfstæði Kósóvó.

Úkraínski framherjinn Artem Kravets skoraði fyrsta mark leiksins eftir rúmlega hálftíma leik. Eftir það sýndu leikmenn Kósóvó mikla baráttu og það gekk erfiðlega fyrir Úkraínu að koma næsta marki inn. Það hafðist þó og tvö mörk á síðustu 10 mínútunum skiluðu 3-0 sigri Úkraínu.

Í síðustu umferð fór kósóvóska liðið í heimsókn til Tyrklands. Tyrkirnir voru ekki að vesenast neitt með vegabréfin svo leikurinn gat farið fram í heimalandi heimaliðsins í það skiptið. Fimm mínútna kafli fór illa með Kósóvó þegar Y?lmaz og ?en skoruðu sigurmörk Tyrklands á 51. og 55. mínútu.

Kósóvó er því með 1 stig eftir 4 leiki og markatöluna 1-12. Það eitt og sér gæti bent til þess að Ísland ætti þægilegan leik í vændum. Slíkur hugsunarháttur er þó ávísun á vandræði.

Hættulegir leikmenn

Kósóvó hefur verið að spila á 4-2-3-1 kerfinu. Það hafa verið einhverjar róteringar í flestum stöðum milli leikja en sami leikmaður hefur byrjað á hægri kantinum í öllum leikjunum. Það er Milot Rashica, tvítugur leikmaður Vitesse frá Arnhem í Hollandi. Rashica er á sínu öðru tímabili með Vitesse eftir að hafa komið þangað frá Kosova Vushtrri. Hann spilaði með albanska landsliðinu í gegnum alla yngri flokkana og 2 A-landsleiki en ákvað rétt áður en undankeppnin hófst að skipta yfir í landslið Kósóvó. Snöggur og flinkur kantmaður sem getur skapað hættu og búið til eitthvað upp úr engu.

Sá sem hefur tekið stöðu fremsta manns í kósóvóska landsliðinu í síðustu 2 leikjum er Vedat Muriqi. Hann er 22 ára gamall og hefur spilað í Tyrklandi síðan 2014, fyrst með Giresunspor og svo með Gençlerbirli?i. Hann fékk tyrkneskt vegabréf í júlí 2015. Eftir það vildi þjálfarinn Fatih Terim endilega fá Muriqi í tyrkneska landsliðið en Kósóvó hafði vinninginn hjá framherjanum.

Hann er í sjálfu sér engin markamaskína en hann er mjög vinnusamur og gríðarlega sterkur í loftinu. Við þekkjum týpuna. Hann er hættulegur í föstum leikatriðum og getur skapað eitthvað fyrir fljótu kantmennina í kringum sig með því að vinna skallaeinvígi.


Ísland

Staða á styrkleikalista FIFA: 23. sæti

Gengi í síðustu 10 leikjum: S T J S S T S S T T
Markatalan í síðustu 10 leikjum: 14-13

Af síðustu 10 leikjunum þá eru fyrstu 2 lokaleikirnir á EM í Frakklandi, næstu 4 leikirnir í þessari undankeppni og síðustu 4 vináttuleikir á þeim tíma þegar flestir sterkustu leikmenn liðsins voru uppteknir með félagsliðum sínum.

Í undankeppninni fyrir EM í Frakklandi var íslenska karlalandsliðið afar heppið með meiðsli. Það heyrði til algjörra undantekninga ef liðið hafði ekki þá leikmenn sem Lars og Heimir vildu helst nota. Ef þá vantaði á annað borð þá var það frekar vegna leikbanns.

En staðan er önnur núna. Nú vantar ansi marga af þeim sem hafa spilað lykilhlutverk síðustu mánuði og ár. Sérstaklega vantar í sóknina og kantstöðurnar. En þá er tilvalið tækifæri fyrir aðra leikmenn að sýna sig og sanna, koma sterkir inn og hjálpa liðinu.

Það er tilvalið að nota þetta tækifæri og benda öllum á Umræðusvæði Tólfunnar á Facebook. Þetta er spjallgrúppa fyrir þau okkar sem vilja vita hvað er um að vera hjá Tólfunni og spjalla um landsliðin okkar og stuðningsmannatengda hluti. Ef þið hafið áhuga á Tólfunni endilega kíkið við í grúppuna. Þá getið þið líka lesið skemmtilegan pistil eftir Ósa Kóng þar sem hann fer yfir stöðuna á leikmannahópnum sem var valinn fyrir leikinn og hvernig leikmennirnir hafa verið að spila. Það er hægt að lesa pistilinn hér og tilvalið að taka svo þátt í umræðunni um það hvernig þið mynduð stilla upp byrjunarliðinu í leiknum miðað við hópinn.

Svo minnum við á stuð og stemningu á Ölveri yfir leiknum. Mæting snemma, mætum bláklædd og höfum gaman.


Dómarahornið

Dómarinn í þessum leik heitir Artur Manuel Soares Dias. Hann fæddist 14. júlí 1979 og kemur frá Portúgal. Hann hefur verið alþjóðlegur FIFA dómari frá árinu 2010. Hann hefur dæmt í lokakeppnum yngri landsliða, undankeppnum A-landsliða, Meistaradeild Evrópu, Evrópudeildinni auk vináttulandsleikja.

Þetta verður annar leikurinn sem hann dæmir í þessari undankeppni. Sá fyrri var viðureign Litháen og Slóveníu í 1. umferð F-riðils, 4. septemer á síðasta ári. Sá leikur endaði 2-2 þar sem hvort lið fékk eitt gult spjald á sig.

Honum til halds og trausts verða aðstoðardómararnir Rui Tavares og Paulo Soares, fjórði dómarinn verður João Pinheiro. Allir frá Portúgal eins og Dias.


Áfram Ísland!