Leikdagur: Ísland – Króatía

Loksins, loksins er komið að öðrum landsleik á heimavelli! Ekki verra að það sé júníleikur, við kunnum öll vel við góða júníleiki. Og það er ekkert slorlið sem er að kíkja í heimsókn, fá lið eru betur mönnuð af heimsklassa fótboltaleikmönnum en það króatíska. Seinni leikur liðanna í riðlinum, Ísland á harma að hefna!

A-landslið karla,
undankeppni HM í Rússlandi 2018.
6. umferð í I-riðli.
Sunnudagurinn 11. júní 2017, sjómannadagurinn,
klukkan 18:45.

Ísland – Króatía

Völlur: okkar eigin Laugardalsvöllur. Hann er góður en getur orðið enn betri. Núna fyrir helgi ákvað ríkisstjórnin að smella 4 kúlum í hagkvæmnisathuganir vegna fyrirhugaðrar stækkunar vallarins. Síðar í júní munu svo hugmyndir um stækkunina verða kynntar. Mjög spennandi. En núverandi Laugardalsvöllur dugar í bili, sérstaklega ef hann verður smekkfullur af öskrandi hressu stuðningsfólki.

Dómari: Alberto Undiano Mallenco, spænskur.

Veðurspá: Það er spáð heiðskíru, 12-13 stiga hita og norðan 3-5 m/s. Ljómandi fín veðurspá.


Ísland

Staða á styrkleikalista FIFA: 22. sæti

Gengi í síðustu 10 leikjum: J S S T S S T T S S
Markatalan í síðustu 10 leikjum: 13-8

Sex sigrar í síðustu 10 leikjum hjá karlalandsliðinu. Liðið hefur ekki tapað landsleik á Laugardalsvelli síðan 7. júní 2013 (sá leikur var 2-4 tap gegn Slóveníu). Síðan þá hefur liðið spilað 13 leiki, unnið 10 þeirra og gert 3 jafntefli. Markatalan í þessum 13 síðustu heimaleikjum er 24-6. Það er geggjaður árangur.

Okkar maður Alfreð Finnbogason er mættur aftur eftir að hafa misst af síðustu leikjum vegna meiðsla. Hann byrjaði þessa undankeppni frábærlega og var duglegur að skora í fyrstu leikjunum. Vonum að hann haldi áfram þar sem frá var horfið, viljum endilega fara að skora fleiri mörk gegn þessu króatíska liði!

Það eru nokkrir leikmenn í liðinu sem gætu náð merkilegum áföngum í þessum landsleik. Ef hann spilar þá nær:

  • Kári Árnason sínum 60. landsleik
  • Gylfi Þór Sigðursson sínum 50. landsleik
  • Ari Freyr Skúlason sínum 50. landsleik
  • Rúrik Gíslason sínum 40. landsleik
  • Ólafur Ingi Skúlason sínum 30. landsleik
  • Hörður Björgvin Magnússon sínum 10. landsleik

Leikjahæsti maðurinn í hópnum er bakvörðurinn knái, Birkir Már Sævarsson. Hann hefur spilað 71 landsleik en fyrirliðinn okkar kemur þar á eftir með 70 leiki.

Gylfi Þór Sigurðsson er markahæstur leikmanna í hópnum, með 15 landsliðsmörk. Næstur á eftir honum er Alfreð Finnbogason með 11 mörk. Þeir hafa báðir skorað í þessari undankeppni. Alfreð er markahæstur íslenska liðsins með 3 mörk en Gylfi Þór hefur skorað 1 mark, eins og Kári, Raggi og Björn Bergmann. Gylfi og Kári eru stoðsendingahæstir í liðinu, báðir með 2 stoðsendingar.

Þrír leikmenn íslenska liðsins hafa spilað hverja einustu mínútu í þessari undankeppni, það eru jaxlarnir Gylfi Þór Sigurðsson, Kári Árnason og Ragnar Sigurðsson.


Króatía

Staða á styrkleikalista FIFA: 18. sæti

Gengi í síðustu 10 leikjum: J S S S S J J S T S
Markatalan í síðustu 10 leikjum: 18-7

Það er ekki langt síðan síðasta upphitun um Króatíu kom hingað inn. Hún á enn að mörgu leyti við og hægt að rifja hana upp hérna.

Síðan fyrri leikur liðanna í undankeppninni fór fram hefur króatíska liðið spilað einn leik í undankeppninni og fimm vináttuleiki. Leikurinn í undankeppninni var á heimavelli gegn Úkraínu. Króatía vann þann leik með einu marki frá Nikola Kalini?. Liðið vann svo tvo vináttuleiki, gegn Norður-Írlandi og Mexíkó, gerði tvö jafntefli, gegn Síle og Kína, og tapaði einum leik, gegn Eistlandi.

Það vantar töluvert í leikmannahóp Króatíu fyrir þennan leik. Helst má þar nefna Ivan Rakiti?, miðjumann Barcelona, og markmanninn Danijel Subaši? sem spilar með Mónakó. Það munar um slíka gæðaleikmenn en króatíska liðið er ekki á flæðiskeri statt þegar kemur að góðum fótboltaleikmönnum.

Markahæsti leikmaður króatíska liðsins í þessari undankeppni er jafnframt markahæsti leikmaður núverandi leikmannahóps, Mario Mandžuki?. Hann hefur skorað 4 mörk í þessari undankeppni og samtals 29 mörk fyrir landsliðið. Á eftir honum koma Marcelo Brozovi? og Nikola Kalini? með 2 mörk hvor, bæði mörk Brozovi? komu gegn Íslandi.

Brozovi? er einnig stoðsendingahæsti leikmaður Króatíu, ásamt Rakiti? og Andrej Kramari?, en þeir eru allir með 2 stoðsendingar. Tveir síðarnefndu leikmennirnir eru þó báðir frá vegna meiðsla og spila ekki gegn Íslandi.

Aðeins tveir leikmenn liðsins hafa spilað hverja einustu mínútu í þessari undankeppni. Það eru varnarmaðurinn ljóshærði með taglið, Domagoj Vida frá Dynamo Kyiv, og miðjustálið Milan Badelj frá Fiorentina. Þeir hafa báðir átt nokkrar marktilraunir í þessari undankeppni en hvorugur skorað ennþá.


Tólfan

Að venju verður heilmikið Tólfufjör fyrir þennan leik og nóg um að vera.

BK kjúklingur

Besta leiðin til að byrja góðan gameday á Íslandi er að skella sér á BK kjúkling á Grensásvegi. Hver sem mætir þangað upp úr klukkan 13 í Tólfutreyju fær geggjaðan kjúlla og með því. Það er mjög mikilvægt að næra sig vel fyrir daginn og Halli í BK klikkar aldrei á því.

Ölver

Ölver er heimavöllur Tólfunnar. Þangað förum við eftir kjúklingaveisluna, flestir eru að mæta þangað upp úr 14 en að sjálfsögðu má mæta fyrr.

Klukkan 16 ætlar þýska rokkhetjan Klaus Pfreundner að taka lagið fyrir okkur. Ef fólk man ekki hver Klaus er þá ætti þetta lag að rifja það upp fyrir þeim:

Klukkan 16:30 kemur landsliðsþjálfarinn okkar, Heimir Hallgrímsson, og heldur sinn vanalega upphitunarfyrirlestur. Það er alltaf jafn gaman að fá að heyra það sem hann hefur að segja en við ítrekum grunnreglurnar sem fylgja þessum forréttindum. Þær eru gríðarlega basic:
1) Ekkert sem sagt er lekur úr húsinu.
2) Engar upptökur í gangi.
3) Þeir sem yfirgefa salinn á meðan fyrirlestri stendur fá ekki að fara inn aftur.
Tólfan er virkilega ánægð og stolt af því hversu vel meðlimir hafa virt þessar reglur hingað til. Höldum því áfram!

Fljótlega eftir að Heimir yfirgefur okkur förum við svo í skrúðgöngu niður á Fan Zone KSÍ.

Fan Zone KSÍ

KSÍ hefur ákveðið að prófa að vera með sérstakt stuðningsmannasvæði fyrir bæði þennan leik og leik kvennalandsliðsins gegn Brasilíu næsta þriðjudag. Það er skemmtileg þróun og við fögnum því.

Hér má sjá mynd af skipulaginu. Eins og sjá má verða bílastæðin við völlinn notuð fyrir fjörið svo það er um að gera að taka tillit til þess. Það er hægt að finna bílastæði lengra frá og labba, til dæmis má leggja nær Ölveri og hitta Tólfuna þar. Nú, eða skilja bílinn eftir heima og taka strætó. Minnsta mál að redda sér, eins og gert er um allan heim.

Svæðið opnar tveimur tímum fyrir leik, klukkan 16:45. Á svæðinu verður veitinga- og salernisaðstaða, þar verður boðið upp á andlitsmálningu, hoppukastala og mikla stemningu. Þeir sem ekki eiga miða á völlinn geta samt látið sjá sig í stuðinu því leikurinn verður sýndur á risaskjá á svæðinu.


Dómarahornið

Dómarinn í þessum leik heitir Alberto Undiano Mallenco. Hann fæddist á Pamplona árið 1973 en býr núna í Ansoáin í norðurhluta Spánar. Hann hóf að dæma í neðri deildum Spánar tímabilið 1994-95, var farinn að dæma í efstu deild árið 2000 og orðinn alþjóðlegur FIFA-dómari árið 2004.  Fyrir utan knattspyrnudómgæslu er Mallenco líka félagsfræðingur í hlutastarfi.

Hann hefur dæmt marga leiki bæði í Meistaradeild Evrópu og Evrópudeildinni. Hann hefur líka dæmt þó nokkra leiki í undankeppnum HM og EM síðustu ár og dæmdi auk þess 3 leiki í lokakeppni HM 2010 í Suður-Afríku. Hann var valinn besti dómarinn á Spáni árin 2005 og 2007.

Þetta verður ekki fyrsti leikurinn sem Mallenco dæmir hjá þessum þjóðum því hann dæmdi einnig fyrri leik Íslands og Króatíu í umspilinu fyrir HM 2014, einmitt líka á Laugardalsvellinum. Í þeim leik rak hann Ólaf Inga Skúlason af velli og var ekki vinsæll hjá okkar mönnum. Lars Lagerback hafði m.a. þetta að segja eftir leik:

Dómarinn átti ekki sinn besta leik og það hjálpaði Króötum. Við vorum óheppnir með dómgæsluna. Ég þyrfti að sjá það [rauða spjaldið] í sjónvarpi. Hins vegar voru margar skrýtnar ákvarðarnir, 50/50 dómar sem féllu ekki með okkur.

Eiður Smári hafði þetta að segja eftir leikinn:

Ég vil sem minnst tala um dómarann. Ég veit ekki hvort þetta hafi verið rétt rautt spjald en það má segja að öll vafaatriði hafi fallið með þeim. Við þurftum að hafa fyrir því að fá dæmdar aukaspyrnur, það fór mest í taugarnar á okkur.

Alfreð Finnbogason var vægast sagt lítið sáttur við Mallenco:

Ég held að það sé best að við segjum sem minnst. Ég held að allir með góða sjón hafi séð hvað var í gangi. Þetta á ekki að sjást.

Gylfi Sig vildi þó meina að rauða spjaldið sjálft hafi ekki verið rangur dómur:

Hann var kominn í gegn og það sýndi reynslu hjá Óla að toga hann niður.

Við vonum þó að hann verði í betra stuði heilt yfir í þessum leik.

Þetta er eini leikurinn sem hann hefur dæmt hjá Íslandi en hann hefur í heildina dæmt 3 leiki með króatíska landsliðinu. Og merkilegt nokk hefur Króatía ekki enn náð sigri þegar hann hefur dæmt. Þetta eru leikirnir sem hann hefur dæmt hjá Króatíu:

  • 9. sept. 2009 – Undankeppni HM ’10 – England 5:1 Króatía
  • 11. sept. 2012 – Undankeppni HM ’14 – Belgía 1:1 Króatía
  • 15. nóv. 2013 – Umspil HM ’14 – Ísland 0:0 Króatía

Aðstoðardómarar verða Roberto Alonso og Javier Rodriguez, fjórði dómarinn verður Carlos Gómez. Þeir eru allir frá Spáni.


Áfram Ísland!