Leikdagur: Króatía – Ísland

Það er komið að síðasta leik ársins í undankeppninni fyrir HM 2018. A-landslið karla fer aftur til Króatíu. Nokkuð stutt frá síðustu heimsókn þangað og harma að hefna fyrir íslenska liðið.

flag-pins-croatia-iceland

A-landslið karla,
undankeppni HM í Rússlandi 2018.
4. umferð í I-riðli.
Laugardagurinn 12. nóvember 2016,
klukkan 17:00 að íslenskum tíma (18:00 að staðartíma).

Króatía – Ísland

Völlur: Stadion Maksimir í Zagreb. Síðast þegar Ísland spilaði á þessum velli mættu 22.612 áhorfendur, þar á undan voru þeir 17.912. Það væri mest hægt að koma fyrir 38.079 áhorfendum á fótboltaleik en hins vegar verða engir áhorfendur á vellinum í þetta skiptið. Fyrir utan starfsfólk og fréttamenn. Ástæðan er áhorfendabann sem króatíska landsliðið var sett í eftir ólæti áhorfenda og rasíska söngva í leikjum gegn Ísrael og Ungverjalandi í mars á þessu ári.

Dómari: Gianluca Rocchi, ítalskur

Veðurspá: Það er kuldaleg spá í kortunum. Verður sennilega í kringum 4 gráðurnar. Skýjað og gæti rignt. Norðanátt en ekki mikill vindur, líklega í kringum 3 m/s. Höfum séð það verra.


Króatía

Þjálfari: Ante ?a?i?.

Margreyndur knattspyrnustjóri, hefur stýrt liðum frá árinu 1986. Þá hóf hann störf sem knattspyrnustjóri Prigorje Markuševec. Hann hefur þó aðallega verið í félagsliðunum en var aðstoðarþjálfari króatíska u21 landsliðsins á árunum 1994-98 og aðstoðarþjálfari Líbíu veturinn 2005-06 auk þess að vera aðalþjálfari u21 landsliðs Líbíu á sama tíma. Fyrir utan þetta hefur hann nánast eingöngu verið að stýra króatískum félagsliðum, fyrir utan þegar hann stýrði slóvanska félagsliðinu Maribor frá byrjun júní til loka september 2013. Hann tók við króatíska landsliðinu 22. september 2015 eftir að Niko Kova? var rekinn í kjölfar jafnteflis við Aserbaídsjan og ósigurs gegn Noregi. ?a?i? fór þá með Króatíu á EM í Frakklandi og upp úr riðlinum en liðið féll úr leik í 16-liða úrslitum gegn verðandi Evrópumeisturum Portúgal í framlengdum leik.

Fyrirliði: Luka Modri?.

Luka Modri? tók við sem fyrirliði króatíska landsliðsins í ágúst 2016 eftir að Darijo Srna tilkynnti að hann væri hættur að leika fyrir landsliðið. Modri? á leiki fyrir U15, U17, U18, U19, U21 auk 94 leikja fyrir A-landslið Króatíu. Fyrsti leikur hans fyrir A-landslið Króatíu var gegn Argentínu í vináttulandsleik 1. mars 2006 sem fram fór í Basel í Sviss. Króatía vann þann leik með 3 mörkum gegn 2. Ivan Klasnic kom Króatíu yfir á 3. mínútu en Tevez og Messi komu Argentínu yfir eftir 6 mínútur. Argentína var yfir í hálfleik en Darijo Srna jafnaði á 52. mínútu áður en Dario Šimi? tryggði Króatíu eina sigur þeirra á Argentínu í sögunni á 90. mínútu.

Leikjahæstur: Darijo Srna.

Darijo Srna, hægri bakvörðurinn sem skoraði í seinni umspilsleiknum gegn Íslandi, er leikjahæsti landsliðsmaður A-landsliðs karla í Króatíu. Hann lagði landsliðstreyjuna á hilluna í ágúst síðastliðinn eftir að hafa spilað 134 landsleiki. Fyrsti leikurinn sem hann spilaði var í 1-0 sigri á Rúmeníu í vináttulandsleik 20. nóvember 2002. Leikjahæstir núverandi leikmanna eru þeir Luka Modri? og Vedran ?orluka, báðir með 94 landsleiki. Þeir hafa einmitt báðir spilað fyrir bæði Dinamo Zagreb og Tottenham Hotspur.

Markahæstur: Davor Šuker.

Šuker spilaði með króatíska landsliðinu á árunum 1992-2002 og skoraði á þeim árum 45 landsliðsmörk. Hann hafði reyndar spilað 2 landsleiki fyrir Júgóslavíu veturinn 1990-91 og skorað 1 mark þar.

Markahæstur núverandi leikmanna króatíska landsliðsins er góðkunningi Íslands, Mario Mandžuki?. Hann hefur skorað 28 mörk í 64 landsleikjum frá árinu 2007. Þar á meðal fyrra markið í seinni umspilsleik Króatíu gegn Íslandi fyrir HM í Brasilíu 2014.

Staða á Styrkleikalista FIFA: 16. sæti

Gengi í síðustu 10 leikjum: J S S S J S T J S S
Markatalan í síðustu 10 leikjum: 26-6 (þar af einn 10-0 sigur og einn 6-0 sigur)

Gengi liðsins í undankeppninni til þessa

Fyrsti leikur Króata í þessari undankeppni var gegn Tyrklandi þann 5. september sl. Leikurinn fór fram á Stadion Maksimir í Zagreb og var völlurinn áhorfendalaus líkt og leikurinn gegn Íslandi. Miðjumaðurinn Ivan Rakiti?, sem spilar fyrir Barcelona á Spáni, skoraði fyrsta mark leiksins úr vítaspyrnu á 44. mínútu eftir að ?smail Köyba?? braut á Luka Modri?. Modri? var svo sá brotlegi hinum megin á vellinum þegar hann braut á ungstirninu Emre Mor í uppbótartíma. Í það skipti var brotið reyndar utan teigs en Hakan Çalhano?lu var sléttsama um það og setti aukaspyrnuna bara beint í markið. Leikurinn endaði 1-1, líkt og allir aðrir leikir í 1. umferð I-riðils.

Næsti leikur Króatíu var gegn Kósóvó. Hann fór fram á Loro Boriçi vellinum í borginni Shkodër í Albaníu, þar sem Kósóvó spilar sína heimaleiki í undankeppninni. Heimamenn höfðu líklega vonast til þess að geta verið þéttir fram eftir leik og haldið þessu spennandi en það fór ekki alveg þannig. Eftir 35 mínútur var Mario Mandžuki? búinn að skora þrennu. Miðvörðurinn Matej Mitrovi?, kantmaðurinn Ivan Periši? og framherjinn Nikola Kalini? bættu við mörkum í síðari hálfleik og Króatía smellti sér á topp I-riðils með þægilegum 6-0 sigri.

Síðasti leikur Króata var svo í Finnlandi þar sem Króatía mætti Finnum á Tampere vellinum. Finnarnir mættu brjálaðir til leiks eftir slæma reynslu í Reykjavík en náðu þó ekki að koma í veg fyrir að Juventus leikmaðurinn Mario Mandžuki? skoraði á 18. mínútu. Það reyndist eina mark leiksins og Króatía hélt toppsæti riðilsins.

Hættulegir leikmenn

Króatía hefur skorað 8 mörk í fyrstu 3 leikjunum. Aðeins þrjú lið (Portúgal, Spánn og Belgía) skoruðu fleiri mörk í fyrstu 3 umferðunum. Mario Mandžuki? hefur skorað helming markanna og er eini leikmaður liðsins sem hefur skorað fleiri en 1 mark. Hann er stórhættulegur. Mörkin 4 hafa komið úr 6 marktilraunum svo helsta málið er að koma i veg fyrir að hann fái þessi færi.

Framherjinn Andrej Kramari? og miðju- og kantmaðurinn Marcelo Brozovi? hafa báðir gefið 2 stoðsendingar fyrir Króatíu í keppninni. Líklegt er að sá fyrrnefndi byrji á bekknum en Brozovi? á hægri kantinum.

Einn helsti styrkur króatíska landsliðsins er þó gríðarlega öflug miðja. Helsta tannhjólið í því gangverki síðustu ár hefur verið Luka Modri?. Hann spilaði fyrsta leikinn í undankeppninni en hefur misst af síðustu 2 vegna meiðsla. Hann gæti þó dottið inn í liðið gegn Íslandi og þá þarf auðvitað að hafa góðar gætur á honum. Hann getur verið frábær í því að byggja upp gott spil, leggja upp góð færi eða reka smiðshöggið á sóknirnar sjálfur. Á EM í Frakklandi síðasta sumar skoraði hann eitt af mörkum keppninnar í leik gegn Tyrklandi. Íslenska vörnin þarf að eiga góðan dag gegn honum og sömuleiðis þarf fyrirliðinn okkar, Aron Einar, að vera á tánum og tilbúinn að hjálpa vörninni. Að sama skapi munu miðjumennirnir okkar þurfa hjálp í baráttunni þar svo það mun reyna á skipulag íslenska liðsins sem hefur verið helsti styrkur þess að undanförnu.


Ísland

Þjálfari: Heimir Hallgrímsson.

Fyrirliði: Aron Einar Gunnarsson. Aron Einar var ekki með í síðasta leik vegna leikbanns. Gylfi Þór Sigurðsson passaði vel upp á fyrirliðabandið hans á meðan en það verður gott að fá Aron Einar aftur á sinn stað í liðið.

Leikjahæstur: Rúnar Kristinsson, 104 landsleikir. Af þeim sem eru í hópnum núna hefur Aron Einar spilað 66 landsleiki, Birkir Már 65 og Ragnar Sigurðsson 64.

Markahæstur: Eiður Smári Guðjohnsen, 26 mörk. Gylfi Sig. er markahæstur af þeim sem eru í hópnum núna. Hann á enn eftir að skora í þessari undankeppni en er þó kominn með 14 mörk með A-landsliði Íslands.

Staða á styrkleikalista FIFA: 21. sæti.

Gengi í síðustu 10 leikjum: T S J J S S T J S S
Markatalan í síðust 10 leikjum: 20-15. Ísland hefur skorað í 17 leikjum í röð.

Gengi í undankeppninni til þessa

Þessi undankeppni byrjaði vel hjá Íslandi. Alfreð Finnbogason skoraði fyrsta mark I-riðils á sterkum útivelli í Úkraínu eftir rúmlega 5 mínútna leik. Öflug byrjun. Úkraína náði að jafna með marki frá Andriy Yarmolenko. 1-1 í fyrsta leik, allt jafnt í riðlinum.

Annar leikurinn var á heimavelli, gegn Finnlandi. Það stefndi allt í finnskan sigur þegar íslenska liðið náði með frábærum karakter og þrautseigju að snúa leiknum við í lokin og vinna 3-2 sigur. Geggjað!

Leikurinn gegn Tyrklandi, sá þriðji í riðlinum, var allt öðruvísi en hinir tveir á undan. Ísland einfaldlega átti þann leik. Bláklæddu snillingarnir spiluðu frábærlega og Tyrkirnir áttu ekki séns. 2-0 sigur staðreynd og Ísland í 2. sæti riðilsins, takk fyrir túkall!

Hættulegir leikmenn

Alfreð Finnbogason hefur byrjað þessa undankeppni virkilega vel og skorað mark í öllum þremur leikjum Íslands til þessa. En hann verður því miður ekki með í þessum leik vegna meiðsla. En það verða hættulegir leikmenn með liðinu þrátt fyrir það.

Gylfi Þór Sigurðsson er stórhættulegur fótboltaleikmaður enda virkilega hæfileikaríkur. Hann er einn af fáum ljósum punktum í strögglandi liði Swansea og leggur sig alltaf 100% fram með landsliðinu. Hann verst mjög vel og stýrir flestum sóknaraðgerðum liðsins. Auk þess smitar hann út frá sér sjálfstrausti þegar kemur að því að spila boltanum, það getur verið hreinasta unun að horfa á liðið spila sig út úr alls konar aðstæðum algjörlega stresslaust. Föstu leikatriðin verða vopn sem Ísland mun reyna að nýta sér í Króatíu, þar kemur Gylfi hvað sterkastur inn.

Ég fíla Kára Árna! Þvílíkt ár sem hann er búinn að eiga með landsliðinu. Hann er búinn að vera eins og klettur í vörninni með vini sínum Ragga Sig, það skiptir þá engu máli hvaða stórstjörnur eru í hinum landsliðunum. En hann hefur líka verið verulega hættulegur í sóknaraðgerðum Íslands. Á EM í sumar endaði Kári í 4.-9. sæti yfir stoðsendingahæstu leikmenn mótsins. Þar var hann ásamt m.a. Antoine Griezmann, Olivier Giroud, Dimitri Payet og Kevin De Bruyne. Sæll og blessaður!

Og hann er ekkert hættur þessu, hreint ekki. Kári er þegar kominn með 2 stoðsendingar í þessum fyrstu 3 leikjum undankeppninnar auk þess að skora sjálfur eitt mark. Þegar þessi turn arkar fram völlinn þá eru allar líkur á að eitthvað sé að fara að gerast, þannig er það bara.


Viðureignin

Þessi leikur verður fimmta viðureign Íslands og Króatíu hjá A-landsliðum karla. Liðin mættust fyrst þegar þau lentu saman í riðli í undankeppninni fyrir HM 2006. Fyrri leikurinn fór fram í Zagreb 26. mars 2005 og endaði 4-0 fyrir Króatíu. Niko Kova? skoraði 2 mörk í leiknum og Josip Šimuni? og Dado Pršo skoruðu hin mörkin.

Seinni leikurinn var spilaður á Laugardalsvellinum 3. september 2005, fyrir framan 5.520 áhorfendur. Eiður Smári Guðjohnsen skoraði á 24. mínútu og kom Íslandi yfir. Í seinni hálfleik skoraði framherjinn Boško Balaban, sem þá spilaði fyrir Club Brugge í Belgíu, 2 mörk og Darijo Srna bætti við því þriðja. Króatía endaði í 2. sæti riðilsins en Ísland endaði í 5. sæti af 6 þjóðum.

Í nóvember 2013 þurftu þjóðirnar að mætast í umspilsviðureign til að ákvarða hvor þeirra færi til Brasilíu til að taka þar þátt í HM 2014. Fyrri leikurinn fór fram á Laugardalsvellinum 15. nóvember 2013. Áhorfendur voru 9.767 og þeir sáu völl sem búið var að passa sérstaklega vel upp á í haust- og vetrarkuldanum á Íslandi. Völlurinn var fínn, íslenska liðið sýndi baráttu en náði ekki að skora. Kom hins vegar í veg fyrir að Króatar skoruðu og því var séns í seinni leiknum, eitt útivallarmark gæti breytt öllu.

kroisl
Mynd: Vísir.is

Seinni leikurinn fór fram á Maksimir vellinum í Zagreb 19. nóvember 2013. Mikil spenna og eftirvænting. Það var heldur óþægilegt þegar Mario Mandžuki? kom heimamönnum yfir eftir tæpan hálftíma, en á meðan það munaði bara einu marki var allt hægt. Staðan skánaði til muna þegar Mandžuki? fékk beint rautt spjald 10 mínútum eftir markið og Gummi Ben sagði honum að hundskast útaf. En mark frá Darijo Srna í byrjun seinni hálfleiks kláraði þetta, eftir það virkaði Ísland ekki líklegt til að blanda sér í baráttuna, jafnvel þótt liðið væri manni fleiri.

En nú eru breyttir tímar. Liðið er reynslunni ríkari og einfaldlega betra lið en það var þá. Ísland hefur náð 1 jafntefli og tapað 3 leikjum gegn Króatíu. Aðeins skorað 1 mark en fengið á sig 9. En þetta er leikurinn til að laga þessa tölfræði.


Dómarahornið

Gianluca Rocchi er 43 ára gamall knattspyrnudómari frá Flórens á Ítalíu. Hann hefur verið dómari frá árinu 2000, alþjóðlegur FIFA dómari frá 2010. Hann hefur dæmt 61 leik á vegum UEFA.

Rocchi dæmdi fjóra leiki í undankeppni EM 2016. Sá síðasti þeirra var leikur Tyrklands og Íslands í Tyrklandi 13. október 2015. Það var einmitt síðasti leikurinn sem Ísland spilaði án þess að skora mark. Áður hafði Rocchi dæmt leik Tékklands og Hollands í sama riðli áður en hann dæmdi Portúgal gegn Serbíu og England – Sviss. Hann fór hins vegar ekki á lokakeppnina í Frakklandi.

Hann hefur verið að dæma leiki félagsliða bæði í meistaradeild Evrópu og Evrópudeildinni. Hann hefur dæmt einn leik í þessari undankeppni, það var leikur Póllands og Danmerkur 8. október sl. Sá leikur endaði 3-2 fyrir Póllandi þar sem Rocchi gaf 3 gul spjöld og dæmdi eina vítaspyrnu.

Rocchi til aðstoðar verða þeir Mauro Tonolini og Filippo Meli á fánunum og Paolo Mazzoleni sem fjórði dómari.


Myndböndin

Það er aðeins einn Gummi Ben:

Samantekt frá Eurosport um fyrri umspilsleikinn, á Íslandi:

Stórkostlegt mark sem Luka  skoraði á EM í sumar:

Kári „Kletturinn“ Árnason:


Dagskráin hjá Tólfunni

Tólfan ætlar að hittast hress og kát á Ölveri. Þar ætlum við að æfa söngvana okkar, búa til nýja, skála fyrir liðinu og skemmta okkur yfir leiknum. Um að gera að mæta þangað upp úr 15.

Áfram Ísland!