Það er kominn laugardagur og það þýðir að núna eru akkúrat 4 vikur í fyrsta leik Íslands á HM í Rússlandi. Það er þegar kominn upphitunarpistill um Argentínu, sem Ísland mætir í fyrsta leiknum. Í dag eru hins vegar 34 dagar í að Ísland spili leik númer tvö á mótinu. Sá leikur verður gegn Nígeríu og það land er viðfangsefni þessa upphitunarpistils.
Höfundur: Árni Þór Súperman
Nígería (Federal Republic of Nigeria)
Íbúar: 192 milljónir (áætlað)
Höfuðborg: Abúja (íbúafjöldi: 1 milljón)
Stærð lands: 923.768 km²
Opinbert tungumál: Enska
Lönd sem liggja að Nígeríu: Benín, Níger, Tsjad og Kamerún
Öll þekkjum við hann Prins Benjamín sem er duglegur að senda landanum tölvupósta til að hjálpa sér fjárhagslega en hann er einmitt frá Nígeríu. Það lítur nú ekki út fyrir að hann nái að koma sínum málum á hreint fyrir HM. Þann 22. júní næstkomandi munum við Íslendingar mæta þessari þjóð á HM í Rússlandi svo það er tilvalið að kynnast þessari stóru þjóð aðeins betur.
Nígería er lýðveldisþjóð sem skiptist í 36 fylki þar sem ríkistjóri er æðsta embætti hvers fylkis og svo er forseti sem sameinar þessi fylki á þing. Nígería var bresk nýlenda frá 1914 til 1960. Bretanir voru þó áberandi í Nígeríu allt frá 1807 en landið varð þó ekki formleg nýlenda fyrr en löngu seinna. Eftir 1960 tók óstöðuleiki við og borgarastyrjöld og ýmsar herstjórnir stjórnuðu landinu til 1970 en þá fóru þeir í lýðræðislega stjórn. Nígería er með stærsta hagkerfi Afríku og er ríkasta þjóð álfunnar.
Nígerska knattspyrnusambandið heldur utan um þriggja deilda keppni félagsliða fyrir karlalið, ásamt bikarkeppni. Þar er ein 20 liða atvinnumannadeild, sem hefur verið í gangi síðan 1971. þar fara 3 efstu liðin, ásamt bikarmeistara, í álfukeppni ár hvert og 4 lið falla niður B deildina. Hún er 40 liða deild sem er skipt niður í 4 riða miðað við staðsetningu liða, til að lágmarka ferðakostnað. 8 lið falla svo niður í C deild (2 lægstu lið úr hvorum riðli) sem er með sama fyrirkomulag og deild B. Síðan 1990 hefur Nígería líka verið með 16 liða kvennadeild sem er skipt í 2 riðla og 2 efstu lið hvors riðils fara í úrslitakeppni. Plateau United eru núverandi deildarmeistarar Nígeríu hjá körlunum en þetta eru í fyrsta sinn sem þeir fagna þessum titli. Annars hafa Enyimba FC og Enugu Rangers unnið deildina oftast eða 7 sinnum.
Þó að enska sé opinbert tungumál Nígeríu þá er 521 tungumál talað í Nígeríu en 7% allra tungumála á plánetunni eru töluð í Nígeríu.
Nígería er fjölmennasta þjóð Afríku og Lagos er fjölmennasta borg álfunnar með 21 milljón manns en fólksfjölgun landsins hefur vaxið svo hratt að talið er að tæpur helmingur þjóðarinnar sé 14 ára og yngri.
Yfir 250 ættbálkar eru í Nígeríu þeir stærstu eru Igbo, Hausa-Fulani og Yoruba.
Þú hefur heyrt um Hollywood og Bollywood? Í Nígeríu er þriðji stærsti kvikmyndabransi í heiminum og er hann iðulega kallaður Nollywood.
Nígería er tólfti stærsti olíuframleiðandi heims og 85% af innkomu ríkistjórnarinar kemur frá útflutningi á olíu.
Í jafnstóru og fjölmennu landi og Nígería er kemur ekki á óvart að matseðilinn þeirra er álíka fjölhæfur. Þeir eru greinilega mikið fyrir ýmsar súpur, hrísgrjóna- og pottrétti. Meginmunur þeirra er sá að þeir útbúa meðlæti sem kallast yam og Garri sem ég sannleika sagt veit ekki hvernig á að útskýra hérna í þessum pistli þannig að ég ætla ekki einu sinni að reyna. Það er þó ómissandi í egusi súpu sem er nokkurs konar þjóðarréttur og er sagður vera algjört lostæti með baunabrauði sem kallast akara.
Nígería er 31. stærsta land í heimi út frá landfræðilegri stærð landsins en það er 923.768 í ferkílómetrum talið. 853 km liggja meðfram hafinu og er strandlengjan í Nígeríu þekkt fyrir að vera einstaklega fallegt.
Nafnið Nígería kemur frá ánni Níger ánni sem rennur í gegnum landið.
Nígería er mjög tónelsk þjóð og er reggae, hip hop og gospel tónlist sérstaklega vinsæl. Áhrif þess má glögglega sjá hjá stuðningsmönnum Nígeríu í fótbolta en þeir syngja iðulega og dansa á pöllunum eins og enginn sé morgundagurinn. Það eru dæmi um það að stuðningmenn mæti á leiki með hljóðfæri á og spila. Hvort það verði þannig í Rússlandi verður bara að koma í ljós en persónulega hef ég góða tilfinningu fyrir íslenskum og nígerskum stuðningsmönnum í Volgograd í sumar. Til eru dæmi um að Nígería fíli Ísland en fyrir nokkrum mánuðum síðan gaf nígeríski tónlistamaðurinn Prof Akoma út lagið „Iceland World Cup Song“ þar sem enginn annar en hann Kristinn okkar Jónsson (einnig þekktur sem Moneypenny) kemur fram í bakgrunninum af sinni einstöku snilld. Tekið er fram að hann Kiddi lék í myndbandinu í sjálfboðavinnu. Reyndar hafði hann ekki hugmynd um myndbandið fyrr en nýlega en ég læt myndbandið fylgja hérna fyrir neðan.
Með þessum tónum og fegurð Kidda kveð ég ykkur í bili, vona að þessi pistill hjálpi ykkur aðeins með þessa óbærilegu bið eftir HM.
Kær Áfram Ísland kveðja,
Árni Þór Súperman