Já kæru Íslendingar og Tólfur nær og fjær. Stundin er runnin upp! Það er komið að því loksins að leiða hesta okkar saman við hesta Hollendinga og etja kappi í miklum baráttuleik sem skiptir báðar þjóðir gríðarlega miklu máli. Íslendingar vilja vinna og þar með svo gott sem tryggja sig á EM á meðan Hollendingar vilja reyna að halda einhverju lífi í sínum vonum með sigri.
Fyrir um ári síðan átti undirritaður spjall við Styrmir Gíslason fyrrum formann og Guðföður Tólfunnar hvað það yrði magnað að blása í stóra ferð til Amsterdam á leikinn. Okkur fannst það frábært ef 200 Íslendingar myndu mæta! Við enduðum á að hafa svolítið rangt fyrir okkur þar!
Fljótlega eftir það var farið að ræða þetta betur í víðari hópi og voru allir einhuga um að þetta væri leikurinn til þess að stefna á. Umræður voru látnar nægja fyrst um sinn en svo fóru menn eins og oft eftir haust törnina hver í sína áttina. Tólfan nefnilega líkt og birnir leggst yfirleitt í hýði í nokkra mánuði yfir hörðustu vetrarmánuðina.
Í mars á þessu ári var svo haldinn aðalfundur þar sem að Styrmir ákvað eftir frábærlega vel unnið starf að stíga niður sem formaður og afhenda keflið áfram. Styrmir mun samt alltaf vera Guðfaðir Tólfunnar og okkar andlegi leiðtogi sem og SLO fulltrúi. Undirritaður endaði eftir ákveðna atburðarrás í sæti formanns og tók til starfa með frábærri stjórn skipaðri Benna Bongó sem varaformanni, Friðgeirs Bergsteinssonar ritara, Kidda Moneypenny gjaldkera og Sveins Ásgeirssonar meðstjórnanda.
Tólfan skreið úr sínu árlega hýði þegar att var kappi við Kazakstan í lok mars og strax í kjölfarið á því fór vinnan við undirbúning og skipulagningu á Amsterdam ævintýrinu sem nú er að verða að veruleika á fullt. Við höfum laggt inn hundruðir klukkustunda í undirbúning ásamt ómetanlegum stuðning frá mörgu af því frábæra fólki sem er í Tólfunni.
Gríðarleg fjölgun og aukning hefur átt sér stað í Tólfunni og haldist vel í hendur við stórbætt gengi landsliðsins okkar sem leik eftir leik setur stöngina hærra og hærra og vinnur nýja sigra.
Þannig má segja að íslenska liðið hafi aldrei áður verið jafn sterkt og gott og Tólfan hefur einnig aldrei verið jafn fjölmenn og sterk líkt og hún er í dag. Sem dæmi kom upp sú hugmynd að byrja að gera okkar eigin tólfutreyjur sem yrðu ákveðið einkenni fyrir okkur. Óskar Freyr Pétursson átti svo mestan veg og vanda af því að koma því af stað og fékk Henson í samstarf með okkur. Með tímanum tók Kiddi Moneypenny við kyndlinum og nú þegar þetta er skrifað hafa um 900 treyjur verið framleiddar sem er algjörlega geggjað!!!
Í vikunni hafa Tólfur verið að týnast til Amsterdam og mun því ljúka á morgun þegar stór hópur af Tólfum kemur og lendir með flugi WW 442 á vegum Gaman Ferða.
Mikil vinna er að baki og við erum gríðarlega stoltir og sáttir af því sem afrekað hefur verið í undirbúningi þessa leiks og ævintýris að við vonum að flestir verða sáttir og geti vel við unað.
Það eru ekki margar reglur en hér eru þær:
1. Ekki vera fáviti.
2. Öskraðu og syngdu með, ekki bara góna á!
3. Vertu í bláu!
Já kæru Tólfur gleðilega hátið!
Pétur Orri Gíslason,
Formaður Tólfunnar