Um mótið

Nú styttist svo sannarlega í það að EM í Hollandi hefjist. Þá lýkur ferðalagi sem hófst þann 4. apríl 2015 þegar fyrstu leikirnir fóru fram í forkeppni undankeppninnar fyrir lokamótið. Íslenska liðið hóf sína þátttöku í undankeppninni 22. september 2015. Góður 2-0 sigur á Hvíta-Rússlandi gaf tóninn fyrir frábæra undankeppni þar sem íslenska liðið vann sinn undanriðil. Á næstu dögum munu koma fleiri upphitunarpistlar hingað inn en við byrjum á að kíkja aðeins betur á mótið sjálft.

EM í knattspyrnu kvenna

Evrópumeistaramót landsliða er núna í grunninn eins fyrir konur og karla. Lokamótið er haldið á 4 ára fresti, þar er spilað í riðlakeppni, svo í útsláttarkeppni og loks úrslitaleikur um Evrópumeistaratitilinn. Til að komast á lokamótið þarf að keppa í undankeppnum þar sem efstu liðin fara beint áfram en önnur lið keppa umspilsleiki. Helsti munurinn á keppnunum núna er að í lokakeppni kvennalandsliða taka 16 lið þátt en 24 í karlafótboltanum. Báðum megin er þó um fjölgun að ræða, karlaliðin voru 16 og á síðasta EM fyrir kvennalandslið kepptu 12 lönd. Heildarupphæðin á verðlaunafénu á mótinu hækkaði einnig verulega á milli móta. Árið 2013 var verðlaunaféð 2,2 milljón evra en verður núna 8 milljón evrur. Bara við það að vinna sér þátttökurétt á lokamótinu náði íslenska liðið að tryggja sér 35 milljón krónur í verðlaunafé.

Upphafið

Fyrsta opinbera Evrópumeistaramót kvennalandsliða var haldið árið 1984, með undankeppni sem hófst árið 1982. Fyrir það höfðu reyndar verið haldin tvö Evrópumót fyrir kvennalandslið en þau voru óopinber og ekki haldin af UEFA. Bæði óopinberu mótin voru haldin á Ítalíu, fyrst árið 1969 og svo árið 1979. Það er athyglisvert að England tók þátt í mótinu árið 1969 en það sama ár afnámu Englendingar lög sem bönnuðu alla kvennaknattspyrnu í landinu.

Þegar UEFA byrjaði að halda keppnina hét hún því þjála nafni UEFA European Competition for Representative Women’s Teams. Lokamót fyrstu keppninnar var ekki spilað á einum stað heldur spiluðu liðin heima og að heiman, líka í úrslitaviðureigninni. En í næstu keppni þar á eftir, árið 1987, var lokamótið haldið í Noregi. Árið 1989 var lokamótið svo haldið í Vestur-Þýskalandi. Eftir það mót breyttist heiti mótsins svo yfir í UEFA European Women’s Championship, sem er enn notað.

Árið 1991 var lokamótið haldið í Danmörku og tveimur árum síðar var það haldið á Ítalíu, það var síðasta mótið þar sem spilaður var sérstakur leikur um brons. Lokamótið var svo haldið í Þýskalandi árið 1995.

Fram að þessu höfðu aðeins fjórar þjóðir tekið þátt í lokamótunum en í mótinu 1997 voru þátttökuþjóðirnar orðnar 8. Það mót var haldið í Noregi og Svíþjóð. Í kjölfarið á því var mótið haldið á 4 ára fresti í stað 2 ára eins og hafði verið áður. Næsta lokamót fór því ekki fram fyrr en árið 2001, haldið í Þýskalandi. Árið 2005 var spilað í Englandi og það var síðasta mótið þar sem þjóðirnar voru 8 því bæði í Finnlandi 2009 og Svíþjóð 2013 voru 12 þjóðir á lokamótinu.

Evrópumeistarar í gegnum tíðina

Ítalía (1969) og Danmörk (1979) unnu óopinberu Evrópumótin en eftir að keppnin varð opinber hafa eftirfarandi þjóðir sigrað:

 • 1984: Svíþjóð (vann England í úrslitum)
 • 1987: Noregur (vann Svíþjóð í úrslitum)
 • 1989: Vestur-Þýskaland (vann Noreg í úrslitum)
 • 1991: Þýskaland (vann Noreg í úrslitum)
 • 1993: Noregur (vann Ítalíu í úrslitum)
 • 1995: Þýskaland (vann Svíþjóð í úrslitum)
 • 1997: Þýskaland (vann Ítalíu í úrslitum)
 • 2001: Þýskaland (vann Svíþjóð í úrslitum)
 • 2005: Þýskaland (vann Noreg í úrslitum)
 • 2009: Þýskaland (vann England í úrslitum)
 • 2013: Þýskaland (vann Noreg í úrslitum)

Eins og sjá má verða Þjóðverjar að teljast ansi sigurstranglegir á þessu móti. Þýsku konurnar hafa unnið síðustu 6 EM í röð. En það hefur þó ekki alltaf verið öruggt, árið 2001 þurfti liðið gullmark í framlengingu til að vinna Svíþjóð. Á síðasta móti tapaði Þýskaland fyrir Noregi í riðlakeppninni en mættu þeim svo aftur í úrslitaleiknum og höfðu þá betur með 1 marki gegn engu. Það er seigla í þessu þýska liði (ekkert óvænt við það) en það eru mörg góð lið í mótinu að þessu sinni sem munu veita sexföldum Evrópumeisturum verðuga keppni um titilinn.

Árangur Íslands í gegnum tíðina

Fyrsta EM fór fram 1984 og hófst undankeppnin fyrir það mót árið 1982. Þá var íslenska kvennalandsliðið glænýtt, við fórum yfir upphaf þess í afmælispistli í september síðastliðinn. Raunar hafði liðið bara spilað einn leik þegar undankeppnin fyrir EM hófst. Ísland var í undanriðli með Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Fyrsti leikurinn var gegn Noregi og byrjaði vel, Ísland náði 2-2 jafntefli á útivelli. En það reyndist eina stig og einu mörk íslenska liðsins í þeirri undankeppni og neðsta sætið hlutskipti Íslands í það skiptið.

Úr DV, 30. ágúst 1982 – hægt að smella á mynd til að stækka hana

Eftir þetta komu ár þar sem kvennalandsliðið var lítið sem ekkert starfrækt. Það tók ekki þátt í undankeppnum fyrir EM 1987, 1989 eða 1991. Raunar var það svo að frá september 1987 fram í maí 1992 spilaði kvennalandslið Íslands ekki einn einasta leik. En sem betur fer tóku menn við sér og skráðu liðið aftur til leiks.

Í undankeppni fyrir EM 1993 fór Ísland í riðil með Englandi og Skotlandi. Enska liðið var sterkast í riðlinum og vann alla sína leiki. Ísland náði hins vegar í sigur og jafntefli gegn Skotunum. 2. sætið gaf þó ekkert í það skipti og þátttöku Íslands lokið í bili.

Úr Morgunblaðinu, 23. júní 1992. Smellið á myndina til að stækka hana

Í undankeppninni fyrir EM 1995 var Ísland aftur í þriggja landa riðli, í þetta skipti með Hollandi og Grikklandi. Árangurinn var frábær, Ísland vann alla sína leiki og með markatöluna 12-2. Það skilaði því að Ísland fór í 8-liða úrslitin. Það var þó reyndar ekki nóg til að komast á lokamótið á þeim tíma, þar sem aðeins 4 lið fóru í eiginlegt lokamót. 8-liða úrslitin voru því spiluð heima og að heiman, mótherji Íslands þar var England. Enska liðið var aftur of sterkt fyrir Ísland og báðir leikirnir enduðu 2-1 fyrir England.

Það var blátt, rautt og hvítt fánaþema í gangi þegar undankeppni íslenska liðsins hófst fyrir EM 1997. Ísland var þá í riðli 2 ásamt Rússlandi, Frakklandi og Hollandi. Ísland vann báða leikina sína gegn Hollandi og náði svo í 3-3 jafntefli gegn Frakklandi á heimavelli, eftir að hafa komist í 3-1. Það dugði liðinu í 3. sæti riðilsins sem þýddi umspilsviðureign um sæti á lokamóti EM. Mótherjinn þar var geysisterkt lið Þýskalands. Ísland átti lítinn séns í þeim leikjum, enda fór Þýskaland alla leið í mótinu og vann Evrópumeistaratitilinn.

Úr DV, 2. október 1995

Í undankeppninni fyrir EM 2001 lenti Ísland í mjög sterkum riðli, með Þýskalandi, Ítalíu og Úkraínu. Ísland náði 2-2 jafntefli við Úkraínu á útivelli og 0-0 jafntefli við Ítalíu á heimavelli en tapaði rest og endaði í neðsta sæti.

Það gekk töluvert betur í undankeppninni fyrir EM 2005. Þá var Ísland í 5 þjóða riðli ásamt Frakklandi, Rússlandi, Ungverjalandi og Póllandi. Ísland vann Ungverjaland og Pólland bæði heima og að heiman, þar af náði liðið í 10-0 heimasigur gegn Póllandi. Að auki náði Ísland í sterkt 1-1 jafntefli við Rússa á útivelli. Ísland endaði því í 3. sæti riðilsins og fór í umspil. Mótherjinn í umspilinu var Noregur og reyndust norsku stelpurnar of sterkar fyrir Ísland í það skiptið. Enda fór Noregur alla leið í úrslitaleikinn á lokamótinu en tapaði þar fyrir Þýskalandi.

Úr Fréttablaðinu, 14. september 2003

Í undankeppninni fyrir EM 2009 lenti Ísland með Frakklandi, Slóveníu, Serbíu og Grikklandi í riðli. Frakkarnir voru með mjög sterkt lið og enduðu í efsta sæti riðilsins. Þær unnu 7 leiki og töpuðu aðeins einum. Það tap kom hins vegar gegn Íslandi, Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði eina mark leiksins á Laugardalsvellinum 16. júní 2007. Ísland vann 6 leiki í riðlinum og tapaði 2, 2. sætið varð hlutskipti liðsins og aftur fór liðið í umspil. Mótherjar Íslands í þetta skipti var lið Írlands. Fyrri leikurinn fór fram á útivelli og endaði með 1-1 jafntefli. Ísland vann svo heimaleikinn 3-0 og tryggði sig inn á lokamót stórmóts í fyrsta skipti.

Lokamót EM 2009 fór fram í Finnlandi. Ísland lenti þar í mjög erfiðum riðli, með Þýskalandi, Frakklandi og Noregi. Fyrsti leikurinn var gegn Frökkum og skoraði Ísland fyrsta markið í þeim leik. En Frakkarnir náðu að snúa leiknum sér í vil og sigra. Noregur og Þýskaland mörðu bæði 1-0 sigra gegn Íslandi. Þrátt fyrir stigaleysi var hægt að taka margt út úr frammistöðu liðsins á þessu móti.

Hólmfríður Magnúsdóttir skoraði fyrsta markið í fyrsta leik Íslands á lokamóti EM, gegn Frökkum. Mynd: UEFA.com

Ísland var í riðli 3 í undankeppninni fyrir EM 2013, ásamt Noregi, Belgíu, Norður-Írlandi, Ungverjalandi og Búlgaríu. Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði 4 mörk í 6-0 sigri á Búlgaríu í fyrsta leik, frábær byrjun hjá íslenska liðinu. Alls urðu sigrarnir í undankeppninni 7, jafnteflið 1 og töpin 2. Ísland náði m.a. að sigra Noreg á heimavelli en jafntefli og tap gegn Belgíu ollu því að Ísland endaði í 2. sæti riðilsins, fyrir neðan Noreg. Umspil varð því aftur raunin. Mótherjinn að þessu sinni var Úkraína, fyrri leikurinn fór fram í borginni Sevastopol á Krímskaganum en seinni leikurinn á Laugardalsvellinum. Báðir leikirnir spiluðust mjög svipað, Ísland komst í 2-0, Úkraína jafnaði í 2-2 áður en Ísland skoraði sigurmarkið. 3-2 niðurstaðan í báðum leikjunum og Ísland aftur komið á lokamót EM.

Á lokamóti EM 2013 tóku 12 þjóðir þátt og þeim var skipt upp í 3 riðla. Ísland var í B-riðli og aftur mættu þær Noregi og Þýskalandi. Að auki voru Hollendingar í riðlinum. Eftir flott 1-1 jafntefli við Noreg í fyrsta leik kom 0-3 tap gegn Þjóðverjum í næsta leik. Frábær 1-0 sigur gegn Hollandi þýddi hins vegar að Ísland fór áfram úr riðlinum og í 8-liða úrslitin. Þar voru andstæðingarnir heimakonur í Svíþjóð. Heimavöllurinn skipti töluverðu máli og þær sænsku unnu 4-0. En árangur Íslands á því móti engu að síður góður og þær notuðu hann til að byggja á fyrir undankeppnina á EM 2017.

Í þessari síðustu undankeppni þurfti liðið enga umspilsviðureign til að komast á lokamótið. Ísland tryggði sér sigur í undanriðlinum með 7 sigrum, 1 tapi og markatöluna 34-2. Þær eru tilbúnar fyrir þetta stórmót, það er alveg á hreinu.

EM 2017

Sjö lönd sóttu um að fá að halda þessa keppni, það voru Austurríki, Frakkland, Holland, Ísrael, Pólland, Skotland og Sviss. Þann 4. desember 2014 var tilkynnt að Holland myndi halda keppnina næst. Þremur árum áður, í desember 2011, hafði verið gefið út að keppnin myndi stækka og að þátttökuþjóðir yrðu 16 frá og með keppninni 2017. Þær 16 þjóðir sem taka þátt í EM í Hollandi skiptast í fjóra riðla með eftirfarandi hætti:

A-riðill

Holland – 12. sæti á styrkleikalista FIFA
Noregur – 11. sæti á styrkleikalista FIFA
Danmörk – 15. sæti á styrkleikalista FIFA
Belgía – 23. sæti á styrkleikalista FIFA

B-riðill

Þýskaland – 1. sæti á styrkleikalista FIFA
Svíþjóð – 6. sæti á styrkleikalista FIFA
Ítalía – 19. sæti á styrkleikalista FIFA
Rússland – 25. sæti á styrkleikalista FIFA

C-riðill

Frakkland – 3. sæti á styrkleikalista FIFA
Ísland – 18. sæti á styrkleikalista FIFA
Austurríki – 24. sæti á styrkleikalista FIFA
Sviss – 16. sæti á styrkleikalista FIFA

D-riðill

England – 4. sæti á styrkleikalista FIFA
Skotland – 21. sæti á styrkleikalista FIFA
Spánn – 13. sæti á styrkleikalista FIFA
Portúgal – 38. sæti á styrkleikalista FIFA

Leikir í riðlakeppni EM verða spilaðir 16.-27. júlí. Í kjölfarið á því kemur einn dagur í pásu áður en leikirnir í fjórðungsúrslitum verða spilaðir 29. og 30. júlí. Undanúrslitaleikirnir verða síðan spilaðir 3. ágúst og úrslitaleikurinn fer fram sunnudaginn 6. ágúst.

UEFA er með tvær reglubreytingar til reynslu á öllum sínum landsliðsmótum í sumar, þar á meðal þessu. Önnur þeirra snýr að því að lið megi skipta fjórða leikmanni inn á þegar komið er í framlengingu. Hin tengist vítaspyrnukeppnum, þar er verið að prófa að nota svokallað ABBA kerfi. Þá skiptast lið á að taka fyrri vítaspyrnuna á milli umferða, í stað þess að sama lið byrji alltaf.

Úrslitaleikur mótsins verður spilaður á De Grolsch Veste (þýðing: Grolsch virkið) í Enschede, heimavelli FC Twente.