Mótherjinn: Frakkland

Þetta er farið að nálgast svo ískyggilega mikið að við finnum lyktina af því! Þetta er ekki lengur spurning um vikur og mánuði, hvað þá ár. Þetta er spurning um daga. Við erum spennt eins og lásbogi, tilbúin að láta vaða, all-in í þetta dæmi!

Við erum byrjuð að hita upp, það er kominn inn pistill um hópinn sem fer á EM og svo er kominn inn pistill um mótið sjálft. En nú förum við að kafa dýpra, þetta er fyrsti pistillinn af þremur um mótherja Íslands í C-riðli. Þetta er samt meira um landið sjálft, frekari upplýsingar um landsliðið kemur í gameday-pistlinum. En núna aðeins meira um Frakkland.

Tricolour, franski fáninn (Mynd: https://en.wikipedia.org/wiki/Flag_of_France)

Frakkland (République française)

Höfuðborg: París
Stærð landsins: 643,801 km² (625% stærð Íslands)
Íbúafjöldi: 66.991.000 (áætlað)

Tungumál: franska

Lönd sem liggja að Frakklandi: Belgía, Lúxemborg, Þýskaland, Sviss, Ítalía, Mónakó, Spánn og Andorra.

Frakkland er lýðveldi, núna er í gangi það sem hefur verið kallað fimmta lýðveldi Frakklands, það var stofnað  4. október 1958.

Deildarkerfið fyrir kvennaboltann í Frakklandi skiptist þannig upp að efst er Division 1 Féminine deildin, sem er ein 12 liða deild. Sú deild hefur verið starfrækt af franska knattspyrnusambandinu frá 1974. Á árunum 1919 til 1932 var að vísu kvennadeild í Frakklandi, en rekin af öðru íþróttasambandi, Fédération des Sociétés Féminines Sportives de France. Fyrir neðan Division 1 kemur Division 2 Féminine en hún skiptist upp í þrjá 12 liða riðla, efsta liðið í hverjum riðli fær þátttökurétt í efstu deild. Í þriðju deildinni eru svo fjórir 10 liða riðlar. Þar fyrir neðan koma svo svæðisbundnar utandeildir.

Besta félagsliðið á Frakklandi þessa dagana er Olympique Lyonnais Féminin, raunar er það eitt af bestu félagsliðum í heiminum. Frá 2004 hefur það verið opinber partur af Olympique Lyonnais félaginu en liðið var stofnað árið 1970 og hét þá FC Lyon. Lyon kláraði nýafstaðið tímabil með stæl og landaði þrennunni með því að vinna deild og bikar heima fyrir ásamt því að vinna Meistaradeild Evrópu. Það var annað tímabilið í röð sem Lyon vann þrennuna. Þetta var 11. skiptið í röð sem liðið vann deildina, á þeim tíma hefur liðið unnið bikarinn sjö sinnum og Meistaradeildina fjórum sinnum. Þetta er alvöru lið.

Við munum líka sjá marga leikmenn liðsins á EM í sumar, til að mynda lykilleikmenn í þýska liðinu, því norska og sænska. Auk þess sem 9 leikmenn franska landsliðsins koma úr Lyon.

Það segir sitt um styrk frönsku deildarinnar að bæði liðin sem spiluðu til úrslita í Meistaradeildinni komu frá Frakklandi, hitt liðið var PSG. PSG hefur þurft að lifa í skugga Lyon síðustu ár en þó náð að vinna einn franskan bikar og tvisvar farið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

Menningin

Frakkarnir hafa löngum haft orð á sér fyrir að vera mikil menningarþjóð. Listir á öllum formum, hönnun, heimspeki, matur og hvað annað sem lyft getur andanum, þar hafa Frakkarnir verið.

Kvikmyndalistin er þar engin undantekning. Alice Guy-Blaché (fædd Alice Ida Antoinette Guy) var mikill frumkvöðull í kvikmyndagerð. Árið 1896 gerði hún stutta mynd sem heitir La Fée aux Choux (e. The Cabbage Fairy). Hún byggði á frönsku ævintýri þar sem segir að strákabörn verði til í káli en stúlkubörn í rósum. Þetta er talið eitt allra fyrsta dæmi um það þegar kvikmyndaformið var notað til að sýna skáldaða frásögn. Hún þekkti Lumière bræður, sem áttu stóran þátt í þróun hreyfimyndatækninnar. Þeirra fyrsta mynd með söguþræði, L’Arroseur Arrosé, var líklega gerð ári á undan mynd Guy-Blaché. Sú mynd var einmitt tekin upp í Lyon.

Alice Guy-Blaché. Mynd: Amy Poehler’s Smart Girls

En fyrir þau ykkar sem viljið skoða betur áhugaverða franska leikstjóra í nútímanum má benda á þær Emmanuelle Bercot og Maïwenn. Þær hafa báðar starfað sem leikkonur og leikstjórar síðustu ár. Þær voru báðar tilnefndar til César verðlaunanna, sem eru frönsku kvikmyndaverðlaunin, árið 2016. Bercot var tilnefnd fyrir leikstjórn, fyrir myndina La Tête haute (e. Standing Tall) en að auki var hún tilnefnd sem leikkona í aðalhlutverki fyrir myndina Mon roi (e. My King), en það var einmitt Maïwenn sem leikstýrði þeirri mynd.

Emmanuelle Bercot og Maïwenn (Mynd: AlloCiné)
Matarboðið

Ég geri ráð fyrir því að lesendur síðunnar hafi verið duglegir að halda landaþematengd matarboð með tillögum úr upphitunarpistlunum sem birtust hér fyrir ári síðan. Það er því ekki úr vegi að endurtaka leikinn, enda er fátt skemmtilegra en velheppnað þemamatarboð.

„En er nokkuð að hafa upp úr matarboði þar sem þemað er Frakkland?“ heyri ég ykkur spyrja. „Ójú!“ er svarið mitt. Það má nefnilega, ef vel er leitað, finna sitthvað sniðugt í matar- og drykkjarmenningu Frakkana sem má leika eftir í eldhúsinu heima.

Reyndar eru frönsku áhrifin frekar áberandi á hinum og þessum stöðum, getum byrjað á að kaupa baguette, verður að vera nóg af því. Svo má alveg henda í góða omelette sem forrétt. En aðalbomban verður að vera negla. Og ég veit alveg hvaða negla það á að vera, nefnilega Bœuf Bourguignon. Jömm!

Mynd: The Daring Gourmet

Þetta er kannski ekki beint girnilegasti réttur í heimi en þegar partýið byrjar í munninum þá er öllum sama um hvernig gumsið lítur út. Það fer tími og ást í að elda þennan rétt. Hér má nálgast uppskrift og hérna er íslensk útgáfa.

Það þarf auðvitað eitthvað að sötra með þessu og þá liggur beint við að velja rauðvín, enda þarf hvort sem er slurk af því í uppskriftina. Það er t.d. hægt að kaupa flösku/r af Chateau des Jacques Moulin a Vent í Vínbúðum í Kringlunni, Skútuvogi og Heiðrúnu. Smellpassar við tilefnið þar sem það er úr réttu héraði og allt. Annars klikkar seint að velja rauðvín frá Bordeaux, til dæmis Chateau Lamothe Vincent Heritage sem fæst í Vínbúðum um allt land og passar vel með kjöti og kássum.

Þarf alltaf að vera vín?

En fólk fílar rauðvín auðvitað misvel. Það er að sjálfsögðu hægt að finna aðra, góða, franska drykki. Til dæmis eðalbjórinn Kronenbourg eða hreinlega klassískt koníak.

Í eftirrétt má svo bera fram Crème brûlée. Samkvæmt hávísindalegri grein í Cosmopolitan, þar sem farið er í gegnum vinsælustu matartrendin á hverju ári fyrir sig, var Crème brûlée vinsælasta matartrendið árið 1982. Sem er passar mjög vel því þá spilaði íslenska A-landslið kvenna einmitt sinn fyrsta leik í undankeppni EM í sögunni. Hér er uppsrift að réttinum, hérna má nálgast íslenska útgáfu.

Mynd: New York Times

Hvað tónlistina varðar þá klikkar seint að skella Frakkanum David Guetta í gang þegar fólk hefur fjör í huga. Tríóið L.E.J er afskaplega efnilegt og um að gera að tjékka á því. Einnig mætti reyna sig við Techtonik dansinn í veislunni, sérstakt dansafbrigði sem varð til í úthverfum Parísarborgar og má til dæmis dansa við tónlist hljómsveitarinnar Yelle. Það má sjá dansinn í þessu myndbandi:

Að lokum

– Frakkland er kallað L’Hexagone, eða sexhyrningurinn, vegna lögunar landsins.

– Að meðaltali borðar hver íbúi í Frakklandi 500 snigla á ári. Á hverjum degi koma að meðaltali út tvær nýjar matreiðslubækur í Frakklandi.

– Frakkarnir elska góð hringtorg. Í Frakklandi eru yfir 30.000 hringtorg en það er meira en helmingur allra hringtorga sem finnast á jörðinni.