Enn styttist í EM í Frakklandi. Nú eru aðeins 18 dagar í að mótið hefjist og aðeins 22 dagar í fyrsta leik okkar manna. Áfram höldum við með upphitunarpistlana. Fyrsti pistillinn fjallaði um Portúgal, nú er komið að öðrum mótherjum okkar á mótinu, Ungverjalandi.
Ungverjaland (Magyarorzág)
Höfuðborg: Búdapest
Stærð lands: 93.030 km² (90,3% af stærð Íslands)
Íbúafjöldi: 9,9 milljónir (2.911,8% af íbúafjölda Íslands)
Tungumál: ungverska
Lönd sem liggja að Ungverjalandi: Austurríki, Serbía, Króatía, Slóvenía, Rúmenía, Úkraína og Slóvakía
Ungverjaland er landlukt ríki sem þýðir að það liggur hvergi að sjó. Í landinu hefur verið lýðveldi og þingbundin stjórn síðan 1989 þegar landið losnaði undan einræði kommúnista.
Efsta deildin í knattspyrnu karla í Ungverjalandi heitir Nemzeti Bajnokság I. Hún var stofnuð árið 1901. Frá tímabilinu 2014-15 hafa verið 16 lið í deildinni. Núverandi meistarar í Nemzeti Bajnokság I eru Ferencváros (Ferencváros er eitt af 9 hverfum í Búdapest). Ferencváros er sigursælasta lið í efstu deild karla með 29 titla. Félagið notar ekki númerið 12 af virðingu við stuðningsmenn félagsins, 12. manninn.
Sigursælustu félögin á eftir Ferencváros eru MTK Budapest (23 titlar) og Újpest (20 titlar). Ungverjaland er í 33. sæti á lista UEFA yfir deildarkeppnir í Evrópu, einu sæti neðar en Liechtenstein og sæti fyrir ofan Moldóvu. Ísland kemur svo þar á eftir í 35. sætinu.
Efsta deild kvenna í Unverjalandi heitir N?i Nemzeti Bajnokság I. Núverandi deildarmeistarar þar eru Belvárosi N?i LC. Ungverska landsliðskonan Pádár Anita afrekaði það að verða markahæsti leikmaður deildarinnar 17 tímabil í röð, frá 1998/99 til 2014/15. Hún skoraði t.d. 57 mörk í 26 leikjum tímabilið 2011/12.
Ungverjaland í Júró
Ungverjaland hefur 14 sinnum tekið þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva (eða Júró). Auk þess hefur landið tvisvar sent lag í sérstaka forkeppni (ekki það sama og undankeppnir) en náðu ekki að komast í keppnina sjálfa.
Fyrsti keppandinn frá Ungverjalandi sem komst í sjálfa keppnina var Friderika Bayer. Hún söng árið 1994 lagið Kinek Mondjam el vétkeimet? (e. To whom can I tell my sins?) sem endaði í 4. sæti. Það er enn besti árangur Ungverjalands í Júró.
Árin 1993 og 1996 voru sérstakar forkeppnir um að komast inn í aðalkeppnina (þá voru engar undankeppnir eins og eru núna). Ungverjaland tók þátt í bæði skiptin en komst ekki í sjálfa keppnina. Slakasti árangurinn í sjálfri keppninni kom árið 2008, þá söng Erzsébet Csézi lagið Candlelight. Ungverjaland var þá í seinni undankeppninni (ásamt Íslendingum) og endaði í 19. og síðasta sæti þeirrar undankeppni með aðeins 6 stig. Neðsta landið í hinni undankeppninni, San Marínó, fékk þó stigi minna.
Í ár tók hinn huggulegi Gábor Alfréd Fehérvári, betur þekktur sem Freddie, þátt í Júró fyrir hönd Ungverjalands með ráma popprokklaginu Pioneer. Hann endaði í 4. sæti í undankeppninni og náði svo 19. sætinu í úrslitunum með 108 stig.
Menning og svoleiðis
Stemningin í Ungverjalandi eftir seinni heimsstyrjöldina var ekki beint sú skemmtilegasta. Ungverjaland var í tapliðinu og Sovétríkin hernámu landið með það í huga að breyta því í kommúnistaríki. Árið 1949 voru aðrir stjórnmálaflokkar en kommúnistaflokkurinn bannaðir. Eftir lát Stalín árið 1953 stefndi í frjálslyndari tíma, ungverskir stjórnmálamenn vildu breytingar. En Sovétríkin tóku það ekki í mál og börðu m.a. niður uppreisn árið 1956 með blóðugum hætti.
Svona var ástandið á 7. áratugnum. Íbúar landsins þurftu að lifa við algjöra forræðishyggju og undir sífelldri ógn frá öryggislögreglu landsins. Þeir vissu líka hvernig það gæti endað að ögra yfirvaldinu of mikið.
En það var hægt að spila tónlist! Á 7. áratugnum, á svipuðum tíma og Bítlarnir og The Rolling Stones voru að koma fram á sjónarsviðið, var mikil rokkmenning í gerjun í Búdapest. Fremst þar í flokki fóru þrjár stærstu hljómsveitirnar sem voru Illés, Metró og Omega. Það varð m.a.s. til rígur milli aðdáenda Illés og Omega sem líktist rígnum milli Bítlavina og aðdáenda The Rolling Stones.
Stjórnvöldin í Ungverjalandi reyndu að stjórna þessu eins og þau gátu. Það var bara ákveðin ríkisútgáfa sem gaf út plötur og allir fjölmiðlar verulega ritskoðaðir. Til að byrja með voru þessar hljómsveitir réttu megin við strikið en þegar meðlimir Illés gagnrýndu stjórnvöld í viðtali í Bretlandi var partýið búið. Hljómsveitin var sett á útgáfubannlista og sektuð. Böndin ýmist hættu eða fluttu úr landi. Hluti hljómsveitarinnar Omega flutti t.d. til Þýskalands og náði nokkrum vinsældum þar á meðan aðrir meðlimir þessara hljómsveita mynduðu saman súpergrúppuna Lokomotiv GT.
Íslenski podkastþátturinn Fílalag er þáttur sem óhætt er að mæla sérstaklega með. Þeir tóku fyrir ungversku rokksenuna í einum þætti og fjölluðu um Omega. Hér er þátturinn.
Annars er nú ekki hægt að fjalla um ungverska tónlist án þess að minnast á vin okkar, Emmerich Kálmán. Hann lifði frá 1882 til 1953 og samdi óperettur. Í einni óperettunni, Das Veilchen vom Montmartre (The Violet of Montmartre) frá árinu 1930, kemur fyrir lagið Heut’ Nacht hab’ ich geträumt von Dir (Last night I dreamed of you). Árið 1960 kom þetta lag út á Íslandi og hét þá Ég er kominn heim.
Ungverska matarboðið/partýið?
Nú þykist ég vita að margir spyrji „porúgalska þemapartýið var algjör gargandi snilld! En hvernig get ég haldið svipað stuð með ungverskum hætti?“
Enn og aftur, geggjuð spurning! Ég gæti varla orðað þetta betur sjálfur. Ungverska stemningin hlýtur bara að koma manni aðeins betur í gírinn fyrir leikinn gegn þeim þann 18. júní næstkomandi.
Það er fátt ungverskara þegar kemur að matargerð en gott gúllas. Það hentar líka prýðilega fyrir góð matarboð. Láta þetta malla duglega og hafa bara nógu stóran pott. Þetta er upphaflega hirðingjamatur, blanda af kjöti og grænmeti sem er soðið í kássu eða súpu. Hér er ekta ungversk uppskrift með góðum leiðbeiningum.
Ungverjarnir hafa framleitt vín allt frá tímum Rómarveldis í það minnsta. Þekktustu vín þeirra kallast Tokaji (eftir Norðausturhluta Ungverjalands sem heitir Tokaj). Þetta eru sæt eftirréttarhvítvín sem passa vel með ostum og öllum sætum eftirréttum. Það vill svo vel til að það fást tvær gerðir af Tokaji-vínum í vínbúðum hérlendis, annars vegar Oremus Tokaji Aszu 3 Puttonyos og hins vegar Disznoko Tokaji Aszu 5 Puttonyos.
Með þessu má setja einhverja hressa, ungverska tónlist í gang. Auðvitað er hægt að fara aftur í klassísku deildina og finna t.d. þá félaga Franz Liszt og Béla Bartók. Eða fara í eitthvað glænýtt og brakandi ferskt kvikindi, eins og til dæmis ungversku rapphljómsveitina Wellhello, hún á pottþétt eftir að hressa upp á partýið og fá fólk til að dilla sér aðeins.
Að lokum
Ern? Rubik er ungverskur uppfinningamaður, arkítekt og kennari. Hans þekktasta verk er Rubik’s Cube.
Í Ungverjalandi er löng hefð fyrir alls konar heilsulindum og baðstofum þar sem landið er ríkt af jarðhita. Dæmi eru um baðstofur sem nýta sér jarðvarma allt aftur til tíma Rómarveldis.
Kúlupenninn er ungversk uppfinning, fundin upp af László József Bíró.