Upphitunarpistill: Portúgal

Við í Tólfunni erum orðin alveg gríðarlega spennt fyrir EM í Frakklandi. Enda ekki annað hægt þar sem veislan sjálf, lúxushlaðborðið, gúrmei gúmmelaðið, byrjar eftir þrjár vikur. 3 vikur! Það er ekki neitt. Ég (Halldór Marteins) og Árni Súperman ætlum að henda í nokkra létta upphitunarpistla til að eftirvæntingafullt og yfirspennt stuðningsfólk hafi eitthvað smávegis að dunda sér við fram að móti.  Svo er aldrei að vita nema einhverjir fleiri Tólfusnillingar komi með hresst efni hingað inn, endilega fylgist með.

Þessi fyrsti upphitunarpistill fjallar um fyrstu þjóðina sem fær þann heiður að mæta Íslendingum á stórmóti A-landsliða karla í knattspyrnu, Portúgal. Við geymum þó ítarlegri umfjöllun um landslið þeirra þar til nær dregur leik, í þessum pistli eru aðallega misgagnslausar upplýsingar um þjóðina sem við (já, ég segi við) mætum.

Bandeira das Quinas, portúgalski fáninn (mynd tekin héðan: https://en.wikipedia.org/wiki/Flag_of_Portugal)
Bandeira das Quinas, portúgalski fáninn (mynd tekin héðan: https://en.wikipedia.org/wiki/Flag_of_Portugal)

Portúgal (República Portuguesa)

Höfuðborg: Lissabon
Stærð lands: 92.212 km² (89,5% af stærð Íslands)
Íbúafjöldi: 10,4 milljónir (3.113,8% af íbúafjölda Íslands)

Tungumál: portúgalska (talað alls staðar) og Mirandês (staðbundið tungumál í norðurhluta landsins)

Lönd sem liggja að Portúgal: Spánn

Portúgal hefur verið lýðræði síðan 1974 og þar er þingræði, rétt eins og á Íslandi.

Þrjú stærstu knattspyrnufélögin í Portúgal eru S.L. Benfica, FC Porto og Sporting CP. Efsta deildin í knattspyrnu karla heitir Primeira Liga. Hún var stofnuð 1934 og af 82 tímabilum sem leikin hafa verið þá hafa þessir þrjú stærstu félög unnið deildina samtals 80 sinnum. Ríkjandi Primeira Liga meistarar eru Benfica. Portúgalska landsdeildin er í 5. sæti yfir bestu deildarkeppnir Evrópu samkvæmt UEFA, einu sæti fyrir neðan Ítalíu og sæti fyrir ofan Frakkland. Í efstu deild kvenna er Clube Futebol Benfica meistari.

Benfica fagnar meistaratitli, mynd tekin af heimasíðu félagsins á http://www.slbenfica.pt/
Benfica fagnar meistaratitli, mynd tekin af heimasíðu félagsins á http://www.slbenfica.pt/

Euro

Portúgal tók þátt í sinni fyrstu Júró árið 1964. Þá er ég að sjálfsögðu að tala um Eurovision, þá frábæru skemmtun. Það gekk ekkert alltof vel í fyrstu tilraun, söngvarinn og sjarmörinn António Calvário söng þar lagið Oração (e. Prayer) en þrátt fyrir tilfinningaríkan flutning varð Portúgal í neðsta sæti ásamt þremur öðrum þjóðum, allar stigalausar.

Portúgal hefur alls 48 sinnum tekið þátt í Eurovision. Besti árangur þeirra kom árið 1996 þegar hin 19 ára gamla Lúcia Moniz endaði í 6. sæti með lagið O meu coração não tem cor (e. My heart has no colour).

En fallið var hátt því árið eftir endaði portúgalska framlagið, Antes do adeus (e. Before goodbye) með söngkonunni Célia Lawson í neðsta sætinu. Þetta var í þriðja skiptið sem Portúgal endaði í neðsta sæti og annað skiptið sem það endaði stigalaust.

Portúgal hefur þó hvorki endað neðst né stigalaust síðan þá. Að vísu fékk Portúgal engin stig í ár en það var einfaldlega vegna þess að landið tók ekki þátt í keppninni að þessu sinni.

António Calvário
António Calvário, fyrstur til að taka þátt í Eurovision fyrir hönd Portúgals

Tónlist og kvikmyndir

Nuno Bettencourt fæddist í Portúgal árið 1966. Þegar hann var 4 ára gamall fluttist hann með fjölskyldu sinni til Hudson, Massachusetts í Bandaríkjunum. Þar ólst hann upp, æfði fótbolta og lét sig dreyma um frama sem atvinnumaður með sínu uppáhalds knattspyrnuliði, Benfica frá Lissabon, ásamt því að spila fyrir portúgalska landsliðið. Það var draumurinn. Sá draumur varð ekki að veruleika en á unglingsaldri hóf Nuno að fikta við að læra á gítar og hefur náð hinum prýðilegasta atvinnumannaferli í gítarleik. Hann stofnaði m.a. rokkbandið Extreme, hefur gefið út sólóefni, verið í fullt af böndum og spilað með tónlistarfólki eins og Janet Jackson, Dweezil Zappa, Toni Braxton og Rihanna, auk þess að vinna tónlist fyrir kvikmyndir og margt fleira. Hreint ekkert amalegur ferill það.

Hetjurokkarinn og Benficastuðningsmaðurinn Nuno Bettencourt (mynd: extreme-band.com)
Hetjurokkarinn og Benficastuðningsmaðurinn Nuno Bettencourt (mynd: extreme-band.com)

Portúgal er kannski ekki eitt þeirra landa sem þekktast er fyrir ríka kvikmyndasögunni en þó má finna merkilega hluti þegar farið er að skoða það nánar. Það verður nú að teljast ólíklegt að fleiri lönd státi til dæmis af því að hafa alið leikstjóra sem átti 83 ára starfsferil sem slíkur. En það átti við um portúgalska leikstjórann Manoel de Oliveira. Hann leikstýrði fyrstu kvikmyndinni sinni árið 1931 og þeirri síðustu árið 2014. Hann leikstýrði alls konar verkum, bæði heimildarmyndum og leiknum í hinum ýmsu lengdum. Meðal hans þekktustu verka eru Aniki-Bóbó frá 1942 og Amor de Perdição (e. Doomed love) frá 1979, byggt á samnefndri skáldsögu frá 19. öld. Þeir sem hafa áhuga á kvikmyndagrúski ættu að kynna sér þennan merkilega leikstjóra.

Manoel de Oliveira
Portúgalski leikstjórinn Manoel de Oliveira (mynd fengin af https://en.wikipedia.org/wiki/Manoel_de_Oliveira)

Matarboð/partý með portúgölsku þema?

Nú spyrja sjálfsagt margir „hey, ég er að spá í að halda matarboð eða partý með portúgölsku þema til að koma mér í gírinn fyrir EM. Hvað er algjört möst í svoleiðis?“

Frábær spurning! Virkilega skemmtileg. Auðvitað er tilvalið að halda einhvers konar teiti með slíku þema til að slá tvær flugur í einu höggi. Bæði kynnast aðeins betur menningu þeirrar þjóðar sem við (jújú, við) erum að fara að spila við á fótboltavellinum en líka bara til að hafa gaman. Partý, jei!

Sjávarréttir eru mjög vinsælir í portúgalskri matargerð. Portúgalir fóru snemma að veiða sinn fisk í Norður Atlantshafi en nýta samt líka Miðjarðarhafsstrauma í eldamennsku. Saltfiskur er mjög vinsæll, það mætti til dæmis henda í Bacalhau à Bras (sjá uppskrift hér).

Annar mjög vinsæll réttur í Portúgal er Caldo verde (beinþýðing væri grænt seyði). Það er bragðgóð súpa þar sem uppistaðan er kartöflur, laukur og kál. Kryddpylsum, t.d. chouriço, er svo bætt út í súpuna (uppskrift hér). Það er líka lítið mál að sleppa einfaldlega pylsunni fyrir grænmetisætur eða bara þá sem vilja ekki pylsur.

Caldo verde gæti alveg verið girnilegri. En er samt eflaust prýðisgóð fyrir það
Caldo verde gæti alveg verið girnilegri. En er samt eflaust prýðisgóð fyrir það

Hér má svo fá mun fleiri hugmyndir og uppskriftir að portúgölskum réttum.

Eftir góða veislu getur verið gott að fá sér eitthvað sætt. Það getur líka verið gott að fá sér eitthvað áfengt. Þetta masteruðu Portúgalirnir á 15. öld þegar þeir fóru að gera púrtvínið. Bretinn er alveg vitlaus í það, samkvæmt honum er Cockburn’s Special Reserve það besta, vill svo vel til að það fæst akkúrat í vínbúðum hér á landi.

En það þarf ekkert alltaf að vera vín. Portúgalir elska sitt kaffi, hvort sem það er bica, galão eða eitthvað annað (sjá yfirlit hér)

Svo mætti klára fjörið á að smella portúgalskri danstónlist í gang, hækka vel og dansa eins og vindurinn. Mætti til dæmis byrja á laginu Touch Me eftir portúgalska plötusnúðinn Rui da Silva. Þetta lag fór í efsta sæti breska smáskífulistans árið 2001 og varð da Silva þar með fyrsti tónlistarmaðurinn frá Portúgal til að ná þeim árangri.

Að lokum

Portúgalir hafa afrekað ýmislegt í gegnum tíðina. Meðal skemmtilegra afreka þeirra er að…
– færa Japönum tempura (fundið upp af portúgölskum trúboðum í Japan)
– færa Indlandi chili (án þess væri ekkert karrí)
– færa Brasilíu kaffi (komu með fyrstu kaffiplönturnar til Brasilíu)
– færðu íbúum Hawaii ukulele