Það er aftur kominn leikdagur! Í þetta skipti er það vináttuleikur hjá kvennalandsliðinu gegn Brasilíu. Það er nóg framundan hjá þessu glæsilega liði, lokakeppni EM í Hollandi hefst í júlí og þetta er mikilvægur liður í undirbúningnum fyrir mótið. Auk þess er þetta tilvalið tækifæri fyrir okkur stuðningsfólkið að mæta á völlinn og kveðja þær með stæl. Sendum þær vel peppaðar á EM, komaso!
A-landslið kvenna,
vináttulandsleikur, kveðjuleikur fyrir EM í Hollandi 2017.
Þriðjudagurinn 13. júní 2017,
klukkan 18:30.
Ísland – Brasilía
Völlur: Laugardalsvöllurinn. Það var ekki leiðinlegt að vera á vellinum í blíðunni á sunnudaginn og það verður heldur ekki leiðinlegt að mæta þangað aftur til að styðja stelpurnar. Hvetjum sem flesta til að kaupa sér miða og skella sér!
Veðurspá: Það verður skýjað, og gæti rignt aðeins, en það verður ágætlega hlýtt (11-12 stig) og nálægt logni. Fínt veður til að mæta á leikinn.
Ísland
Staða á styrkleikalista FIFA: 18. sæti
Gengi í síðustu 10 leikjum: J T S J T J S S T J
Markatalan í síðustu 10 leikjum: 8-13
3 sigrar, 4 jafntefli og 3 töp hljóma kannski ekkert alltof vel en það er gott að hafa það í huga að síðustu 10 leikir þessa liðs hafa allir verið vináttuleikir, æfingaleikir sem liðið hefur verið að nota til að prófa mismunandi leikmenn, leikkerfi og áherslur. Það þarf því ekki að hafa miklar áhyggjur af þessu. Ef við tökum bara árangurinn í síðustu 10 alvöru keppnisleikjum þá er hann svona:
S S S S S S S S S T
Markatalan: 46-3
Þetta lið er ekki bara gott, það er geggjað!
Íslenska liðið hefur þó verið að lenda í ýmsum meiðslavandræðum síðustu vikur og mánuði. Það hefur vissulega haft áhrif á undirbúninginn en þá hefur líka verið gott að liðið hefur fengið þetta marga leiki til að vinna úr og greina. Meiðsli eða ekki, liðið verður væntanlega í toppstandi þegar EM hefst, eftir rúman mánuð.
Brasilía
Staða á styrkleikalista FIFA: 9. sæti
Gengi í síðustu 10 leikjum: J J T J S S S S S S
Markatala í síðustu 10 leikjum: 28-8
Brasilía endaði í 4. sæti á Ólympíuleikunum í fyrra eftir að hafa tapað fyrir Svíþjóð í vítaspyrnukeppni í undanúrslitum og svo tapað gegn Kanada í bronsleiknum. Brasilía hefur tvisvar fengið silfurverðlaun á Ólympíuleikum, árin 2004 og 2008. Á HM fékk liðið silfur árið 2007 og brons árið 1999. Í Copa America hefur liðið 6 sinnum unnið gull og einu sinni silfur, í Pan American leikunum hefur Brasilía þrisvar unnið gull og einu sinni silfur. Þetta er lið sem hefur unnið heilan helling.
Þetta verður fyrsti leikurinn þar sem kvennalið Íslands og Brasilíu mætast á fótboltavellinum. Löngu kominn tími til.
Marta Vieira da Silva, oftast bara kölluð Marta, er mögulega besti leikmaður í sögu kvennaknattspyrnu. Fimm sinnum hefur hún hlotið nafnbótina besta knattspyrnukona heims, fjórum sinnum hefur hún endað í 2. sæti í því vali og tvisvar í 3. sætinu. Hún fékk sænskan ríkisborgararétt fyrr á þessu ári, sem er ekki undarlegt því hún hefur spilað mikið í Svíþjóð og meðal annars unnið sænsku deildina 7 sinnum með þremur mismunandi liðum. Hún ætlar þó að halda áfram að spila fyrir brasilíska landsliðið, hún hefur spilað 116 landsleiki og skorað í þeim 107 mörk. Það er frábær tölfræði. Hún er ekki bara iðin þegar kemur að markaskorun heldur er hún gríðarlega skemmtilegur og teknískur leikmaður ásamt því að vera fyrirliði landsliðsins og mikill leiðtogi. Það verður ærið verkefni fyrir íslenska liðið að fá að glíma við hana og góð æfing fyrir toppliðin á EM í sumar.
Fan Zone KSÍ
Stuðningsmannasvæði KSÍ verður aftur í gangi fyrir leik að þessu sinni. Það var afskaplega vel nýtt fyrir landsleik karlalandsliðsins gegn Króatíu og vonandi að það verði álíka góð mæting og stemning fyrir þennan leik.
Sem fyrr opnar stuðningsmannasvæðið tveimur klukkutímum fyrir leik og það verður á sama stað, á bílastæðunum við völlinn. Fyllum Fan Zone og mætum svo snemma í stúkurnar til að syngja þjóðsönginn.
EM í Hollandi
Það styttist heldur betur í knattspyrnuveisluna í Hollandi. Lokakeppni Evrópumóts kvennalandsliða hefst þar 16. júlí nk. með opnunarleik milli Hollands og Noregs. Íslenska liðið hefur svo leik á mótinu tveimur dögum síðar.
Það er mánuður til stefnu og við í Tólfunni stefnum á að hefja peppið fljótlega með nokkrum upphitunarpistlum sem tengjast leikjum íslenska liðsins á mótinu. Gameday-pistlarnir verða svo að sjálfsögðu á sínum stað þegar mótið hefst.
Mætum á völlinn!
KSÍ hefur gefið út rafræna leikskrá fyrir leikinn gegn Brasilíu. Hana má nálgast hér og mælum við með lestrinum.
Á morgun spilum við okkar síðasta leik fyrir EM! Það verður spilaður sambabolti að hætti Íslendinga þegar við mætum Brössum?#fyririsland pic.twitter.com/76J7ssLQQJ
— Guðbjörg Gunnarsd. (@GuggaGunnars) June 12, 2017
Hallbera: Gott að fá svona risa í heimsókn https://t.co/w0PdBiMoxZ #fotbolti
— Fótbolti.net (@Fotboltinet) June 12, 2017
MIÐASALAN HEFST KLUKKAN 12:00!
Kveðjum stelpurnar okkar á viðeigandi hátt – MEÐ ÞVÍ AÐ FYLLA LAUGARDALSVÖLL!https://t.co/hATMvEEo4W pic.twitter.com/l2OFBlLGey
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) May 31, 2017
Áfram Ísland!