Fjörugt haust framundan

Pistladeild Tólfunnar heilsar ykkur á ný, rétt búin að jafna sig eftir stórkostlegt sumar.  Röddin er kannski rám en hún er alveg að koma heim, hjartað slær í takt við víkingaklappið og gæsahúðin er líklega alfarið komin til að vera.

En það er nóg framundan! Þýðir ekkert að hætta bara núna. Við erum ekkert södd þótt við höfum fengið að upplifa þetta frábæra ævintýri úti í Frakklandi. Núna er sumarið búið og haustið gengið í garð með nýjum áskorunum. En hvað nákvæmlega er framundan hjá okkur?

Undankeppni HM 2018 hefst

Fyrsti leikur A-landsliðs karla í undankeppni fyrir HM í Rússlandi 2018 fer fram núna á mánudaginn, 5. september. Mótherjinn í þessum fyrsta leik er Úkraína og leikið verður á tómum velli á Ólympíuleikvanginum í Kænugarði. Það verður líklega mikill munur að horfa á landsliðið spila fyrir framan tómar stúkur en við höfum trú á að strákarnir geti nýtt sér það vel og byrjað þessa undankeppni á jákvæðu nótunum. Við viljum fara á HM!

Leikurinn  hefst klukkan 18:45 á mánudaginn og ætlar Tólfan að hittast á Ölveri til að horfa á leikinn. Tilvalið að nota þennan leik til að peppa sig í gang fyrir törnina sem á eftir fylgir.

Undankeppni EM 2017 klárast

Á meðan A-landslið karla hefur leik í sinni undankeppni þá er A-landslið kvenna að klára sína undankeppni. Þær hafa verið gjörsamlega frábærar. Ekki nóg með að þær hafi unnið alla sína leiki og séu nú á toppi síns riðils í undankeppninni heldur hafa þær gert það með því að skora 29 mörk í 6 leikjum og haldið hreinu í öllum leikjunum.

A-landslið kvenna spilar í september síðustu 2 leikina sína í undankeppninni og verða þeir báðir á heimavelli. Það gefst því frábært tækifæri fyrir okkur að sýna stelpunum okkar verðskuldaðan stuðning og peppa þær duglega fyrir EM í Hollandi á næsta ári.

Ísland - Holland
Ísland vann Holland á EM 2013. Mynd: UEFA.com

Fyrri leikurinn verður gegn Slóveníu föstudaginn 16. september. Slóvenía er í 3. sætinu í riðli 1 með 9 stig eftir 6 leiki. Fyrri leikur liðanna fór fram á Lendava Sports Park í Lendava, Slóveníu 26. október í fyrra. Það var ekki spennandi leikur, íslenska liðið var miklu betra og vann þann leik 6-0. Dagný Brynjarsdóttir og Harpa Þorsteinsdóttir skoruðu báðar 2 mörk og Margrét Lára Viðarsdóttir og Sandra María Jessen sitt hvort markið.

Það er ljóst að íslenska liðinu dugir 1 stig til að gulltryggja sig á EM. Þetta verður föstudagsleikur og partýstemning. Tólfan ætlar að fara all-in þennan dag, hita upp á Ölveri og láta heyra vel í sér á vellinum. Hvetjum við auðvitað alla til að koma og vera með okkur í stemningunni, hvetjum líka þá sem mæta bara á leikinn til að láta vel í sér heyra með okkur. Leikurinn byrjar klukkan 18:45.

Úr fyrri leik Íslands og Slóveníu. Mynd: KSÍ/Jure Banf.
Úr fyrri leik Íslands og Slóveníu. Mynd: KSÍ/Jure Banf.

Lokaleikurinn í riðlinum verður síðan gegn Skotlandi þriðjudaginn 20. september. Skotland er með næst besta liðið í riðlinum, á eftir því íslenska. Skotarnir eru með 18 stig eftir 7 leiki. Þær hafa unnið 6 leiki en eina tap þeirra kom einmitt í fyrri leiknum gegn Íslandi. Sá leikur fór fram á Falkirk Stadium í Falkirk, Skotlandi þann 3. júní síðastliðinn. Ísland átti magnaða frammistöðu í þeim leik og vann þetta sterka, skoska lið með 4 mörkum gegn engu. Hallbera Gísladóttir, Harpa Þorsteinsdóttir, Gunnhildur Jónsdóttir og Margrét Lára Viðarsdóttir skoruðu mörk Íslands í þeim leik.

Þessi leikur er líka um margt merkilegur vegna þess að hann verður spilaður 20. september 2016 en þann dag verða nákvæmlega 35 ár frá því íslenska A-landslið kvenna spilaði sinn fyrsta fótboltaleik. Sá leikur var einmitt líka gegn Skotlandi en að vísu fór sá leikur fram í Skotlandi.

Leikurinn gegn Skotlandi hefst klukkan 17:00. Tólfan ætlar að mæta á leikinn en það verður meiri áhersla á fjölskyldustemningu en á leiknum á undan. Það verður ekki upphitun á Ölveri í það skiptið, í staðinn er stefnt að því að leggja meira upp úr fjölskyldugleði við Laugardalsvöllinn fyrir leik. En að sjálfsögðu ætlum við að halda uppi sama fjörinu í stúkunni yfir leiknum sjálfum og viljum fá sem flesta með okkur í þeirri stemningu.

Frétt úr Morgunblaðinu 22. september 1981 - um fyrsta landsleik kvennalandsliðsins
Frétt úr Morgunblaðinu 22. september 1981 – um fyrsta landsleik kvennalandsliðsins

Við hvetjum sem flesta til að mæta á báða landsleikina í september. Við sáum öll hvað strákarnir gerðu í sumar með þennan mikla stuðning sem þeir fengu. Ímyndið ykkur hvað stelpurnar geta gert með sambærilegan stuðning á bak við sig!

Miðasala fyrir leikina er hafin. Miðað við skemmtunina og gæðin sem eru í boði þá er ekki dýrt að fara á þessa leiki. 2500 krónur hvor leikur og sérstakt tilboð ef farið er á báða leikina, 3500 krónur. Miðasalan er hér.

Heimaleikir í undankeppni HM

Í byrjun október heldur undankeppni HM áfram hjá A-landsliði karla. Þá spilar liðið 2 fótboltaleiki, báða á heimavelli.

Fyrri leikurinn fer fram fimmtudaginn 6. október. Þá mæta frændur okkar Finnar í heimsókn. Leikurinn fer fram klukkan 18:45 að íslenskum tíma. Það er uppselt á þann leik svo búast má við rífandi stemningu.

Aðeins 3 dögum síðar spilar Ísland aftur heimaleik í undankeppni HM. Þá koma Tyrkir í heimsókn. Við könnumst nú ágætlega við þetta tyrkneska lið eftir að hafa verið með þeim í riðli í undankeppninni fyrir EM 2016. Þá vann Ísland góðan 3-0 sigur á heimavelli en Tyrkland vann leikinn í Tyrklandi 1-0.

Miðasalan fyrir leikinn gegn Tyrklandi hefst á morgun, föstudaginn 2. september klukkan 12:00. Hér verður miðasalan fyrir leikinn.

Ísland - Tyrkland. Mynd. KSÍ
Ísland – Tyrkland. Mynd. KSÍ

Dregið í riðla á EM 2017

Landsliðsfjör haustsins mun þó ekki einskorðast við fótboltaleikina sem verða spilaðir. Þriðjudaginn 8. nóvember verður dregið í riðla í lokakeppni Evrópumótsins í Hollandi 2017. Þá kemur í ljós hvaða þjóðir verða með Íslendingum í riðli því auðvitað ætlum við þangað. Við munum því fylgjast vel með því þegar dregið verður í riðlana.

Fleiri karlalandsleikir

Í nóvember mun A-landslið karla svo spila síðustu 2 landsleiki sína á árinu.  Laugardaginn 12. nóvember mætir liðið Króatíu í undankeppni HM. Leikurinn verður spilaður á Stadion Maksimir vellinum í Zagreb, Króatíu. Líkt og í fyrsta heimaleik A-landsliðs karla í undankeppninni verður þessi leikur spilaður á tómum leikvangi. Hann byrjar klukkan 17:00 og reiknum við með góðri laugardagsstemningu á Ölveri.

Síðasti leikur A-landsliðs karla verður svo vináttuleikur gegn Möltu. Sá leikur fer fram þriðjudaginn 15. nóvember, klukkan 18:00. Hann verður spilaður á Ta’Qali vellinum í Möltu. Þarna gefst gott tækifæri til að gefa fleiri leikmönnum mínútur með landsliðinu og fara yfir það sem þarf að fara yfir áður en lengra er haldið í undankeppninni.

Malta
Ta’Qali, þjóðarleikvangurinn á Möltu

Jólapartý

Síðan kemur desember með jólum og gleði. Ég veit ekki með ykkur en ég stefni allavega á að fara all-in í jólastuðið:

Jóladóri


Þá vitið þið nokkurn veginn hvað er framundan hjá okkur og getið búið ykkur undir það. Við munum svo koma með fleiri pistla á næstunni, gameday-pistlarnir verða á sínum stað auk þess sem við höldum áfram að peppa heimaleikina.