Leikdagur: Úkraína – Ísland

Þá er komið að næstu undankeppni hjá A-landsliði karla. Undankeppnin fyrir Heimsmeistaramótið í Rússlandi árið 2018. Strákarnir eru komnir á bragðið, búnir að prófa að kíkja á stórmót og langar í meira. Leiðin til Rússlands hefst í Úkraínu, það gerist varla svakalegra!

Úkraína - Ísland

Undankeppni HM 2018 í knattspyrnu karla,
1. umferð.
Mánudagurinn 5. september 2016,
klukkan 18:45 að íslenskum tíma, 21:45 að staðartíma.

Úkraína – Ísland

Völlur: NSC Olimpiyskiy, Ólympíuleikvangurinn í Kiev. Hann tekur 70.050 áhorfendur en verður hins vegar tómur á þessum leik vegna áhorfendabanns. Úrslitaleikurinn á EM 2012 var spilaður á þessum velli.

Dómari: Clément Turpin, franskur.


Úkraína

Stjóri: Andriy Mykolayovych Schevchenko

Fyrirliði: Ruslan Rotan var fyrirliði í síðasta leik, Vyacheslav Shevchuk í leikjunum þar á undan. Schevchenko gæti þó valið einhvern annan til að taka bandið.

Leikjahæstur: Anatoliy Tymoshchuk, 144 landsleikir. Fékk kveðjumínútur í uppbótartíma í lokaleik Úkraínu á EM í sumar en er hættur núna. Leikjahæstur leikmanna sem enn gefa kost á sér með landsliðinu er Oleh Husyev með 98 leiki.

Markahæstur: Þjálfarinn Andriy Schevchenko er markahæstur í sögu úkraínska landsliðsins, með 48 fótboltamörk í 111 landsleikjum. Í 2. sæti er Andriy Yarmolenko, sem enn spilar með landsliðinu, með 25 mörk í 62 leikjum.

Staða á styrkleikalista FIFA: 30. sæti
Staða á styrkleikalista UEFA: 14. sæti
Gengi í síðustu 10 leikjum: T S J S S S S T T T
Markatala í síðustu 10 leikjum: 12-11

Byrjunarlið Úkraínu í lokaleiknum á EM 2016
Byrjunarlið Úkraínu í lokaleiknum á EM 2016
Gengi á síðustu stórmótum

Frá því Úkraína hætti að vera hluti af Sovétríkjunum hefur karlalandslið þjóðarinnar komist á 3 lokamót í knattspyrnu. Eitt þeirra var að vísu Evrópumótið árið 2012 þegar Úkraína komst sjálfkrafa á lokamótið sem gestgjafi, ásamt Póllandi. Liðið byrjaði vel þar, vann Svíþjóð í fyrsta leik með 2 mörkum frá Schevchenko gegn einu marki frá Zlatan. Eftir það skoraði liðið ekki mark og tapaði seinni 2 leikjum sínum, gegn Frakklandi og Englandi. Úkraína endaði í 3. sæti síns riðils og komst ekki áfram.

Síðasta sumar náði Úkraína í fyrsta skipti að komast í lokamót EM eftir að hafa komist í gegnum undankeppni. Það stóð reyndar tæpt hjá þeim þar sem þeir lentu í 3. sæti C-riðils, fyrir neðan Spánverja og Slóvakíu. Þeir þurftu því að fara í umspilsviðureign þar sem mótherjinn var Slóvenía. Úkraína vann fyrri leikinn, á heimavelli, 2-0. Eftir 1-1 jafntefli í seinni leiknum var ljóst að Úkraína var á leið til Frakklands. Þar dróst liðið aftur í C-riðil, í þetta skipti með Þýskalandi, Póllandi og Norður-Írlandi. Úkraínu gekk hrikalega á mótinu, náðu ekki að skora mark og töpuðu öllum leikjunum sínum.

Úkraína hefur einu sinni komist á lokakeppnina á Heimsmeistaramóti karlalandsliða í knattspyrnu. Það var á HM í Þýskalandi árið 2006. Þá dróst Úkraína í H-riðil, ásamt Spáni, Túnis og Sádi-Arabíu. Eftir 0-4 tap gegn Spánverjum náði Úkraína í 2. sæti riðilsins með því að vinna hina 2 leikina. Í 16-liða úrslitum vann úkraínska liðið svo sigur á Sviss í vítakeppni eftir markalausan leik og framlengingu. Úkraína féll svo úr leik í 8-liða úrslitum gegn verðandi heimsmeisturum Ítalíu.

Í undankeppninni fyrir HM í Suður-Afríku árið 2010 var Úkraína í riðli 7 ásamt Englandi, Króatíu, Hvíta-Rússlandi, Kasakstan og Andorra. Úkraína endaði í 2. sæti riðilsins, 6 stigum á eftir Englandi og 1 stigi á undan Króatíu. 2. sætið dugaði þeim til að komast í umspilsviðureign um laust sæti á HM. Úkraína fékk Grikkland í umspilinu. Fyrri leikurinn fór fram í Grikklandi og endaði með markalausu jafntefli. Grikkland sigraði hins vegar leikinn í Úkraínu með 1 marki gegn engu. Grikkland fór því á HM en Úkraína sat eftir.

Í undankeppninni fyrir HM í Brasilíu árið 2014 lenti Úkraína aftur með Englandi í riðli. Auk þeirra voru Svartfjallaland, Pólland, Moldóva og San Marínó í H-riðlinum. Aftur endaði Úkraína í 2. sæti riðilsins, að þessu sinni aðeins 1 stigi á eftir Englandi og 6 stigum á undan Svartfjallalandi. Úkraína var meðal annars ósigrað á útivelli í undankeppninni. Úkraína fékk erfitt verkefni í umspilinu þegar það mætti Frakklandi. Fyrri leikurinn fór fram á Ólympíuleikvanginum í Kiev. Úkraína gerði sér lítið fyrir og vann þann leik 2-0 með mörkum frá Roman Zozulya og Andriy Yarmolenko. Frakkarnir sneru taflinu hins vegar við á heimavelli með 3-0 sigri. Aftur þurfti Úkraína að sætta sig við að falla úr leik í umspilinu.

Hættulegustu leikmenn liðsins

Úkraína hefur verið að keyra mest á 4-2-3-1 uppstillingunni upp á síðkastið. Þeirra hættulegustu leikmenn hafa verið kantmennirnir Andriy Yarmolenko og Yevhen Konoplyanka.

Yarmolenko spilar með Dynamo Kyiv í heimalandinu. Hann er örvfættur en spilar oftast á hægri kantinum. Hann er nokkuð hávaxinn af kantmanni að vera, 189 cm á hæð, en þó brögðóttur og snöggur. Hann er líka með eitraðan vinstri fót, hefur til að mynda skorað meira en 10 mörk í 6 tímabil í röð í úkraínsku deildinni. Auk þess er hann duglegur að leggja upp á samherja sína.

Yarmolenko er næst markahæsti leikmaður Úkraínu frá upphafi, hefur skorað 25 mörk í 62 landsleikjum. Hann getur hins vegar átt það til að hverfa, líkt og á EM í sumar. Þá er hann stundum helst til villtur, til að mynda hefur skapast rígur milli hans og miðjumannsins Taras Stepanenko. Þeir eru samherjar hjá Úkraínu en andstæðingar með félagsliðunum Dynamo Kyiv og Shakhtar Donetsk. Yarmolenko tæklaði Stepanenko illa í leik félagsliðanna, svo illa að Stepanenko var heppinn að fótbrotna ekki. Eftir það hafa þeir lent í átökum þegar félagsliðin þeirra mætast. Það getur varla haft góð áhrif á liðsmóralinn í úkraínska landsliðinu.

Yevhen Konoplyanka er réttfættur vinstri kantmaður. Hann spilaði með úkraínska knattspyrnufélaginu FC Dnipro Dnipropetrovsk frá 2007, þegar hann var 18 ára gamall, til ársins 2015 þegar hann var keyptur til Sevilla á Spáni. Hjá Sevilla hefur hann skorað í UEFA Super Cup 2 ár í röð en náði þó ekki að festa sig í sessi á Spáni. Í lok ágúst sl. fór hann því á lánssamningi til Schalke 04 í Þýskalandi. Þar mun hann spila næsta tímabil og hefur þýska liðið rétt á að kaupa Konoplyanka eftir það tímabil.

Styrkleikar Konoplyanka eru m.a. fyrirgjafir, lykilsendingar, langskot auk þess sem hann er góður í að taka menn á og halda boltanum. Hann er líka góður í föstum leikatriðum. Verandi réttfættur á vinstri kantinum á hann það til að leita mikið inn að miðjum vellinum og leita þar að skotfæri eða góðum möguleika á stungusendingu. Hann getur þó einnig verið hættulegur utar á kantinum með því að dæla inn fyrirgjöfum. Hans veikleiki er helst að hann tekur oft ekki mikinn þátt í varnarleik og þar sem hann er lágvaxnari en t.d. Yarmolenko (176 cm) þá er hann ekki góður í skallaeinvígum.


Ísland

Stjóri: Heimir Hallgrímsson

Fyrirliði: Aron Einar Gunnarsson

Leikjahæstur: Rúnar Kristinsson, 104 leikir. Eiður Smári er í 3. sæti, með 88 landsleiki. Ekki alveg útséð með að hann bæti við leikjum. En af þeim sem eru í þessum hóp er fyrirliðinn Aron Einar leikjahæstur, hann hefur spilað 64 landsleiki og er í 17. sæti. Leikurinn gegn Úkraínu kemur honum upp í 15. sæti ásamt þeim Sigurði Jónssyni og Indriða Sigurðssyni. Ef Aron spilar alla 10 leikina í undankeppni HM þá fer hann upp í 5. sæti yfir leikjahæstu leikmenn landsliðsins frá upphafi.

Markahæstur: Eiður Smári Guðjohnsen, hefur skorað 26 mörk í 88 landsleikjum. Næstur á eftir honum er Kolbeinn Sigþórsson með 22 mörk í 44 landsleikjum. Markahæstur þeirra sem munu spila þennan leik er Gylfi Þór Sigurðsson með 14 mörk í 44 leikjum.

Staða á styrkleikalista FIFA: 23. sæti
Staða á styrkleikalista UEFA: 27. sæti
Gengi í síðustu 10 leikjum: T T S T S J J S S T
Markatala í síðustu 10 leikjum: 20-19

Ísland - England
Íslenska liðið fyrir leikinn gegn Englandi á EM
Gengi á síðustu stórmótum

Karlalandslið Íslands hefur, líkt og flestir ættu nú að vita, einu sinni komist á lokamót í knattspyrnu. Það var nú í sumar þegar landsliðið og hálf þjóðin fór til Frakklands. Þar sannaði landsliðið sig sem eitt af 8 bestu karlalandsliðum í Evrópu.

Ísland hefur aldrei komist á lokamót HM. Það næsta sem strákarnir okkar hafa komist því var fyrir síðasta HM, þegar Ísland endaði í 2. sæti E-riðils og tapaði síðan í umspilsviðureign gegn Króatíu.

Báðar þjóðirnar þekkja því vel til umspilsviðureigna eftir síðustu undankeppnir.

Hættulegustu leikmenn

Íslenska karlalandsliðið hefur verið að spila 4-4-2 síðustu árin og engin ástæða til að halda að það fari eitthvað að breytast á næstunni.  Hættulegasti leikmaður Íslands er Gylfi Þór Sigurðsson. Kolbeinn Sigþórsson mun ekki spila þennan leik en leikmenn eins og  Jón Daði Björnsson og Birkir Bjarnason geta komið með hættu inn í leikinn í stað Kolbeins.

Gylfi Þór Sigurðsson er hjartað og heilinn í sóknarleik íslenska liðsins. Besta leiðin til að ná góðu flæði í sóknarleik liðsins er að láta það fara sem mest í gegnum Gylfa. Hann er líka fantagóður spyrnumaður sem þýðir að föstu leikatriðin sem byggjast á að sparka í boltann verða stórhættuleg í hans höndum. Eða fótum. Gylfi er í 4. sæti yfir markahæstu leikmenn íslenska karlalandsliðsins frá upphafi, með 14 mörk í 44 leikjum. Hann er með jafnmörg mörk og Ríkharður Daðason (einnig í 44 leikjum) og Arnór Guðjohnsen (í 73 leikjum).

Jón Daði hefur verið mikilvægur hlekkur í íslenska liðinu síðustu misserin. Í kjölfarið á frammistöðu hans á EM fór hann í ensku Championship deildina þegar Wolverhampton Wanderers keypti hann. Þar hefur hann slegið í gegn, hann hefur skorað 2 virkilega flott mörk og sýnt þá baráttu sem við þekkjum frá landsleikjum hans. Stuðningsmenn Úlfanna hafa líka tekið upp víkingaklappið til að fagna honum og halda mikið upp á Selfyssinginn knáa. Hann skoraði fyrsta mark Íslands í undankeppni EM og gæti alveg tekið upp á því að endurtaka leikinn í Úkraínu.

Birkir Bjarnason skoraði fyrsta mark A-landsliðs karla á stórmóti í knattspyrnu. Hann skoraði einnig síðasta mark liðsins á EM. Hann er í 16. sæti yfir markahæstu leikmenn landsliðsins frá upphafi með 8 mörk í 52 leikjum. Hann er líka strax byrjaður að skora fyrir félagsliðið sitt, Basel í Sviss.


Viðureignin

Þetta verður í þriðja skipti sem A-landslið karla mætir Úkraínu á knattspyrnuvellinum.

Í undankeppninni fyrir EM 2000, sem haldin var í Hollandi og Belgíu, lenti Ísland með Úkraínu í riðli 4. Ásamt þessum liðum voru heimsmeistarar Frakka í riðlinum, Rússland, Armenía og Andorra. Ísland byrjaði þessa undankeppni eftirminnilega, á frábæru 1-1 jafntefli við Frakka fyrir framan 10.382 áhorfendur á Laugardalsvellinum. Á meðan lagði Úkraína nágranna sína frá Rússlandi, 3-2.

Fyrri leikur þessara liða fór fram á þessum sama velli og liðin mætast á núna, NSC Olimpiyskiy vellinum í Kiev, miðvikudaginn 31. mars 1999, klukkan 19:00 að staðartíma eða 16:00 að íslenskum tíma. Ísland var taplaust eftir 4 leiki í undankeppninni og hafði þarna leikið 8 leiki í röð án ósigur undir stjórn Guðjóns Þórðarsonar. Árangurinn hafði líka vakið athygli og voru meðal annars útsendarar frá Liverpool á leiknum en Guðjón var í breskum blöðum talinn einn af 5 stjórum sem kæmu til greina að taka við af Gerard Houllier sem þótti valtur í sessi. Houllier átti þó eftir að stýra Liverpool í 5 ár til viðbótar.

Íslenska liðið kom inn í þennan leik með það markmið að verjast og berjast. Það hafði góðar gætur á hættulegasta leikmanni Úkraínu, sóknarmanninum Schevchenko. Hans helsta framlag í fyrri hálfleiknum var þegar hann lenti í samstuði við fyrirliða Íslands, Sigurð Jónsson, með þeim afleiðingum að sá síðarnefndi nefbrotnaði. Hann lét það þó ekki á sig fá heldur kláraði leikinn með brotið og beyglað nef.

Leikurinn var markalaus í tæpan klukkutíma en á 59. mínútu skoraði miðvörðurinn Vladyslav Vashchuk og kom heimamönnum yfir. Þá ætlaði úkraínska liðið að láta kné fylgja kviði og valta yfir Íslendingana. En Lárus Orri Sigurðsson hafði aðrar hugmyndir. Rúmum 5 mínútum eftir mark Vashchuk náði Ísland góðu upphlaupi, Lárus Orri átti skot á markið sem markvörður Úkraínu varði í horn. Upp úr horninu náði Þórður Guðjónsson skoti að marki sem Lárus Orri stýrði í netið. 1-1 urðu lokatölurnar í leiknum og Íslendingar fögnuðu mikið.

Núverandi aðstoðarlandsliðsþjálfari, Helgi Kolviðsson, tók þátt í leiknum í Úkraínu fyrir 17 árum. Morgunblaðið, 1. apríl 1999.
Núverandi aðstoðarlandsliðsþjálfari, Helgi Kolviðsson, tók þátt í leiknum í Úkraínu fyrir 17 árum. Morgunblaðið, 1. apríl 1999.

Seinni leikur liðanna fór fram á Laugardalsvellinum miðvikudaginn 8. september 1999, klukkan 18:00. Þennan dag gerðu 7.072 áhorfendur sér leið í Laugardalinn til að fylgjast með liðunum etja kappi í næst síðustu umferð undankeppninnar.

Íslenska liðið lagði aftur upp með að vera þétt til baka, gefa fá færi á sér og sækja svo á skyndisóknum. Guðjón vildi að liðið héldi hreinu í fyrri hálfleik og færi síðan að sækja mun meira á þá úkraínsku í seinni hálfleik. En það plan gekk ekki alveg upp, undir lok fyrri hálfleiks náði Schevchenko að spila sig framhjá Lárusi Orra og Sigurði Jóns og komast inn í vítateig þar sem Pétur Marteinsson náði ekki í boltann en braut í staðinn á Schevchenko. Vítaspyrna dæmd sem sóknarmaðurinn Serhiy Rebrov skoraði úr. Það reyndist eina mark leiksins og við það voru vonir Íslands um að komast í lokamótið nánast úr sögunni.

Úkraína endaði undankeppnina á að gera jafntefli við Rússa á meðan Frakkland vann Ísland í miklum baráttuleik í París. Þau úrslit þýddu að Frakkland vann riðilinn með 1 stigi og fór beint í lokakeppnina en Úkraína fór, eitt sinn sem oftar, í umspilsviðureign. Þar mættu þeir Slóveníu. Slóvenía vann fyrri leikinn, á heimavelli, eftir að Schevchenko kom Úkraínu yfir. 1-1 jafntefli í Úkraínu, í það skiptið eftir að Rebrov hafði komið Úkraínu yfir, dugði Slóveníu til að komast á EM. Úkraína hafði þó verið mjög nálægt því.


Dómarahornið

Clément Turpin kemur frá Oulins í norðurhluta Frakklands. Hann er 34 ára gamall, fæddur 16. maí 1982. Hann byrjaði að dæma í efstu deild Frakklands árið 2008 og árið 2010 var hann orðinn alþjóðlegur FIFA dómari. Í maí 2016 var hann útnefndur besti dómari Frakklands af franska knattspyrnusambandinu.

Hann hóf að dæma vináttulandsleiki árið 2010 auk þess að dæma í Evrópukeppnum félagsliða og hinum ýmsu undan- og lokakeppnum yngri landsliða. Hann dæmdi einn leik í undankeppninni fyrir EM 2012 og einn leik í undankeppni fyrir HM 2014. Sá síðari var einmitt leikur hjá Úkraínu, þegar þeir gerðu 0-0 jafntefli við Moldóvu á útivelli.

Í undankeppni EM 2016 dæmi Turpin 3 leiki og fékk svo að fara á lokakeppnina í Frakklandi. Þar dæmdi hann 2 leiki, báða í riðlakeppninni. Fyrst dæmdi hann leik Austurríkis og Ungverjalands í okkar riðli og svo leik Norður-Írlands og Þýskalands. Hann dæmdi einnig 2 leiki á Ólympíuleikunum í Ríó, aftur báða í riðlakeppninni.

Turpin var reynsluminnsti dómarinn á EM í Frakklandi. Hann var einnig yngsti dómarinn í lokakeppni EM í 24 ár (síðan hinn 32 ára Peter Mikkelsen dæmdi á EM ’92). Turpin hefur farið í gegnum mikla þjálfun frá unga aldri, bæði hjá franska knattspyrnusambandinu og UEFA.

Turpin vill halda sig í bakgrunni fótboltaleikja, er talinn góður í að beita hagnaðarreglunni en leggur þó áherslu á að forðast ekki að taka óvinsælar ákvarðanir eða beita hörku ef við á. Þannig er hann með hæsta hlutfall rauðra spjalda af þeim 18 dómurum sem dæmdu á EM í sumar, eða að meðaltali eitt rautt spjald á hverjum 3 alþjóðlegum leikjum dæmdum.

Hann hefur einu sinni áður dæmt leik hjá íslensku landsliði. Það var 6. október 2011 þegar hann dæmdi leik Íslands og Englands í undankeppninni fyrir EM U21 árið 2013. Þann leik vann England með 3 mörkum gegn engu. Turpin sendi engan af velli í það skipti en gaf Kristni Steindórssyni og Þórarni Inga Valdimarssyni gul spjöld.

Aðstoðarmenn Turpin í þessum leik verða Cyril Gringore og Niolas Danos á flöggunum og Ruddy Buquet sem fjórði dómari. Þeir eru allir frá Frakklandi.


Myndbandshornið

Fyrri leikur Úkraínu og Íslands í undankeppni EM 2000, 31. mars 1999:

Seinni leikur Íslands og Úkraínu í undankeppni EM 2000, 8. september 1999:

Andriy Yarmolenko er hættulegur leikmaður:

Yevhen Konoplyanka er líka hættulegur:

En íslenska landsliðið getur líka verið stórhættulegt:


Tólfan ætlar að hittast á Ölveri og horfa saman á leikinn þar. Við hvetjum sem flesta til að kíkja við og taka þátt í stemningunni þar. Áfram Ísland!