Það er komið að fyrsta heimaleik karlalandsliðs Íslands í nýrri undankeppni. Markmiðið er að komast til Rússlands og til að komast þangað þarf að byrja á að leggja nágranna þeirra, Finnland.
A-landslið karla,
undankeppni HM í Rússlandi 2018.
2. umferð í I-riðli.
Fimmtudagurinn 6. október 2016,
klukkan 18:45.
Ísland – Finnland
Völlur: Laugardalsvöllurinn okkar allra.
Dómari: Svein Oddvar Moen, norskur
Veðurspá: 11 stiga hiti, suð-austan 7 metrar á sekúndu og alskýjað. Sólskin og sjóðandi hiti í stúkunni, að sjálfsögðu!
Ísland
Landsliðsþjálfari: Heimir „Tannlæknirinn“ Hallgrímsson.
Fyrirliði: Aron Einar „Kafteinninn“ Gunnarsson.
Leikjahæstur: Rúnar „Reynsluboltinn“ Kristinsson.
Rúnar spilaði sinn fyrsta leik 28. október 1987, þá 18 ára gamall. Sá leikur var á útivelli gegn Sovétríkjunum í undankeppninni fyrir EM 1988. Rúnar kom inn á völlinn á 69. mínútu fyrir Lárus Þór Guðmundsson en náði ekki að koma í veg fyrir 2-0 sigur heimamanna.
Síðasti leikur Rúnars, sá 104. í röðinni, var 18. ágúst 2004. Sá leikur var vináttuleikur á heimavelli og mun skemmtilegri. Þá vann Ísland lið Ítalíu með 2 mörkum gegn engu.
Rúnar er eini leikmaðurinn sem hefur spilað fleiri en 100 leiki fyrir A-landslið karla.
Markahæstur: Eiður Smári „Ísmaðurinn“ Guðjohnsen. Eiður Smári skoraði fyrra mark Íslands í sigrinum á Ítalíu í lokaleik Rúnars. Fyrsta mark Eiðs kom hins vegar í 2. landsleiknum hans, 4. september 1999, gegn Andorra í undankeppni EM2000. Á 78. mínútu kom Eiður Smári inn á fyrir Ríkharð Daðason og skoraði svo síðasta markið í 3-0 sigri á 90. mínútu.
Síðasta mark sem Eiður Smári skoraði fyrir landsliðið (til þessa í það minnsta) kom nú í sumar, í 4-0 sigri á Liechtenstein í vináttuleik þann 6. júní.
Staða á styrkleikalista FIFA: 27. sæti
Gengi í síðustu 10 leikjum: T S T S J J S S T J
Markatalan í síðustu 10 leikjum: 19-17.
Ísland hefur skorað í síðustu 15 leikjum í röð og fengið á sig mörk í síðustu 6 leikjum.
Ísland byrjaði vel í þessari undankeppni og skoraði fyrsta markið sem var skorað í I-riðlinum, Alfreð „Freddinn“ Finnbogason gerði það strax á 6. mínútu. En Úkraína eru sterkir heima og náðu að jafna. 1-1 lokatölur eins og í öllum hinum leikjum riðilsins.
Það er dálítið af meiðslum að hrjá mannskapinn. Sumir ná eflaust að hrista það af sér en ekki endilega allir. Þá þurfa þeir sem koma af bekknum að vera tilbúnir í verkefnið, við höfum fulla trú á að svo verði. Þetta verður gjörólíkur leikur frá því sem við sáum í sumar þar sem dagsplanið var að liggja þéttir til baka, nú verða það líklega Finnarnir sem munu sjá um það. Okkar menn þurfa að sýna þolinmæði á boltanum en jafnframt að halda í fókusinn þegar Finnarnir ná sínum skyndisóknum og föstum leikatriðum.
Finnland
Landsliðsþjálfari: Hans „Hasse“ Backe.
Hasse er 64 ára gamall þjálfari frá Svíþjóð. Hann átti 8 ára feril sem leikmaður með liðunum Spånga, Brommapojkarna og Bro í neðri deildum Svíþjóðar. Hann hóf að þjálfa þegar hann spilaði með Bro og hjálpaði þeim að komast úr 5. deild í 3. deildina. Hann tók við stjórn Djurgården árið 1982 og stýrði á næstu árum liðum í Svíþjóð, Noregi og Danmörku, yfirleitt með góðum árangri. Bestum árangri náði hann með FC København árin 2001-05 en þar varð hann deildarmeistari tvisvar, bikarmeistari einu sinni og vann danska ofurbikarinn tvisvar.
Eftir það fór Hasse á flakk, var m.a. stjóri hjá Panathinaikos í nokkra leiki (var rekinn eftir dræman árangur eftir 3 deildarleiki, þrátt fyrir að hafa unnið 2 af þeim), var stjóri hjá Notts County í 7 vikur (áður en hann hætti eftir rifrildi um launamál), var aðstoðarmaður Sven-Göran Eriksson hjá Manchester City og mexíkóska landsliðinu áður en hann fór til MLS í Bandaríkjunum og stýrði New York Red Bulls í 2 ár. Ansi skrautlegur ferill. Hann tók svo við finnska landsliðinu í byrjun janúar á þessu ári.
Fyrirliði: Niklas Moisander. Leikmaður Werder Bremen.
Moisander varð fyrirliði u16 liðs Finnlands aðeins 14 ára gamall. Hann spilaði sinn fyrsta A-landsleik 22 ára gamall og hefur verið fyrirliði síðan 2011. Hann er miðvörður en tvíburabróðir hans, Henrik Moisander, er markmaður hjá Inter Turku. Henrik á tvo A-landsleik að baki, annar þeirra var gegn Íslandi í janúar á þessu ári.
Niklas varð hollenskur meistari bæði hjá Ajaz og AZ Alkmaar en hefur auk þess spilað fyrir FC Zwolle og Sampdoria.
Leikjahæstur: Jari Litmanen.
Finnska goðsögnin Jari Litmanen er leikjahæstur í sögu A-karlalandsliðs Finnlands. Hann spilaði 137 landsleiki á árunum 1989-2010. Næstir á eftir honum voru Sami Hyypiä og Jonatan Johansson, báðir með 105 leiki. Athyglisvert að þeir hættu allir þrír árið 2010, Hyppiä byrjaði að vísu árið 1992 og Johansson árið 1996.
Leikjahæstur leikmanna í núverandi leikmannahóp Finnlands er miðjumaðurinn Roman Eremenko. Eremenko fæddist að vísu í Moskvu en fluttist til Finnlands þegar hann var 3 ára. Hann er með tvöfalt ríkisfang og valdi að leika fyrir Finnland. Hann spilaði sinn fyrsta landsleik í júní 2007 og hefur spilað 73 A-landsleiki.
Markahæstur: Jari Litmanen.
Auðvitað er Kuningas sjálfur, konungurinn, markahæstur hjá liðinu. Hann var fyrirliði landsliðsins í 12 ár og skoraði 32 mörk á landsliðsferlinum. Næsti maður á eftir honum var Mikael Forssell með 29 mörk.
Markahæstur þeirra leikmanna sem eru í hópnum núna eru miðjumaðurinn Kasper Hämäläinen og framherjinn Teemu Pukki. Þeir hafa báðir skorað 8 landsliðsmörk.
Staða á styrkleikalista FIFA: 84. sæti
Gengi í síðustu 10 leikjum: J J T T T T J T T J
Markatala í síðustu 10 leikjum: 4-19.
Finnland hefur bara skorað í jafnteflisleikjunum, eitt mark í hvert skipti. Síðustu sigurleikir komu í september á síðasta ári, þá vann Finnland bæði Grikkland og Færeyjar í undankeppni EM. Báðir leikirnir enduðu 1-0.
Gengi í undankeppnum síðustu ár
Þetta er ekkert flókið, Finnland hefur aldrei komist á lokamót karla í knattspyrnu. Ekki einu sinni. Tjah, ekki nema knattspyrnuhluti Ólympíuleikanna sé talinn með. Þangað hefur Finnland komist 4 sinnum. Fyrst á Ólympíuleikunum í Stokkhólmi 1912 þar sem liðið endaði í 4. sæti af 11 þátttökuþjóðum. Síðan á Ólympíuleikunum í Berlín 1936, þar endaði Finnland í 14. sæti af 16 þjóðum eftir 3-7 tap gegn Perú í 16-liða úrslitum.
Árið 1952 voru Ólympíuleikarnir haldnir í Helsinki, Finnlandi. Heimamenn tefldu fram einu af 25 karlalandsliðum mótsins og enduðu í 9. sæti eftir 3-4 tap gegn Austurríki. Síðast tók Finnland svo þátt í Moskvu árið 1980. Þá náði liðið að vinna Kosta Ríka og gera jafntefli við Írak en tapaði fyrir Júgóslavíu og sat því eftir í 3. sæti síns riðils og komst ekki áfram.
Finnland hafði 17 sinnum tekið þátt í undankeppni HM áður en þessi undankeppni hófst. Í þeim undankeppnum spilaði liðið 117 leiki, vann 30, gerði 19 jafntefli og tapaði 68. Markatalan í undankeppnunum 17 var 124-270.
Í síðustu undankeppni var Finnland líka í I-riðli. Mótherjarnir þá voru Spánverjar, Frakkar, Georgía og Hvíta-Rússland. Finnland landaði ansi sterku 1-1 jafntefli gegn Spánverjum á útivelli en gerði ekki mikið meira í þeim riðli. Þó nóg til að lenda í 3. sæti en voru 8 stigum frá 2. sætinu. Finnland skoraði 5 mörk í keppninni. Teemu Pukki skoraði 2, þeir Roman Eremenko og Kasper Hämäläinen eitt mark hvor og eitt var sjálfsmark. Allir þrír eru í hópnum fyrir leikinn gegn Íslandi.
Finnland var í F-riðli í undankeppni fyrir EM nú í sumar. Þar voru líka Norður-Írar, Rúmenar, Ungverjar, Færeyingar og Grikkir. Finnland náði í 3 sigra, 3 jafntefli og tapaði 4 leikjum. Þeir fengu 12 stig og voru 4 stigum frá umspilssæti. Þeir skoruðu 9 mörk í 10 leikjum og fengu 10 á sig. Þeirra markahæsti maður þar var Joel Pohjanpalo með 3 mörk en hann er ekki í hópnum núna. Riku Riski var næstur með 2 mörk en hann er heldur ekki í hóp, hefur ekki spilað landsleik fyrir Finnland síðan í vináttuleiknum gegn Íslandi.
Viðureignin
A-karlalandslið Íslands og Finnlands hafa mæst 11 sinnum til þessa. Fyrsti leikur þjóðanna var þriðji landsleikurinn sem Ísland spilaði í sögunni. Hann fór fram á Melavellinum 2. júlí 1948. Það var líka fyrsti sigurleikur Íslands í fótbolta, Ríkharður Jónsson skoraði á 85. og 88. mínútu og tryggði 2-0 sigur.
Finnland vann síðan næstu 3 leiki á eftir. 29. júní 1956 mættust liðin í Finnlandi. Aftur skoraði Ríkharður Jónsson fyrir Ísland en Finnland skoraði 2 mörk og vann leikinn. 23. ágúst 1964 spiluðu liðin á Laugardalsvelli. Þá var enginn Ríkharður Jónsson í íslenska liðinu og það náði ekki að skora en Finnarnir skoruðu 2 mörk. 24. júlí 1969 var aftur spilað í Finnlandi. Ellert Schram skoraði mark fyrir Ísland en Finnarnir skoruðu 3 á móti og sigruðu.
Allt voru þetta samt vináttuleikir. Raunar hafa A-lið karla hjá Finnum og Íslendingum aðeins mæst í vináttuleikjum. Í ágúst 1974 náði íslenska liðið 2-2 jafntefli á Laugardalsvelli, Teitur Þórðarson og Marteinn Geirsson með mörkin. 1-0 dugði Finnum til sigurs á útivelli í júlí 1976 en Pétur Pétursson tryggði Íslandi jafntefli á heimavelli 1980. Síðasti leikurinn í langan tíma var svo spilaður í júlí 1982. Marteinn Geirsson og Atli Eðvaldsson skoruðu mörk Íslands í þeim leik en Finnarnir náðu að vinna með því að skora 3 mörk.
Á þessum tímapunkti höfðu liðin spilað 8 landsleiki. Ísland vann þann fyrsta en hafði ekki unnið í næstu 7, Finnarnir unnu 5 af þeim. Það liðu um það bil 17 og hálft ár þar til liðin mættust aftur. Sá leikur var spilaður á La Manga í febrúar árið 2000. Núverandi aðstoðarlandsliðsþjálfari, Helgi „Hönkmaskínan“ Kolviðsson, var þar í byrjunarliðinu. Ríkharður Daðason kom Íslandi yfir rétt fyrir leikhlé og þannig endaði leikurinn, loksins kom næsti íslenski sigur.
Helgi var ekki í liðinu í næsta leik, útileikur í apríl 2003. Eiður Smári spilaði hins vegar leikinn en náði ekki að koma í veg fyrir 3-0 sigur Finnlands. En Eiður fékk allavega gult spjald á 56. mínútu svo hann hefur þó látið finna fyrir sér. Eiður spilaði líka í síðasta leik milli þessara liða. Raunar var hann fyrirliði í þeim leik. Hann fór fram á Mohammed Bin Zayed vellinum í Abu Dhabi 13. janúar á þessu ári. Arnór Ingvi „Austurríkisbaninn“ Traustason skoraði eina markið í þeim leik.
Í 11 leikjum hefur Ísland því náð í 3 sigra, Finnar í 6 og 2 leikir hafa endað með jafntefli. Markatalan í leikjunum er 11-17.
Ef við tökum bara heimaleiki Íslands þá hafa þeir verið 4 í gegnum tíðina. Ísland vann 1, Finnland 1 og 2 enduðu með jafntefli. Markatalan þar er 5-5. En hafa ber í huga að síðasti leikur þessara liða á Íslandi var árið 1980. Frá árinu 2000 hafa liðin spilað 3 leiki og Ísland hefur unnið 2 af þeim.
Það er auðvelt að detta í þann gír að Ísland ætti nú að vera sterkara liðið í þessari viðureign og að hægt sé að bóka þægilegan, íslenskan sigur. Það þarf þó alls ekki að vera. Vissulega er Ísland með betra lið en niðurstöður síðustu leikja gefa kannski ekki alveg rétta mynd af þessu finnska liði. Vissulega mikið af tapleikjum í síðustu leikjum en hafa ber í hug að Finnland hefur ekkert verið að keppa á móti neinum smáliðum. Síðan þeir mættu okkar liði í janúar hafa mótherjarnir verið Pólverjar, Belgar, Ítalir og Þjóðverjar. Svo finnska liðið er orðið ágætlega vant því að spila varnarleik á móti mun öflugri liðum en því íslenska (mun öflugri á pappír þá). Finnarnir voru m.a.s. nálægt því að vinna Belgíu, það þurfti jöfnunarmark á lokamínútunni frá Lukaku til að skemma það.
Dómarahornið
Svein Oddvar Moen er 37 ára gamall knattspyrnudómari frá Haugesund í Noregi. Hann er fæddur 1979 en byrjaði að dæma knattspyrnuleiki árið 1996. Árið 2003 var hann farinn að dæma í efstu deild í Noregi og árið 2005 varð hann alþjóðlegur FIFA dómari.
Hann var valinn dómari ársins í Noregi þrjú ár í röð, frá 2010-2012. Hann hefur dæmt í mörgum undan- og úrslitakeppnum hjá yngri landsliðum og verið dómari í Meistaradeild Evrópu frá árinu 2010. Hann dæmdi 2 leiki á EM í sumar, annars vegar Wales – Slóvakíu og hins vegar Úkraínu – Pólland.
Moen þykir mjög vinalegur dómari, hann er ekki mikið fyrir að sýna valdsmannlega framkomu heldur vill frekar leysa málin með kammó spjalli. Hann þykir hafa góðan persónuleika og er í sérstaklega góðu formi. Staðsetningar hans og hreyfing á vellinum þykja til fyrirmyndar. Nema þá kannski helst í föstum leikatriðum. Þá hefur hann verið gagnrýndur fyrir ákveðna linkind, stundum fá menn að sleppa með brot sem ætti að refsa harðar fyrir.
Fyrir utan að vera knattspyrnudómari þá er Moen lærður sjúkraflutningamaður en það nám kláraði hann í læknaskóla norska flughersins í Stavern. Hann starfar við það milli þess sem hann dæmir fótboltaleiki. Hann dæmir fyrir norska liðið Haugar frá Haugesund.
Aðstoðarmenn Moen í leiknum verða Frank Andås og Kim Thomas Haglund. Fjórði dómari er Dag Vidar Hafsås. Þeir eru líka allir frá Noregi.
Myndböndin
Heimildarmynd um Tólfuna og fjörið í Frakklandi:
Mörkin úr leik Finnlands og Kósóvó í fyrstu umferð, leikurinn endaði 1-1:
Björn Bergmann Sigurðarson hefur tækifæri á því að verða óvænt leynivopn íslenska liðsins. Hann kann sitthvað fyrir sér í fótbolta:
Dagskrá Tólfunnar
Þetta verður mjög basic Tólfudagskrá fyrir heimaleik. Byrjar klukkan 14 með kjúklingaveislu á BK kjúklingi. Stuðið á Ölveri fer svo í gang upp úr 15. Þangað ætlar Heimir að mæta með töflu- og peppfund, síðan verða strengir stilltir, trommur barðar og raddbönd þanin áður en við höldum í skrúðgöngu niður á Laugardalsvöll.
Áfram Ísland!