Leikdagur: Ísland – Tyrkland

Síðasti leikur var rosalegur. Eftir víti í slá, skot í stöng og of margar virkilega góðar markvörslur frá finnska markverðinum þá var farið að hvarfla að manni að þetta væri einfaldlega einn af þessum dögum fyrir strákana okkar. Að þetta væri ekki okkar dagur. En strákarnir voru með önnur plön og kláruðu leikinn á ævintýralega skemmtilegan hátt fyrir okkur.

Næst á dagskránni er annar heimaleikur, í þetta skiptið gegn Tyrkjum. Við könnumst nú aðeins við Tyrkina, það er ekki langt síðan við mættum þeim síðast.

icetur

A-landslið karla,
undankeppni HM í Rússlandi 2018.
3. umferð í I-riðli.
Sunnudagurinn 9. október 2016,
klukkan 18:45.

Ísland – Tyrkland

Völlur: Laugardalsvöllurinn. Fyrsti leikurinn sem var spilaður á vellinum fór fram 8. júlí 1957, hann var samt ekki formlega vígður fyrr en tæpum 2 árum síðar (17. júní 1959). Á árunum 1965-70 var vesturstúkan stækkuð og yfirbyggð. Árið 1992 var flóðljósum bætt við. Árið 1997 var austurstúkan byggð og árin 2005-07 var vesturstúkan stækkuð og endurbætt. Tekur núna 9.800 manns í sæti en 15.000 manns þegar má nota stæðin líka.

Dómari: Mark Clattenburg

Veðurspá: Rigning, sunnan 5 metrar á sekúndu og 8 stiga hiti.


Ísland

Landsliðsþjálfari: Heimir Hallgrímsson

Fyrirliði: Aron Einar Gunnarsson.

Aron missir af þessum leik vegna leikbanns. Frá því hann var formlega skipaður fyrirliði í ágúst 2014 hefur liðið spilað 50 leiki. Aron hefur spilað 38 af þeim. Af þeim 12 sem hann hefur misst af hafa 2 verið í undankeppnum og hann missti af þeim báðum vegna leikbanns. Annars vegar heimaleikur gegn Sviss 16. október 2012 í undankeppni HM 2014 og hins vegar heimaleikur gegn Lettlandi 10. október 2015 í undankeppni EM 2016.

Hinir 10 voru allt vináttuleikir, þar af 7 í janúar eða febrúar þegar ekki voru um eiginleg landsleikjahlé að ræða. Sá sem hefur oftast verið fyrirliði þegar Aron hefur ekki getað spilað er Kolbeinn Sigþórsson, 4 sinnum hefur hann leyst Aron af sem fyrirliða. Eiður Smári kemur næstur með 3 skipti, öll í janúar á þessu ári. 5 leikmenn hafa síðan skipt með sér hinum leikjunum. Það eru Grétar Rafn Steinsson, Sölvi Geir Ottesen, Hallgrímur Jónasson, Ari Freyr Skúlason og Emil Hallfreðsson.

Gylfi mun bera fyrirliðabandið í þessum leik, í fyrsta skipti í A-landsleik. Hann er vel að því kominn og mun örugglega bera það vel.

Leikjahæstur: Rúnar Kristinsson, 104 leikir.

Fyrir utan Aron Einar þá er Birkir Már Sævarsson reynslumesti leikmaðurinn í núverandi hóp. Hann hefur spilað 64 landsleiki fyrir A-landslið karla. Sá fyrsti þeirra var 2. júní 2007, í 1-1 jafntefli við Liechtenstein í undankeppni EM 2008. Næstur á eftir Birki kemur Ragnar Sigurðsson en hann hefur spilað 63 landsleiki. Fyrsti leikur Ragnars var vináttuleikur á Laugardalsvelli 22. ágúst 2007. Þá var mótherjinn Kanada og líkt og í fyrsta leik Birkis endaði leikurinn 1-1.

Markahæstur: Eiður Smári Guðjohnsen, 26 mörk.

Í fjarveru Eiðs Smára og Kolbeins úr leikmannahópnum er Gylfi Þór markahæstur, með 14 mörk í 46 leikjum. Alfreð Finnbogason kemur þar á eftir, með 10 mörk í 39 leikjum.

Staða á styrkleikalista FIFA: 27. sæti

Gengi í síðustu 10 leikjum: S T S J J S S T J S
Markatalan í síðustu 10 leikjum: 21-12

Íslenska liðið hefur nú skorað í 16 leikjum í röð, samtals 28 mörk (1,75 mörk pr. leik). Það hefur skorað í 31 af síðustu 33 leikjum frá því í mars 2014. Síðasti leikur sem liðið náði ekki að skora í var einmitt gegn Tyrklandi en það var á útivelli.


Tyrkland

Landsliðsþjálfari: Fatih Terim.

63 ára gamall knattspyrnuþjálfari frá Adana í Tyrklandi. Spilaði sem varnarmaður, m.a. fyrir Galatasaray og tyrkneska landsliðið. Annað af 2 landsliðsmörkum sem hann skoraði var gegn Íslandi. Fyrir leikinn í Tyrklandi á síðasta ári skrifaði ég líka upphitun, þar er hægt að lesa meira um Terim. Sjá hér.

Fyrirliði: Mehmet Topal.

Varnarsinnaður miðjumaður sem spilar fyrir Fenerbahçe í Istanbul. Hann hóf ferilinn með Dardanelspor í neðri deildum Tyrklands. Þaðan fór hann til Galatasaray og Valencia áður en hann endaði hjá Fener. Hann spilaði sinn fyrsta landsleik 2008, varð fyrst fyrirliði í ár og skoraði sitt eina landsliðsmark til þessa í 1-0 sigri á Svartfjallalandi í maí á þessu ári.

Leikjahæstur: Rü?tü Reçber. Markvörðurinn spilaði 120 landsleiki á árunum 1994-2012. Arda Turan hefur spilað 94 landsleiki síðan 2006 en er ekki í leikmannahóp Tyrkja þessa dagana vegna ósættis. Af þeim sem eru í hópnum gegn Íslendingum er fyrirliðinn Mehmet Topal leikjahæstur, með 65 landsleiki.

Markahæstur: Hakan ?ükür. Skoraði 51 mark í 112 landsleikjum. Af þeim sem eru í hópnum núna eru tveir menn markahæstir, báðir með 8 mörk. Sóknarmaðurinn Mevlüt Erdinç, leikmaður Metz í Frakklandi, hefur náð því í 34 landsleikjum. Síðasta mark hans kom í vináttuleik gegn Lúxemborg í mars á síðasta ári. Hinn sem hefur skorað 8 mörk er Hakan Çalhano?lu, hann hefur náð því í 24 landsleikjum. Fyrsta markið hans kom einmitt í þessum sama leik gegn Lúxemborg og Erdinç skoraði í (endaði 2-1 fyrir Tyrklandi). Hann hefur skorað í báðum leikjum Tyrklands í undankeppni HM, fyrst gegn Króatíu í 1-1 jafntefli 5. september og svo gegn Úkraínu í 2-2 jafntefli síðasta fimmtudag.

Staða á styrkleikalista FIFA:  21. sæti

Gengi í síðustu 10 leikjum: S T S S T T S J J J
Markatalan í síðustu 10 leikjum: 10-10

Hættulegustu leikmennirnir í þessu liði Tyrklands eru Hakan Çalhano?lu og Emre Mor. Þeir spila á sitt hvorum kantinum, Hakan vinstra megin og Emre hægra megin. Þeir spila einnig báðir í Þýskalandi, Hakan fyrir Bayer Leverkusen og Emre fyrir Dortmund.

Fljótir, flinkir og fótafimir báðir, geta bæði ógnað marki sjálfur og skapað hættu fyrir samherja sína. Með Çalhano?lu á vellinum er algjört lykilatriði að forðast það að gefa óþarfa aukaspyrnur á hættulegum stað. Hann hefur líka sýnt það að það liggur við að allur vallarhelmingur andstæðinganna verði hættulegur staður fyrir aukaspyrnur þegar hann er að taka þær. Hann hefur byrjað þessa undankeppni mjög vel, skorað í báðum leikjum Tyrklands til þessa og er kominn með 2 af 3 mörkum Tyrklands.

Emre Mor er aðeins 19 ára gamall. Fæddur í Danmörku en með tvöfalt ríkisfang og valdi að spila fyrir Tyrkland. Mor spilaði sinn fyrsta A-landsleik í maí á þessu ári og hefur spilað 7 leiki. Hann á enn eftir að skora sitt fyrsta landsliðsmark en hefur lagt upp fyrir félaga sína. Örvfættur hægrikantari sem er gríðarlega snöggur, með gott jafnvægi og getur límt boltann á ristina á sér meðan hann hleypur. Náttúrutalent. Hraðabreytingarnar hans eru stórvarasamar og ljóst að Ari Freyr verður að vera á tánum þegar hann  tekst á við Mor og félagar Ara verða að vera á tánum þegar kemur að hjálparvörninni.


Viðureignin

Þetta verður 10. viðureignin milli þessara liða. Ísland hefur haft betur í 5 skipti, Tyrkland unnið 2 leiki og 2 endað með jafntefli. Markatalan í leikjunum 9 er 16-10 fyrir Ísland.

Ef bara er litið á leikina sem hafa farið fram á Laugardalsvellinum þá eru þeir 5 í gegnum tíðina. Sá fyrsti var 9. september 1981 og sá síðasti var 9. september 2014. Ísland vann 4 þeirra og einn endaði með markalausu jafntefli. Markatalan á Laugardalsvellinum er 12-2 fyrir Ísland.

Þetta er í þriðja skipti sem Ísland og Tyrkland eru saman í riðli í undankeppni HM. Fyrst var það fyrir undankeppni HM á Spáni árið 1982. Ísland vann þá báða leiki liðanna, fyrst 3-1 í Tyrklandi og svo 2-0 á Íslandi. Það voru einu sigrar Íslands í þeirri undankeppni en Tyrkland tapaði öllum sínum leikjum. Sovétríkin vann riðilinn, Tékkóslóvakía endaði í öðru sæti og Wales í þriðja. Ísland var í fjórða sæti, náði 2 jafnteflum fyrir utan sigrana gegn Tyrklandi, og Tyrkland endaði í neðsta sæti.

Ísland og Tyrkland lentu aftur saman í riðli í undankeppninni fyrir HM á Ítalíu 1990. Aftur vann Sovétríkin riðilinn. Fyrri leikur Íslands og Tyrklands fór fram í Tyrklandi og endaði með 1-1 jafntefli. Ísland vann svo heimaleikinn 2-1. Það var eini sigurleikur Íslands í þeirri undankeppni og Ísland endaði í neðsta sætinu. Tyrkland lenti hins vegar í 3. sæti, var fyrir ofan Austur-Þýskaland á markatölu en 2 stigum frá Austurríki.

Ítarlegri úttekt á hverjum leik fyrir sig má sjá í upphituninni sem ég skrifaði fyrir síðasta leik liðanna.


Dómarahornið

Mark Clattenburg er einn af bestu dómurum í heiminum í dag. Hann fæddist 13. mars 1975 í Consett. Consett er í Durham sýslu í norðausturhluta Englands, Leikarinn Rowan Atkinson er einnig frá Consett.

Clattenburg var orðinn aðstoðardómari í neðri deildum Englands tímabilið 1993-94. Var sjálfur farinn að dæma þar tímabilið eftir og vann sig þaðan upp deildarpýramídann. Árið 2004 var hann byrjaður að dæma í ensku úrvalsdeildinni. Árið 2006 var hann orðinn alþjóðlegur FIFA dómari.

Hann hefur dæmt ótal leiki með lands- og félagsliðum á alþjóðlegum vettvangi á öllum stigum. Hann er að ná ákveðnum hápunkti á þessu ári því bara á þessu ári dæmdi hann úrslitaleik ensku bikarkeppninnar, úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu og úrslitaleikinn í Evrópukeppninni í Frakklandi. Merkilegt nokk fóru allir þessir leikir í framlengingu.

Clattenburg hefur aldrei áður dæmt landsleik með Íslandi eða Tyrklandi. Hann hefur þó dæmt Evrópuleiki félagsliða á Tyrklandi, tvisvar á heimavelli Galatasaray og einu sinni útileik með Trabzonspor í Rússlandi.

Clattenburg er atvinnudómari en vann fyrir það sem rafvirki. Hann hefur einnig verið að læra lögfræði meðfram dómarastörfum. Hann hefur oftar en ekki verið umdeildur, jafnvel þótt sjálfumglaður og athyglissjúkur. En flestir eru þó sammála um að hann sé afbragðs dómari og með mikla náttúrulega hæfileika í því hlutverki.

Með Clattenburg verða Jake Collin og Simon Bennett á flöggunum og Anthony Taylor sem fjórði dómari. Allir frá Englandi.


Myndbönd

Ísland – Finnland, ekkert að því að rifja þetta upp:

Heldur ekkert að því að rifja upp síðustu heimsókn Tyrkja á Laugardalsvöllinn:

Hakan Çalhano?lu er stórhættulegur:

Emre Mor er það líka:

En það er Gylfi okkar svo sannarlega líka:

Áfram Ísland


Tólfudagskráin

Dagskráin hjá Tólfunni hefst snemma. Klukkan 13 er það BK kjúklingur, eins og vanalega. Allir sem mæta þangað í Tólfutreyjum geta fengið sér kjúklingaveislu. Eftir það verður haldið á Ölver í góða upphitun. Töflufundurinn verður á sínum stað, í þetta skiptið ætlar Helgi Kolviðsson að mæta og fara yfir leikinn.

Svo höldum við í skrúðgöngu niður á Laugardalsvöll og syngjum okkur hás yfir leiknum. Áfram Ísland!