Leikdagur: Ísland – Kósóvó

Nú er komið að síðasta leiknum í þessari undankeppni og Ísland er fyrir hann í efsta sæti riðilsins. Held það sé allt í lagi að endurtaka þetta. Í riðli þar sem fjögur lið tóku þátt á síðasta stórmóti þá er íslenska liðið í efsta sæti og með örlögin í eigin höndum. Liðið er þegar búið að tryggja sér a.m.k. sæti í umspilsviðureign en hvers vegna ekki bara að tryggja sig beint á HM í Rússlandi?

A-landslið karla,
undankeppni HM í Rússlandi 2018.
10. og síðasta umferð í I-riðli.
Mánudagurinn 9. október 2017,
klukkan 18:45.

Ísland – Kósóvó

Völlur: Laugardalsvöllurinn. Sami völlur og þetta sama landslið okkar spilaði á sunnudaginn 6. september 2015 þegar það tryggði sér farseðil á EM í Frakklandi. Nú er tilefnið enn stærra og farseðill á HM undir. Í leiknum gegn Kasakstan árið 2015 þá mættu 9.767 áhorfendur. Við reiknum með ekki færri áhorfendum í þetta skiptið.

Dómari: Harald Lechner, austurrískur.

Veðurspá: Spáin segir að hitinn verði að lækka úr 6 gráðum í 3 gráður á meðan leik stendur. Það á hins vegar að vera úrkomulaust og lítill vindur, bara rétt 2-3 m/s. Fyrir landsleik að kvöldi til í Reykjavík í október þá er það bara ljómandi fínt. Og eins og vanalega verður bongóblíða og sólstrandarstemning í stúkunni!


Dagskráin á leikdegi

Það er klassísk dagskrá á leikdegi hjá Tólfunni, eins og hægt er að skoða betur á viðburðinum á Facebook. Eins og vanalega byrjum við hjá meistara Halla á BK þar sem fólk í réttum treyjum fær glimrandi fínan mat. Byrjum þar klukkan 14, þetta er hefð sem er algjörlega nauðsynleg og gefur góða orku fyrir leikdaginn.

Eftir veisluna á BK höldum við á Ölver þar sem við hitum okkur vel upp, förum yfir söngvana og fáum svo taktíska peppræðu frá Heimi Hallgríms ca. 2 tímum fyrir leik. Eftir það höldum við í skrúðgöngu niður í Fanzone-ið við Laugardalsvöllinn. Stoppum aðeins þar og höldum áfram fjörinu en verðum síðan mætt tímanlega í stúkurnar til að vera tilbúin fyrir Ég er kominn heim, þjóðsönginn og leikinn sjálfan.

Við hvetjum sérstaklega allt miðalaust stuðningsfólk til að vera líka með í fjörinu, taka upphitunina með okkur og mæta svo í fjörið á stuðningsmannasvæðinu þar sem hægt verður að horfa á leikinn á risaskjá og upplifa um leið stemninguna sem kemur af vellinum.

 


Ísland

Staða á styrkleikalista FIFA: 22. sæti

Gengi í síðustu 10 leikjum: S S T T S S S T S S
Markatala í síðustu 10 leikjum: 13-4

Mynd: Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net

Sjá þessa snillinga! Frammistaða liðsins í síðustu tveimur leikjum hefur verið gjörsamlega frábær. Liðið hefur einfaldlega verið að spila eins og lið sem á skilið að fara á HM.

Staðan er skýr fyrir seinasta leikinn, annað hvort fer liðið beint á HM sem efsta liðið í riðlinum eða það fer í umspil sem liðið í 2. sæti. Ísland getur ekki endað neðar en það í riðlinum og er þegar komið með nógu mörg stig til að verða örugglega meðal 8 efstu þjóða í 2. sæti ef það verður niðurstaðan.

Emil Hallfreðsson snýr aftur eftir leikbann og það verður enginn leikmaður í banni í þessum leik. Reyndar eru ansi margir á gulu spjaldi, ef einhver þeirra fær spjald í þessum leik þá verður viðkomandi í banni í fyrri umspilsleiknum ef Ísland fer þangað en annars skiptir það engu máli. Bönnin fylgja leikmönnum ekki í lokakeppnina eða í næstu undankeppni.

Emil gegn Úkraínu á Laugardalsvellinum (Mynd: Eyþór, Vísir.is)
Vígið í Laugardalnum

Íslenska karlalandsliðið hefur unnið alla sína heimaleiki í þessari undankeppni. Finnarnir náðu reyndar að skora tvö mörk en íslenska svaraði þá með þremur. Í síðustu þremur heimaleikjum hefur Ísland haldið hreinu og sigrað Tyrki, Króata og Úkraínu.

Þetta góða gengi nær lengra aftur. Heimaleikirnir eru núna orðnir 15 í röð án ósigurs. Í 11 af þessum leikjum hefur Ísland líka haldið markinu hreinu. Markatalan í þessum 15 leikjum er núna 27-6. Laugardalsvöllur er að gefa. Það er líka alltaf gaman að fara á völlinn til að sjá liðið spila, syngja og hvetja liðið áfram.

Staðan er góð

Ísland er með flest stig allra þjóða í I-riðli. Ísland er líka búið að skora flest mörk allra þjóða í þeim sama riðli. Þjóðir í öðrum riðlum hafa reyndar skorað fleiri mörk en í mörgum riðlum eru sprellilið eins og San Marínó og Gíbraltar sem efstu liðin eru að vinna með töluverðum fjölda marka. 14 mörk í 9 leikjum er ljómandi fínt, sérstaklega þegar þessi mörk skila svona mörgum stigum. Ísland hefur fengið á sig 7 mörk, aðeins 2 þeirra hafa komið á heimavelli. Liðið hefur haldið hreinu í 4 af 9 leikjum til þessa.

Hér eru svo nokkrir punktar um mögulegt framhald:

  • Fyrri leikir í umspilsviðureignunum verða spilaðir dagana 9.-11. nóvember
  • Seinni leikir í umspilsviðureignum verða spilaðir dagana 12.-14. nóvember
  • Föstudaginn 1. desember verður dregið í riðla fyrir lokakeppni HM
  • Hægt er að sækja um miða á heimasíðu FIFA

Kósóvó

Staða á styrkleikalista FIFA: 184. sæti

Gengi í síðustu 10 leikjum: S J T T T T T T T T
Markatala í síðustu 10 leikjum: 5-22

Mynd: Facebooksíða kósóvíska knattspyrnusambandsins

Lið Kósóvó stendur nú í vegi fyrir því að Ísland nái markmiði sínu um að komast á HM í Rússlandi. Þetta landslið er nú að klára sína fyrstu undankeppni í sögunni og hefur ekki að neinu að keppa. Eina hvatningin þeirra er að ná að enda þessa undankeppni með fleiri en 1 stig og einnig að ná að skemma partýið fyrir okkur.

Landslið Kósóvó er alls ekki svo galið lið. Það er ungt og á enn eftir að finna sig almennilega en það getur sannarlega náð betri árangri í framtíðinni en það hefur í þessum I-riðli.

Undankeppnin byrjaði vel hjá þeim, 1-1 jafntefli gegn Finnlandi og fyrsta opinbera stig liðsins komið strax í fyrsta leiknum. Framhaldið hefur verið strembnara og allir hinir 8 leikirnir endað með kósóvósku tapi. Meðal þeirra voru 0-6 skellur gegn Króatíu, 1-4 tap gegn Tyrklandi og 0-3 tap gegn Úkraínu. En Kósóvó hefur líka látið lið vinna vel fyrir sigrinum og liðið er sýnd veiði en ekki gefin.

Kósóvó hefur aðeins skorað 3 mörk í keppninni og markaskorararnir eru jafnmargir. Miðjumaðurinn Valon Berisha skoraði fyrsta markið gegn Finnlandi, úr vítaspyrnu.

Næsta mark Kósóvó kom í 5. umferð, í heimaleik þeirra gegn Íslandi. Framherjinn Atdhe Nuhiu, leikmaður Sheffield Wednesday í ensku Championship deildinni, skoraði þá og minnkaði muninn í 1-2 með öflugum skalla. Það þarf að hafa gætur á honum í leiknum.

Kósóvó skoraði síðast í 6. umferðinni, þá í 1-4 tapi á heimavelli gegn Tyrklandi. Miðvörðurinn Amir Rrahmani jafnaði þá leikinn á 22. mínútu.

Embed from Getty Images

Það segir sitt um það hversu ungt þetta lið er að leikjahæsti leikmaður liðsins í 22 manna hópnum fyrir þennan leik er markmaðurinn Samir Ujkani. Ujkani, sem er líka fyrirliði liðsins, hefur þó aðeins spilað 14 landsleiki fyrir Kósóvó. Fyrir átti hann þó 20 landsleiki fyrir Albaníu.

Af þessum 22 leikmönnum þá hafa aðeins 5 þeirra skorað landsliðsmark fyrir Kósóvó. Markahæstur þeirra er Elba Rashani, framherji Odds BK í Noregi. Hann hefur skorað 2 landsliðsmörk. Þrátt fyrir að hafa skorað þessi 2 mörk í aðeins 3 leikjum þá hefur hann ekki verið aðalsóknarmaður liðsins og raunar bara fengið 37 mínútur í keppninni til þessa (í síðasta leik, gegn Úkraínu). En hann er svosem bara 24 ára gamall svo hans tími mun örugglega koma.

Embed from Getty Images

Einn leikmaður Kósóvó verður í leikbanni í þessum leik. Það er miðjumaðurinn Hekuran Kryeziu, leikmaður FC Luzern í Sviss. Hann tók þátt í 8 leikjum Kósóvó í þessari undankeppni og er í 4. sæti yfir flestar spilamínútur liðsins í undankeppninni.


Dómarahornið

Szymon vinur okkar Marciniak stóð sig virkilega vel í Tyrklandi á föstudaginn og dæmdi þann leik fantavel. Enda er hann einn þeirra dómara sem kemur til greina sem dómari á HM í Rússlandi. Miðað við reynslu og hæfileika verður að teljast líklegt að hann verði mættur þangað með flautuna sína.

Dómarinn í þessum leik er hins vegar ekki í hópi þeirra dómara sem eru í þjálfun og undirbúningsvinnu fyrir HM í Rússlandi. Hann er einu ári yngri en Marciniak, fæddur 30. júlí 1982.

Harald Lechner kemur frá Austurríki, hefur dæmt í austurrísku úrvalsdeildinni frá 2008 og verið alþjóðlegur FIFA dómari síðan 2010.

Þetta verður þriðji leikurinn sem Lechner dæmir í þessari undankeppni. Í báðum hinum leikjunum voru norðurlandaþjóðir á heimavelli og báðir leikirnir enduðu með heimasigri, annars vegar 1-0 sigur Dana gegn Armeníu og hins vegar 4-0 sigur Svíþjóðar á Hvíta-Rússlandi. Lechner dæmdi tvo leiki í undankeppni EM 2016 en fór ekki á lokamótið.

Embed from Getty Images

Hann hefur dæmt tvo leiki hjá íslenskum félagsliðum. Annars vegar leik KR gegn Helsinki í Finnlandi og hins vegar leik Stjörnunnar og Inter Milan á Ítalíu. Hvorugt íslensku liðanna náði að skora mark í þeim leikjum og samanlagt tap þeirra var 13-0.

Lechner til aðstoðar verða þeir Andreas Heidenreich og Maximilian Kolbitsch á flöggunum og fjórði dómarinn Markus Hameter. Allir eru þeir frá Austurríki.


Okkar staður, okkar stund!

Byrjum á að rifja upp veisluna í Frakklandi:

Rifjum svo upp fyrri heimaleiki Íslands í þessari undankeppni.

Fyrst er það leikurinn gegn Finnum:

Svo kom Tyrkland í heimsókn:

Síðan voru það Króatar:

Loks fékk Úkraína að finna fyrir því:

Síðan er ekki úr vegi að spila lagið okkar allra. Ísland á heima á fótboltavellinum, á stórmótum. Þess vegna syngjum við: Ég er kominn heim.

Að lokum er hér smá upphitun fyrir Rússland: