Leikdagur: Þýskaland – Ísland

Ísland byrjaði undankeppnina fyrir HM í Frakklandi 2019 með látum og náði í mjög góðan 8-0 sigur gegn frænkum okkar frá Færeyjum. Framundan eru hins vegar þeir tveir útileikir sem fyrirfram má telja að verði þeir erfiðustu í riðlinum. Á þriðjudaginn spilar Ísland við Tékkland en fyrst er það þýska stálið.

A-landslið kvenna,
undankeppni fyrir HM í Frakklandi 2019.
2. leikur í 5. riðli,
föstudagurinn 20. október 2017,
klukkan 14:00 að íslenskum tíma, 16:00 að staðartíma.

Þýskaland – Ísland

Völlur: BRITA-Arena í baðhúsaborginni Wiesbaden í miðvesturhluta Þýskalands. Borgin er ein elsta baðhúsaborg í Evrópu, byggð af Rómverjum snemma á 1. öld e.Kr. Knattspyrnufélagið SV Wehen Wiesbaden spilar sína heimaleiki á BRITA-vellinum. Völlurinn var tekinn í notkun árið 2007 og rúmar nú um 13 þúsund áhorfendur.

BRITA-Arena. Mynd: brita-arena.de

Dómari: Stéphanie Frappart, frönsk.

Veðurspá: Samkvæmt heimildarmönnum Tólfunnar í veðurbransanum þá verður fínasta veður á leikdegi. Þar sem leikurinn fer fram svona snemma þá verður sólin ekki enn sest. Það á að rigna eitthvað fyrir leik en í kringum kick-off verður orðið léttskýjað til heiðskírt. Hitinn verður 14-16 gráður á Selsíus og vindurinn þetta 4-5 metrar á sekúndu í suðvestanátt. 30-40% séns á einhverri úrkomu en þá líklega frekar fyrri part leiks.


Partý á vinnutíma

Það er alltaf jákvætt þegar fótboltaleikir eru spilaðir á föstudögum, sérstaklega þegar um leiki íslensku A-landsliðanna er að ræða. Hér hefði þó verið hægt að fá betri tímasetningu á þessum föstudagsleik því hann verður spilaður þegar flest okkar, sem vinnum á nokkurn veginn klassískum vinnutímum, erum í vinnunni.

En það breytir því ekki að leikurinn verður sýndur í beinni útsendingu á RÚV. Útsending þar hefst hálftíma fyrir leik. Tilvalið fyrir allt stuðningsfólk sem getur að mæta bláklætt á vaktina, fá sér brakandi ferskan kaffibolla og smella leiknum í gang með einhverju móti í vinnunni. Svo er ekkert verra fyrir þau ykkar sem getið reddað ykkur fríi, eða eruð þegar í fríi, að fara bara all-in í föstudagspartýgírnum.

Embed from Getty Images


Þýskaland

Staða á styrkleikalista FIFA: 2. sætið

Styrkleikalisti FIFA fyrir kvennalandslið var fyrst tekinn í notkun árið 2003. Á fyrsta listanum var Þýskaland í 3. sætinu og þangað datt liðið aftur í smá tíma árið 2009, annars hefur liðið einungis verið í öðru af efstu tveimur sætunum. Þýskaland er eina þjóðin ásamt Bandaríkjunum til að ná efsta sætinu á þessum styrkleikalista, það segir ansi mikið um það hversu gott liðið er og hefur verið undanfarin ár.

Gengi í síðustu 10 leikjum: J S S S J S S T S S
Markatala í síðustu 10 leikjum: 18-5

Embed from Getty Images

Landsliðsþjálfari Þýskalands er Steffi Jones. Jones fæddist í Frankfurt í desember árið 1972. Hún hóf snemma að spila knattspyrnu og átti góðan 14 ára feril í hjarta varnarinnar með þýska landsliðinu. Hún spilaði 111 landsleiki, skoraði 9 mörk, vann einn heimsmeistaratitil, þrjá Evrópumeistaratitla og tvö Ólympíubrons með Þýskalandi. Eftir að hafa verið aðstoðarlandsliðsþjálfari undir stjórn Silvia Neid tók hún svo við stjórn þýska landsliðsins í ágúst 2016.

Steffi Jones hefur stýrt liðinu í 16 leikjum til þessa. 11 þeirra hafa endað með þýskum sigri, 3 með jafntefli og 2 tapast. Markatalan í þessum 16 leikjum er 32-11, Þýskalandi í vil.

Embed from Getty Images

Fyrirliði þýska liðsins er miðjukonan Dzsenifer Marozsán sem leikur með Evrópumeisturunum í Olympique Lyon. Hún er framúrskarandi leikmaður, var til dæmis á topp 10 listanum yfir bestu fótboltakonur heims hjá FIFA fyrir árið 2017 og hefur þrjú síðustu skipti lent í 3. sæti yfir bestu fótboltakonur Evrópu. Hún hefur skorað 32 landsliðsmörk í 80 leikjum, þ. á m. 2 gegn Íslandi í 5-0 sigri í Algarvebikarnum árið 2014.

En hún verður ekki með í þetta skiptið. Í deildarleik fyrr í þessum mánuði lenti hún í samstuði og brákaði kinnbein. Sannarlega skarð fyrir skildi hjá þeim þýsku en það kemur öflug kona í konu stað hjá þessu liði. Auk Marozsán eru þær Pauline Bremer (vörn) og Sara Däbritz (miðja) líka frá vegna meiðsla. Samtals eiga þessir leikmenn að baki 143 landsleiki.

Embed from Getty Images

En Þýskaland verður þó síður en svo með reynslulítinn hóp í þessum verkefnum gegn Íslandi og Færeyjum (24. október). Í vörninni verður áfram Babett Peter með 113 landsleiki að baki og á miðjunni verður hægt að velja Simone Laudehr úr Bayern Munchen sem á 101 landsleik á ferilskránni. En í hópnum eru líka reynsluminni og efnilegir leikmenn, þannig hafa 11 af 23 leikmönnum spilað undir 20 landsleiki.

Markahæstu leikmenn hópsins eru Alexandra Popp (35 mörk), Simone Laudehr (26 mörk) og Lena Goeßling (10 mörk). Athygli vekur að engin þeirra er framherji. Popp og Laudehr spila á miðjunni og Goeßling í vörninni. Popp og Goeßling eru auk þess tvær af 6 úr hópnum sem spila með Söru Björk Gunnarsdóttur hjá Wolfsburg.

Þýski framherjinn Anja Mittag lagði skóna á hilluna eftir EM í Hollandi. Með henni fóru 158 landsleikir og 50 landsliðsmörk úr þýska hópnum. Í hópnum núna eru þrír framherjar sem hafa samtals skorað 2 mörk í 36 leikjum. Lea Schüller er sú eina af þeim sem hefur ekki skorað mark en það er líka vel skiljanlegt þar sem þessi 19 ára leikmaður á enn eftir að spila sinn fyrsta A-landsleik.

Stórmótaþjóðin Þýskaland

Þýskaland hefur tvisvar sinnum unnið Heimsmeistaramótið í fótbolta. Árið 2003 í Bandaríkjunum og svo vörðu þær titilinn árið 2007 í Kína. Fyrir utan það endaði liðið í öðru sæti í Svíþjóð 1995 og í fjórða sæti bæði 1991 og á síðasta móti, í Kanada 2015. Eftir að hafa unnið Svíþjóð í 16-liða úrslitum og Frakkland í 8-liða úrslitum þá tapaði liðið fyrir verðandi heimsmeisturum frá Bandaríkjunum í undanúrslitum og síðan Englandi í bronsleiknum.

Embed from Getty Images

Liðið féll úr leik í 8-liða úrslitum á síðasta Evrópumóti, eftir að hafa unnið Evrópumeistaratitilinn 6 mót í röð og 8 mót af síðustu 9. Þýskaland komst yfir gegn Danmörku strax á 3. mínútu í 8-liða úrslitunum en Danirnir komu til baka í síðari hálfleik og unnu 2-1.

Það er þó ekki langt síðan Þýskaland vann síðast stórmót, það gerðu þær á Ólympíuleikunum í Brasilíu árið 2016. Þá enduðu þær þýsku í 2. sæti riðilsins, á eftir Kanada, en slógu svo Kína og Kanada út í útsláttarkeppninni áður en þær sigruðu Svíþjóð í úrslitunum. Eftir að hafa þrisvar náð í bronsverðlaun á Ólympíuleikunum þá var þetta stór áfangi hjá þýska liðinu.

Embed from Getty Images

Gengið í þessari undankeppni

Þrátt fyrir að íslenska liðið hafi aðeins spilað einn leik í þessari undankeppni þá hefur Þýskaland spilað tvo leiki. Þar sem það eru 5 lið í riðlinum þá fylgjast liðin ekki alltaf að í umferðum.

Fyrsti leikur Þýskalands var 16. september sl. gegn Slóveníu. Þetta var líka heimaleikur Þýskalands en var þó ekki spilaður á BRITA-Arena í Wiesbaden heldur á Audi Sportpark í Ingolstadt (næsti heimaleikur Þýskalands verður svo spilaður á Mechatronik Arena í Aspach). Það var ljómandi fín mæting í Ingolstadt, 3.112 áhorfendur sáu þýska liðið valta yfir það slóvenska, lokastaðan var 6-0. Hin fjölhæfa Tabea Kemme skoraði tvö mörk í leiknum. Kemme kom upp í gegnum yngri flokka sem sóknarþenkjandi leikmaður en færðist aftar á völlinn með tímanum og hefur spilað megnið af sínum landsliðsferli á miðjunni, kantinum eða í vörninni. Í þessum leik var hún þó komin í framlínuna og það skilaði sér í tveimur mörkum. Með Kemme í framlínunni var Svenja Huth, hún skoraði fyrsta mark leiksins.

Auk þeirra tveggja skoruðu Dzsenifer Marozsán, Kathrin Hendrich og Kristin Demann eitt mark hver í leiknum. Þýskaland spilaði 4-4-2 í leiknum skv. UEFA og Eurosport. Kristin Demann er að upplagi miðvörður en spilaði á miðri miðjunni í þessum leik.

Embed from Getty Images

Það voru töluvert færri áhorfendur á næsta leik þýska liðsins. Þá fór liðið í heimsókn til Tékklands og spilaði fyrir framan 588 áhorfendur á M?stský stadion í Ústí nad Labem í Tékklandi. Tékkarnir höfðu einmitt byrjað á að valta yfir Færeyjar með 8 mörkun gegn engu í þeirra fyrsta leik. Þýskaland átti samtals 16 marktilraunir í leiknum en þurfti samt hjálp því það var sjálfsmark frá Eva Barto?ová sem tryggði Þýskalandi sigur í þessum leik.

Embed from Getty Images

Aftur spilaði Þýskaland 4-4-2 í þessum leik, með þær Kemme og Huth í framlínunni og Demann við hlið Marozsán á miðjunni. Nú þegar Marozsán vantar til að stýra leiknum verður fróðlegt að vita hvernig þær þýsku bregðast við.


Ísland

Staða á styrkleikalista FIFA: 21. sæti

Þegar fyrsti styrkleikalisti FIFA fyrir kvennalandslið var gefinn út, í júlí 2003, var Ísland í 17. sæti. Holland var þá í sætinu fyrir ofan og Úkraína í sætinu fyrir neðan. 17. sætið er einnig meðalsæti Íslands á listanum síðan þá, liðið hefur aldrei farið neðar en í 21. sæti og hæst komist í 15. sætið, árin 2011, 2012 og 2013.

Gengi í síðustu 10 leikjum: J S S T J T T T T S
Markatala í síðustu 10: 13-12

Ísland – Færeyjar (Mynd: Helgi Viðar Hilmarsson, 433.is)

Við þekkjum þennan frábæra þjálfarahóp orðið nokkuð vel, bæði í störfum hans með kvennalandsliðinu og karlalandsliðinu. Það er gaman að sjá samstöðuna sem ríkir hjá þessum toppþjálfurum, greinendum og öðru starfsfólki KSÍ, það er lagður fullur metnaður í öll verkefni A-landsliðanna og allt starfsfólk sem getur lagt hönd á plóg gerir það með glöðu geði og bunka af ástríðu. Við fílum svoleiðis í botn.

Það sama verður uppi á teningnum í þessu verkefni. Og því næsta, á þriðjudaginn. Það er ekki nokkur einasta spurning um það. Greiningarvinnan verður til fyrirmyndar og það mun gefa þjálfurunum besta færið á að búa til gott leikplan fyrir liðið. Þetta landslið sem við eigum er gjörsamlega frábært. Það er eilítið vængbrákað eftir lokakeppni EM í Hollandi sem var undir væntingum en þarna fær liðið svo sannarlega tækifæri til að sýna hvað í það er spunnið. Útileikur gegn einu besta landsliði heims síðustu áratugi. Sprengjum bara pepp-ó-meterinn hvað þetta er geggjað tækifæri!

Embed from Getty Images

Gengi Íslands í undankeppnum HM

Í síðustu undankeppni HM endaði Ísland í 2. sæti síns riðils. En því miður var liðið ekki meða þeirra 4 þjóða (af 7) sem náði sæti í umspili um að komast á HM. Raunar var Ísland neðst af þjóðunum í 2. sæti, tap á heimavelli gegn Dönum og 1-1 jafntefli á útivelli reyndust ansi dýr úrslit.

Það var erfiðara í undankeppninni fyrir HM 2011, þá endaði Ísland líka í 2. sæti síns riðils en að þessu sinni var aðeins keppt um 4 sæti í Evrópu (aðeins 16 þjóðir kepptu í lokakeppni HM) svo einungis liðin í efstu sætum riðlanna fengu að keppa um að komast á HM.

2003 komst Ísland í umspilið þar sem 4 þjóðir sem enduðu í 2. sæti sinna riðla kepptu um eitt laust sæti. En þá tapaði Ísland í báðum leikjunum gegn Englandi.

Gengi Íslands í þessari undankeppni

Ísland byrjaði frábærlega í þessari undankeppni. Heimaleikur gegn Færeyjum og 8-0 sigur, ekki hægt að biðja um neitt betra. Ísland átti 40 marktilraunir í leiknum, 16 á rammann og 8 þeirra inn í markið. Færeyjar áttu eina marktilraun, hún fór í varnarmann íslenska liðsins. Elín Metta Jensen, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og Fanndís Friðriksdóttir skoruðu allar 2 mörk hver en Sara Björk Gunnarsdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoruðu hvort sitt mark.

Gaman að vinna leiki (Mynd: Helgi Viðar Hilmarsson, 433.is)

Leikurinn var flottur og gaman að byrja á heimaleik í þessari undankeppni. Vissulega er færeyska liðið ekki öflugasti andstæðingurinn en núna koma svo sannarlega almennileg próf fyrir íslenska liðið. Ísland spilaði 4-3-3 gegn Færeyjum, það verður áhugavert að sjá hvort það verði líka uppstillingin gegn Þýskalandi.


Dómarahornið

Dómari í þessum leik verður hin 33 ára gamla Stéphanie Frappart frá Frakklandi. Hún byrjaði ung að æfa fótbolta en hafði snemma meiri áhuga á knattspyrnulögum og dómgæslu. Hún hefur verið alþjóðegur FIFA-dómari frá árinu 2011 og árið 2014 varð hún fyrsti kvenkyns dómarinn til að dæma í 2. deild karla í Frakklandi.

Frappart dæmdi á lokakeppnum HM 2015, á Ólympíuleikunum 2016 og einnig á lokakeppni EM 2017 í Frakklandi. Í Kanada 2015 dæmdi hún einn leik í riðlakeppninni og einn leik í 16-liða úrslitum. Á Ólympíuleikunum í Brasilíu 2016 var Frappart einn af fjórum dómurum frá Evrópu sem tók þátt og hún dæmdi tvo leiki í riðlakeppninni.

Embed from Getty Images

Á EM 2017 var Frappart fulltrúi Frakklands í dómaradeildinni. Hún dæmdi þar 3 leiki í riðlakeppninni og tvo leiki í útsláttarkeppninni. Í 8-liða úrslitum var það leikur Austurríkis og Spánar, sem fór alla leið í vítaspyrnukeppni. Síðan dæmdi hún einnig leik Hollands og Englands í undanúrslitum mótsins.

Frappart til aðstoðar verða Manuela Nicolosi og Solenne Bartnik, einnig frá Frakklandi. Fjórði dómarinn verður svo hin þýska Christina Biehl.


Áfram Ísland!