Leikdagur: Tékkland – Ísland

Eftir gjörsamlega stórkostlegan leik í Þýskalandi, þar sem íslenska liðið yfirspilaði gríðarlega sterkt, þýskt landslið, er komið að seinni leiknum í þessari törn. Aftur er það útileikur, í þetta skipti er það hins vegar Tékkland. Þrátt fyrir góðan leik á föstudaginn þá þýðir ekkert að fara fram úr sér, þetta tékkneska lið getur alveg líka verið erfitt. En Ísland er svo sannarlega búið að koma sér í góða stöðu í riðlinum.

A-landslið kvenna,
undankeppni fyrir HM í Frakklandi 2019.
3. leikur í 5. riðli,
þriðjudagurinn 24. október 2017,
klukkan 16:00 að íslenskum tíma (18:00 að staðartíma)

Tékkland – Ísland

Völlur: M?stský stadion (einnig þekktur sem Stadion v Husových sadech) í landbúnaðarborginni Znojmo í suðurhluta Tékklands. Heimaliðið 1. SC Znojmo leikur sína heimaleiki á vellinum. Það er hlaupabraut í kringum knattspyrnuvöllinn og leikvangurinn er stundum einnig notaður fyrir frjálsar íþróttir en þó aðallega knattspyrnuleiki. Völlurinn var upphaflega tekinn í notkun árið 1958 en það þurfti að endurbyggja hann töluvert árið 2014 eftir að 1. SC Znojmo vann sér sæti í efstu deild karla í Tékklandi. Völlurinn tekur núna 2.599 áhorfendur í sæti.

Mynd: 1. SC Znojmo

Dómari: Gyöngyi Gaál, frá Ungverjalandi

Veðurspá: Sólsetur í Znojmo verður kl. 17:50 að staðartíma á þessum leikdegi, 10 mínútum áður en leikurinn hefst. Það mun óhjákvæmilega lækka hitann eitthvað, sem verður þetta 10-12 gráður yfir daginn. Við sólsetrið mun hitinn líklega lækka í 8-9 gráður. Það verður skýjað en ólíklegt að það rigni. Varla að vindur bærist á meðan leik stendur, þetta verða 2-3 m/s í norðnorðvestanátt. Myndi kalla þetta ljómandi fínt leikveður.


Þriðjudagspartý!

Við fengum gríðarlega hresst föstudagspartý á skrifstofutíma fyrir helgi og núna er komið að afskaplega hressu þriðjudagspartýi á þeim tíma þegar flestir eru að klára sinn hefðbundna vinnudag. Leikurinn verður í þráðbeinni á RÚV og hægt að streyma útsendinguna í vinnutölvum, farsímum, spjaldtölvum og slíku, fyrir jú utan það að smella honum í gang í gamla, góða sjónvarpinu.

Aftur mælum við með því að fólk geri sér glaðan landsleiksdag í vinnunni, mæti bláklætt og peppað og laumist svo í að kíkja á leikinn ef það nær ekki að klára vaktina fyrir kick-off.

Embed from Getty Images


Tékkland

Staða á styrkleikalista FIFA: 37. sæti

Tékkland var í 22. sæti þegar fyrsti FIFA listinn var gefinn út, í júlí 2003. Hæst náði liðið 19. sæti á árunum 2006-07 en síðan þá hefur landið verið á niðurleið á þessum lista og 37. sætið er það lægsta sem það hefur náð. Meðalsætastaða Tékklands á listanum er 24. sæti.

Gengi í síðustu 10 landsleikjum: T T J T T S T S T S
Markatala í síðustu 10 leikjum: 21-16

Byrjunarlið Tékklands gegn Slóveníu (Mynd: Knattspyrnusamband Tékklands)

Landsliðsþjálfarinn hjá tékkneska liðinu er Karel Rada. Sá var seigur varnarmaður á sínum knattspyrnuferli, átti 18 ára atvinnumannaferil í hinum ýmsu löndum og spilaði m.a. með tékkneska karlalandsliðinu á EM 1996 þar sem Tékkarnir náðu í silfur. Alls spilaði hann 43 A-landsleiki og skoraði í þeim 4 mörk.

Eftir að hann lagði takkana á hilluna fór hann að þjálfa yngri flokka kvennaliðs FC Viktoria Plze? og tók svo við aðalkvennaliði félagsins sem hann stýrði frá 2014 og til ársins í ár, þegar hann hætti þar til að taka við þessu tékkneska landsliði.

Embed from Getty Images

Fyrirliði liðsins er framherjinn Lucie Vo?ková. Hún er 25 ára gömul en spilaði  sinn fyrsta A-landsleik 17 ára svo hún er reynslumikil. Hún spilaði fyrir bæði stóru félögin í tékkneska kvennaboltanum, SK Slavia Praha og AC Sparta Praha. Árið 2013 færði hún sig yfir til Þýskalands og spilaði þar fyrir nokkur félög áður en hún fékk samning við Bayern München þann 7. júlí sl.

Vo?ková hefur spilað 41 landsleik og er ein sú reynslumesta í landsliðshópnum. Árið 2016 var hún valin fótboltakona ársins í Tékklandi. Hún hefur líka skorað 2 mörk í undankeppninni til þessa.

Embed from Getty Images

Megnið af leikmannahópi tékkneska landsliðsins kemur úr tveimur knattspyrnufélögum, annars vegar AC Sparta Praha og hins vegar SK Slavia Praha. Líkt og má ráða af nöfnum félagana koma þau bæði úr höfuðborginni Prag. Sparta var löngum stærra lið en síðustu ár hefur Slavia komist upp fyrir Spörtu. Af 24 deildartímabilum sem spiluð hafa verið í Tékklandi frá því að landið fékk sjálfstæði hefur Sparta unnið 18 en Slavia hin 6. Í bikarkeppninni er svipað upp á teningnum þar sem þessi lið hafa hirt alla titla, Sparta með töluvert fleiri þó.

Það er því ekki skrýtið að landsliðsþjálfarinn skuli treysta á leikmenn úr þessum liðum. Þegar Rada tilkynnti hópinn sinn fyrir þessa leikjatörn voru 18 leikmenn í aðalhópnum og 11 leikmenn í varahóp. Af þessum 18 aðalleikmönnum eru 16 í liðunum tveimur frá Prag. Fyrirliðinn spilar svo, eins og áður kom fram, með Bayern München.

Hinn leikmaðurinn er Jana Sedlá?ková. Þessi 24 ára miðvörður hóf vissulega sinn ferið hjá AC Sparta Praha en spilar nú í Þýskalandi, með FF USV Jena. Lucie Vo?ková spilaði einmitt líka þar áður en hún samdi við Bayern.

Embed from Getty Images

Gengið í fyrri undankeppnum

Tékkland hefur aldrei komist á lokamót stórmóts kvennalandsliða. Það hefur þó verið með í öllum undankeppnum frá því landið fékk sjálfstæði. Það næsta sem landið hefur komist því að ná inn á lokamótið er að það hefur tvisvar komist í umspil um laust sæti á lokamóti EM.

Í undankeppninni fyrir EM 2005 endaði Tékkland í 2. sæti síns riðils og í undankeppninni fyrir EM 2009 endaði liðið í 3. sæti síns riðils en náði samt í umspilið í bæði skiptin. Í bæði skiptin mætti liðið Ítalíu í umspilinu og í bæði skiptin vann Ítalía báða leikina. Tékkland hefur tvisvar endað í 2. sæti síns riðils í undankeppni HM en í hvorugt þeirra skipta gaf það sæti svo mikið sem umspilsviðureign.

Gengið í þessari undankeppni

Tékkneska liðið hefur notað kunnuglega formúlu í undankeppninni til þessa. Það er keyrt á sama byrjunarliðinu leik eftir leik og það er alltaf notuð sama uppstillingin: 4-4-2.

Byrjunarlið Tékklands í öllum leikjunum til þessa

Tékkland byrjaði á því að heimsækja Færeyjar. Þar áttu þær 25 marktilraunir, 10 þeirra fóru á rammann og 8 af þeim enduðu inni. 8-0 sigur í fyrsta leik, rétt eins og hjá okkar liði. Kožárová, sem spilar í framlínunni með tékkneska fyrirliðanum, skoraði þrennu í leiknum. Svitková skoraði 2 mörk af miðjunni og þær Barto?ová, Divišová og Vo?ková skoruðu allar eitt mark.

Annar leikurinn var hins vegar mun erfiðari. Þann spilaði Tékkland á sama velli og gegn Íslandi nema í þetta skipti var Þýskaland mótherjinn. Tékkneska liðið sýndi mikla baráttu og gaf lítið eftir gegn þýska stórveldinu en á endanum var það sjálfsmark frá vinstri bakverðinum Eva Barto?ová sem tryggði gestunum frá Þýskalandi sigur í leiknum. Tékkland varðist heilt yfir vel en þær áttu þó ekki nema eina marktilraun sem hitti á rammann, af 7 heildartilraunum.

Í síðasta leik fór Tékkland í heimsókn til Slóveníu. Sá leikur endaði 4-0 fyrir Tékkland. Allir þrír markaskorar leiksins höfðu líka skorað gegn Færeyjum í fyrsta leiknum. Divišová kann greinilega vel við sig á hægri kantinum því hún skoraði 2 mörk í þessum leik. Framherjaparið Kožárová og Vo?ková  létu nægja að skora hvor sitt markið í þetta skiptið.

Það er ljóst að þetta lið þekkist mjög vel, það er alltaf stór plús þegar kemur að því að mynda liðsheild sem erfitt er að sigra. Þær hafa sín hlutverk og vinna fyrir hverja aðra. Auk þess eru innanborðs leikmenn sem geta verið hættulegir fram á við.


Ísland

Staða á styrkleikalista FIFA: 21. sæti

Gengi í síðustu 10 leikjum: S S T J T T T T S S
Markatala í síðustu 10 leikjum: 16-14

Heyrðu já, eigum við eitthvað að ræða þetta geggjaða landslið? Gerum það endilega. Þetta er geggjað landslið! Bara aðeins til að fara betur yfir hvers konar afrek þetta var að vinna Þýskaland síðasta föstudag:

  • Þýskaland hafði ekki tapað leik í undankeppni neins stórmóts síðan 17. júní 1998 (3-2 tap gegn Noregi).
  • Síðan þá hafði liðið spilað 63 leiki í undankeppni (ef umspilsleikir gegn Úkraínu 1999 eru teknir með), Þýskaland hafði unnið 61 þeirra og gert 2 jafntefli.
  • Þýskaland hafði unnið síðustu 27 undankeppnisleiki í röð.
  • Þýskaland hafði unnið síðustu 39 undankeppnisleiki í röð á heimavelli og ekki tapað heimaleik í undankeppni síðan 2. maí 1996 (3-1 tap gegn Noregi).
  • Þýskaland hafði ekki fengið á sig mark í 11 undankeppnisleikjum í röð, síðan í 4-1 sigri á Rússlandi í september 2013.
  • Þýskaland hafði unnið alla 14 leikina gegn Íslandi til þessa, með markatöluna 56-3.

En allt þetta skipti bara ekki nokkru einasta máli á föstudaginn, íslenska liðið var bara einfaldlega betra liðið í alla staði og átti sigurinn fyllilega skilið. Hvílík frammistaða!

Embed from Getty Images

Hver einasti leikmaður Íslands sem spilaði þennan leik stóð sig frábærlega. Þjálfaraliðið var svo búið að leggja leikinn 100% upp fyrir þær. Hrein unun að sjá hvað þetta virkaði vel saman. Það er eiginlega ekki sanngjarnt að taka neinn út fyrir eftir þessa frammistöðu, þetta var slík liðsheild. En ég ætla samt aðeins að gera það og minnast á nokkur nöfn.

Fyrsta mark leiksins að verða til (Mynd: mbl.is)

Elín Metta Jensen. Þvílíkur snillingur! Hún fékk harkalegan skell á EM síðasta sumar þegar hún kom inn gegn Frakklandi og stuttu seinna var dæmt víti þar sem hún átti í viðskiptum við franskan leikmann. Auðvitað leit alltaf út fyrir að Amandine Henry hefði mjólkað þetta og sótt vítið (sem hún hefur svo sjálf viðurkennt) en þetta var engu að síður áfall fyrir Elínu og sannarlega eitthvað sem hefði getað sest illa í svona ungan leikmann.

En þessi 22 ára gamli leikmaður hefur einfaldlega stigið rækilega upp í byrjun þessarar undankeppni og spilað glimrandi vel í báðum leikjunum. Virkilega flott leið til að bregðast við og vonandi að hún nái að halda áfram á þessari braut því þá eru henni allir vegir færir í fótboltanum. Og þessi snúningur í markinu sem hún skoraði, söss! Gengur héðan í frá undir nafninu The Metta Turn eða Mettusnúningurinn. Mæli með að knattspyrnuiðkendur á öllum aldri reyni að leika þetta eftir næst þegar þeir bregða sér á völlinn.

Rakel Hönnudóttir. Rakel hefur verið viðloðandi A-landsliðið frá árinu 2008. Oftar en ekki í stórum hlutverkum, spilaði t.d. í öllum leikjum liðsins á lokamóti EM 2009 og 2013. En hún spilaði ekki lykilrullu í gegnum alla undankeppni EM 2017 og lenti svo í meiðslum rétt fyrir lokamótið sjálft. Það er ekki sjálfgefið að höndla þetta, að finna hlutverk sitt í hóp breytast og þurfa líka að eiga við hnjask og vonbrigði.

Rakel Hönnudóttir á EM 2013 (Mynd: UEFA)

Leikurinn gegn Þýskalandi var fyrsti alvöru keppnisleikur Rakelar með landsliðinu í tvö ár, síðan 26. október 2015. Vissulega hafði hún leikið með liðinu í þó nokkrum vináttuleikjum síðan en þetta var allt annað. Og hún rúllaði verkefninu upp í byrjunarliðinu. Þessi leikur hjá henni var yfirlýsing sem sagði: „ég er ennþá 100% til í að vera í risastóru hlutverki í þessu landsliði.“

Freyr Alexandersson. Það var margt sem var gagnrýnt í kringum EM síðasta sumar. Eftir frábæra undankeppni kom ýmislegt upp á sem þýddi að Freysi og teymið þurfti að endurskipuleggja leik liðsins að gríðarlega miklu leyti. Upp úr því komu þessar pælingar með 3-5-2 uppstillingu.

Það voru spurningar í sumar. Um hvort 3-5-2 væri málið. Spurningar um sóknarleik liðsins. Jafnvel um taktískar ákvarðanir og frammistöður leikmanna. Það hlýtur því að vera ansi ljúft að sjá einmitt þetta virka í leiknum gegn Þýskalandi. Að sjá þessar pælingar skila sér í frábærum leik, stórhættulegum sóknarleik, traustri vörn og sterkum sigri. Kannski hefði liðið bara þurft aðeins meiri tíma fyrir EM. Ef og hefði… En við horfum bara fram á veginn, megi þetta virka sem best í framhaldinu!

Freyr Alexandersson (Mynd: Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net)

Dómarahornið

Dómari leiksins er Gyöngyi Gaál frá Ungverjalandi. Gaál er 42 ára gömul og mjög reynslumikill dómari. Hún hefur t.d. verið alþjóðlegur FIFA dómari síðan 2002.

Embed from Getty Images

Hún dæmdi 4 leiki á lokamóti HM 2007, þ.á m. leikinn um bronsverðlaunin. Hún dæmdi einnig á lokamóti EM 2009 og HM 2011. Þrjá leiki á fyrra mótinu og einn á því síðara.

Gaál til aðstoðar verða Judit Kulcsár og Katalin Török, einnig frá Ungverjalandi. Fjórði dómarinn verður Jana Šauflová frá Tékklandi.


Áfram Ísland!

Þrátt fyrir flottan leik og enn betri úrslit í síðasta leik þá þýðir ekkert að slaka neitt á og halda að þessi leikur komi af sjálfu sér, bara af því Tékkar eru lægra skrifaðir en bæði Þýskaland og Ísland. Það þarf að halda áfram að plana hlutina rétt og framkvæma þá af 100% krafti og áræðni. Við treystum á hópinn til að tækla þetta eins vel og hann hefur tæklað undankeppnina til að byrja með. Við trúum gjörsamlega á þetta lið. Þið getið þetta! Áfram Ísland!