Týnda tólfan

Heilt og sælt elsku tólfufólk, vonandi hafið þið öll það sem allra best.
Jóhann Ingi heiti ég og ætla ég að skrifa léttan pistil um dráttinn í lokakeppni EM í Frakklandi en það eru örfáir dagar í að við fáum að vita hvaða þjóðum við mætum á okkar fyrsta stórmóti A-landslið karla en drátturinn fer fram núna á laugardaginn þegar þessi pistill er skrifaður.
Jóhann Ingi hver? Spyrja kannski einhverjir, en fyrir þá sem ekki vita þá er ég oft kenndur við tólfu sem týnist, eða týndu tólfuna og þekkja mig eflaust fleiri undir því nafni sem munu lesa þennan pistil.
Ég ætla að byrja á því að lýsa yfir hversu rosalega ósanngjart það er að ég geri pistil strax á eftir Gunnleifi Gunnleifssyni. Hver er að fara að lesa þetta ef Gunnleifur er með pistil fyrir neðan?
En hvað um það, ég ætla að stinga upp á að þið kveikið á þjóðsöngnum á meðan þið lesið þessi orð mín til að koma ykkur í gírinn.
Það eru e.t.v allir búnir að láta sig dreyma um hvaða riðil strákarnir okkar fá og og eru draumariðlarnir eins ólíkir og þeir eru margir.
Sumir geta ekki beðið eftir að drátturinn fari fram svo þeir geti farið að skipuleggja ógleymanlega ferð á vit ævintýranna í Frakklandi, þvílík spenna.
Minn draumadráttur: England, Króatía, Svíþjóð
Hvers vegna er þetta minn draumadráttur? England er hér af sömu ástæðu og hjá Gunnleifi, maður er búinn að mynda tengsl við ensku deildinna síðan frá fæðingu og er þetta skemmtilegasta deild í heimi. Alltaf gaman að fylgjast með Englendingum á stórmóti og tala nú ekki um ef við vinnum þá.
Liverpool stuðningsmenn, ímyndið ykkur svipinn á Wayne Rooney er hann gengur svekktur af velli því að einhver Sigurdsson skoraði sigurmark undir lokin. Stuðningsmenn Manchester United, pælið í Daniel Sturridge labba brjálaðan af velli eftir tap gegn Íslendingum og vítinu sem hann klúðraði í lokin. Svona leyfir maður sér að dreyma.
Króatía: Einfalt, hefna okkur á að þeir komust á HM á okkar kostnað. Króatía er rosalega leiðinlegt land til að týnast í og væri vægast sagt gaman að vinna þá.
Svíþjóð: Það er alltaf smá rómantík að fá lið frá norðurlöndunum og að vinna „stóra” frænda frá Svíþjóð væri vægast sagt stórskemmtilegt.
Svo vil ég stinga upp á því að fólk hafi jólamatinn svolítið í stíl við riðilinn, skellið í ykkur sænskri jólaskinku til að hita upp eða eina enska böku með hamborgarhryggnum, það getur bara ekki klikkað.
Að lokum vil ég óska ykkur öllum til hamingju með að vera þið, ég var því miður alltof lítið með ykkur á pöllunum í undankeppninni þar sem ég er í aukavinnu hjá Fótbolta.net og var ég að sjá um leiki á þeirra vakt. Það er súrsæt tilfinning, ég var við það að deyja úr öfundssýki þegar ég sá alla koma sér í gírinn fyrir leikinn, vitandi það að ég yrði ekki með þeim í stúkunni.
Þegar ég er hinum megin í stúkunni að sinna minni vinnu, fylgist ég ávallt vel með Tólfunni og er afar stoltur að vera hluti af henni. Ég horfi oft á ykkur, gera land og þjóð stolt og hugsa, „Þarna á ég heima.” „Hvað er ég að gera hér? Í einhverri helvítis snobbstúku.”
Það er einfaldlega með því skemmtilegra sem ég hef gert á ævi minni að fara á landsleik með íslenska landsliðinu undanfarið og það er ykkur að þakka.
Takk fyrir mig.