Sjúkraþjálfarinn

Ég starfa sem sjúkraþjálfari hjá A-landsliði karla í fótbolta ásamt þeim Stefáni Stefánssyni og Rúnari Pálmarssyni. Ég hef unnið með A-landslið karla í rúm 10 ár, eða síðan í október 2005.
Hlutverk okkar er aðallega að sjá um endurhæfingu, forvarnir og fræðslu fyrir leikmenn liðsins. Það getur verið eitt og annað í gangi hjá atvinnumanni í fótbolta þó að hann sé að spila alla leiki. Álagið hjá þessum strákum er mikið og það myndast stífleiki víða í líkamanum við allt þetta álag, en auk þess geta verið minniháttar meiðsli í gangi sem þarf að sinna.
Algengur dagur hjá okkur lítur oftast þannig út að eftir morgunmat er byrjað að græja það sem þarf fyrir æfingu t.d. teipingar, búa um hælsæri o.fl. Einnig þurfa sumir á smá meðhöndlun fyrir æfingu.
Fyrir æfingar/leiki sjáum við um hluta upphitunar og niðurskokks (Cool Down). Þarna leggjum við áherslu á hreyfiliðkun. Hugsum um forvarnir meiðsla; reynum að virkja (Activation) og liðka þá vöðva sem mest eru notaðir í íþróttinni. Losum um í kringum mjóbak og mjaðmagrind.
Eftir æfingu leggjum við áherslu á að strákarnir byrji að hlaða kolvetnum og próteinum sem fyrst eftir æfingu. Vökva sig vel og hugsa um þau efni sem tapast með svita. Þetta er gert í samstarfi við Sigga Dúllu, þess mikla meistara.
Þegar æfing er búin fara sumir í ísbað/contrast bað sem við græjum fyrir þá.
Yfir daginn og á kvöldin koma flestir leikmenn í sjúkraþjálfarameðferð sem felst m.a. í nuddi, liðlosun, teygjum og æfingum. Auk þess notum við ýmis tæki og tól: Game Ready, blandstraum, laser, nálastungur o.fl. Alltaf er unnið lengi frameftir, deginum líkur yfirleitt ekki fyrr en í fyrsta lagi kl. 23:30. Stundum er unnið töluvert lengur, sérstaklega eftir leiki, þá er gjarnan unnið til 2 – 3 á næturnar. Daginn eftir leik er pakkað niður og farið í flug. Þá er jafnvel reynt að meðhöndla leikmenn í vélinni líka ef það er möguleiki á því.
Tíminn á milli leikja er í þessari keppni var degi styttri en í keppnum á undan; ef það er spilað á föstudegi, þá er næsti leikur á mánudegi. Þannig að það er spilað á þriðja degi eftir leik og inní því getur verið erfitt ferðalag (flug, rúta o.fl.) og tímamismunur. Þannig að álagið á strákana er gríðalegt. Í stuttu máli má segja að helsta hlutverk okkar er að reyna að láta strákunum líða sem best; með því að meðhöndla þá eins vel og við getum og það er okkar markmið.

Draumariðillinn minn lítur svona út:
England, Austurríki, Ungverjaland, Ísland.

Tólfan á skilið eitt risastórt hrós fyrir þann ómetanlega stuðning sem hún hefur veitt liðinu. Þið eigið stóran þátt í því að liðið er komið þangað sem það er komið. Strákarnir í liðinu tala mikið um þessa frábæru stemningu sem Tólfan hefur skapað og hvað þessi stuðningur gerir mikið fyrir þá.

Áfram Ísland.