Upphitun Ísland-Lettland

UPPHITUN
A-landslið karla
Undankeppni fyrir EM 2016
A-riðill, 9. leikur
Ísland – Lettland
10. október 2015, kl. 16:00

Laugardalsvöllur.
Í vesturstúkunni eru 6.300 sæti. Í austurstúkunni eru 3.500 sæti, þar á meðal Tólfuhólfið. Samtals geta því 9.800 manns mætt á völlinn. Metfjöldi áhorfenda á leik í Laugardalnum er þó 20.204 sem sáu leik Íslands gegn Ítalíu 18. ágúst 2004.

Dómari: Aleksei Eskov (frá Rússlandi)

Lengjustuðlarnir
Íslenskur sigur: 1,40
Jafntefli: 3,30
Lettneskur sigur: 4,90


ÍSLAND

Stjórar: Lars Edvin “King” Lagerbäck og Heimir “Legend” Hallgrímsson

Það hefur varla farið framhjá neinum hversu frábær árangur íslenska landsliðsins hefur verið í þessari keppni til þessa. 8 leikir spilaðir, 6 sigraðir, 6 sinnum haldið hreinu, 15 mörk skoruð, aðeins 3 fengin á sig. Ein af fyrstu þjóðunum til að tryggja sig á EM 2016, takk fyrir og bingó!

Það hefur verið hrein unun að fylgjast með landsliðinu í þetta rúmlega ár sem undankeppnin hefur staðið. Þeir eru að spila flottan fótbolta og þjálfararnir eru virkilega góðir í því að greina andstæðingana og setja liðið upp við hæfi.

Eftir 8 leiki er Ísland í efsta sæti A-riðils með 19 stig. Með þeim árangri er liðið í hópi með Wales, Spáni, Þýskalandi, Englandi, Norður-Írlandi (hvað er það?), Austurríki, Ítalíu og Portúgal sem liðin sem eru á toppi síns riðils. Af öllum liðunum í undankeppninni er aðeins eitt lið sem er með betri varnarárangur en íslenska liðið og það er Wales (2 mörk á sig).

Markahæsti leikmaður Íslands í keppninni til þessa er Gylfi Þór Sigurðsson, hann hefur skorað 5 mörk. Hann á einnig flest skot liðsins sem hafa hitt á markið, 9 stykki. Flestar stoðsendingar á Ari Freyr, hann hefur gefið 2 slíkar.

Don Aron Einar Gunnarsson verður því miður ekki með í þessum leik þar sem hann tekur út leikbann eftir að hafa fengið rautt spjald í síðasta leik. Kolbeinn kafteinn Sigþórsson tekur við armbandinu á meðan og leiðir liðið út á völlinn. Kolbeinn er ásamt Ara Frey á hættusvæði hvað gul spjöld varðar, eru einu spjaldi frá því að fara í bann.


LETTLAND

Stjóri: Marians Pahars

Pahars er 39 ára gamall. Hann fæddist í Chornobai í Úkraínu (sem tilheyrði á þeim tíma Sovétríkjunum). Foreldrar Marians komu frá Lettlandi og þangað fluttu þau aftur eftir að Pahars fæddist. Hann spilaði sem framherji, lengst af í Lettlandi með félaginu Skonto FC. Skonto FC á það magnaða afrek að hafa unnið lettnesku deildina 14 sinnum í röð fyrstu árin eftir að félagið var stofnað árið 1991.

Pahars hélt einnig í víking og spilaði í 8 tímabil með Southampton þar sem hann skoraði 43 mörk í 139 leikjum. Eftir það spilaði hann tvö tímabil í Kýpur með Anorthosis Famagusta áður en hann hélt aftur heim til Lettlands. Þar spilaði hann aftur með Skonto og tók eitt tímabil með Jurmala áður en hann lagði skóna á hilluna.

Pahars spilaði 75 landsleiki fyrir Lettland. Hann tók meðal annars þátt í Evrópumótinu árið 2004 þegar Lettland komst í úrslitakeppnina. Þá hafði kallinn hins vegar verið að glíma við mikil meiðsli svo hann byrjaði alla þrjá leiki Lettlands í úrslitakeppninni á bekknum. Náði þó að koma inn á í þeim öllum og spilaði samtals 60 mínútur. Fyrir þessa undankeppni hafði Pahars spilað í öllum fjórum leikjunum sem Lettland hafði spilað við Ísland.

Eftir að leikmannaferlinum lauk hjá Pahars hóf hann strax að þjálfa. Byrjaði hjá Skonkto þar sem hann byrjaði sem aðstoðarstjóri. Svo tók hann við sem aðalstjóri þar sem hann var í tvö ár. Hann hætti þar í desember 2012. Snemma árs 2013 byrjaði hann að þjálfa U-21 lið Lettlands og í júlí sama ár var hann ráðinn stjóri hjá A-landsliði karla. Hann hefur stýrt liðinu í 19 leikjum til þessa, unnið 3 þeirra, gert 8 jafntefli og tapað 8 leikjum.

Lettlandi hefur ekki gengið alltof vel í þessari undankeppni. Liðið hefur spilað 8 leiki, á enn eftir að vinna sinn fyrsta leik, gert 4 jafntefli og tapað 4 leikjum. Þeir hafa einungis skorað 4 mörk en fengið á sig 16. Þeir eru í 5. sæti riðilsins eins og er, aðeins Kazakhstan er neðar á töflunni. Lettarnir hafa aðeins einu sinni náð að halda hreinu, það var í fyrsta leik undankeppninnar, útileikur gegn Kazakhstan.

En liðið hefur þó náð nokkrum úrslitum sem vert er að gefa gaum. Til dæmis hafa þeir gert jafntefli í báðum leikjunum við Tyrkland og svo náðu þeir einnig jafntefli í Tékklandi, þar sem Tékkarnir rétt náðu að jafna á lokamínútunum. Þeir hafa spilað 4 leiki á útivöllum og gert í þeim 3 jafntefli. Eina tapið var þegar þeir mættu til Hollands og voru flengdir þar 6-0.

Markahæsti leikmaður Lettlands í undankeppninni er Valerijs Sabala. Hann hefur skorað helming allra marka Lettlands til þessa, eða 2 talsins. Bæði mörkin hans komu gegn Tyrklandi. Í þeim fyrri skoraði hann úr víti og í þeim seinni skoraði hann þrátt fyrir að hafa komið inn á sem varamaður þegar 5 mínútur voru eftir af leiknum. Hann spilaði ekki í síðasta leik Letta, þegar þeir töpuðu gegn Tékkum á heimavelli, 1-2. Mark Lettlands í þeim leik skoraði miðjumaðurinn Arturs Zjuzins. Auk þeirra hefur miðjumaðurinn Aleksejs Visnakovs skorað eitt mark, það kom í jafnteflisleiknum gegn Tékkum. Aleksejs á bróður sem heitir Eduards Visnakovs og spilar einnig í landsliðinu. Sá hefur ekki skorað en komið með eina stoðsendingu.

Markvörðurinn Andris Vanins hefur varið 29 skot í keppninni til þessa. Til samanburðar hefur Hannes Þór varið 27 bolta. En það sem gerir þessa tölfræði enn skemmtilegri fyrir okkur Íslendinga er að Vanins hefur einungis spilað síðustu 4 leiki Lettlands. Í þeim hefur hann fengið á sig 6 mörk.

Enginn leikmaður Lettlands er í leikbanni eins og er en fjórir þeirra eru á hættusvæði hvað gul spjöld varðar. Það eru Kaspars Gorkss, Valerijs Sabala, Eduards Visnakovs og Arturs Zjuzins.


VIÐUREIGNIN

Það er þegar ráðið hvaða lönd fara beint upp úr þessum riðli. Að auki er það orðið ljóst að Lettland getur ekki heldur náð umspilssætinu. Það er því ekki mikið undir í þessum leik fyrir utan heiðurinn. Og þó, Lettarnir vilja eflaust tryggja það að þeir lendi ekki í neðsta sæti, núna munar einungis 2 stigum á þeim og Kazakhstan. Og íslenska liðið vill eflaust tryggja sér sigur í riðlinum, það gæti munað heilmiklu um það þegar kemur að lokakeppninni. Að auki er þetta síðast heimaleikur landsliðsins og tækifæri fyrir þá að gleðja áhorfendur enn einu sinni með góðum leik.

Þetta verður sjötti leikurinn milli þessara landa. Fyrsti leikurinn var vináttuleikur sem fór fram á Laugardalsvelli þann 19. ágúst árið 1998. Lettinn Alexey Sharando kom þeim yfir á 50. mínútu en þá svöruðu Íslendingarnir með 4 mörkum. Þórður Guðjónsson skoraði 2 mörk og Ríharður Daðason og Auðun Helgason sitt hvort markið. 1.742 áhorfendur lögðu leið sína í Laugardalinn í það skiptið. Annar leikurinn var einnig vináttuleikur, sá fór fram í Riga 28. apríl 2004 og endaði 0-0.

Í undankeppninni fyrir EM 2008 lentu þjóðirnar saman í riðli. Auk þeirra var Spánn, Svíþjóð (undir stjórn Lars Lagerbäck), Norður-Írland, Danmörk og Lichtenstein í riðlinum. Fyrri leikur liðanna fór fram í Riga 7. október 2006 og vann Lettland þann leik 4-0. Seinni leikurinn var spilaður fyrir framan 5.865 áhorfendur á Laugardalsvelli 13. október 2007. Þar kom Eiður Smári Íslendingum yfir eftir 5 mínútur. Lettarnir svöruðu með 4 mörkum áður en Eiður gat minnkað muninn með sínu öðru marki á 52. mínútu.

Síðasti leikur var svo 2. leikurinn í þessari undankeppni. Ísland hélt til Riga þar sem heimamenn sýndu mikla baráttu fyrsta klukkutímann en með þolinmæði náði íslenska liðið að brjóta vörnina niður og unnu að lokum þægilegan sigur með þremur mörkum gegn engu.

Ísland hefur ekki tapað síðustu 7 heimaleikjum sínum. Síðasti leikur sem tapaðist hér heima var gegn Slóveníu 7. júní 2013. Síðan þá hefur liðið unnið 5 leiki og gert 2 jafntefli.

Lettland hefur ekki unnið í síðustu 10 útileikjum sínum. Síðasti útileikur sem liðið vann var 1-0 sigur í Georgíu 2. september 2011. Síðan þá hefur liðið gert 4 jafntefli og tapað 6 leikjum.

Næsti leikur sem Emil Hallfreðsson tekur þátt í með íslenska landsliðinu verður hans 50. landsleikur. Um að gera að halda vel upp á það!

Dómarinn

Aleksei Eskov er 37 ára gamall og kemur frá Rússlandi. Hann hefur FIFA dómari síðan 2011 en áður spilaði hann sem varnarmaður í hinum og þessum liðum í Rússlandi. Hann er ekki reynslumesti dómarinn í alþjóðaboltanum en hefur dæmt 22 leiki á mismunandi stigum. Þetta er ekki fyrsti leikurinn sem hann dæmir í þessum riðli, áður dæmdi hann viðureign Tyrklands og Kazakhstan í nóvember 2014. Sá leikur endaði 3-1 fyrir Tyrkland þar sem Eskov gaf báðum þjóðum vítaspyrnur.


MYNDBANDAHORN