Gulli Gull

Nú eru 10 dagar í dráttinn og við verðum með nokkra skemmtilega pistla á heimasíðu okkar, www.tolfan.is. Fyrstur með pistil er okkar magnaði markvörður Gunnleifur Gunnleifsson eða rétt að segja Gulli Gull. Frábær pistill um okkur í Tólfunni, strákana í landsliðinu og óska mótherja í drættinum 12.12. Hér kemur pistillinn:

Rúm 15 ár eru síðan ég var valinn fyrst í a landslið karla í fótbolta. Ég er enn að, og langt frá því að vera hættur. Fyrir mér er landsliðsval það merkilegasta sem íþróttamanneskja getur náð á ferli sínum. Alltaf þegar ég er valinn í hóp er ég stoltur og tek því sem miklu hrósi fyrir það sem ég stend fyrir og framkvæmi sem knattspyrnumaður. Eins og hefur að skilja á löngum ferli hef ég uppliðað skin og skúrir á landsliðsferlinum.
Undanfarin 3 ár hef ég fengið spurningar úr öllum áttum varðandi árangur okkar þessi 3 ár. Algengasta spurninginn er “hvað breyttist”? Þegar góður árangur næst í knattspyrnu koma auðvitað margir þættir að.
Þegar Lars, Heimir og Gummi tóku við, þá voru tímamót hvað varðar kynslóðaskipti leikmanna. Strákarnir sem slógu í gegn með u-21 voru komnir í stórt hlutverk með a liðinu, þjálfararnir fengu leikmenn til þess að trúa á að hægt væri að ná góðum árangri, þjálfararnir fengu KSÍ til þess að stíga uppá næsta “level” í utanumhaldi um liðið og auðvitað sitthvað fleira.

Eitt af þeim stóru atriðum sem hefur hjálpað til við góðann árangur liðsins, er aðkoma Tólfunnar. Stuðningssveitin sem fékk alla golfklapparana til að syngja með og hvetja liðið. Ég veit ekki hvort að það hefur komið nógu skýrt fram eða nógu oft, að stuðningurinn sem tólfan gefur okkur hjálpar okkur að ná þessum auka sentimetrum, auka sekúndubrotum og auka kraftinum sem skilur oft á milli þess að sigra eða tapa.
Það hafa verið margar gleðistundir undanfarin ár og ef ég tek eitt dæmi út, þá var það í Hollandi þegar við litum uppí stúku og sáum fallegt haf af bláum tólfum komnar til að hjálpa okkur að vinna. Stórkostleg stund. Án tólfunnar væri þetta svo miklu erfiðara og ekki eins skemmtilegt. Tólfan hefur það frammyfir margar aðrar stuðningsveitir að hafa jákvæðni og gleði í fyrirrúmi sem að mínu mati er mjög mikilvægt.

Ef ég leyfi mér aðeins að dreyma um Frakkland og ég fengi að ráða riðlinum okkar í eigingirni. Þá væri drauma riðillinn minn eftirfarandi;
England, einfaldlega vegna áratuga langrar tengingar við enska boltann.
Ítalía. Bara útaf Buffon.
Svíþjóð sem er mitt land á eftir mínu ástkæra landi og augljóslega útaf Lars.

Næsta ár markar tímamót í Íslenskri knattspyrnu sem við skulum njóta og gleðjast yfir saman. Ef allir leggjast á eitt, getum við gert frábæra hluti.
Áfram Ísland og áfram tólfan.