A-landslið karla.
Vináttuleikur.
Föstudagurinn 13. nóvember 2015.
Klukkan 19:45.
Pólland – Ísland
Stadion Narodowsky w Warszawie, þjóðarleikvangurinn í Varsjá.
Dómari: Padraig Sutton, írskur.
Lengjustuðlarnir:
Pólland vinnur → 1,60
Jafntefli → 2,95
Ísland vinnur → 3,50
PÓLLAND
Sæti á styrkleikalista FIFA: 38
Gengi í síðustu 10 leikjum: J S J J S J T S J S
Markatala í síðustu 10 leikjum: 26-12
Stjóri: Adam Nawałka
Nawałka er 58 ára gamall og hefur stýrt pólska landsliðinu frá því í október 2013. Hann átti 13 ára feril á árunum 1975-88 sem miðjumaður þar sem hann spilaði í 10 ár fyrir Wisła Kraków. Með þeim vann hann deildina einu sinni, spilaði í Evrópukeppni og féll einnig í aðra deild með liðinu. Eftir það spilaði hann í þrjú ár með Polish-American Eagles í Bandaríkjunum og byrjaði þar einnig að þjálfa. Hann spilaði 34 landsleiki fyrir Pólland á árunum 1977-1980. Þar á meðal á heimsmeistaramótinu í Argentínu árið 1978 þar sem Pólland endaði í 5. sæti. Hann þótti snemma efni í góðan leikmann en erfið meiðsli háðu honum í gegnum ferilinn svo hann náði aldrei þeim hæðum sem búist var við af honum.
Á árunum 1996-2013 stýrði hann 7 mismunandi félagsliðum, öllum í Póllandi. Þar af tók hann þrisvar sinnum við gamla liðinu sínu, Wisła Kraków. Það var þó yfirleitt bara í stuttan tíma, til að redda félaginu út leiktímabilið þegar aðrir stjórar hættu. Hann vann pólsku deildina með liðinu árið 2001.
Póllandi hefur hann núna stýrt í 19 leikjum. 9 þeirra hafa þeir pólsku unnið, tapað 3 og gert 7 jafntefli. Markatalan í þessum leikjum er 41-16 og Nawałka hefur náð í 1,79 stig að meðaltali í leik. Hann hefur oftast notað 4-2-3-1 eða 4-4-2 með 2 djúpa miðjumenn.
Pólland var í D-riðli í undankeppni EM ásamt Þýskalandi, Írlandi, Skotlandi, Georgíu og Gíbraltar. Pólland vann þar 6 leiki, gerði 3 jafntefli og tapaði 1. Þeir enduðu í 2. sæti, 1 stigi á eftir heimsmeisturum Þýskalands. Í 10 leikjum skoraði liðið 33 mörk og fékk á sig 10. Þeir gerðu 2-2 jafntefli við Skota í báðum leikjum þeirra, 1-1 jafntefli við Íra í Írlandi og töpuðu útileiknum gegn Þýskalandi 3-1. Restina unnu þeir. Robert Lewandowski var markahæsti leikmaður Pólverja í undankeppninni (og markahæstur í undankeppninni) með 13 mörk. 6 þeirra komu gegn Gíbraltar, 3 gegn Georgíu, 2 gegn Skotlandi, 1 gegn Írlandi og 1 gegn Þjóðverjum. Næst markahæstur hjá Pólverjum var Arkadiusz Milik með 6 mörk í 9 leikjum. Sá spilar fyrir Ajax í Amsterdam. Milik var einnig stoðsendingarhæstur í pólska liðinu með 6 stoðsendingar. Lewandowski og Kamil Grosicki voru með 4 stoðsendingar hvor. Grzegorz Krychowiak var eini leikmaður Póllands sem spilaði hverja einustu mínútu liðsins í undankeppninni. Hann er varnarsinnaður miðjumaður sem spilar með Sevilla á Spáni og hefur verið í pólska landsliðinu frá árinu 2008. Hann hefur skorað 2 mörk á landsliðsferlinum og annað þeirra kom einmitt í síðasta leik, gegn Írum á þjóðarleikvanginum í Varsjá. Hitt mark Pólverja í þeim leik skoraði Lewandowski (hver annar?).
Krychowiak er einnig sá leikmaður sem hefur gefið flestar sendingar í liðinu, hann er með 597 sendingar og 89% sendingarhlutfall. Næstir á eftir honum eru varnarmennirnir Łukasz Szukała og Kamil Glik. Szukała er með 371 sendingu og 95% sendingarhlutfall en Glik er með 337 sendingar og 93% sendingarhlutfall. Pólverjar kunna greinilega vel við sig í því að senda milli aftasta miðjumanns og varnarmanna.
Enginn leikmanna Póllands fékk rautt spjald í undankeppninni. Kamil Glik fékk 4 gul spjöld, flest allra í liðinu. Hann var þó ekki sá sem braut oftast af sér í leikjum, þann heiður fær markamaskínan Lewandowski sem braut 17 sinnum af sér en fékk þó einungis 1 gult spjald. Lewandowski lenti líka lang oftast í því að brotið var á honum, alls 26 sinnum. Krychowiak lenti svo í 2. sæti í bæði af og á brotum. Hann braut 16 sinnum af sér og 18 sinnum var brotið á honum. Hann fékk 2 gul spjöld.
Ekkert lið skoraði fleiri mörk í undankeppninni en Pólverjar, með 33 mörk. Næstir á eftir þeim voru Englendingar með 31 mark. Belgar, Þjóðverjar og Svisslendingar voru þar á eftir með 24 mörk. Ísland var þar í 14.-17. sæti með 17 mörk skoruð ásamt Slóvakíu, Bosníu & Hersegóvínu og góðvinum okkar Hollendingum. 23 lið fengu aftur á móti á sig færri mörk en Pólland. 26 lið fengu á sig fleiri mörk en þeir. Að meðaltali var pólska liðið með boltann 50% af leiktímanum (Ísland var með 48% meðaltal). Pólland átti að meðaltali 16,2 marktilraunir í leik, þar var Ísland með 11,6.
ÍSLAND
Sæti á styrkleikalista FIFA: 31
Gengi í síðustu 10 leikjum: T S J S J S S J J T
Markatala í síðustu 10 leikjum: 12-9
Stjórar: Lars Lagerbäck og Heimir Hallgrímsson
Þeir félagar hafa vakið verðskuldaða athygli fyrir árangurinn sem þeir hafa náð með íslenska landsliðið. Í úttekt breska tímaritsins The Telegraph voru þeir í þriðja sæti yfir bestu landsliðsþjálfara heims. Aðeins þjálfarar Suður-Ameríkumeistara Chile og heimsmeistara Þjóðverja voru ofar. En þetta kemur okkur auðvitað lítið á óvart, við vissum vel að þeir félagar væru bestir í heimi, hvort sem miðað væri við höfðatölu eða ekki.
Lagerbäck hefur aldrei mætt Adam Nawałka áður en þrisvar sinnum mætt Pólverjum í knattspyrnuleik. Það gerði hann þegar hann var þjálfari sænska landsliðsins og hafði sigur í öllum leikjunum. Árið 2003 mættust liðin tvisvar í undankeppni fyrir EM 2004. Svíþjóð vann þá heimaleikinn 3-0 og útileikinn 0-2. Ári seinna, í júní 2004, mættust liðin í vináttuleik. Aftur hafði Svíþjóð betur, í þetta skiptið 3-1. Lars er því með fullt hús stiga gegn Póllandi og markatöluna 8-1. Það góða gengi má alveg endilega halda áfram.
Í gegnum undankeppnina spilaði Ísland á frekar fáum leikmönnum. Ragnar Sigurðsson var eini leikmaður Íslands sem spilaði hverja einustu mínútu en 6 leikmenn tóku einhvern þátt í öllum 10 leikjunum. 3 til viðbótar spiluðu 9 leiki og einn leikmaður var með í 8 leikjanna. Alls tóku 20 leikmenn einhvern þátt í undankeppninni.
Til samanburðar voru aðeins 2 leikmenn hjá Póllandi sem tóku þátt í öllum 10 leikjunum. 4 til viðbótar spiluðu 9 leiki og 2 leikmenn með 8 leiki. 8 leikmenn með 8 eða fleiri leiki fyrir Pólland en 10 hjá Íslandi. Hjá Póllandi voru svo 28 leikmenn sem tóku þátt í undankeppninni. Hjá Íslandi voru 8 leikmenn sem spiluðu yfir 750 mínútur í undankeppninni, hjá Póllandi voru það 3 leikmenn.
Það er greinilega verið að keyra mjög mikið á sama kjarnanum hjá íslenska landsliðinu. Sem er skiljanlegt þar sem sá kjarni er þrusuflottur. En þegar kemur að stórmóti þar sem leikir eru spilaðir með stuttu millibili þá er gott, getur hreinlega verið nauðsynlegt, að geta treyst stærri hóp í verkið.
Þess vegna er gott að fá svona æfingarleiki, leiki þar sem hægt er að prófa nýjar hugmyndir og það sem er ekki síður mikilvægt, að prófa nýja leikmenn. Það vita auðvitað þjálfararnir og gerðu 10 breytingar á hópnum frá því í leiknum gegn Tyrklandi. Í hópnum eru 12 leikmenn sem hafa spilað 5 eða færri landsleiki, þar af 4 sem eiga engan A-landsleik að baki fyrir Ísland. Það verður áhugavert að sjá hvernig þeir koma inn í hópinn og blandast þeim reynslumeiri sem fyrir eru.
Þá er Lars líka búinn að gefa það út að enginn leikmaður muni spila 90 mínútur í báðum leikjunum. Þó gæti komið til að einhverjir spili einn og hálfan leik eða heilan leik og svo 60-70 mínútur í hinum. Það er líklega mest skynsemi í því að halda sem mest ákveðnum grunnkjarna af reyndum mönnum (sem getur verið breytilegur) og spila svo nýjum og óreyndari mönnum þar með frekar en að hafa of marka óreynda inn á í einu.
LEIKURINN
Þjóðarleikvangurinn í Varsjá tekur mismarga áhorfendur eftir því hvert tilefnið er. Opinberlega tekur hann 58.145 áhorfendur á knattspyrnuleik en sé miðað við UEFA staðla þá tekur hann 56.826 áhorfendur. Ef það eru tónleikar þá er pláss fyrir allt að 72.900 áhorfendur. Metfjöldi áhorfenda á vellinum er 61.500 en þá var reyndar ekki knattspyrnuleikur í gangi heldur var það leikur Póllands og Serbíu á heimsmeistaramótinu í blaki karla í ágúst 2014. Pólland vann þann leik líka 3-0 (Lewandowski skoraði merkilegt nokk ekki í þeim leik).
Þessi völlur er ekki gamall, hann var byggður fyrir EM 2012. 5 leikir á mótinu voru spilaðir á þeim velli, t.d. fyrstu tveir leikir pólska landsliðsins í riðlakeppninni og undanúrslitaleikur Þýskalands og Ítalíu. Auk þess var úrslitaleikurinn í Europa League 2015 spilaður á þessum velli, þar sem Sevilla vann Dnipro Dnipropetrovsk 3-2. Grzegorz Krychowiak skoraði einmitt eitt marka Sevilla í þeim leik.
Þessi völlur hefur líka verið vettvangur fyrir Polish Bowl, sem er úrslitaleikurinn í pólsku deildinni í amerískum fótbolta. Þá hafa ófáar stórstjörnurnar haldið tónleika á vellinum. Til dæmis Madonna, Coldplay, Paul McCartney, Metallica, Anthrax, AC/DC, Roger Waters og fleiri. Fjölsóttustu tónleikarnir á vellinum voru tónleikar með Depeche Mode í júlí 2013.
Það verður smekkfullt á landsleiknum. 57 þúsund miðar seldust upp á 2 dögum sem voru mun betri viðbrögð en pólska knattspyrnusambandið átti von á.
Þessi leikur verður 6. fótboltaleikurinn milli þessara þjóða. Í undankeppni fyrir EM 1980 á Ítalíu lendu þjóðirnar saman í riðli 4. Ásamt Íslandi og Póllandi voru Holland, Austur-Þýskaland og Sviss í riðlinum. Fyrsti leikurinn í riðlinum var á Laugardalsvellinum þegar Pólverjarnir komu í heimsókn. 6.594 áhorfendur mættu til að fylgjast með leiknum og Jóhannes Eðvaldsson var fyrirliði Íslands í leiknum. Hann endaði þó ekki vel fyrir Ísland, þeir Marek Kusto og Grzegorz Lato skoruðu mörk Póllands sem vann leikinn 2-0. Töluvert fleiri mættu á útileikinn sem spilaður var 10. október 1979 í Stadion Miejski í Kraká. 20.000 áhorfendur sáu þar Roman Ogaza skoða bæði mörkin í öðrum 2-0 sigri Póllands á Íslendingum. Gengi landanna í þessari undankeppni var líka mjög ólíkt. Pólland vann 5 leiki, gerði 2 jafntefli og tapaði aðeins 1 leik. Voru með markatöluna 13-4 og bestu vörnina í riðlinum. Þeir rétt misstu af efsta sæti riðilsins en einu stigi munaði á þeim og Hollendingum, sem unnu riðilinn. Á þeim tíma voru aðeins 8 lið sem kepptu í lokakeppni EM svo bara sigurvegarar undanriðlanna komust áfram. Ísland aftur á móti tapaði öllum sínum leikjum í riðlinum og skoraði aðeins tvö mörk (Pétur Pétursson úr víti gegn Austur-Þýskalandi og Janus Guðlaugsson gegn Sviss) en fékk á sig 21 í 8 leikjum.
Næsti leikur þjóðanna fór fram í Varsjá 15. nóvember 2000 og það var vináttuleikur. Eyjólfur Sverrisson var fyrirliði en Atli Eðvaldsson var landsliðsþjálfari. Eiður Smári spilaði allan leikinn en náði ekki að skora, frekar en nokkur annar í íslenska liðinu. Tomasz Frankowski, sem þá spilaði fyrir Wisła Kraków(líklega undir stjórn núverandi landsliðsþjálfara Póllands), skoraði hins vegar fyrir Pólland og reyndist það sigurmark leiksins. 5.000 áhorfendur mættu á völlinn.
Ári seinna mættust liðin aftur í vináttuleik, að þessu sinni á Laugardalsvelli. 4.345 áhorfendur mættu í dalinn til að sjá Eyjólf leiða sína menn út gegn Jerzy Dudek og félögum í pólska landsliðinu. Að þessu sinni skoruðu íslensku landsliðsmennirnir öll mörkin í leiknum. Því miður var hins vegar annað þeirra sjálfsmark, Hermann Hreiðarsson varð fyrir því óláni að setja boltann framhjá Árna Gauti samherja sínum og koma Póllandi þar með yfir. En gamla Championship Manager legendið Andri Sigþórsson jafnaði leikinn stuttu fyrir leikslok.
Áratugur er síðan þessi lönd mættust síðast á knattspyrnuvellinum. 7. október 2005 mættu þeir Logi Ólafsson og Ásgeir Sigurvinsson með íslenska landsliðið til Varsjár. Það er ekki hægt að segja að þeir 7.500 áhorfendur sem mættu til að horfa á leikinn hafi fengið að sjá sterkasta íslenska liðið sem mögulegt var að stilla upp á þeim tíma. Kristján Finnbogason var í markinu, Brynjar Björn Gunnarsson var fyrirliði og meðal þeirra sem spiluðu leikinn voru Sölvi Geir Ottesen og Kári Árnason. Kristján Örn Sigurðsson kom íslenska liðinu yfir eftir 15 mínútna leik en Jacek Krzynowek jafnaði metin 10 mínútum síðar. Hannes Sigurðsson kom Íslandi aftur yfir stuttu fyrir hálfleik. Í hálfleik gerðu Pólverjarnir 3 skiptingar sem hresstu heimamenn og þeir komust yfir með mörkum frá Marcin Baszczynksi og Ebi Smolarek en þeir komu báðir inn á í hálfleik. Þriðji maðurinn sem kom inn á í þeim sama hálfleik var svo Lewandowski. Ekki þó Robert heldur Mariusz, eftir því sem ég best veit þá eru þeir ekki skyldir. Þrátt fyrir 6 skiptingar hjá Íslandi í seinni hálfleik og 3 til viðbótar hjá Póllandi þá var ekki meira skorað í leiknum.
Það er því ekki beint hægt að segja að Ísland standi vel að vígi gegn Pólverjum í sögulegu samhengi. 4 töp og 1 jafntefli, markatalan 3-9. En við treystum á að Lagerbäck láni okkur af sinni inneign gegn Pólverjum og stýri okkar strákum til sigurs!
Leikurinn verður sýndur í þráðbeinni útsendingu á RÚV 2 og hefst sú útsending klukkan 19:35. Það er um að gera að geyma Gísla Martein og Útsvarið, setja frekar á RÚV 2, hækka í botn og styðja vel við strákana.
Svo má einnig gera sér glaðan dag, kíkja út og horfa á leikinn í góðum félagsskap. Tólfan mun mæta hress á Ölver eins og vanalega. Þar verður fólk bláklætt, Tólfumerkt og tilbúið að láta í sér heyra! Allir sem vilja taka þátt í svoleiðis stemningu eru hjartanlega velkomnir á Ölver og um að gera að mæta tímanlega þangað.
Áfram Ísland!