Leikdagur: Færeyjar – Ísland

A-landslið kvenna vann á föstudaginn mjög góðan útisigur á Slóveníu. Sá sigur kom liðinu tímabundið í efsta sæti 5. riðils í undankeppninni fyrir HM í Frakklandi á næsta ári. Þjóðverjar náðu efsta sætinu svo með sigri á Tékkum á laugardag en þær þýsku hafa spilað einum leik meira en Ísland. Þjóðverjar spila svo í dag í Slóveníu og verður þeim leik lokið áður en leikurinn hefst í Færeyjum. Það stefnir í hörku baráttu um efsta sætið í riðlinum og mikilvægt að taka alla leiki alvarlega.

A-landslið kvenna,
undankeppni fyrir HM í Frakklandi 2019.
5. leikur í 5. riðli,
þriðjudagurinn 10. apríl 2018,
klukkan 16:00 að íslenskum tíma (17:00 að staðartíma).

Færeyjar – Ísland

Völlur: Tórsvøllur í Þórshöfn, höfuðstað Færeyja. Völlurinn var byggður árið 1999 og tekur 6.040 áhorfendur. Þetta er gervigrasvöllur með flóðljósum. Leikvangurinn hefur gengið í gegnum nokkrar endurnýjanir á þessum 19 árum, stúkurnar stækkuðu og þeim fjölgaði svo nú er setið á þremur hliðum vallarins, flóðljósin bættust auk þess við árið 2011.

Mynd: Regin Torkilsson

Dómari: Anastasia Romanyuk, frá Úkraínu.

Veðurspáin: Stefnir í ágætis veður í Færeyjum. Það verður nánast alskýjað en þó ekki miklar líkur á úrkomu. Hitinn verður 6-7 gráður á C og vindurinn þetta 3-4 metrar á sekúndu, norðaustanátt. Sólin sest ekki fyrr en kl. 20:38 að staðartíma svo það ætti ekki að vera þörf á flóðljósum yfir þessum leik.


Tímasetningin

Enn fáum við þessa skemmtilegu tímasetningu á virkum degi þegar kemur að landsleik hjá kvennaliðinu okkar. Föstudagsleikurinn fyrir helgi byrjaði klukkan 14 og þessi leikur mun hefjast klukkan 16 að íslenskum tíma.

Það þýðir ekki að fárast of mikið yfir þvi núna, vonandi verður þróunin bara sú að við förum að sjá svipaða leiktíma hjá báðum A-landsliðunum okkar svo það verði auðveldara að henda í góð áhorfspartý.

Annars er nú löngu kominn tími á að við förum að skipuleggja eins og eina þrælöfluga Tólfupartýferð á útileik til að sjá stelpurnar okkar spila. Er það ekki alveg málið?

Núna treystum við hins vegar á að þau ykkar sem vinnið á skrifstofutíma náið að laumast fyrr heim eða takið einfaldlega leikinn, að hluta eða í heild sinni, í vinnunni með einum eða öðrum hætti. Hann verður sýndur í þráðbeinni á RÚV og aðgengilegur innan Íslands í gegnum netið.

Embed from Getty Images


Færeyjar

Staða á styrkleikalista FIFA: 74. sæti (niður um 4 sæti frá fyrri lista).

Þetta sæti er í takt við það hvernig færeyska liðinu hefur gengið á síðustu árum. Að meðaltali hefur liðið verið í 73. sætinu á styrkleikalista FIFA. Þegar FIFA listinn var fyrst birtur var liðið í 70. sæti, hæst fór það í 60. sæti (árið 2009) og lægst í 88. sæti (árið 2015).

Þjálfari liðsins er Pætur Smith Clementsen frá Þórshöfn.

Fyrirliðinn er Rannvá B. Andreasen, leikmaður KÍ frá Klaksvík.
Rannvá er einnig bæði leikjahæsti og markahæsti leikmaður færeyska landsliðsins frá upphafi.

Mynd: Knattspyrnusamband Færeyja

Þetta verður fyrsti leikur færeyska liðsins á þessu ári. Síðast spiluðu þær í lok nóvember þegar þær fóru til Slóveníu og töpuðu þar 0-5.

Alls hafa þær spilað 4 leiki í riðilinum og þetta tap í Slóveníu eru skárstu úrslit liðsins til þessa. Hinir leikirnir hafa endað 0-8 gegn Íslandi á Íslandi, 0-11 gegn Þýskalandi á útivelli og eini heimaleikur þeirra til þessa endaði með 0-8 tapi gegn Tékklandi í fyrstu umferðinni.

Þær hafa því ekki enn skorað mark í riðlinum og fengið á sig 32 mörk í 4 leikjum, 8 mörk að meðaltali í leik. Í sem stystu máli, þetta lið á ekki að trufla okkar stelpur neitt að ráði.

Það eru þó leikmenn þarna sem geta skorað mörk. Það sýndu þær færeysku í forkeppninni fyrir þessa undankeppni, þegar þær skoruðu 9 mörk í 3 leikjum gegn Tyrklandi, Svartfjallalandi og Lúxemborg.

Tveir leikmenn skoruðu 2 mörk í þessum 3 leikjum. Annars vegar Heidi Sevdal, leikmaður Færeyjarmeistara EB/Streymur/Skála, og hins vegar Eyðvør Klakstein, leikmaður Mislata CF sem spilar í 4. deildinni á Spáni. Báðir þessir leikmenn spila á miðjunni en 6 af 9 mörkum Færeyja komu af miðjunni. Framherjarnir skoruðu 2 mörk og 1 kom úr vörninni.

Fyrirliðinn Rannvá Andreasen er stoðsendingahæst, ásamt Milja Simonsen, leikmanni HB, báðar eru þær með 2 stoðsendingar. Þær hafa auk þess báðar skorað eitt mark, skoruðu einmitt í sama leiknum þegar þær færeysku unnu Tyrkland 2-1 eftir að hafa lent undir á 17. mínútu.

Þetta verður fjórði leikurinn milli þessara liða. Fyrst léku þau tvo leiki árið 1986 og svo aftur á Laugardalsvellinum síðasta haust, þegar Ísland lék sinn fyrsta leik í þessari undankeppni (Færeyingar voru þá að spila sinn annan leik í undankeppninni). Ísland hefur unnið alla leikina, samanlagt með markatöluna 16-0.


Ísland

Staða á styrkleikalista FIFA: 19. sæti, upp um 1 sæti frá síðasta lista.

Þjálfari: Freyr Alexandersson

Fyrirliði: Sara Björk Gunnarsdóttir

Mynd: Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net

Íslenska liðið er nú hálfnað með þessa undankeppni og búið að spila 4 leiki af 8. Þar af hafa 3 þeirra verið á erfiðustu útivöllunum. Það er óhætt að segja að byrjunin hafi verið mjög góð, þegar öll lið höfðu spilað 4 leiki var Ísland í efsta sæti riðilsins, með 10 stig af 12 mögulegum og markatöluna 14-3.

Þessi leikur er seinasti útileikurinn sem Ísland á eftir í undankeppninni. Eftir hann kemur einn heimaleikur í júní (rétt fyrir HM í Rússlandi, þá verður partý!) og svo tveir úrslitaleikir í Laugardalnum í september. Það er ljóst að við ætlum að mæta á völlinn í júní og september og hjálpa stelpunum að komast á HM, það er bara þannig.

Mynd: Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net

Gunnhildur Yrsa skoraði fyrra mark Íslands í sigrinum gegn Slóveníu á föstudaginn. Hún komst þar með upp að hlið Dagnýjar Brynjarsdóttur og Elínar Mettu Jensen en þær hafa allar skorað 3 mörk í undankeppninni. Fanndís Friðriksdóttir kemur svo þar á eftir með 2 mörk.

Elín Metta hefur ekki aðeins skorað þessi 3 mörk, hún er líka stoðsendingahæst í íslensku liðinu, með 4 stoðsendingar. Á eftir henni kemur Hallbera Gísladóttir, með 3 stoðsendingar. Elín Metta var ekki í byrjunarliðinu í síðasta leik, spurning hvort hún komi inn í liðið í þetta skiptið.

Mynd: Hafliði Breiðfjörð, Fótbolti.net

Dómarahornið

Dómarinn í þessum leik er hin 34 ára gamla Anastasia Romanyuk frá Ivano-Frankivsk í vesturhluta Úkraínu.

Hún þykir einn fremsti dómari í kvennaboltanum í Úkraínu. Reynslumikill dómari, hún hefur dæmt frá árinu 2005 og unnið sig vel upp metorðastigann í Úkraínu. Hún hefur dæmt í efstu deildinni í kvennafótboltanum í Úkraínu síðustu ár, hefur líka verið að dæma leiki í næstefstu deild karla. Þar að auki hefur hún verið að dæma sífellt stærri leiki í Meistaradeild Evrópu.

Mynd: ????????

Henni til aðstoðar verða aðstoðardómararnir Oleksandra Vdovina og Iryna Petrova, báðar einnig frá Úkraínu. Fjórði dómari verður heimamaðurinn Jóhan Hendrik Ellefsen.


Áfram Ísland!

Hér má sjá helstu atriðin úr síðasta leik, 2-0 sigrinum gegn Slóveníu:

Svo er alveg tilvalið að rifja upp sigurinn glæsilega á Þýskalandi frá því í haust. Gleði gleði!

Hér er mjög hresst stuðningsmannalag frá Færeyjum:

Og hér að lokum er mjög skemmtilegt, íslenskt stuðningsmannalag sem á vel við núna. Það var samið af því tilefni að íslenskt A-landslið var á leið til Frakklands á lokamót. Þangað stefnum við líka aftur!

Áfram Ísland!