Vorið er komið, sumarið er á næsta leyti og ilmurinn af iðagrænum knattspyrnuvöllum er farinn að fylla loftið. Það er ýmislegt skemmtilegt í gangi hjá okkur og okkar fólki þessa dagana, tilvalið að taka létta yfirferð yfir það helsta sem hefur verið að gerast síðustu daga.
Fyrst ber að nefna stórgóðan útisigur hjá kvennalandsliðinu okkar gegn Slóvenum í undankeppni HM. Gunnhildur Yrsa, sem hefur byrjað frábærlega með Utah Royals í Bandaríkjunum, kom liðinu á bragðið áður en reynsluboltinn Rakel Hönnudóttir kláraði dæmið. Ísland er þar með komið með 10 stig eftir 4 umferðir og á enn 3 heimaleiki eftir.
En það var fleira um að vera.
Benni Bongó formaður, Sven! varaformaður, Don Styrmir og Joey Drummsen fóru í skemmtilega heimsókn til Kjartans Atla og félaga í Íslandi í dag. Þar ræddu þeir meðal annars undirbúninginn fyrir HM, nýju Tólfutreyjuna, nýja Tólfuhringa, væntanlegt perlumaraþon fyrir og tóku umræðu um nýtt Húh! Hér má sjá viðtalið.
Talandi um nýju Tólfutreyjuna, þá fóru þessir sömu menn á stúfana og sýndu okkur hversu auðvelt það er að græja Tólfuútgáfuna af landsliðstreyjunni. Það má bæði panta sér treyju í gegnum netið en líka fara í Bæjarlind 14-16 og græja það hjá Errea.
Í innslaginu hjá Íslandi í dag kynnti formaðurinn okkar líka nýja stuðningsmannahringa sem fara bráðum í sölu. Þetta eru glæsilegir hringar sem Jón & Óskar mun selja. Hver hringur kemur með ákveðnum, stöðluðum merkingum (Ísland, fótboltamynstur og talan 12) en hver sem kaupir sér hring hefur svo frjálsræði um að merkja aðra fleti á hringnum eftir eigin höfði og búa sér þannig til sinn eigin, einstaka stuðningsmannahring.
Utanríkisráðuneytið sendi frá sér góða skýringarmynd á því sem hafa ber í huga fyrir þau sem ætla til Rússlands í sumar. Það er um að gera að kynna sér málið vel, við mælum til dæmis með upplýsingasíðu Utanríkisráðuneytisins. Auk þess er gott að vera tengdur bæði Facebooksíðu Utanríkisráðuneytisins og Twittersíðu þess. Það er einnig sniðugt að vera tengdur sendiráði Íslands í Rússlandi. Hér má sjá grunnupplýsingar um sendiráðið en það er auk þess bæði með Facebooksíðu og er líka á Twitter.
Svo má auðvitað alltaf senda Tólfunni skilaboð í gegnum samfélagsmiðla ef það er eitthvað sem þið viljið forvitnast um. Við erum öll í Tólfunni og Tólfan er fyrir okkur öll.
Að lokum minnum við á A-landsleik kvenna gegn Færeyjum á þriðjudaginn. Áfram Ísland!